Færsluflokkur: Bloggar
31.3.2014 | 00:25
Gosdrykkjan er erfðabundin.
Ég er einn þeirra sem drekkur Coladrykki á hverjum degi og fæ fráhvarfseinkenni ef ég fæ ekki koffeinið.
Mér finnst kaffi hins vegar vont og drekk það helst aldrei.(Kaffi Gísla á Uppsölum var eitt af þessum "once in a lifetime" fyrirbrigðum.
Helgu, konunni mínni, finnst Coladrykkir vondir, og fær sér kaffi, ef hún vill hressa sig og drekkur appelsín ef hún drekkur gosdrykki.
Tvær dætur okkar hafa erft þetta frá henni en hin börnin eru eins og ég.
Þegar ég fékk lifrarbrest, stíflugulu og ofsakláða fyrir sex árum brá svo við að mig klígjaði við Coladrykkjum en allt í einu fannst mér Mix vera gott, og það var eini gosdrykkurinn sem ég gat drukkið.
NIðurstaða: Þetta virðist vera misjafnt eftir einstaklingum og því, hvað þeir hafa erft frá foreldrum sínum.
![]() |
Fjórðungur drekkur ekki gos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2014 | 21:26
"Finnlandisering" Úkraínu?
Rússar höfðu ráðið yfir Finnlandi í meira en öld þegar þeir urðu að gefa Finnum frelsi í kjölfar ósigurs síns fyrir Þjóðverjum 1917. Rússar höfðu líka tekið þátt í að sundurlima Pólland seint á átjándu öld, og það land fékk ekki aftur sjálfstæði fyrr en eftir lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Bæði Finnum og Pólverjum var í nöp við Rússa og Rússar tortryggðu báðar þjóðirnar. Þeir lögðu hálft Pólland undir sig 1939 og gerðu landakröfur til Finna sem átti að tryggja það að þeir héldu Finnum vel frá sér vestan við Leningrad, fengju herstöð vestar í Finnaflóa og skæru aðgang Finna að Norður-Atlantshafi í burtu.
Finnar neituðu en Rússar fóru þá í vetrarstríð við þá sem reyndist báðum þjóðum dýrkeypt.
Þeir hernámu þó ekki landið en Finnar réðust síðan á Rússa í slagtogi við Þjóðverja sumarið 1941.
Eftir stríðið þurftu Finnar að greiða himinháar skaðabætur, vera í náninni hernaðarsamvinnu og vöruviðskiptum við Rússa og stunda utanríkisstefnu, sem var svo háð tilliti til Rússa, að til varð hugtakið "Finnlandisering".
Hinn grimmi einvaldur og harðstjóri Stalín gat hins vegar verið býsna raunsær í utanríkisstefnu sinni þegar sá var gállinn á honum og lhann og eftirmenn hans eyfðu Finnum að viðhalda vestrænu lýðræði og samvinnu við Norðurlandarþjóðirnar ef tryggt var að hlutleysi þeirra væri á þann veg sem þeir sættu sig við.
Mikið slaknaði á þessu eftir lok Kalda stríðsins og má til dæmis merkilegt heita að finnski flugherinn haldi uppi loftrýmiseftirliti yfir Íslandi í samvinnu við NATO-þjóðir án afskipta Rússa.
Rússar hafa núna Hvíta-Rússland sem stuðpúða milli sín og NATO-ríkisins Póllands en mun aldrei sætta sig við að Úkraína gangi í NATÓ.
Í þeirra augum er það svipað því og Bandaríkjamenn hefðu litið á það ef Kanada hefði gengið í Varsjárbandalagið á sínum tíma.
Hugmyndir Rússa um að Úkraína verði hlutlaust ríki minna svolítið á Finnlandiseringuna á sínum tíma.
