Færsluflokkur: Bloggar
22.3.2014 | 13:16
Hnignun fleiri auðlinda á þessari öld.
Þótt vatn og orka séu miklar og mikilvægar frumauðlindir fyrir mannkynið mun fara að ganga alvarlega á fleiri auðlindir á þessari öld. Einn þeirra er fosfór, sem er afar mikilvægt efni á mörgum sviðum, svo sem í landbúnaði.
Í frétt frá Sameinuðu þjóðunum er talað um "aukinn fólksfjölda og vaxandi hagkerfi" sem orsök yfirvofandi alheimskreppu.
Eins og fjallað var um í bloggpistli hér á síðunni fyrir tveimur dögum, eru "aukinn fólksfjöldi og vaxandi hagkerfi" trúarbrögð í löndum heims, nú síðast á kynningarfundi Landsnets, þar sem lögð var þung áhersla á að þetta tvennt þyrfti að auka og að það væri forsenda fyrir byggð í landinu og því takmarki að lífskjör hér yrðu aftur eins og þau voru 2007, hin bestu í heimi.
Hvergi er að sjá þótt leitað sé með logandi ljósi viðleitni til að finna leið B í efnahagsmálum heimsins, þar sem ráðist er gegn orsökum yfirvofandi hruns, fólksfjölgun og veldishlöðnum hagvexti.
Dagur vatnsins mun öðlast hækkandi sess eftir því sem árin líða. Það var ekki út í hött að Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð á þeim degi 2007 og á því sjö ára afmæli í dag.
Fáir dagar eru betur til þess fallnir að varpa ljósi á mikilvægustu viðfangsefni mannkynsins.
.
![]() |
Framtíðina mun skorta vatn og orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.3.2014 | 00:38
Bíll sem vekur ólíkar tilfinningar í mismunandi löndum.
Frambyggðir Rússajeppar af gerðinni UAZ 452 vekja vægast sagt ólíkar tilfinningar í mismunandi löndum.
Bíll af þessari gerð boðar ást og frið í anda hippatímabilsins fyrir utan félagsheimilið Hvolsvelli.
Við Íslendingar eigum afar góðar minningar um þennan notadrjúga, einfalda og ódýra bíl, sem í heimalandinu fæst með innréttingu sem rúmar allt að ellefu manns í bíl, sem er aðeins 4,36 metra langur, eða álíka langur og fólksbílar í svonefndum Golf-stærðarflokki.
Ég held mikið upp á einn slíkan, þennan gráa sem myndin er af hér fyrir neðan en hann geymi ég sem kandidat fyrir Naumhyggjubílasafn.
Eins og sést, eru glugggatjöld fyrir gluggum, hans, því að hann er ódýrasti húsbíll landsins og dugði mér vel sem "hótel Norðausturland" við kvikmyndagerð í þeim landshluta á árunum 2008-2011.
Þessir bílar eru byggðir á sömu megingrind og undirvagni og hinir rómuðu Rússajeppar, GAZ 69, sem komu fyrst til Íslands 1956 og urðu geysivinsælir fyrir undramjúka blaðfjöðrun, þá langbestu í heiminum, skynsamlega hönnun og afar góða torfærueiginleika.
Einn þeirra geymi ég norður við Mývatn, enda voru þetta ódýrustu jepparnir á markaðnum hér frá 1956 fram undir 1970, þegar yfirbyggingunni var breytt en undirvagninn áfram sá sami og bíllinn hlaut heitið UAZ 469.
Hann er framleiddur enn í dag, en síðustu árin undir heitinu UAZ Hunter og er með nýrri yfirbyggingu.
Upp úr 1970 komu síðan frambyggðu UAZ 452 bílarnir til skjalanna og urðu mjög vinsælir sem skólabílar úti á landi og verktakabílar.
Þeir eru enn framleiddir eins og jeppinn sjálfur og eru enn í dag einir af burðarásum rússneska hersins.
Þar af leiðandi eru þeir ekki alls staðar vel þokkaðir, heldur þvert á móti.
Því kynntist ég óvænt á þeim árum sem Pólverji einn á bílaverkstæðinu Knastási sá einna helst um viðhald á Fiat 126 örbílum mínum, sem bera heitið "Maluch" í Póllandi og gegndu svipuðu hlutverki þar í landi og Trabant í Austur-Þýskalandi.
