Færsluflokkur: Bloggar

Bölvaldur evrópskrar sögu.

Þegar Seinni heimsstyrjöldinn lauk var ærlega tekið til hendinni í Evrópu til þess að losna við þann bölvald álfunnar sem endalausar deilur og styrjaldir um landamæri og yfirráð yfir löndum hafði ðöldum saman leitt yfir álfuna.

Þetta var gert með hreinni valdbeitingu Bandamanna, sem gekk upp vegna þess að Þjóðverjar voru fyrirlitnir vegna ógnarverka nasismans að þeir fengu engu um neitt ráðið.

14 milljónir mann urðu að flytjast nauðugar af þýsku landi, einkum frá Póllandi og Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu.   

Reynt hafði verið að leysa þetta í Versalasamningunum eftir Fyrri heimsstyrjöldina, en Frakkar og Bretar gátu ekki samþykkt til fulls hugmynd Wilsons Bandaríkjaforseta um að þjóðir álfunnar tækju um þetta ákvarðanir sjálfar á lýðræðislegan hátt í hvaða ríki þær vildu vera.

Með því var safnað í eldsneyti fyrir áframhaldandi deilur sem leiddu til annarrar heimsstyrjaldar, sem í raun var framhald þeirrar fyrri.

Í Slésvík-Holstein fékk fólk að ráða því sjálft eftir Fyrri heimsstyrjöldina hvort það vildi vera innan vébanda Þýskalands eða Danmerkur og íbúar Saar-héraðs fengu að sameinast Þýskalandi eftir atkvæðagreiðslu 1935.

En Austurríki-Ungverjaland var limað í sundur og meðal ríkjanna, sem urðu til, voru Tékkóslóvakía og Júgóslavía með ólíkar þjóðir og þjóðarbrot innan vébanda sinna.

Þar að auki var Þýskaland hoggið í tvennt og Pólland fékk sjálfstæði að nýju með aðgangi að sjó í gegnum hið fyrra Þýskaland.

1938 munaði minnstu að styrjöld skyli á vegna þýskumælandi þegna Tékkóslóvakíu sem bjuggu við landamærin að Þýskalandi og vildu sameinast því.

Með Munchenarsamningnum var þeim leyft að gera það en það kippti fótunum undan möguleikum Tékka til að verja land sitt með heppilegum landamærum frá náttúrunnar hendi og í framhaldinu hernámu Þjóðverjar Tékkóslóvakíu alla aðeins fimm og hálfum mánuði seinna án þess að hleypt væri af skoti.

Þetta kemur upp í hugann þegar svipaðir atburðir eru að gerast á Krímskaga þar sem rússnekumælandi íbúar hans eru í svipuðu hlutverki og Súdetaþjóðverjar voru 1938.

Helsti munurinn er sá að Rússar gáfu Krímskagann viljandi frá sér 1964 yfir til Úkraínu en hins vegar fengu Þjóðverjar og Austurríkismenn engu ráðið um örlög Súdetahéraðanna í Versalasamningnum.

Tító tókst að halda Júgóslavíu saman eftir 1945, en eftir lok Kalda stríðsins sundraðist ríkið í mesta ófriði í Evrópu eftir 1945.

Af því sést hve erfitt er að fullyrða um það að óbreytt ástand geti haldist til langframa í álfunni þrátt fyrir alla viðleitnina til að halda friðinn.

Ýmsar þjóðir Vestur-Evrópu, svo sem Spánverjar, eiga svolítið erfitt með að dæma um málin á Krímskaga vegna þess að svipuð vandamál eru víðar í álfunni.

Á Spáni hafa Baskar lengi barist fyrir sjálfstæði sínu og meðal Katalóníumanna er líka öflug hreyfing sem berst fyrir sjálfstæði hennar.    

Á tímum yfirráða Rússa yfir Krímskaga og á meðan Sovétríkin voru við lýði, leit landsfólkið þar á Krím svipuðum augum og Bandaríkjamenn líta á Flórída.