Í Finnlandi komust fasísk öfl og öfga hægrimenn aldrei til markverðra áhrifa eftir 1945, heldur voru finnsku ríkisstjórnirnar svipaðar öðrum ríkisstjórnum á Norðurlöndum, hófsamar lýðræðisstjórnir með félagslegu ívafi.
Rússar kunna að hugsa sér "Finnlandiseringu" Úkraínu á svipuðum nótum og mesta hættan, sem núna er uppi kann að vera sú að hörð og fasísk hægriöfl komist þar til valda.
![]() |
Úkraína verði hlutlaust sambandsríki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2014 | 17:08
Ikarus fórst, en andi hans lifir í "mannflugi".
Fræg er fornaldarsagan af Ikarusi, sem setti á sig vængi til að fljúga, en í sólarhitanum bráðnuðu þeir svo hann féll til jarðar og fórst.
Þessi saga hefur endurtekið sig allt frá því að fyrstu loftbelgirnir fóru að fljúga á seinni öldum og margir hafa farist, bæði í flugi á þeim og einnig varð mikið manntjón hjá fyrstu ofurhugunum sem voru brautryðjendur í nútíma svifflugi, vélflugi og fallhlífarstökki, og geimflugi.
Ein af nýjustu tegundum flugs má kalla steypisvifflug, eða "mannflug", þar sem menn líkja nær algerlega eftir flugi fugla eins og sjá má af þeim myndum, sem fylga frétt um tvöfalt banaslys í svona flugi í Sviss.
Ljóst er að mikla nákvæmni og aðgát þarf í þessu flugi, og ekki minnkar það áhættuna, að greinilega er mikil eftirsókn í það að ná sem allra glæfralegustum og mögnuðustum myndskeiðum þegar menn steypa sér niður þröng gil, rétt sleikja fram hjá hamraveggjum og flúga jafnvel í gegnum klettagöt með smámyndavélar á sér sem taka allt flugið upp, séð í allar áttir.
Síðan er það greinilega orðin listgrein að fljúga í "mynsturflugi" (formation) þar sem tveir eða fleiri fljúga nálægt hver öðrum.
Þegar við bætast varasamir sviptivindar eru menn farnir að nálgast Ikarus ansi mikið, nema að nú eru það vindar og nálægð við jörð eða samflugsmenn en ekki sólbráð, sem ógna.
Af lagi vængbúninganna má sjá að loftfræðilega svipar þessu flugi til flugs á hraðskreiðum orrustuþotum með "delta"vængjum, sem skrokkurinn og fæturnir mynda afturhelming lyftikraftsins og svonefndum "canard" vængjum sem handleggirnir mynda að framanverðu.
Í fljótu bragði sýnist mér að vænghleðslan sé ekki minni en á þeim flugvélum, þar sem hún er allra hæst, en það þýðir að hraði flugsins verður að vera mjög mikill, varla minni en 200-250 kílómetrar á klukkustund, og hlutfallið á milli lyftikrafts og loftmótstöðu er greinilega mjög óhagstætt, en það hefur í för með sér afar bratt fall, vel yfir 50 til 60 gráður til þess að missa ekki allan lyftikraft.
Ljóst er að þeir færustu í þessari grein hafa náð ævintýralegri færni í stjórnun flugsins og að spennan og hraðinn eru óviðjafnanleg.
Enn verður að bíða og sjá, hverju fram vindur í þessu sporti áður en endanlegur dómur er felldur.
Fyrir 20 árum var talað um að banna "glæfraíþróttir" á skíðabrettum og einnig skíðafimi eða skíðafimleika vegna þess hve hættulegar þessar íþróttir væru.
Nú eru þetta einhverjar skemmtilegustu kepppnisgreinar á hverjum Vetrar-Ólympíuleikum og með réttum og markvissum þjálfunaraðferðum virðist vera hægt að minnka svo slysatíðnina að hún verði nógu lág.
Svipað gæti gerst með steypi-svifflugið eða "mannflugið", sem kannski er besta heitið, því að í engu flugi sýnist vera líkt jafn mikið eftir flugi fugla og þessu nýja og æsandi flugi.