Eitt sinn kom ég á "Rússabrauðinu" og átti von á því að Pólverjin yrði mjög hrifinn. En mér til mikillar undrunar gerbreyttist viðmótið hjá þessum ljúflingi og hann varð sár, móðgaður og reiður.
"Ég vil ekki sjá þetta helvíti hér!" hrópaði hann, "og í guðanna bænum láttu aldrei sjá þig aftur á honum hér!"
Ég hváði og spurði hvers vegna þessi bíll vekti svona hörð viðbrögð hjá honum.
"Skilurðu það ekki!" hrópaði hann. "Þessi andskotans bíll er tákn um kúgun Rússa í Póllandi á árum Kalda stríðsins. Þeir komu á svona bílum til að fremja ofbeldisverk sín! Þeir kalla fram mjög slæmar minningar! "
Skyndilega rann upp fyrir mér ljós og ég sá fyrir mér allar fréttamyndirnar frá aðgerðum Sovétmanna í Afganistan og fleiri löndum, þar sem frambyggði Rússajeppinn lék stórt hlutverk.
Rússajepparnir eru enn framleiddir nokkurn veginnn óbreyttir í Rússlandi að undanskilinni vélinni gormafjöðrun á framöxlinum.
Nú eru þeir sennilega að fá á sig svipaða mynd í augum Úkraínumanna og í augum fleiri nágrannaþjóða Rússa.
![]() |
Ást og friður á Hvolsvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.3.2014 | 13:47
Mynd sem vekur miklar hugrenningar.
Stærsti kostur myndarinnar um Nóa er sá hve miklar hugrenningar og vangaveltur hún vekur um siðferðilegar spurningar. Sumum kanna að finnast margt fjarstæðukennt í myndinni, en gildi ævintýrakenndra sagna felst að mínum dómi einmitt í ævintýrinu sjálfu, hversu ótrúlegt eða órökrétt sum atriði þess kunna að vera.
Og góð frammistaða aðalleikaranna, Russel Crowe og Jennifer Conelly, er einn helsti kostur myndarinnar.
Sagan um syndaflóðið, Nóa og örkina hans er fyrst og fremst dæmisaga á siðferðilegum nótum, og ef maður tekur þessa stórbrotnu mynd á þann veg, finnst mér hún bara býsna góð, vegna þess að hinar siðferðilegu spurningar sem hún veltir upp, eru sígildar og nauðsynlegar.
Yfirgnæfandi líkur eru á því að 21. öldin muni verða tímamótaöld í sögu mannskynsins, úr því að því tókst ekki að tortíma sjálfu sér og lífi á jörðinni með kjarnorkustyrjöld á 20. öldinni.
Hvort sem kjarnorkustyrjöldin færist yfir á þessa öld eða ekki, mun helstu auðlindir jarðar fara þverrandi eigi síðar en um miðja öldina þegar olíuöldinni, langstystu og mögnuðustu öld í sögu mannkynsins, lýkur.
![]() |
Mikil er ábyrgð fósturdóttur Nóa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (64)
21.3.2014 | 11:32
Einstæðar illdeilur, óvissa og óreiða.
Á ferðum mínum í 28 þjóðgarða og tugi vinsælla útivistarsvæða í þremur heimsálfum hefur hvarvetna blasað við árangur varðandi umhyggjusamlega umgengni og virðingu fyrir þessum stöðum og svæðum.
Þar sem aðgangur hefur verið sérstaklega seldur, hefur ferðamönnum verið afhentur vandaður upplýsingabæklingur til að auðvelda honum dvölina og auka ánægju hans, og strax í hliðinu sjálfu og á svæðinu, sem selt er inn á, blasir það við, sem gert hefur verið fyrir þennan aðgangseyri.
Ekkert í samanburði við þetta blasir við þeim ferðamönnum, sem nú er gert að greiða aðgangseyri í illdeiluferðamannastöðum okkar heldur á að skjóta fyrst og spyrja svo.
Sums staðar erlendis, svo sem á vinsælum göngu- og siglingaleiðum, er notuð ítala til þess að tryggja að ferðafólkið fái notið lágmarks einveru án þess að eiga á hættu að lenda í svipuðu fjölmenni og í byggð. Um það gilda reglur sem fullkomin sátt er um.
