Færsluflokkur: Bloggar
7.3.2014 | 22:04
Dýrmætt fyrir reynslubankann.
Eitt mikilvægasta verkefni ungs fólks er að reyna að horfa nógu langt fram í tímann þegar gerð eru mistök.
Mistök í upphafi ferils geta verið svo niðurdrepandi, af því að þau verða stór í huga þess sem gerir þau vegna þess hvað þau eru stór hluti af stuttri reynslu.
Þá er gott fyrir hinn unga eða hina ungu að hugsa um það, hve mistökin eiga eftir að verða hlutfallslega miklu minni í samanburði við heilan íþróttaferil upp á allt að 20 ár eftir atvikum heldur en þau eru eftir til dæmis tveggja ára feril.
Þar að auki eru mistök dýrmæt til að setja í reynslubankann.
Og enn má nefna það að mestu meistararnir eru það ekki endilega vegna þess að þeim gekk alltaf allt í haginn heldur enn frekar vegna þess hvernig þeir unnu úr mistökum og ósigrum.
Muhammad Ali tapaði þremur bardögum á þeim tíma ferils síns sem Parkinsonsjúkdómurinn hafði ekki haft veruleg áhrif á hann og í öll skiptin afskrifuðu flestir hann sem útbrunninn íþróttamann, enda var hann orðinn 36 ára þegar hann tapaði heimsmeistaratitlinum til Leon Spninks árið 1978 og þá voru liðin 18 ár síðan hann varð Ólympíumeistari og fór eftir það út í atvinnumennsku.
Þegar hann gekk á hólm við George Foreman 1974 höfðu aðstoðarmenn hans mestar áhyggjur af því að hann yrði fluttur af vettvangi stórslasaður í sjúkrabíl. Annað kom á daginn.
Aníta Hinriksdóttir er rétt að byrja feril, sem getur orðið sérlega glæstur og hún á alla möguleika og hefur langan tíma til að sanna að hún sé sannur meistari (champion) sem eflist við mótlætið.
![]() |
Aníta er mjög svekkt út í sjálfa sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2014 | 16:31
Er hægt að leggja sjálfan sig í einelti?
Upp hafa komið raddir um það að undanförnu að fjölmiðlar og landsmenn leggi Vigdísi Hauksdóttur í einelti með sífelldum fréttaflutningi af ummælum hennar, gersamlega að ástæðulausu.
Þegar málið er skoðað nánar er þó varla hægt að komast hjá því að velta vöngum yfir því hvort hún sé ekki að leggja sig í einelti sjálf, því að varla líður svo dagurinn sem hún segir ekki eitthvað ssvo dæmalaust og hliðstætt hefur varla heyrst áður.
Að minnsta kosti hef ég aldrei áður heyrt það að á vinnustaðnum Alþingi hafi bæði þingmenn og starfsfólk hér áður fyrr litið svo stórt á Alþingismenn að starfsfólkið leggði ekki í það að dirfast að ávarpa þessa háu, næstum guðum líka herra, hvað þá alþingiskonurnar, drottningum líkar að tign.
Lýsing Vigdísar á hinum horfnu dýrðardögum takmarkalausrar aðdáunar venjulegs fólks á þingmönnum, fær mann til að lygna augum og sjá fyrir sér starfsfólkið þar fá í hnén og vera á barmi yfirliðs þegar hátignirnar voru í nánd.
Og síðan klykkir Vígdís út með því að segja að mikil eftirsjá sé að þessu ástandi á þinginu.
Það virðist hafa verið þar gríðarleg gjá milli þings og þjóðar samkvæmt þessari lýsingu hennar sem Birkir Jón Jónsson samflokksmaður hennar segir ekki í neinu samræmi við sína upplifun af þessum vinnustað, þar sem maður hélt að starfsmenn væru í vinnu hjá þjóðinni.
Þessi ummæli eru þeim mun athyglisverðari að 17. júní hélt forsætisráðherra ræðu rétt fyrir utan þinghúsið þar sem hann mærði hinn sérstaklega litla stéttamun sem hefði löngum verið á Íslandi.