![]() |
Létust eftir misheppnað stökk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2014 | 04:13
Hvað sögðu ekki Norðmaðurinn og Svisslendingurinn hér um árið?
Eftir að snjóflóð féll í Seljalandsdal við Ísafjörð 1994 voru fengnir tveir erlendir sérfræðingar til að veita ráðgjöf, annar frá Noregi og hinn frá snjóflóðavarnastöðinni í Davos í Sviss.
Ég var fréttamaður Stöðvar 2 á þessum tíma og reyndi að fylgjast með, og man að ein setning Norðmannsins fól í sér aövörun: "Þar sem getur fallið þykkur snjór í hallandi landi getur fallið snjóflóð."
Þetta fannst mér útskýra hvers vegna snjóflóð féll í tiltölulega lágri brekku á Blönduósi 1993 og "kom mönnum að óvörum" eins og snjóflóðið, sem nú hefur fallið í Bláfjöllum.
Ég hafði af því spurnir að svissneski sérfræðingurinn hefði aðvarað vegna þeirra byggða á Vestfjörðum þar sem hættulegar aðstæður væru, en verið sagt að hann hefði aðeins verið fenginn til að líta á snjóflóðið sem féll niður Seljalandsdal og niður í Tungudal, en ætti ekki að vera að skipta sér af öðru.
Mér tókst ekki að fá þetta staðfest hér heima, því miður, og hefði betur farið þá til Davos og fengið þetta staðfest hjá honum og flutt um það sjónvarpsfréttir.
Menn uggðu ekki að sér, vegna þess að ekki voru sagnir um sérstaka mannskaða af völdum snjóflóða í gegnum aldirnar, hvorki á Blönduósi, Seljalandsdal, Súðavík eða Flateyri.
Ég tók fréttauppistand á Urðarvegi á Ísafirði þar sem ég sýndi, hvernig annar fótur minn væri á skilgreindu snjóflóðahættusvæði en hinn ekki og fékk mjög bágt fyrir.
Fólk hringdi í mig og spurði sárt og reitt hvort ég væri ekki ánægður með að hafa eyðilagt ævistarf þess með svona fréttaflutningi, sem verðfelldi húsin þeirra, og áhrifamenn vestra reyndu að stöðva hann með því að þrýsta á fréttastjórann.
Það sem menn áttuðu sig ekki á þá og ekki heldur fyrir snjóflóðin í Neskaupstað 1972 var það, að ef snjóflóð hefðu fallið áður á þessum stöðum meðan ekki var þar byggð, þóttu þau auðvitað ekki sæta tíðindum þá. Þess vegna "komu þau að óvörum."
Þó mátti sjá í jarðabók frá 18. öld að fé væri hætt við flóðum í fjörubeit í Súðavík og hefði það átt að hringja bjöllum.
Eftir snjóflóðið á Flateyri hitti ég þann, sem heitast hafði fordæmt fréttaflutning minn og þegar ég bað hann afsökunar á því að hafa valið ranga götu, Urðarveg, í stað þess að standa á Ólafstúni á Flateyri, varð fátt um svör hjá honum.
Ég fór síðan sérstaka ferð til Davos til að ræða við sérfræðinginn, sem hafði verið á Ísafirði 1994 og koma heim með fréttaskýrslu um verkefnið sem hlaut að bíða varðandi snjóflóðavarnir á Íslandi.
Sú ferð gerði mig enn daprari yfir því að hafa ekki farið þangað tveimur árum fyrr.
Ekki fannst mér þó að hér heima væru skoðaðar nógu vel ýmis ódýrari ráð og einfaldari svissnesk ráð en hér hefur verið ráðist í.
Svissneski sérfræðingurinn sagði að miða þyrfti við langan tíma í hættumati og að eitt snjóflóð á 100 ára fresti ætti að vera nóg til að setja ekki niður byggð á því svæði án nægilegra varna.
