Færsluflokkur: Bloggar
4.3.2014 | 22:44
Að hægja á "verðbólguhjöðnun" = "minnkandi versnun".
Einu sinni sagði íslenskur ráðmaður þegar efnahag landsmanna hrakaði að góðu fréttirnar væru þær, að nú væri "minnkandi versnun."
Nú er upplýst og flokkað sem "slæmar fréttir" af evrusvæðinu að það hefði orðið "verðbólguhjöðnun".
Það er hálf öld síðan ég lærði þá hagfræði sem þá var kennd í lagadeild H.Í. og kannski man maður ekki allt af því sem þá var kennt en hefur þó á grunni þess lærdóms fylgst eins vel með efnahagsmálum þjóðarinnar og hægt hefur verið.
Síðan 1942 hefur glíman við svonefndan verðbólgudraug verið eitthvert erfiðasta verkefnið í íslensku efnahagslífi og verðbólgan talin okkar mesti bölvaldur.
Síðustu ár hefur verðtryggingunni verið bölvað hástöfum, en hún á að tryggja verðgildi skulda og hækkar þær því meir sem verðbólgan er meiri. Getur það þá verið rétt að bráðnauðsynlegt sé í nútíma þjóðfélagi að auka verðbólguna með öllum tiltækum ráðum.
Ýmis ráð voru reynd á árum áður hér á landi í viðureigninni við verðbólguna en án árangurs.
1959 var það ráð minnihlutastjórnar Emils Jónssonar að færa niður verðlag og kaupgjald, þ. e. að þvinga fram verðhjöðnun.
Í kringum 1970 var sett á svonefnd verðstöðvun.
Í hvorugt skiptið dugði þetta nema í eitt ár eða svo og nú er staðhæft að verðhjöðnun, stöðugleiki eða "alltof lág verðbólga sé ógnun við efnahagsbatann í Evrópu".
"AGS hvetur ríki á evrusvæðinu itl að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir verðbólguhjöðnun."
"Verðbólguhjöðnun"? Minnir svolítið á það þegar gengisfelling var kölluð "gengissig í einu stökki."
Halló! Hvað varð um ógnina af verðbólgudraugnum? Af hverju leiðir stöðugt verðlag böl yfir efnahagslífið?
Nú væri gaman að fá skýringu góðs hagfræðings á þvi hvers vegna það sé "ógnun" að verðbólgan sé lág og hvers vegna það sé bráðnauðsynlegt að kynda undir báli verðbólgunnar.
![]() |
Lág verðbólga ógnar efnahagsbata |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.3.2014 | 21:36
"Í þá gömlu góðu daga..." aftur?
Er Kiljan gerðist Nóbelskáld og KK blés í sax /
og Clausensbræður hlupu´og snjóbíll Gvendar var til taks..."
Þetta eru upphaflslínur lagsins "Í þá gömlu góðu daga".
Setningin um snjóbíl Guðmundar Jónassonar vísar til þess að í mars og apríl 1951 voru einhver mestu snjóalög í manna minnum á Norðausturlandi.
Varð meðal annars að nota Glófaxa Flugfélags Íslands og snjóbíl Guðmundar Jónassonar til að flytja allra brýnustu nauðsynjar.
Síðan eru liðin 63 ár en öflugasta snjómoksturstækni nútímans virðist ekki hrökkva til að opna vegi frekar en á sama tíma 1951.
Hins vegar er álitamál hvort orðin snjómoksturtækni nútímans séu réttnefni um þau gömlu tæki, sem til umráða eru við moksturinn núna.
![]() |
Ekki hægt að moka á Mývatnsöræfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.3.2014 | 14:11
100% réttur vitnisburður er ekki til.
Í tímaritinu Time fyrir allmörgum árum var "forsíðugrein" (cover story) sem hét "The total recall" og fjallaði um nýjustu rannsóknir vísindamanna á minninguum og vitnisburðum. Aðalaniðurstaða rannsóknarinnar var það að 100% vitnisburður eða minning sé ekki til, vegna þess að minningin sé eftirlíking af þeim áreitum, sem skynfærin verða fyrir á meðan á atburðinum stendur og að röð áreitanna og fleira geti bjagast eða ruglast.