Hvergi finnast í sögu þessara svæða svo ég viti til dæmi um illdeilur og úlfúð eða óvissu og óreiðu, sem nú hefur haldið innreið sína á Íslandi. Hvergi er að finna viðlíka ringulreið og vitleysa varðandi eignarhald og nú er á Geysisvæðinu.
Íslendingar hafa haft aðgang að reynslu annarra þjóða í þessum efnum í áratugi, og fyrir fimmtán árum reyndi ég bæði í fréttum og sjónvarpsþáttum að miðla upplýsingum um þetta til okkar, jafnframt því að greina frá því áliti reyndra erlendra ferðamanna að umgengnin við Geysi og víðar væri þjóðarskömm fyrir okkur.
Nú erum við sjálf í ofanálag byrjuð skarað eld að höfðum okkar með illdeilum, sem spretta af blöndu af tómlæti og sérhagsmunagræðgi sem gerir okkur að viðundrum.
![]() |
Hætta milligöngu um miðasölu að Geysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2014 | 22:32
Ástæðan var ljós 1990 en ekki nú, enn sem komið er.
Eldsneytisleysi olli því að þota lenti í hafinu suður af Grænlandi 1990 og samband var við flugstjórana langleiðina á leið hennar niður.
Enn er ekkert vitað um ástæðu hvarfs malasísku þotunnar, sem leitað er að. Aðallega virðist um tvennt að ræða:
1. Bilun, hugsanlega eldur, sem olli því að fjarskiptakerfi þotunnar datt út og flugmennirnir beindu vélinni í átt að þeim flugvelli, sem næstur var, og vegna þess að það að hafa stjórn á flugi vélarinnar og baráttan við bilunina varð að hafa forgang, gat það valdið því að ekki gafst tækifæri til að reyna að láta vita af vandanum og engin vitneskja barst í tíma um ástandið frá þotunni.
2. Misheppnað flugrán með svipuðum afleiðingum.
Fátt hefur aukið eins mikið flugöryggi á okkar tímum og rannsóknir á flugslysum og greining á orsökum þeirra, svo að hægt hefur verið að gera ráðstafanir til að minnka líkur á eða eyða alveg líkum á að svipað gerist aftur.
Þess vegna er svo mikilvægt að finna flak malasísku þotunnar og komast að ástæðum þess að hún fórst.
![]() |
Hrapaði í hafið og fannst aldrei |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2014 | 22:03
Nútímatrúin: Óhamingja án endalausra virkjanaframkvæmda .
Hamingjuboðskapur stóriðjutrúarmanna hljómaði skýrt á fundi Landnets í morgun: Íslendingum má ekki hætta að fjölga, hagvöxturinn má aldrei minnka, það verður að virkja stanslaust af því að ekkert annað getur "bjargað" okkur, sjávarútvegurinn á endastöð og ferðaþjónustan lélegur atvinnuvegur.
Fyrir liggur að á þessari öld muni þeim auðlindum á jörðinni hnigna, sem orkubruðl núlifandi manna gengur æ harðar á. Einnig liggur fyrir að með þeim hraða sem menn vilja virkja muni koma að því á tíma núlifandi kynslóðar að ekki verði hægt að virkja meira.
Þar með dettur samkvæmt stóriðjutrúnni allur botninn úr trúnni á hinu samfelldu fólksfjölgun og hagvöxt sem sagt er að byggi á virkjunum og aftur virkjunum.
Því er slegið upp að ef ekki verði lagðar risaháspennulínur um landið verði ekki "rafmagn fyrir alla".
Þó er það svo að mestu rafmagnstruflanir til almennra neytenda hafa orðið í dreifiveitum úti á landi á undanförnum árum, en þær eru alls ekki í dreifikerfi Landsnets.
Vel er hægt að tryggja "rafmagn fyrir alla" landsmenn með margfalt ódýrari raflínum. En stóriðjan ein og sér kallar á þann hernað gegn landinu, sem nú er þrýst á að leggja í.
![]() |
Allar forsendur fyrir hamingju hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2014 | 16:48
Hvað um baksýnisspeglana?