Til dæmis fengu allir íbúar Rússlands, sem bjuggu norðan við heimskautsbaug eina fría ferð til Krím í gjöf frá ríkissjóði Sovétríkjanna meðan þau voru og hétu.

 

   


mbl.is Gjöfin gæti reynst afdrifarík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamleg fjölskylduíþrótt.

Best er að játa það strax að vera einhver lélegasti skíðamaður og sundmaður landsins. En það breytir því ekki að einhverjar bestu minningar úr lífi fjölskyldunnar voru árin, þegar farið var í fjölskylduferðir á skíði.

Þökk sé Stöö 2, sem ég vann þá hjá, vorum við fjögur, ég, Hemmi Gunn, Linda Péturs og Rósa Ingólfsdóttir skikkuð til þess að læra á skíðum fyrir sérstaka sjónvarpsþætti þar um, að mig minnir árið 1989.

Ég var alger byrjandi og skelfilega klaufskur, hafði reyndar komið mér hjá því allt frá fyrstu ferðinni uppi í Kerlingarfjöll sumarið 1967, að renna mér á skíðum.

Hins vegar hafði ég farið með þrjár yngstu dætur mínar í Kerlingarfjöll um verslunarmannahelgina 1985 og þær orðið forfallnar skíðakonur.

Hvað um það, eftir að maður var orðinn stautfær á skíðum tóku við dásamleg ár þar sem farið var í fjölskylduferðir til hinna ýmsu skíðasvæða.

Skíðaástríðan er svolítið lík golfástríðunni að því leyti, að fljótlega hefst "söfnun" skíðasvæða og skíðasvæðin urðu þessi: Kerlingarskarð, Blönduós, Böggvistaðafjall við Dalvík, Hlíðarfjall, Oddsskarð og öll skíðasvæðin austur af Reykjavík.

Já, meira að segja Blönduós var á listanum, sennilega auðveldasta skíðasvæði landsins en jafnframt það "aumingjalegasta".

Skíðaíþróttin hefur flest það til að bera sem góð íþrótt getur gefið, hreyfingu fyrir unga sem aldna, útiveru, náttúruupplifun, spennu, slökun og síðast en ekki síst, skemmtilega og gefandi samveru í síðaferðalögum, jafnt stuttum sem löngum.

Já, fjölskylduíþrótt af bestu gerð.  


mbl.is Opið í Bláfjöllum og Skálafelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hjóla í manninn en ekki málið.

"Getur nokkkuð gott komið frá Nazaret?", setning úr Biblíunni, er ágætt dæmi um það þegar maður er dæmdur eftir heimkynnum sínum.

"Latte-lepjandi kaffihúsalýður úr 101 Reykjavík" er dæmi sem allir kannast við úr samtímanum, þar sem allir, sem hafa tiltekna skoðun eru felldir udnir ákveðið hverfi í Reykjavík sem með nógu langvarandi síbylju er búið að klína slæmum stimpli á sem heimkynni ónytjunga, sem eru afætur á þjóðinni.

Gildir þá einu hvort viðkomandi eigi heima þar eða sæki kaffihús, hvað þá að hann viti hvað Latte sé.  

Á Íslandi hefur það verið einn helsti bölvaldur skoðanaskipta og rökræðu sem lýsa má með setningunni "að hjóla í manninn en ekki málið."

"Farðu og finndu eitthvað á hann" er dæmi um hvatningu til að gera slíkt, ákveðnum málstað eða tilgangi til framdráttar, en aðferð af þessu tagi hefur fengið heitið "smjörklípuaðferðin".  

Dæmin um þessa tegund rökræðu á Íslandi eru svo mörg og flestum svo kunn að það þarf ekki að tína þau til.