Þegar menn verða hissa á snjóflóðum hér og þar, svo sem í Bláfjöllum, gleyma menn því að hafi snjóflóð fallið þar á árum áður, hafa þau ekki komist í fréttir af því að enginn var þar þá, á slóðum þar sem oft er krökkt af fólki nú.
![]() |
Snjóflóðið kom að óvörum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
29.3.2014 | 21:29
Ögmundur er ekki tímaskekkja, ástandið hér á landi er það.
Spurt er í athugasemd við fréttina um fyrirætlan Ögmundar Jónassonar að fara inn á Geysissvæðið á morgun án þess að borga landeigendum fyrir það, hvort Ögmundur sé tímaskekkja.
Skoðum málið og berum ástandið hér á landi saman við ástandið í Bandaríkjunum, en þar í landi telja menn sig forystuþjóð fyrir frelsi, einkaframtaki og markaðshyggju.
Flest helstu náttúruverðmæti Bandaríkjanna eru í þjóðareigu og hafa verið það allt frá stofnun Yellowstone-þjóðgarðsins fyrir 140 árum.
Rukkaður er aðgangseyrir inn í þjóðgarðana, en það er meðvituð stefna að aðgangseyririnn nægir hvergi nærri til að borga fyrir kostnaðinn við viðhald og þjónustu í þeim, vegna þess að annars yrði aðgangseyririnn svo hár, að það yrði ekki fyrir hina tekjulægri að borga fyrir hann.
Þetta er í samræmi við einkunnarorð, sem standa letruð stóru letri yfir inngangshliðinu: "Til yndisauka og ánægju fyrir fólkið/þjóðina".
Hér rekum við okkur strax á algera andstæðu við gróðahyggjuna og sérhagsmunaákafann, sem ríkir hér á landi og er hreint ótrúleg tímaskekkja og hneisa.
Þar að auki fær hver þjóðgarðsgestur í Bandaríkjunum strax í hendur við innganginn vandaðan leiðbeininga- og upplýsingabækling og sér um leið og hann kemur inn í garðinn fyrir hvað hann er að borga, - og hann sér meira en það, - hann sér að það sem gert er í garðinum er miklu dýrara en hann hefur borgað fyrir, - þetta eru reyfarakaup.
Þetta er alger andstæða þess, sem nú er að gerast hér á landi.
Bandaríkjamenn skoða þetta út frá miklu víðara sjónarhorni en við. Þeir telja að um heiður, sóma, stolt og þar með viðskiptavild þjóðarinnar sé að ræða en ekki um þröng einkasjónarmið eða staðbundin sjónarmið. Þeir telja sig ekki eiga náttúruverðmætin, heldur hafa þau að láni frá afkomendum sínum og vera vörslumenn gersema fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt.
Þeir vita að óbeinar tekjur af þjóðgörðunum streyma inn þjóðfélagið um allt landið. Þeir vita til dæmis, að þær 1,5 milljónir ferðamanna á ári, sem koma til Yellowstone, þurfa að fara langa leið til þess og að mest af þeim tekjum fellur til víða um Bandaríkin.
Hvergi í þeim 28 þjóðgörðum sem ég hef komið í víða um lönd hef ég séð neitt í líkingu við ruglið og óreiðuna sem hefur viðgengist á Geysissvæðinu og víðar í áratugi með ástandi, sem er fyrir löngu orðið þjóðarskömm.
Þess vegna verður för Ögmundar og vonandi sem flestra fleiri inn á svæðið á morgun ekki tímaskekkja, heldur er fyrir langalöngu orðið tímabært að hreinsa þessi mál upp og það sem fyrst.
![]() |
Líkir gjaldtökunni við þjófnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.3.2014 | 13:06
Þarf að gera úttektir víða um land.