Bara þetta mikla ósamræmi gefur tilefni til umræðna án þess að þeir sem um það ræða séu vændir um einelti á hendur Vígdísi.
![]() |
Ósáttur við ummæli Vigdísar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.3.2014 | 07:55
Enn er von um skynsamlega lausn.
Með nýju hverfi við Hlíðarenda verður varabraut Reykjavíkurfluvallar að vísu lokað. Hún er hins vegar það lítið notuð, en samt á afar mikilvægum dögum, að verði látið staðar numið nú, er áfram möguleiki á að nota hana eða örlítið skekkta braut við lendingar til suðvesturs þannig að hún endi nokkurn veginn þar sem oliustöð hefur verið við enda hennar, enda þyrfti þá að rífa .
Miðað við að völlurinn hefur verið þarna í rúm 70 ár er furðulegur sá asi sem er á mönnum við að raska stórlega við umhverfi hans í stað þess að bíða eftir því að nefnd undir forsæti Rögnu Árnadóttur ljúki starfi sínu.
Ef brautin yrði endurbætt, þá þyrfti að lengja hana til suðvesturs um minnsta kosti 300 metra vegna þeirrar hindrunar, sem fyrirhuguð húsabyggð við norðausturenda hennar mun skapa.
Ennfremur er enn opinn möguleiki til að gera nýja norður-suðurbraut sem myndi lagfæra þann annmarka flugvallarins að hornið á milli núverandi norður-suðurbrautar og austur-vesturbrautarinnar er of stórt í suðvesturátt og þess vegna hefur verið þörf á litlu varabrautinni.
Frumskilyrði við að breyta flugvellinum í betra horf og gera hann öruggari og stuðla að minni hávaða af honum, en jafnframt að losa byggingarland ef það yrði lokalausnin, er að lengja austur-vesturbrautina til vesturs og gera hana að aðalflugbraut vallarins.
Það þarf að halda vökunni í þessu máli, því að fyrirætlanirnar um að gera nýtt hverfi þar sem suðvesturendi núverandi varabrautar er, mun eyðileggja alla möguleika á því að nefnd undir forystu Rögnu Árnadóttur hafi nauðsynlega valmöguleika í hendi og verða brot á því samkomulagi sem fólst í skipun hennar.
Þess vegna er full ástæða til að halda vöku í flugvallarmálinu.
![]() |
Borgin hafi reynst úlfur í sauðargæru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.3.2014 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
6.3.2014 | 20:53
Endalaust álitamál og deilu- og ófriðarefni.
Það virðist engu máli skipta hver öldin er, deiluefni eins og þau sem núna eru uppi á Krímskaga, hafa ævinlega verið tilefni deilna, ófriðar og manndrápa og líklega hefur ekkert af þeim ríkjum sem vilja hafa afskipti að Krímdeilunni verið laust við slíkt.
Í Bandaríkjunum var háð stríð sem kostaði hundruð þúsunda mannslífa fyrir tveimur öldum þegar Suðurríkin sögðu sig úr lögum við Bandaríkin og stofnuðu eigið ríkjabandalag.
Það er því hefð fyrir því í ríki Baracks Obama að láta vopn tala til að koma í veg fyrir "stjórnarskrárbrot" varðandi það að hluti ríkisins slíti sig frá heildinni.
Í Kanada hafa aðskilnaðarsinnar í hinum frönskumælandi hluta landsins í Quebeck talað fyrir daufum eyrum ráðamanna þjóðarinnar varðandi aukið eða algert sjálfstæði þess hluta landsins.
Ekki þarf að fjölyrða um ótal deilur og styrjaldir í flestum löndum Evrópu í gegnum aldirnar, nú síðast á Balkanskaga á níunda áratug, þar sem deiluefnin voru mörg orðin 6-700 ára gömul.
Ófriðarástand ríkti á Norður-Írlandi frá 1968 og fram yfir 1980 og í Baskalandi og Katalóníu eru sterkar hreyfingar sem berjast fyrir sjálfstæði.