Eitt af því allra síðasta sem er í minni og mætti nefna frá allra síðustu dögum  er það, þegar upplýst var á netinu að maður, sem startaði undirskriftasöfnun á facebooksíðu sinni um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-samninga á undan þeirri undirskriftasöfnun, sem síðan tók yfir, - að þessi maður væri svo vafasamur karakter að söfnun undirstkrifta á hans vegum væri hið versta mál og til skammar fyrir alla sem kæmu nálægt facebooksíðu hans.

Rökin, sem færð voru fyrir þessu, voru þau að hugsanlega væri hægt að rekja tengla frá síðu hans yfir á vafasamar erlendar vefsíður.

Fljótlega spunnust miklar deilur um það hvort aðferðin við að bendla manninn við þessar vafasömu síður væri marktæk, enda væri með "góðum vilja" hægt að gera svipað við fjölmargar aðrar facebooksíður og rekja tengla út og suður.

Þar með var deiluefnið komið víðsfjarrri frá málinu, sem allt snerist um, hvort halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki.  

Smjörklípuaðferðin, að hjóla í manninn en ekki málið, svínvirkaði, jafnvel þótt færð væru rök að því að hún byggðist á rangri aðferð.  

Þessi aðferð, að hjóla í manninn en ekki málið, er svo algeng og almenn hér á landi, að það er erfitt að nefna fylgismenn neins málstaðar, sem ekki hafa freistast til að nota hana.

Kannski er það fámennið hér sem ýtir undir það að ómálefnaleg umræða af þessu tagi er svona almenn og svona þrúgandi.

Það er komið mál til að við förum öll að líta í eigin barm og sameinast um að aflétta þessum ófögnuði, sem fer svo illa með nauðsynlega og hlutlæga rökræðu og eitrar samfélagið.

 


mbl.is Orðræðan einkennist af persónuníði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aðeins örfáar Samfylkingarhræður".

Daginn eftir fyrstu mótmælin á Austurvelli mátti sjá hörðustu fylgismenn ríkisstjórnarinnar halda því enn fram á vefmiðlum að aðeins 600 hefðu verið þar en ekki 3500 eins og lögreglan giskaði á, og að þessir 600 hefðu verið stúdentar og "örfáar Samfylkingarhræður."

Í Búsáhaldabyltingunni var því haldið fram að alþingismenn Vinstri grænna smöluðu fólki skipulega til að fylla Austurvöll og stjórnuðu því beint úr þinghúsinu í gegnum farsíma.

Svo vildi til að í báðum tilfellum hef ég verið á vettvangi og séð með eigin augum að fólk af öllum stigum og úr öllum flokkum hefur myndað þessa hópa.

Í nýjustu skoðanakönnunum er hins vegar erfitt að tala um örfáar Samfylkingarhræður og er nýjasta útspilið að kenna fjölmiðlunum, einkum Ríkisútvarpinu, um afhroð stjórnarflokkanna í skoðanakönnunum, bæði afhorð þeirra sjálfra og einnig varðandi þá útkomu að tvöfalt fleiri vilji halda viðræðum við ESB á floti en vilja slíta þeim.  

 

 


mbl.is Fylgi stjórnarflokkanna undir 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."

Ofangreint rússneskt máltæki kemur upp í hugann þegar verið er að fara yfir málið sem tengdar fréttir á mbl.is fjalla um.

Þegar netheimar urðu til mátti búast við því að margir, sem þar yrðu á ferli, yrðu eins og kýr, sem hleypt er út á vordegi og sletta ærlega úr klaufunum.

Samfélagsmiðlarnir fara nú í gegnum upphaf mótunarskeiðs sem vonandi leiðir af sér framfarir í samskiptum og miðlun á upplýsingum, mismunandi sjónarmiðum og skoðunum án þess að þessi vettvangur verði stórskemmdur af ruddalegu ofstopafólki sem virðist nærast á því að ausa auri og svívirðingum oft í skjóli nafnleyndar.


mbl.is „Ég skammast mín ofan í tær“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti fjaðrandi reiðhjólagaffallinn 1955.