Þegar Öræfajökull gaus 1262 lagðist hin blómlega byggð, Litla-Hérað, í auðn. Bæir grófust í þykkt öskulag og hamfaraflóð geystust niður frá fjallinu.
Mjög líklegt er að margir hafi farist. Fjallið er hugsanlega hættulegasta eldfjall á Íslandi, bæði vegna þess að það er býsna virkt, getur búið yfir mannskæðum ógnum og er nálægt byggð.
Hvergi nærri hefur verið veitt nógu miklu fé til rannsókna á vá vegna eldvirkni á landinu og viðbrögðum við slíku.
Til dæmis var hætt við að útfæra áfram áhættumat vegna eldsumbrota á norðaustanverðun Reykjanesskaga fyrir 20 árum, en frumathuganir leiddu skuggalegar staðreyndir í ljós.
Gera verður betur í því efni bæði í byggð og óbyggð, þótt ekki væri nema bara vegna stóraukinnar umferðar ferðamanna.
Má þar nefna svæðið norðan Vatnajökuls sem er fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims og stór hluti þess afar afskekktur.
Á myndinni eru dyngja, (Kollóttadyngja) móbergsstapi (Herðubreið) móbergshryggur, gígaröð mynduð undir jökli (Herðubreiðartögl) , og stórt eldfjall (Snæfell).
Gerð og viðhald Sauðárflugvallar á Brúaröræfum (eldstöðin Kverkfjöll í baksýn) hefur að minni hálfu verið hugsað sem öryggisatriði ef mikið eldgos kæmi úr eldstöðvunum í nágrenni hans, Kverkfjöllum, Öskju, svæðinu við Upptyppinga eða Álftadalsbungu, svo að dæmi séu tekin af ótal eldstöðvum á þessu svæði.
En engin viðbragðsáætlun er til fyrir þetta svæði, þar sem tilvist flugvallar, sem nothæfur kynni að vera fyrir flugvélar á borð við Fokker F50, Dash 8, Lockheed Hercules eða Boeing C-17 Globemaster gæti skipt sköpum fyrir björgunaraðgerðir og annað viðbúnað vegna stórs eldgoss.
Og einnig ef stórslys eða vandræði bæri að höndum.
Þetta er eini flugvöllurinn á öllu hálendinu sem er nothæfur fyrir svo stórar flugvélar.
![]() |
Flóð myndi geysast niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
29.3.2014 | 02:08
Hvílikar framfarir !
Á þeim tíma sem ég var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu hér um árið hefði ég látið segja mér það margsinnis án þess að trúa því að íslenskar fimleikakonur yrðu jafn snjallar og árangur og raun ber vitni. Lengi vel sást munurinn á bestu erlendu fimleikakonunum og þeim íslensku langar leiðir.
En það er liðin tíð.
Svipað má segja um skyldar íþróttir eins samkvæmisdansa og margar aðrar íþróttir sem halda hefði mátt að fámennið og fjarlægðin frá öðrum löndum myndi koma í veg fyrir að þróuðust jafn glæsilega og blasir við.
Þetta er gleðilegt, einkum vegna þess, að í mörgum afreksíþróttum líður margt afreksfólkið fyrir það að fjárráðin eru hvergi nærri þau sömu og margfalt fjölmennari þjóðir hafa ráð á að veita sér.
Útlendingar dást til dæmis að þvi, hvernig íslensku handboltalandsliðsmennirnir sætta sig miklu lakari kjör en erlendir, við miðað við það hve miklu er dælt í erlenda atvinnumenn, sem gefa kost á sér í landslið sinna þjóða.
Á móti kemur, að íslenska liðið vinnur hug og hjörtu áhorfenda á stórmótum fyrir það hvernig það leikur með hjartanu og af hugsjón.
Það er mikils virði fyrir alla.
![]() |
Fáránlega flottar fimleikastelpur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2014 | 00:24
Vonandi meira að marka loforð Pútíns en Hitlers.