Þannig finnst stórum hluta vitna af því þegar flugvél hrapar til jarðar og ferst í mikilli sprengingu að vélin hafi orðið alelda á flugi og síðan steypst til jarðar.
Ástæðan er sú, að við úrvinnslu upplifunaratriðanna raðar undirmeðvitundin stundum atburðunum í þá röð sem gefur sennilegasta orsakasamhengið.
Slíkt er alveg ómeðvitað hjá vitninu sem segir eins satt og rétt frá og eftirlíkingin í minni þess gefur því kleyft.
Í máli Pistoriusar verður að hafa þetta í huga.
Gott dæmi sem ég hef áður nefnt er það að í meira en 40 ár hef ég þurft að þræta við fólk, sem staðhæfir það að fyrsti bíllinn sem ég átti hafi verið þriggja hjóla bíll.
Þegar svo var komið að ég þurfti að þræta við bekkjarbróður minn úr M.R. um þetta fór ég til Tibro í Svíþjóð, keypti þar alveg eins bíl og sýni fólki, sem heldur fram þriggja hjóla bíls minningunni, hvernig bíllinn leit út, sjá mynd hér á síðunni.
Hann var og er með fjögur hjól og meira að segja öll úti í hornum bílsins.
En hvernig getur staðið á svona grófu misminni? Ástæðan er einföld.
Í fyrsta áramótaskaupinu 1966 var ég fenginn til að aka örbíl inn í upptökusalinn og færa Helgu konunni minni blómvönd í tilefni af 5 ára brúðkaupsafmæli okkar.
Prinsinn hafði þá verið óökuhæfur í mörg ár og því var fenginn þriggja hjóla bíll af gerðinni Messerscmitt Kr 200 kabineroller í hlutverkið.
Þetta var í eina skiptið á ævinni sem ég settist upp í svona bíl, mun mjórri bíl en Prinzinn, sem tók aðeins tvo menn í sæti, einn frammi í og einn afturí, en Prinzinn tók tvo frammi í og 2-3 afturí.
Á þetta horfði nær öll þjóðin og þetta truflaði eftir á allar minningar þeirra þúsunda sem höfðu séð mig á Prinzinum á árunum 1959-63.
Eitt hefur líka ruglað fólk. Eins og sést á neðstu myndinni hérna er Prínzinn með alveg einstöku lagi að aftanverðu. Hliðarrúðurnar að aftan eru sveigðar í boga inn að afturrúðunni sem er frekar lítil svo að bíllinn sýnist afturmjór, en það var einmitt helsta útlitseinkenni Messerschmitt KR200.
Sjálfur lét ég blekkjast af því að raða í huganum skakkt saman áreitum skynfæranna í vitnisburði vegna þess þegar lítil flugvél missti hreyfilafl í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli og steyptist niður á tún rétt hjá Norræna húsinu.
Ég stóð undir norðugafli flugskýlis á miðjum vellinum og í í minningunni kom vélin furðu hægt fram hjá skýlinu í flugtaksbruninu með hikstandi hreyfil, miklu hægar en venja var í flugtaki, og í flugtakinu þar á eftir náði hún ekki hæð heldur missti lyftikraft og steyptist niður.
Flugmaðurinn bar hins vegar að hreyfibilunin hefði ekki orðið fyrr en eftir flugtak.
Ég hafði verið í lagadeild og lært um vitnisburði og fór að kynna mér þetta misræmi í framburði.
Þá kom í ljós, að ástæða þess að flugvélin kom á svona hægri ferð framundan flugskýlinu var ekki sú að hreyfilinn skort afl, heldur hafði flugmaðurinn fengið heimild til að hefja flugtaksbrun "þvert af" rétt fyrir sunnan skýlið og kom þess vegna á svona hægri ferð inn í sjónsvið mitt.
Þegar þetta lá ljóst fyrir áttaði ég mig á því að við eftirlíkingu af atburðinum í minningu minni hafði undirmeðvitund mín sett áreitin þannig saman að þau gæfu skýringu á því hvers vegna flugvélin fór svona hægt.
Eina skýringin, sem undirmeðvitund mín hafði í höndunum, var hikstið í hreyflinum, og ómeðvitað var framburður minn, gefinn eftir bestu vitund, með bjagaðri tímalínu.