Í nágrenni okkar Íslendinga er öflug hreyfing í Skotlandi sem gerir spurninguna um sjálfstæði Skota raunhæfa.
Það var að sumu leyti mótsögn fólgin í tillögum Wilsons Bandaríkaforseta í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar um sjálfsákvörðunar rétt þjóða og þjóðarbrota í ljósi þess að alríkisstjórnin í Bandaríkjunum hafði barið niður aðskilnaðarstafnu Suðurríkjanna hálfri öld fyrr.
Ekki er víst að við Íslendingar hefðum fengið fullveldi 1918 nema vegna þess að Danir vildu þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrrum dönskum héruðum í Slésvik og Holstein um það hvað fólkið þar vildi og urðu að sýna það í verki gagnvart Íslendingum að þeir væru ekki í mótsögn við sjálfan sig.
Meirihluti íbúa í Norður-Slésvík kaus að sameinast Danmörku á ný, en í Suður-Slésvík kaus meirihlutinn að vera áfram hluti af Þýskalandi, þótt Danir hefðu ráðið yfir þeim fyrir stríðið við Þjóðverja 1864.
Það gerir Krímdeiluna erfiðari að Rússar "gáfu" Úkraínu skagann fyrir hálfri öld eftir langvarandi yfirráð sín yfir honum og sjá áreiðanlega mjög eftir því nú. En í ljósi þessa er auðveldara að skilja kröfu hins rússneskumælandi meirihluta Krímverja um að fá að sameinast Rússlandi á ný og verða hluti af rússneska sambandsríkinu.
Sú krafa er ekki ólík þeirri kröfu Úkraínumanna við fall Sovétríkjanna að skilja sig út úr Sovétsambandinu og fá að verða sjálfstætt ríki.
![]() |
Skýrt brot á stjórnarskrá landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.3.2014 | 14:53
Gerist svipað og í turnahverfinu ofan Skúlagötu?
Að öðru jöfnu ættu stórar blokkir að vera hagkvæmasta og ódýrasta húsnæðið fyrir tekjulítið fjölskyldufólk og fólk af millistétt og allt umhverfi þeirra að iða fjölbreyttu mannlífi og starfsemi, sem íbúðabyggð fyrir fjölskyldufólk fylgir.
En reynslan af turnabyggðinni ofan við Skúlagötu er þveröfug. Það þarf hvorki leikskóla né grunnskóla í þetta hverfi því að það er steindautt og gersneytt slíku mannlífi.
Enda ekki furða, því að verð íbúða þar er allt upp í milljón króna á fermetrann.
En það þjónar þó ákveðnum tilgangi fyrir þá, sem þar búa og ekkert við því að segja þótt reist séu svona hverfi vel stæðs fólks, því að það mun hvort eð er leita að hentugum stöðum fyrir sig til að búa á.
Hlíðarendahverfið nýja er útaf fyrir sig hið besta mál.
Og ef þetta nýja hverfi verður því marki brennt að verð húsnæðis verði hátt er heldur ekkert við því að segja, ekkert frekar en þegar íbúðabyggðin í vestanverðum Laugarási reis á sínum tíma og fékk í munni almennings heitið "Snobbhill".
Eigendur fjármagns og fasteigna munu ævinlega finna sér hverfi sem hentar þeim.
En fari svo að Hlíðarendahverfið verði mestan part byggt vel stæðu eða ríku fólki verður vaxandi vandi tekjulágra húsnæðiseigenda og venjulegs fjölskyldufólks ekki leystur í Vatnsmýrinni heldur mun það fólk leita í úthverfi og nágrannakaupstaði Reykjavíkur, alveg gagnstætt við yfirlýstan tilgang Hlíðarendahverfisins og turnanna í Skuggahverfinu.
Því að rétt eins og að fólkið í Austur-Þýskalandi "kaus með fótunum" og steymdi til Vestur-Þýskalands og annarra Vesturlanda, mun þetta fólk, sem sárvantar ódýrt húsnæði, "kjósa með hjólunum" í ljósi þeirrar staðreyndar að þyngdarpunktur íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er austast í Fossvogi og stærstu krossgötur landsins þar fyrir austan.