Byrjum á þessu: Adolf Hitler var fádæma illmenni og fyrirætlanir hans um að útrýma heilum kynþætti 10,5 milljóna manna voru einstæðar í veraldarsögunni sem og fyrirætlanir hans um heimsveldi þar sem "Aríar" væru æðri öðrum og aðrar þjóðir undirokaðir þrælar "ofurmennanna.
Burtséð frá þessu voru kröfur Þjóðverja 1938 um að þýskumælandi fólk í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu við landamæri þess ríkis og Þýskalands að mörgu leyti hliðstæðar við kröfur Rússa um að rússneskumælandi Krímverjar fái að sameinast Rússlandi.
Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta veifaði samningsblaði þegar hann sté út úr flugvélinni sem kom með hann heim frá Munchen 1. október 1938 eftir hina illræmdu samninga sem hann og Daladier forsætisráðherra Frakka höfðu gert við Adolf Hitler um að Súdetahéruð Tékkóslóvakíu yrðu innlimuð í Þýskaland.
"Friður á okkar tímum," sagði Chamberlain. "Herra Hitler er sannur séntilmaður og hefur lofað að gera ekki frekari landakröfur" sagði hann líka, enda bar flestum saman um það að á svona fundum væri Hitler afar kurteis og aðlaðandi maður.
Kröfur Þjóðverja voru sanngjarnar í augum margra, af því að þegar þjóðir og þjóðarbrot fengu sum hver að kjósa um framtíð sína eftir lok Heimsstyrjaldarinnar höfðu sigurvegararnir neitað þýskumælandi íbúum Súdetahéraðanna um slíkt vegna þess að þeir gátu ekki afborið það að Þjóðverjar græddu neitt á styrjöldinni sem þeim var kennt um að hafði byrjað.
Nú voru liðin tæp 20 ár og því hægt að slaka aðeins á í þágu friðar og lausn deilumála með samningum.
"Það er fráleitt að við förum að setja á okkur gasgrímur og fara í hernað vegna fólks í fjarlægu landi, sem við þekkjum ekki neitt" sagði Chamberlain.
Loforð Hitlers um engar frekari landakröfur reyndust ekki pappírsins virði því að hann þurrkaði Tékkóslóvakíu út af landakortinu með hervaldi aðeins fimm og hálfum mánuði síðar og hóf þá landakröfur á hendur Pólverjum, sem leiddu til nýrrar heimsstyrjaldar.
Vonandi verður meira að marka loforð Pútíns en Hitlers. En miklu veldur líka hvernig allir aðilar að spennunni í Úkraínu halda á sínum málum.
![]() |
Hyggst ekki beita frekara hervaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
28.3.2014 | 20:20
Bubbi í Bítlum síns tíma: Jón frá Ljárskógum.
Það liðu ekki mörg ár frá stofnun Ríkisútvarpsins þar til hér á landi kom til sögunnar nokkurs konar ígildi Bitlanna að vinsældum, söngkvartettinn M.A. kvartettinn, skipaður kornungum mönnum, rétt eins og Bítlarnir voru 30 árum síðar.
Bítlarnir höfðu Lennon og Mc Cartney og 50 árum síðar höfðu Utangarðsmenn Bubba, en M.A. kvartettinn hafði Jón frá Ljárskógum, skáld, þýðanda og þrumugóðan bassasöngvara, ekki bara vegna þess hve fallega röddin hljómaði þegar hann söng einn, heldur ekki síður hvernig hún "klæddi og umvafði þann hljóm sem kom úr þessum frábæra sönghópi.
Í dag eru hundrað ár frá fæðingu Jóns, sem fékk skæða berkla aðeins 28 ára gamall og lést 31. árs, mikill harmdauði öllum Íslendingum.
Mínar fyrstu bernskumininngar tengjast Jóni, sem var frændi minn í föðurætt, og Bjarna Runólfssyni í Hólmi, sem var ömmubróðir minn, en minningin er klökk, því að báðir létust þeir langt um aldur fram, Bjarni árið 1938 og Jón árið 1945, og báðar ættirnar voru enn í sárum þegar ég man fyrst eftir mér.