![]() |
Reeva hefði ekki getað öskrað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2014 | 02:25
Ísland viðundur meðal þjóða Evrópu.
Meira en 15 ár eru síðan þjóðir Evrópu, allt vestan frá Spáni og Portúgal austur til Lettlands lögleiddu svonefndan Árósasáttmála sem kveður á um lögvarða hagsmuni almennings og samtaka hans vegna framkvæmda sem snerta umhverfismál og náttúruverndarmál.
Ísland hefur þumbast gegn því að lögleiða sáttmálann, og loks var það þó gert í fyrra en þó ekki fyrr en að þáverandi stjórnarandstaða hafði þvælt málið sem allra mest og náð með lagaklækjum að útvatna svo sáttmálann, að hann virðist ekki vera pappírsins virði.
Af þeim samtökum þúsunda náttúruverndarfólks, sem fóru fram á lögbann á vegaframkvæmdir í Gálgahrauni, voru tvenn samtök, Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands með hunduð félagsfólks sem hefur yndi af útiveru og gönguferðum í Gálgahrauni og á öðrum svipuðum slóðum á Suðvesturlandi.
Lögbann er þess eðlis, að það virkar sem nokkurs konar frysting eða frestun óafturkræfra framkvæmda þar til leyst hefur verið úr deilu- og álitamálum fyrir dómstólum.
Venjulega þarf Hæstirétttur aðeins stutta greinargerð fyrir úrskurðum sínum vegna svona mála, en í máli náttúruverndarsamtakanna vegna lögvarðra hagsmuna þeirra varðandi lagningu nýs Álftanesvegar dugði ekki minna en 10 blaðsíðna greinargerð Hæstaréttar til þess að sveigja úrskurðinn í þá átt og réttlæta þá niðurstöðu, sem felur í raun í sér að Ísland virðist vera eina landið vestan fyrrum Sovétríkja þar sem Árósasáttmálinn um lögvarða hagsmuni almennings eða samtaka hans er marklaus.
Meira að segja lönd sem áður tilheyrðu Sovétblokkinni og voru með allt niðrum sig í umhverfismálum, eins og Pólland og Lettland hafa tekið sig á og verið með gildandi lög í samræmi við Árósasáttmálann í meira en 15 ár.
Á sama tíma sem ráðamenn okkar úða út úr sér gorti og yfirlæti yfir heimsbyggðina um það að við séum í fararbroddi í heiminum á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála og land okkar sé með fágæta náttúru erum við skammarlegt viðundur á því sviði í raun, höfum staðið við loforðið frá 1995 til álfursta heims um "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" ef fórna skal náttúruverðmætum fyrir stóriðju og erum nú með Hæstarétt sem stimplar lögleiðingu Árósasáttmálans hér á landi sem marklaust og gagnslaust plagg.
Nú hlakkar í yfirgangsmönnum yfir því að hafa á siðlausan hátt hraunað yfir náttúruverndarfólk með blekkingum og beitingu lögregluvalds til að eyðileggja náttúruverðmæti áður en lögbannsmálið hafði verið útkljáð fyrir dómstólum.
Maður skammast sín niður í tær fyrir það bananalýðveldi og afskræmingu á réttarríki sem blasir við okkur.
![]() |
Lögbannsmál fellt niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
3.3.2014 | 21:09
"Hvað á þetta að verða langt?"
Allt frá stofnun Sjónvarpsins 1966 til ársins 1978 var það eitthvert erfiðasta verkefni fréttamanna að taka viðtöl við stjórnmálamenn. Ástæðan var sú að þegar þeir voru spurðir, voru þeir oft svo langorðir og komu sér þar að auki oft hjá því að svara spurningum, að það þurfti að fylgja málinu eftir og spyrja þá aftur, - já og oftast aftur og aftur.
Þegar síðan var komið upp á fréttastofu byrjaði það erfiða starf að koma viðtali, sem hafði kannski orðið 15 mínútna langt í upptökunni, niður í 2 eða 3 mínútur með styttingum og endursögnum í miklu tímahraki.
Eftir á var maður sjálfur oft sáróánægður með útkomauna og viðmælandinn jafnvel enn óánægðari með að hafa ekki fengið að fimbulfamba að vild og fengið það sent út óklippt.