Næst þeim liggja Ártúnshverfi, Árbæjarhverfi, Langholtshverfi, Grensáshverfi, Breiðholt, Mjódd, Fossvogshverfi, austurhluti Kópavogs og Smárinn.
Á meðan heimsmálunum verður þannig háttað að mannkynið sóar orkulindum jarðar með rányrkju á þeim og Bandaríkjaher er nokkurs konar heimslögregla sem fer inn í hvert það land sem ógnar bruðli jarðarbúa með takmarkaðar orkulindir, verður erfitt að hamla gegn afleiðingunum um allan heim, því miður.
Fólkið leitar þangað sem því finnst sjálfu henta að búa og þá gilda lögmál um myndun byggðar sem erfitt er að streitast á móti í frjálsu þjóðfélagi.
Stærsta og mest knýjandi viðfangsefnið í húsnæðismálum okkar er vandi tekjulágra leigjenda og venjulegs fjölskyldufólks. Sá vandi er vaxandi og verður að takast á við hann á raunsæjan hátt.
![]() |
Líkir Hlíðarenda við evrópskar borgir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2014 | 09:20
Ný vetrarstemning í mannlífinu í Reykjavík.
Það er að myndast ný stemning allt árið í Reykjavík, líka á veturna, einkum í gömlu miðborginni. Það er mun meiri umferð gangandi fólks en venja hefur verið hin siðari ár, og maður bæði sér á fólkinu og heyrir á því, ef orðaskipti eiga sér stað, að jafnvel í febrúar og mars eru þetta stundum að meirihluta útlendir ferðamenn.
Í góðviðrinu og þurrviðrinu sem leikið hefur um íbúa á sunnanverðu landinu og við Faxaflóa hef ég nær eingöngu verið á ferðinni í litla Fiat-blæjubílnum mínum sem ég ek aldrei um í votviðri, hvað þá í saltpækli vetrarmánaðanna, og þegar ég hef stöðvað bílinn hefur komið til mín forvitið fólk til að spyrja um bílinn og taka myndir af honum.
Má segja að bíllinn sé ágætt hjálpartæki til að taka púlsinn á mannlífinu og fólkinu í gamla miðbænum, því að nær alltaf eru þetta útlendingar, sem undrast að sjá svona bíl á ferð hér uppi á hjara veraldar hvort sem er um hávetur eða á öðrum árstímum.
Í fyrradag var krökkt af fólki á Laugavegi og allt vestur í Austurstræti og þetta voru mestan part útlendingar.
Það hefði verið talið óhugsandi á þessum tíma árs fyrir nokkrum misserum enda orðin rótgróin vissa okkar fyrir því að landið okkar ætti enga möguleika á því að geta nýst fyrir neitt sem flokka mætti sem "eitthvað annað".
En mikil fjölgun gistinátta á hótelum staðfestir hvað sé að gerast.
![]() |
36% auking á hótelum í janúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.3.2014 | 23:08
"Forsetafrúin, - afsakið, forsetafáninn dreginn að húni.."
John Travolta er fráleitt sá fyrsti sem mismælir sig illa í beinni útsendingu. Í frásögnum fjölmiðla af heimsókn Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands og Dóru Þórhallsdóttur á Snæfellsnes fyrir 60 árum tókst þeim að gera tvær villur.
Sagt var frá móttökuathöfn og útvarpsþulurinn sagði: "Því næst var forsetafrúin, - afsakið, - forsetafáninn dregin að húni."
Og í frásögn eins dagblaðsins stóð: "Þá flutti Ingibjörg Guðmundsdóni ávarp."
Það var öllu verri villa, því að ekki var hægt að leiðrétta hana.
Ég geymi í huga mér nokkrar aðrar meinlegar villur af þessu tagi hjá mér sjálfum og fleirum þar til ég segi frá þeim ef Guð lofar í framhaldinu af byrjun ævisögunnar, sem ég segi í Gaflarleikhúsinu á sunnudagskvöldum.
![]() |
John Travolta biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2014 | 17:48
Mismunandi taktik stórveldanna eftir aðstæðum.
Það er útaf fyrir sig rétt hjá Hillary Clinton að uppgefin ástæða fyrir hernaðaríhlutun Rússa í austanverðri Úkraínu er keimlík réttlætingu Adolfs Hitles á hernaðaríhlutun hans í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu 1938.
Forystumenn Súdetaþjóðverja grátbáðu Hitler um að verja sig "gegn yfirgangi Tékka".
1979 bað þáverandi forsætisráðherra Afganistan Sovétríkin um hernaðaraðstoð vegna uppreisnar Muhjaheddin, fyrirrennara Talibína gegn hinni sósíalísku ríkisstjórn í Kabúl, sem naut velvilja og stuðnings Sovétmanna.
Ef mögulegt var reyndu ráðamenn Sovétríkjanna að finna leppa sína innanlands í þeim ríkjum, sem þeir réðust á, sem báðu þá um "vernd".
Uppreisnarmenn í Afganistan fengu stuðning frá Bandaríkjamönnum sem "góðu strákarnir", en 20 árum síðar urðu Talibanar að "vondu strákunum" fyrir það að ögra Bandaríkjamönnum í stað Rússa.
Og Bandaríkjamenn sjálfir hafa ekki verið barnanna bestir varðandi beitingu hervalds í fjarlægum löndum, þótt það hafi ekki verið réttlætt á sama hátt og Rússar gera núna.
Ráðist var inn í Írak 2003 á þeim forsendum að nauðsynlegt væri að uppræta "gereyðingarvopn Saddams Husseins sem ógnuðu nágrannaþjóðunum og heimsfriðnum."
Enginn fótur var fyrir þessum fullyrðingum George W. Bush og engin gereyðingarvopn fundust.
En olíuhagsmunir Bandaríkjanna voru tryggðir og í raun láta önnur stórveldi heimsins eins og Kínverjar sér það vel líka að Bandaríkjamenn standi straum að því að tryggja flæði olíu til hinna orkusjúku þjóða heims með því að halda uppi rándýrum her öflugasta herveldis heimsins.
Bandaríkjamenn hikuðu ekki við að gera innrás í Grenada og hikuðu heldur ekki við að veita þeim stuðning sem steyptu Salvador Allende í Chile og drápu hann.
Og glæpamaðurinn Pinochet var í náðinni hjá framherjum lýðræðis og frelsis í heiminum.
Listinn er langur.
Bandaríkjamenn stóðu að því að Mossadech var steypt af stóri í Íran eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og pólitík þeirra um allan heim fólst í því að styðja þá sem mökkuðu rétt gagnvart Bandaríkjunum, sama hve spilltir og grimmir margir þessara vina Kananna voru.
Stórveldin nota ólíkar aðferðir til að skipta sér af innanríkismálum annarra ríkja og ævinlega þá taktík sem gefur skástu myndina af ofríkinu.
Og enda þótt hægt sé að finna líkingu við aðferðir Hitlers í hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu er eðli annarra hernaðarafskipta stórveldanna ævinlega hið sama, að neyta allra tiltækra ráða til að verja stórveldishagsmuni.
![]() |
Líkti aðgerðum Pútíns við árásir Hitlers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.3.2014 | 11:39
Það þarf sterk bein til að þola góða daga.
Ofangreint máltæki má orða á ýmsa vegu. Eitt afbrigðið er að allt vald spilli og mikið vald gerspilli.
Sama meirihlutavaldið hefur verið við lýði í Garðabæ frá upphafi bæjarfélagsins og hvað varanleika snertir er langlífi þess Íslandsmet.
Langt fram eftir síðustu öld gilti svipað um meirihlutana í Reykjavík, á Ólafsfirði og í Neskaupstað, en síðan varð sú saga öll.
En Garðabæjarmeirihlutinn hefur átt einstakan feril og því yrðu það mikil tíðindi ef hann félli í kosningunum í vor.