Jón tengist mér enn frekar vegna þess að ég var ekki nema 3ja til 4ra ára gamall þegar fullorðna fólkið hafði af því skemmtan að setja mig upp á stól eða borð og láta mig syngja fyrsta lagið mitt sem skemmtikraftur, en það var lagið "Rokkarnir eru þagnaðir".
Að því leyti byrjaðí ég ferilinn sem nokkurs konar "rokk"-söngvari.
Kannski var lagið um rokkana svo hugstætt fyrir mig fyrir ljóðlinurnar sem móðir mín hafði dálæti á, annars vegar "..og láttu þau ekki sjá / hve augun þín eru / yndisleg og blá.." og "bráðum kemur dagurinn með birtu og stundarfrið. / Þá skal mamma syngja um sólskinið."
Ég man varla eftir þessu, því að ég gerðist alveg fráhverfur svona upptroðslum fyrir fimm ára aldur, var mjög feiminn þótt einhverjum kunni að finnast það ótrúlegt nú.
Með ólíkindum er hve mikið liggur eftir Jón frá Ljárskógum frá jafn stuttri ævi, og margt af því er gott og hefur staðist vel tímans tönn. Þegar ég las ljóðmæli hans öll fyrir nokkrum árum varð ég hrifinn af því hve fjölbreytt þau eru, því að flestir kannast aðeins við sígildu söngvana sem enn eru sungnir.
Til dæmis er ljóð hans um Heimsstyrjöldina síðari sérstaklega vel ort og meitlað.
Ég hneigi höfuðið djúpt í þökk fyrir að hafa átt svo stórkostlegan frænda og þökk til þeirra sem minnast hans á ýmsan veg þessa dagana, þótt ekki gefist mér tækifæri vegna fermingar dóttursonar, til að fara vestur í Búðardal á morgun og hitta ýmis skyldmenni mín og vini.
Sendi þeim mínar bestu kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2014 | 13:08
"Ég var í báli´og blossa..."
"Ég var í báli´og blossa /
á bak við háa krossa, /
hann kyssti mig átján kossa /
í kirkjugarðinum..."
Þessar ljóðlínur úr gamanbragnum "Ó vertu´ei svona sorró.." söng Alfreð heitinn Andrésson gamanleikari af ógleymanlegri snilld fyrir sjö áratugum í gervi ófríðu nýtrúlofuðu stúlkunnar sem allt í einu gekk út með tilkomu 50 þúsund manna herliðs stríðsáranna.
Þótt kirkjugarðar séu að sjálfsögðu helgir reitir friðar og dýrmætra minninga og eftirsóknarvert að virða helgi þeirra, getur ýmislegt misjafnt átt sér það stað eins og annars staðar.
Svavar heitinn Gests sagði einu sinni gamansögu tengda kirkjugarði á Kútmagakvöldi Lionsklúbbsins Ægis:
"Þeir Pétur og Óli voru aldavinir og miklir gleðimenn en aldurinn fór að sækja að þeim. Einn dag sagði Pétur við Óla: Nú fer að styttast í þessu hjá mér svo að ég ætla að biðja þig einnar bónar: Ef ég fer á undan þér, viltu gera það fyrir vináttu okkar og ógleymanlegar minningar og þakkir fyrir ótal gleðistundir okkar að laumast út í kirkjugarð að gröf minni að lokinni jarðarförinni, eftir að allir eru farnir, og hella úr vískíflösku yfir leiðið mitt ?"
Óli svaraði: "Já, þetta skal ég gera með ánægju en væri þér nokkuð á móti skapi þótt ég renndi innihaldi flöskunnar fyrst í gegnum nýrun?
![]() |
Gómaðir við fíkniefnaviðskipti í kirkjugarði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)