Aldrei gerðist það þó að viðkomandi stjórnmálamaður eða ráðherra heimtaði að allt viðtalið yrði sýnt óstytt, hvað þá að þeir fengju það í hendur til að geta stjórnað styttingu þess því að menn gerðu sér þrátt fyrir allt grein fyrir því að fréttatíminn þoldi ekki skjaldbökutempó og málalengingar og að úr því að þeir höfðu ekki getað klára málið á skaplegum tíma yrðu þeir að taka því að viðtölin yrðu stytt eftir þörfum.
En 1978 gerðist það að ég þurfti einn dag að taka viðtöl við talsmenn þeirra þriggja flokka, sem þá voru í ríkisstjórn þar sem hver höndin var oft upp á móti annarri enda sprakk hún eftir aðeins 13 mánaða líf.
Ég tók fyrst viðtöl við tvo ráðherra, annan frá Alþýðubandalaginu og hinn frá Alþýðuflokknum og sat uppi með um það bil 10 mínútna efni samanlagt sem þurfti að klippa niður í 3 mínútur.
Bjóst við að sitja uppi með minnst 15 mínútur alls eftir viðtal við talsmann Framsóknarflokksins, Steingrím Hermannsson.
Þegar við vorum búnir að stilla okkur upp og allt var orðið klárt fyrir myndatökuna spurði hann allt í einu: "Hvað á þetta að verða langt?"
Enginn hafði áður spurt slíkrar spurningar og ég varð svolítið hissa en svaraði: "Ein og hálf mínúta á hvern ykkar eða fjórar og hálf mínúta alls í fimm mínútna langri frétt.
Síðan byrjaði viðtalið. Steingrímur svaraði fyrstu spurningu minni, sem sneri að kjarna málsins á 45 sekúndum. Ég fylgdi eftir með annarri spurningu og hann svaraði henni á 15 sekúndum. Enn kom spurning hjá mér og hann notaði 10 sekúndur til að svara og hafði svarað svo vel, hnitmiðað og samþjappað, að fleiri spurninga var ekki þörf og viðtalið var vel innan tímamarkanna.
"Þetta hefur aldrei gerst áður," sagði ég steinhissa við hann "og mér vitanlega hefur enginn gert þetta eins og þú." Venjulega tekur það þrisvar til fjórum sinnum lengri tíma að taka viðtalið en rúm er fyrir í fréttatímanum að sýna."
"Ég veit það," svaraði hann, "og þess vegna spurði ég hvað viðtalið ætti að verða langt. Það var til þess að ég gæti komið svari mínu til skila innan tímamarkanna svo að það þyrfti ekki að klippa það neitt. Og ég er ánægður með það að hafa skilað mínu eins vel og ég get. Ert þú ekki feginn, því líka?"
"Jú, auðvitað" svaraði ég. "Ég dauðkveið fyrir því að þurfa að fara að hjakka í klippingu og endursögn viðtalsins í tímarhraki fyrir kvöldið. En hvað kemur til að þú ert sá fyrsti sem gerir þetta svona?"
"Það er af því," svaraði hann, "að ég var í nokkur ár við nám í Bandaríkjunum og komst að því hvernig þeir gera þetta þar."
"Ertu sáttur við það, að hinir fái fyrir bragðið eitthvað aðeins tíma en þú í fréttatímanum?" spurði ég.
"Já," svaraði hann. "Það er ekki lengd svarsins sem skiptir máli heldur það hvort það er gott eða slæmt".
Ég vona að þessi frásögn af viðtalinu við Steingrím Hermannsson forðum daga skýri eitthvað eðli þess máls, sem þessi bloggpistill er tengdur við.
Ég minnist þess ekki í 47 ára sögu Ríkissjónvarpsins að svipuð skilyrði hafi verið sett fyrir viðtali og nú.
![]() |
Ef þið klippið ekki allt til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
3.3.2014 | 13:46
Twitter-hrunið segir allt sem segja þarf.
Það segir allt sem segja þarf um fyrirbærið "selfie" eða sjálfsmynd tekna með farsíma af eigandanum sjálfum af sjálfum sér í hópi frægs fólks eða á flottum stað að samskiptasíðan Twitter hafi hrunið um tíma vegna einnar sjálfsmyndar.
Þykir fyrirbærið heldur ómerkilegt og mikil hneykslun í gangi hjá mörgum.