Ein hættan, sem vofir yfir svo langvarandi völdum, er sú að jafnvel þótt valdhafarnir leggi sig fram um að fara vel með vald sitt myndist smám saman í áratuganna rás sú staða, að valdið fer að fá á sig guðlegan blæ, það er, að aftur og aftur komi í ljós að ekkert virðist geta haggað því að valdhafarnir fari sínu fram að geðþótta.
Þegar ég fór að kafa ofan í vinnubrögðin varðandi lagningu Álftanesvegar varð ég fyrir ákveðnu áfalli.
Mér, eins og öllum öðrum, hafði verið talin trú um að núverandi Álftanesvegur væri hættulegasti vegarkafli á höfuðborgarsvæðinu og að umferðin um hann væri meiri en vegurinn þyldi.
Greinilega hefur þetta haft áhrif á þá ákvörðun fjárveitingavaldsins að veita fé til gerðar nýs Álftanesvegar á sama tíma og ákveðið var að veita ekki krónu til neinna vegabóta í Reykjavík í næstu 10 ár.
Þegar farið var ofan í staðreyndir og tölur kom allt annað í ljós. Innan borgarmarka Reykjavíkur voru margir sambærilegir vegarkaflar með miklu hærri slysatíðni og margfalt meiri umferð en Álftanesvegur.
21 sambærilegur vegarkafli á höfuðborgarsvæðinu var með meiri slysatíðni á hverja ekna milljón kílómetra síðustu fimm ár, sem tölur liggja fyrir um, en Álftanesvegur, - og rúmlega 6000 bíla umferð á dag var langt fyrir neðan þau viðmiðunarmörk, sem sett eru um breikkun hliðstæðra vega, en þau hljóða upp á það að þegar umferðin fari yfir 15000 bíla þurfi að breikka viðkomandi veg upp í 2+1 veg.
Þegar hugsað er um það að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ skyldi komast upp með það að villa svona mikið um fyrir svona mörgum fer mann að gruna að slíkt gerist aðeins þegar menn eru orðnir því vanir um áratuga skeið að fá því framgengt sem þeir vilja.
Þeir töldu sig til dæmis greinilega geta ráðið því að vild hvort haldið yrði prófkjör innan meirihlutaflokkskins eða ekki og höfðu greinilega litlar áhyggjur af því hvaða aðferði yrði notuð til að raða á framboðslistann.
Nú virðist annað vera að koma í ljós.
Ég þekki svosem ekki til innviða bæjarstjórnmála og málefna og manna í hinum ýmsu framboðum í Garðabæ.
En aðeins það að í skoðankönnun skuli grónasti og langlífasti bæjarstjórnarmeirihluti í sögu Íslands vera fallinn segir manni að "there is something rotten in the city of Garðabær."
Að minnsta kosti bendir það til þess að máltækið að það þurfi sterk bein til að þola góða daga sé í fullu gildi, jafnt í Garðabæ sem annars staðar.
![]() |
Meirihlutinn í Garðabæ fallinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.3.2014 | 23:07
Af hverju kom þetta ekki fram fyrr, - skjalfest?
Síðustu tvær vikurnar hafa verið óróasamar eins og fjölmennir útifundir og heitar umræður innan þings og utan hafa borið vitni.
Fyrir hafa legið skjalfestar yfirlýsingar stækkunarstjóra ESB og Evrópuþingsins um að viðræður við ESB geti legið niðri og verið á ís um ótiltekinn tíma.
Vitnað hefur verið í hliðstætt ástand vegna aðildarumsóknar Sviss á sínum tíma, en það ástand hefur varað í áraraðir.
Ef þessar nýju upplýsingar, sem SDG kastaði af munni fram í Kastljósi í kvöld hafa legið fyrir allan tímann sem deilurnar síðustu vikur hafa staðið, af hverju kom hann ekki fram með þær fyrr?
Væri hægt að fara fram á skriflega staðfestingu hjá SDG á þessum ummælum?
![]() |
Evrópusambandið vildi skýr svör |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)