Sumarið 1955 gerðist það í fyrsta sinn að settur var reiðhjólagaffall með höggdeyfum framan á reiðhjól hér á landi.

Eigandi hjólsins var ástríðufullur reiðhjólaíþróttamaður fyrir sjálfan sig en aðeins 14 ára gamall og foreldrum hans leist ekkert á það hvernig hann hjólaði í loftköstum á æsihraða niður brekkur á þeim holóttu malarvegum sem þá voru hér.

Töldu móðir og faðir hætta á að framgaffallinn gæti brotnað í þessum átökum.

Hjólaeigandinnn fór þá niður í Fálkann og bað menn þar á bæ að leita að því hvort framgaffall með höggdeyfum væri framleiddur erlendis.

Svo reyndist vera og þrátt fyrir gjaldeyrishöft, miklu strangari en eru núna, var þessi gaffall fluttur inn og settur á hjólið. Hygg ég að liðið hafi nokkrir áratugir þar til fjaðrandi framhjólagafflar voru voru næst á dagskrá hér á landi því að hjólinu var hent árið 1960.

Hjólagaffallinn bognaði og eyðilagðist í misheppnuðu áhættuatriði 1. apríl 1960 þegar stokkið var af hjólinu á fullri ferð niður túnið fyrir neðan M.R. en það misheppnaðist að láta hjólið fara kollhnís með því að síðasta snerting hjólreiðamannsins væri að kippa í stýrið á leið hans af hjólinu.

Það var þaulæft atriði en misheppnaðist samt í þetta eina sinn.

Hjólið brunaði mannlaust áfram og flaug fram af brún túnsins og stefndi beint aftan á konu sem sat á bekk sem þarna var á strætisvagnastöð, sem þá var þar fyrir neðan.

Eitt augnablik leit út fyrir stórslys, en þá beygði konan sig fram til að taka upp skjóðu sína í þann mund sem strætisvagn renndi þar að.

Framgaffallinn lenti því á sætisbakinu og kengbognaði án þess að snerta konuna. Stóð hún upp, hristi sig og leit forviða aftur fyrir sig þegar hún heyrði skellinn og skildi ekkert í þessu, - hvort þetta beyglaða reiðhjól hefði dottið af himnum ofan.  

Á þessum tíma var hjóleigandinn búinn að eignast örbíl nokkrum mánuðum fyrr, þannig að þetta atvik markaði endalok reiðhjólatímabilsins í lífi hans og upphaf bílastímabilsins.

Stökk hann þar með yfir skellinöðrutímabilið, sem Jón bróðir hans hafði nýlega innleitt í sitt líf.

Atvikið gerðist í stóru frímínútunum í blíðskaparveðri. Voru tugir nemenda vitni að því og eigandi hjólsins er skrásetjari atviksins.    


mbl.is Gafflarnir á leið í framleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígdísarfregnir í stað veðurfregna ?

Varla líður nú sá dagur að Vígdís Hauksdóttir segi ekki eitthvað eða geri sem hlýtur að vera fréttnæmt, svo óvenjulegar eru þessar tiltektir hennar. Nú síðast er það stjórn Blaðamannafélagsins sem telur sig knúða til viðbragða við því að "fólk í valdastöðum reyni að beita áhrifum sínum til að vega að tilverugrundvelli fjölmiðla." 

Svo rammt kveður að þessu að það hefur verið nefnt, að það hljóti að vera einelti gegn Vígdísi hve mikið er sagt frá og rætt um það sem hún segir og gerir, og þá væntanlega ekki aðeins hér á landi, heldur líka á Möltu og annars staðar erlendis, þar sem fleyg ummæli hennar um Möltu og hungursneyð í Evrópu urðu umrædd.