Vel má vera að aðferðin við að bakka í stæði sem sýnd er í tengdri frétt á mbl.is svínvirki. En sú forsenda er gefin upp að stæðið verði að vera 1,5 metrum lengri en bíllinn sem bakkað er.
Augljóst er þegar farið er um götur Parísar að þar geta menn betur.
Mín aðferð byggist á notkun baksýnisspeglanna í viðbót við það að horfa út úr bílnum.
Bakkað er meðfram bílnum, sem liggur framan við hið fyrirhugaða stæðið, lagt á til hægri og baksýnisspeglarnir notaðir til að miða út stefnu bílsins afturábak, þannig að lína bílsins sem bakkað er lendi aðeins innan vinstra framljós bílsins, sem er fyrir aftan, og fylgst jafnframt með því í hægri baksýnisspeglinum hvernig hægra horni afturendans er miðað um hálfum metra hægra megin við hægra framhorn bílsins, sem bakkað er að.
Síðan er stýrinu snúið til vinstri þannig að hægra framhorn hins bakkandi bíls rétt sleppi framhjá vinstra afturhorni bílsins, sem er kyrrstæður fyrir framan stæðið.
Það á að vera hægt að leggja í stæði, sem er innan við einum metra lengra en bíllinn, sem bakkað er inn ef bíllinn er hreyfður fram og til baka eftir þörfum.
Í hnotskurn felast allar aðferðir í því að beygja það innarlega í stæðið í byrjun að billinn endi upp við gangstéttina að lokum.
![]() |
Lærðu að bakka í stæði (myndband) |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2014 | 12:01
"Mannvirkjabeltin" verða nýjar virkjanir, hraðvegir og línur.
Kynningarfundur Landsnets í morgun markaði ákveðin tímamót, því að á honum var blásið til þeirrar stórsóknar virkjana og mannvirkjagerðar um allt land sem kynnt var strax á fyrsta vinnudegi núverandi iðnaðarráðherra. Sjá næsta bloggpistil á undan þessum um þennan kynningarfund.
Þegar voru í pípunum 66 virkjanahugmyndir í 2. áfanga rammaáætlunar en samkvæmt upplýsingum formanns verkefnastjórnar rammaáætlunar, er nú búið að bæta 28 við svo að fjöldinn er 94 virkjanir í viðbót við þær 30 sem komnar eru, þannig að samtals eru í íslenska pottinum til dýrðar stóriðju í eigu erlendrar aðila meira en 100 virkjanir, því að af þessum 124 virkjunum myndu örfáar þær stærstu nægja fyrir okkur Íslendinga sjálfa.
Framtíðarsýn þessara manna felst nú í 124 virkjunum um alla króka og kima landsins. Þeim hefur fjölgað um 28 frá því í fyrra þannig að ekki sér fyrir endann á þessum hernaði gegn landinu.
Auk nýrra virkjanakosta er enn verið að sækja inn á alla þá virkjanastaði sem settir voru í verndarnýtingarflokk í 2. áfanga.
Það er ekki verið að eyða fé í að kosta aðförina að þessum stöðum út í bláinn, því að fyrir liggja yfirlýsingar um það að rífa þurfi rammaáætlun alla upp að nýju.
Þar með er allt hálendið undir og öll víðerni þess, svo sem með mörgum virkjunum í Kerlingarfjöllum, við Torfajökul, á svæðinu milli Suðurjökla og Vatnajökuls, í Skaftafellssýslum, í Ódáðahrauni, Gjástykki o. s. frv.
Reykjanesskaginn verður tekinn í nefið, meira að segja Eldvörp, Krýsuvík, Bitra, Brennisteinsfjöll og Grændalur ofan í kokinu á Hvergerðingum, og norður um Sprengisand á að koma "mannvirkjabelti" með nýjum "ferðamannavegi" og virkjanabelti inn á leiðina bæði norðan frá og sunnan frá.
Risalínurnar eiga að verða nær ósýnilegar og "nauðsynlegar til að tryggja afhendingaröryggi til almennings".
Ný tengivirki inni á hálendinu eiga að líkjst gömlu vörðunum, sem hlaðnar voru af fyrri kynslóðum !
Reyndar bara hundrað sinnum stærri þegar að er gætt !
![]() |
Einpólungar í landslagi Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.3.2014 | 10:14
"...að leggja til atlögu, eh, afsakið, leggja fram tillögur..."