Og í annað skipti á skömmum tíma verður allt vitlaust út af svona myndatöku, - fyrra skiptið var þegar forsætisráðherra Dana tók sjálfsmynd af sér með Obama og Cameron.
Þeir, sem "leggja Twitter-samskiptavefinn á hliðina" segja þó allt sem segja þarf um það, að kastað er úr glerhúsi þegar býsnast er yfir sjálfsmyndatökum sem hámark hégómleikans.
Nógu margir virðast forvitnir um fyrirbærið til þess að taka þátt í því sjálfir á óbeinan hátt.
Hver vill ekki eiga mynd af sér með foreldrum sínum, fjölskyldu, vinum eða þekktu fólki, - á hátíðarstundum eða merkisstöðum?
Slíkar myndir eru hluti af því að fólk rækti góðar minningar.
Ég fæ ekki séð að það skipti öllu máli hver tekur slíka mynd þegar almenn tækni gerir það mögulegt, þótt mörgum sýnist það greinilega vera aðalatriðið hver er myndatökumaðurinn.
![]() |
Myndin sem gerði allt vitlaust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
3.3.2014 | 06:01
Helmingi dæmisins sleppt og síðan bullað út í eitt.
Ég sé langar umræður um það á netinu að jafnvel þótt manneskjum hefði "verið raðað upp á rönd eins og sardínum" á Austurvelli, eins og það er orðað, hefðu ekki komst fleiri þar fyrir en um 2700 manns.
Er þetta nefnt sem dæmi um það hvernig RUV / Samfylkingin / ESB-sinnar skáldi upp töluna 8000. Talan 8000 kom reyndar frá lögreglunni en RUV er kennt um það.
En það er alvarleg ásökun að lögreglan margfaldi mannfjóldatölur, því að sé þessi ásökun rétt, kollvarpar hún öllum fréttum sem fyrr eða síðar hafa verið fluttar af útisamkomum í Reykjavík og felur í sér ásökun um vísvitandi lygar hjá laganna vörðum í áratugi.
Þetta fá menn út með því að reikna út flatarmál vallarins, ná því niður í 5000 fermetra og segja sem svo að 6000 manns komist þar ekki fyrir, jafnvel þótt þeim "sé staflað upp á rönd eins og sardínum" í dós.
En þeir gleyma að reikna út það flatarmál, sem ein standandi manneskja þarf. Til einskis er að finna út flatarmál auðs vallarins ef ekki er vitað um hve mikið flatarmál hverstandandi manneskja tekur.
Hvernig hefði nú verið að hafa þær tölur á hreinu? Þær eru svo sannarlega til og alþjóðlega viðurkenndar, auk þess sem hver maður getur mælt þetta á sjálfum sér.
Meðalmaður er 45 sentimetra breiður og þykkt hans er innan við 30 sentimetrar. Það þýðir að hver standandi maður þekur 0,135 fermetra og að sex menn komast fyrir á fermetra ef staðið er þétt saman og auðveldlega fjórir á fermetra án þess að nokkur snerting sé á milli manna.
Maður, sem er telur sig þurfa heilan fermetra á fundarstað, þekur sem sé 0,135 af þessum heila fermetra, en 0,865 af fermetranum eru auður.
Enn hlálegri verður þessi umræða ef við reiknum út hve mikið rými fólk sitjandi í sætum þyrfti á Austurvelli, því að þar höfum við tiltækar enn nákvæmari tölur, alveg óhrekjanlegar.
Í reglugerð um bifreiðar er talið nægilegt að hver sitjandi maður í aftursæti hafi 43 sentimetra af breidd þess til umráða.
Í flugvélum er þessi breidd yfirleitt um 45 sentimetrar og þar er talað um "pitch" á milli sætaraða, og þykir 31 tommu "pitch" ágætt rými, en það eru 78 sentimetrar.
Þetta þýðir að í því rými flugvélar þar sem sætaraðirnar eru, nægir að hver maður hafi 0,35 fermetra til umráða, sem þýðir að á einum fermetra geti 2,8 menn setið og haft það nógu gott til að ferðast í einum áfanga í allt að sex klukkustundir.
Þessar nefndu staðreyndir um sitjandi fók má allar finna í gögnum um flugvélar og bíla og er aldeilis kostulegt þegar menn fara út í mikla útreikninga á dæmi, sem byggist á einhverjum algerlega fráleitum ágiskunum um aðra hlið staðreyndanna sem þarf í útreikninginn, en með slíku fimbulfambi er hægt að fá út fáránlegar niðurstöður og alvarlegar ásakanir.
Ef raðað væri í sæti á Austurvelli fyrir fólk á sama hátt og í flugvélum, þrír menn í hverri sætaröð og gangur á milli, er dæmið auðvelt.
Innanmál skrokksins á Boeingþotum Icelandair er 3,53 metrar en það nægir fyrir 2x3 sæti með gangi á milli, og fólkið í þessari sætaröð þarf brúttó flatarmál, (auði gangurinn meðtalinn) sem er 3,53 x 0,78 = cirka 2,7 fermetrar eða 0,45 fermetrar á mann.
Á 5000 fermetra svæði eins og Austurvelli gætu því hæglega setið með sömu þægindum og aðgengi og í farþegaþotum 11 þúsund manns, fjórum sinnum fleiri í sætum en bloggað er um að sé hámark hjá standandi fólki.
Af því sést að auðvitað gætu enn fleiri staðið þar, eða allt að 20 þúsund manns ef þétt væri staðið, en þó án þess að nokkur maður snerti annan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
3.3.2014 | 04:29
Kom af þörf og færir okkur meira gott en slæmt.
Fyrir daga sjónvarpsins og almenna atvinnuþátttöku kvenna voru samskipti fólks mun nánari og almennari en síðar varð. Konur voru þungamiðja þessa af því að þær héldu uppi samskiptum innan ættar, fjölskyldu og vina með gagnkvæmum heimsóknum og ræktarsemi sem börnin ólust upp við.
Eftir að fyrrnefndar þjóðfélagsbreytingar urðu bættu fleiri við, svo sem almenn tölvueign og tengsl við netið þar sem ný fíkn í internet og tölvuleiki setti fólk niður í kyrrstöðu við skjái sjónvarps, farsíma og tölva.
Facebook var kærkomin nýjung sem heppnaðist áreiðanlega mest vegna þarfarinnar fyrir mannleg samskipti sem hún þjónaði.
Þessi samskiptamáti hefur valdið því að nú hefur fólk á öllum aldri tækifæri til að fylgjast með og kynnast hvert öðru á jákvæðan hátt og þess var fyrir löngu orðin mikil þörf.
Skuggahliðarnar eru að vísu fyrir hendi, en með jákvæðum vilja og samtakamætti má draga úr skaðsemi þeirra.
![]() |
Facebook hefur ekki slæm áhrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2014 | 13:56
Viðburður í tónlistarsögu okkar.
Óperan Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson er viðburður í tónlistarsögu okkar, ekki aðeins vegna þess hvílíkt meistaraverk hún er heldur ekki síður vegna þess að hún getur verið lokahnykkurinn í þróun og mótun íslenskrar tónlistar sem hefur staðið yfir hálfa öld, eða síðan Gunnar Þórðarson og rokkkynslóð hans brutust til áhrifa í íslenskri alþýðutónlist / popptónist.
Gunnar og Friðrik hnýta saman órofa tengsl nýrrar tónlistaraldar okkar aftur til fyrri alda í þjóðarsögunni og sögu óperuformsins og varpa út í hafsauga þeim fordómum gagnvart nýrri tónistaröld sem alltaf hafa verið til staðar frá því að áhrif rokksins, kántrítónlistarinnar, nútíma trúbadora og ballaða, pönks, diskó, og rapps urðu afgerandi í íslenskri alþýðutónlist.
Megas og verk hans eru gott dæmi um það hvernig snillingar geta ræktað þessi tengslu og gert að íslenskum stórvirkjum.
Þessi miklu áhrif fyrir hálfri öld voru litin hornauga af mörgum sem voru fastir í eldri tegundum tónlistar og töldu til dæmis réttilega að bestu verk íslenskra tónskálda væru gegnheil íslensk menning.
Enn á hinn bógínn skjátlaðist þeim en að tónlist íslenskra dægurlagahöfunda rokk- og bítlaaldar væru varasöm innrás erlendra áhrifa sem gæti skaðað íslenskt tónlistarlíf og þjóðlíf.
Þessir gagnrýnendur gleymdu því að verk íslenskra tónskálda á fyrri hluta 20. aldar voru sjálf afrakstur innrásar áhrifa af erlendri tónlist í íslenskt tónlistarlíf, sem kom til landsins frá meginlandi Evrópu, að mestu leyti frá Þýskalandi í gegnum Danmörk.
Ég tek oft tóndæmi til að varpa ljósi á þessi áhrif.
Á lýðveldishátíðinni 1944 fengu þrjú sérsamin lög sérstök verðlaun. 1944 var Ísland mikilvæg miðstöð baráttunnar gegn Öxulveldunum á Norður-Atlantshafinu og þess vegna er dálítið skondið að raula fyrir munni sér upphaf þýska þjóðsöngsins og fara beint yfir í lokalínur lagsins "Yfir voru ættarlandi", nokkurn veginn svona:
"Deutschland, Deutscland uber alles,
uber alles in der Welt...."
"...ljós þitt glæð í lýðsins hjörtum,
ljós er aldrei slokkna skal."
Fyrir þá sem kunna bæði lögin er það sláandi að með því að skeyta þessum tveimur lögum saman og syngja í samfellu, verður til svo heillegt nýtt lag, að undravert er.
Og þó ekki undravert. Um leið og tónlist okkar er ævinlega þjóðleg og sönn, þegar hún sprettur fram hjá góðum listamönnum í gerð laga og ljóða, er hún ævinlega lituð af erlendum áhrifum frá einhverjum tíma.
Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson eru einfaldlega listamenn sem hafa í sér neistann sem getur orðið að stóru báli, sem er engu líkt, þótt kveiktur sé undir áhrifum þess besta í heimsmenningunni.
Rétt eins og Gunnar fóstraði af snilld neista áhrifa alþýðutónlistar sinnar æsku, endurtekur hann þetta þegar hann fóstrar neista óperuforms fyrri tíma og notar sígilda snna íslenska harmsögu sem er í stíl við Viktoríu Knuts Hamsuns og Rómeó og Júlíu.
![]() |
Gunnar Bragi mætti ásamt frúnni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2014 | 23:10
Öruggasta þota heims breyttist í þá hættulegustu á nokkrum sekúndum.
Þeir Sjónvarpsmenn, sem áttu þess kost að stilla sér upp á besta stað á Keflavíkurflugvelli til þess að ná sem bestum myndum af flugtaki Concorde-þotu þegar hún kom hingað til lands, gleyma því aldrei.
Hvílík fegurð, hvílkt afl, hvílíkt tækniundur!
Aðeins einu sinni síðan hefur svipaður atburður hrifið mig. Það var þegar tækifæri gafst til að vera á besta stað á Canaveralhöfða 1999 á svölum íbúðar forstjóra NASA, til að verða vitni að flugtaki geimferjunnar sem bar Bjarna Tryggvaon út í geiminn.
Engar myndir geta lýst þeirri upplifun vegna þess að hávaðinn, drunurnar, titringurinn og höggbylgjurnar skila sér ekki í gegnum myndatökuvélarnar.
Þær voru að vísu eitthvað magnaðri en frá Concorde, en fegurð Concorde var meiri.
Orsök hins hörmulega slyss árið 2000 var afar einföld og ætti að vera hægt að fyrirbyggja slíkt. Vélin hafði verið öruggasta farþegaþota heims í 31 ár og ætti að eiga möguleika á að verða það aftur.
Ég hef því aldrei efast um að endurbættur jafnoki hennar muni hefja sig til flugs svo framarlega sem fyrirsjáanleg orkukreppa hefur ekki dunið yfir þannig að enginn hafi efni á slíku.
Það var lengi draumur minn að fljúga einu sinni á ævinni með Concorde frá París til kjötkveðjuhátíðar í Ríó de Janero. Engin goðgá fyrir almúgamann með flugáhuga að veita sér slíkt einu sinni á ævinni að því gefnu að vera búinn að vinna sér inn fyrir því með fábreytni og sparneytni í daglegu lífi.
Hæpið er héðan af að sá draumur rætist, en vonandi rætist hann hjá einhverjum öðrum.
![]() |
45 ár frá fyrsta flugi Concorde |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)