Ég minnist þess frá haustinu 2008 þegar ég var staddur í Bandaríkjnum hvernig "við borgum ekki" ummæli Davíðs Oddssonar, voru strax á vörum margra Bandaríkjamanna sem dembdu yfir mann athugasemdum og spurningum.

Nú liggur fyrir að nokkurn veginn sama vindátt og veður hefur verið á Íslandi í meira en tvo mánuði og fer að verða spurning, hvort megi hætta veðurfregnum í bili í fjölmiðlum, en taka inn Vigdísarfregnir í staðinn, þar sem ný og ný fáheyrð ummæli fljúga allt að daglega og miklir stormar geysa í vatnsglösum.    

 

 


mbl.is Vigdís vó að tjáningarfrelsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipbrot Bandaríkjamanna í refsimálum.

"Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn." Á Vesturlöndum er þessi setning úr réttarfari í fornöld notuð sem dæmi um grimmilega stefnu í refsimálum, sem nær ekki þeim fælingarmætti sem stefnt er að.

Grátlegt er hvernig komið er refsimálum og afbrotatíðni í því ríki Vesturlanda sem telur sjálft sig vera brjóstvörn mannréttinda og frelsis.

Hvergi á Vesturlöndum falla fleiri fyrir skotvopnum, hvergi er glæpatíðnin meiri og hvergi eru fleiri í fangelsum.

Í því ríki, sem höfuðborgin fékk sitt land frá, eru menn líflátnir löglega reglulega í nafni laga og réttar og refsingar margfalt harðari í ríki frelsis og mannréttinda en í öðrum lýðræðisríkjum.

Ef þetta á að hafa fælingarmátt er augljóst er af glæpatíðninni og mannfórnunum og líkamstjóninu af hennar völdum, að refsistefnan hefur beðið augljóst skipbrot.

Mál Geirs Þórssonar er eitt af hundruðum þúsunda dæma um það.  


"Túrbínutrixið" í fullum gangi.

2007 voru hafnar framkvæmdir við álver í Helguvík með undirskrift samkomulags við þrjá aðila að minnst tólf, sem málið varðar, en þá eru ekki teknir með í reikninginn allir landeigendur og aðrir, sem málið mun varða beint og óbeint.

Þetta var sama aðferð og nota átti við að koma svonefndri Gljúfurversvirkjun á koppinn með því að kaupa svo stórar túrbínur í Laxárvirkjun að öllum aðilum, sem málið myndi snerta síðar, til dæmis landeigendum í Laxárdal, sem til stóð að sökkva, yrði stillt upp við vegg og lýst yfir ábyrgð á hendur þeim ef þeir ætluðu að mögla og eyðileggja þá fjármuni, sem búið væri að eyða í túrbínur og annan undirbúningskostnað.

Sigurður Gizurarson, snjall lögfræðingu andófsmanna, sneri þessu við í sínum málflutningi með þeim rökum, að með þessari siðlausu ákvörðun hefðu virkjanaforkólfarnir tekið áhættu, sem þeir ættu sjálfir að borga, ekki þeir sem siðleysið beindist gegn.

Uppi í erminni var eignarnám rétt eins og nú á að beita á Suðurnesjum.

Munurinn er sá, að 1970 þurfti dínamit til þess að stöðva hinar ofboðslegu náttúrufórnir, sem menn hefðu annars verið tilbúnir til að standa að.

Það er dapurlegt og sýnir, að okkur virðist ekki hafa miðað hænufet áfram á þeim 43 árum, sem liðin eru frá Laxárdeilunni, hvað varðar siðlausa framkomu gagnvart landi, þjóð og komandi kynslóðum í því sem Nóbelskáldið kallaði réttilega "hernaðinn gegn landinu" það merkisár 1970.

Túrbínutrixið virkaði í álversmálununum fyrir austan, þar sem fyrst var látið í veðri vaka að álverið yrði aðeins 120 þúsund tonn, en það síðan þrefaldað þegar búið var að stilla mönnum upp við vegg og valta yfir þá, og nú síðast virkaði það í Gálgahrauni þar sem blekkingum og ofríki var beitt til að þvinga fram vilja valdsins.  