Á aðeins fyrsta hálftíma opins kynningarfundar Landsnets um stöðu og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku, sem nú stendur yfir, er búið að leggja (háspennu)línuna um stóriðju- og virkjanaæðið sem talið er nauðsynlegt til að þenja upp til þess að "auka verðmætasköpun" og "vinna að atvinnuuppbyggingu."
Á meðfylgjandi mynd sést hvað til stendur varðandi "mannvirkjabelti" um hálendi landsins, svonefnda Sprengisandslínu ásamt nýjum "ferðamannavegi" og ljóst er að það eru Landsnet og nýjar virkjanir á þessari leið sem varða veginn.
Iðnaðarráðherra varð á fótaskortur á tungunni með "Freudian slip", sem vitnað er í fyrirsögn þessa bloggpistils þegar hún sagði að nú værið verið að "leggja til atlögu...", þagnaði síðan augnablik, leiðrétti sig og sagði "..eh, leggja fram tillögur."
Innan um ýmislegt orðskrúð um opna og vandaða umræðu og "sátt við samfélagið" kom fram í ræðum stjórnarformanns Landnets og forstjóra fyrirtækisins, að þegar í stað þyrfti að keyra í gegn lagabreytingar til að afstýra því að sveitarfélög væru að flækjast fyrir framkvæmdum svo að hægt væri að þeysa af stað í nýjum virkjunum.
Og einnig er búið að slá því föstu í ræðunum, að "Íslendingar geti ekki haldið samkeppnisstöðu sinni á orkumarkaðinum" nema að risalínurnar nýju verði helst allar ofanjarðar.
Og á sama tíma sit er ég að byrja að skoða þær 28 nýju virkjanir, sem hafa bæst við frá í fyrra, sem Orkustofnun hefur nú sett fram við verkefnisstjórn rammaáætlunar í viðbót þær 66 sem fyrir voru, og þar með erum við með í höndunum alls 124 stórar virkjanir á Íslandi sem hafa verið reistar eða á að reisa.
P. S. Í ræðu stjórnarformanns á ellefta tímanum kom fram að þetta væri eina færa leiðin til "atvinnusköpunar" á Íslandi, því að sjávarútvegurinn væri kominn að endimörkum síns vaxtar og ferðaþjónustan væri svo lélegur atvinnuvegur.
Greinilegt var af tölu aðstoðarforstjórans, að Sprengisandsleið er sett fram sem tilboð sem ekki sé hægt að hafna, því að þessu tilboði er stillt upp sem skárri kostinum af tveimur, en hinn er að þjösnast með risalínur um Vesturland og Norðvesturland og um Suðausturland, og af fyrri ummælum í morgun mátti heyra að sveitarfélögin væru að flækjast fyrir.
Sem þýðir aðeins eitt: Nú þarf að safna liði til varnar víðernum Íslands !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2014 | 08:34
Hálfur veturinn enn eftir?
Veturinn hefur skipst mjög í tvo horn á landinu fram að þessu. Á norðaustan og austanverðu landinu hafa verið mikil snjóalög og veturinn erfiður en á suðvestanverðu landinu var dæmalaus staðviðratíð í janúar og febrúar og stendur hún í raun enn hvað snjó snertir.
Um jafndægur á vori er sól jafn hátt á lofti og í seinni hluta september en reynslan sýnir, að mikil vetrarveður geta enn orðið allt fram undir lok apríl.
Þannig dundi eitthvert mesta og snarpasta vetraráhlaup allra tíma yfir í apríl 1963 með miklum skemmdum á gróðri, því að á undan áhlaupinu var gróður farinna að taka við sér og brum að koma á tré.
Veturinn í vetur hefur ekki verið kaldur eins og mörgum kanna að hætta til að finnast, heldur þvert á móti í hlýrra lagi. En hitabilinu í kringum frostmark og allt upp í 3ja stiga hita geta samt dunið yfir stórhríðir og þegar hærra dregur getur verið öskrandi bylur með mikilli slyddu eða snjókomu, þótt aðeins neðar í landinu sé úrkoman í formi rigningar.
Það kann því vel svo að fara að í stað þess að talað sé um að þreyja þorrann þurfum við að þreyja einmánuðinn.
![]() |
Ofsaveður fyrir norðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)