Þeir sem keyra þessa stefnu áfram gera það sallarólegir vitandi það, að það þarf ekki annað til að valta yfir allt og alla en að sýna yfirburði valdsins í formi 60 lögreglumanna í skotheldum vestum með kylfur og handjárn sem loka umferð út í heilt bæjarfélag og beita stærsta skriðbeltatæki landsins gegn 25 persónum, - hreyfingarlausu og áhaldalausu fólki, sem fært er í fangelsi, en síðan eru níu teknir útúr og fá á sig ákæru með kröfu um að verða sett á sakaskrá og taka út refsingu.

13-15 þúsund manna mótmælaganga 2006 og 5 þúsund manna útifundur 1. maí 2013 hagga ekki við "hinum ósnertanlegu" frekar en að stökkva vatni á gæs.

Þvert á móti herða þeir hernaðinnn gegn landinu sem aldrei fyrr.

  


mbl.is Heimilt að taka jarðir eignarnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna brattara af stað en í Búsáhaldabyltingunni ?

Útifundahöld á tímum Búsáhaldabyltingarinnar byrjuðu ekki með neinum sérstökum látum haustið 2008. Fyrstu útifundirnir voru mun fámennari en síðar varð og aðeins haldnir vikulega, eftir hádegi á laugardagum þegar flestir eiga frí frá vinnu.

Það var ekki fyrr en komið var langt fram í janúar sem fundirnir stækkuðu og urðu tíðari í blálokin.

Þess vegna má það vekja furðu hve margir hafa komið þrjá daga í röð niður á Austurvöll og að fjölmennasti fundurinn skuli hafa verið á miðjum vinnutíma klukkan 15:00.

Einnig vekur athygli hve mikið af fundarfólkinu er fólk, sem hefur ekki sést á svona fundum áður og segist margt hvert aldrei hafa órað fyrir því að það ætti eftir að taka þátt í mótmælafundum. 

Ég efast um að nokkur hafi búist við þessu en hygg að skýringin sé sálfræðileg.

Eitt af því sem gerir fólk reitt er þegar því finnst undir niðri að það hafi verið haft að fíflum og verið niðurlægt. 

Reiðin beinist þá að þeim sem fíflaði það. 

En hvers vegna út af þessu og það svona stuttu eftir kosningar?

Ekki er hægt að finna neina skýringu skárri en þá að þessi svik á loforðum hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.

Fyrir kosningar hafði verið lofað með fagurgala gulli og grænum skógum og var leitun að öðrum eins loforðalista þar sem svo margt var talið mögulegt og orðið "ómöguleiki" hafði ekki verið fundið upp.

Þar bar hæst að 300 til 400 milljórðum frá "hrægömmum" og vogunarsjóðum áttu að falla þjóðinni í skaut og þar með yrði hægt að framkvæma "stærstu skuldaleiðréttingu í heimi" án þess að það myndi kosta nokkurn Íslending krónu. Því var harðlega andmælt að þessi himnasending myndi á nokkurn hátt felast í því að færa til peninga, frá ríkinu á endanum.

Verðtrygginguna, sem kennt var um háa greiðslubyrði fólks átti að afnema hið snarasta.

Gjaldeyrishöftin áttu að afnema og koma á stöðugleika á sama tíma.

Fleira mætti nefna, sem nú er búið að finna fínt nýyrði yfir sem er orðið "ómöguleiki".

Svo er að sjá sem að þegar það orð er notað nú um loforð sem talin var vel mögulegt að framkvæma fyrir kosningar að mörgum finnist mælirinn fullur og að um þetta gildi það sem hefur verið sagt að það sé hægt að fífla suma stundum en ekki hægt að fífla alla alltaf.

   


mbl.is Kallaði ráðherra „helvítis dóna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband