Færsluflokkur: Bloggar

Saltað í 4 stiga hita !

Ég trúði varla mínum eigin augum á leið heim til mín í morgun þar sem ég ók í gegnum borgina endilanga.

Stórvirk tæki voru hamast við að salta göturnar í þeim 4-5 stiga hita sem er og hefur verið hér í borginni undanfarna daga!

Spáð er sama hita allt til annars kvölds og úrkoman, sem spáð er, er að sjálfsögðu rigning en ekki slydda.

Kostnaðarvitundin varðandi það hafa götur auðar og gangstíga er furðuleg og ekki síður það mat saltpækilsmanna að það þurfi að salta götur dögum saman í 4-6 stiga hita.

Svo vel hefur viljað til undanfarna daga að lofthitinn og dálítil úrkoma hafa verið að skola burtu saltinu í rólegheitum, sem ausið var þar á undan á göturnar.

Bara ein svona "að fara í límingunum" söltun eins og var rokið í í morgun tryggir nýja saltblöndu á götunum. Saltið kostar þjóðfélagið milljarða króna í ryðskemmdum á bílum og það og saltmoksturinn kostar líka fé, þannig að það er tvöföld ástæða til að vera ekki að úða þessum andskota á göturnar að þarflausu.

Á sama tíma og þetta viðgengst er fólk enn fljúgandi á hausinn og brjótandi sig vegna þess að af misskildum sparnaðarástæðum var vanrækt að moka gangstéttir og botnlangagötur í borgunni, sem þúsundir fólks býr við, fyrir mörgum vikum.

Beint fyrir utan blokkina, sem ég bý í, liggur langur gangstígur. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var sleppt að moka um 50 metra kafla, heldur snjónum rutt upp í mikla hrauka þar. Undanfarnar vikur hefur fólk því þurft að klöngrast yfir ruðningana út á götuna, þar sem hefur verið fljúgandi hálka á svelli allan tímann og umferð bíl, enda er þetta rétt við stóran framhaldsskóla.

Loks í gær þegar ástandið var að byrja að skána ögn var síðan rutt í gegnum þetta haft.

 

P. S. Nýjustu fréttir af "hálkuskilyrðunum" í Reykjavík: 5,3 stiga hiti! Eins og spáð hafði verið, enda sólin komin á loft og hádagur.


Upplifðu Ísland eins og geimfararnir!

"Upplifðu Mýrina eins og Erlendur!" Eitthvað líkt þessu hljómaði vafalaust í eyrum þúsunda útlendinga sem  höfðu lesið "Mýrina" eftir Arnald Indriðason og komu alla leið til Íslands til þess að fara um slóðir sögunnar í Norðurmýri og í Reykjavík.

Árum  saman hefur slík "upplifunarferðamennska" verið spottuð og hædd eins og hver önnur vitleysa þeirra sem hafa bent á "eitthvað annað" til atvinnuuppbyggingar en stóriðju.

Við Íslendingar erum vön landinu okkar og þess vegna hefur sú trú verið útbreidd hér að útlendingar sjái landið og upplifi það með sömu augum og við. Til dæmis á þann hátt að Hallormsstaðaskógur sé það sem mest geti laðað ferðamenn til landsins.

Þá gleymist það að skógar, miklu stærri en Hallormsstaðaskógar, standa í hundraða- og þúsundatali standa við vötn og í fjallendi í Evrópu og Ameríku, og því engin ástæða til þess fyrir fólk, sem vant er þessum skógum að fara til Íslands til að upplifa eitthvað, sem er alvanalegt hjá erlendum þjóðum.

Bandarísku tunglfararnir fóru í Öskju 1967. Í Gjástykki hafa alþjóðasamtök áhugafólks um ferðir til mars valið sér æfingasvæði fyrir marsfara.

Það er hægt að höfða til fleiri en þeirra sem hafa séð myndina um Walter Mitty ef nefna á möguleika til upplifunar á íslandi. Þá liggja beint við upphrópanir eins og "Upplifðu Ísland eins og tunglfararnir!"

"Upplifðu Ísland eins og marsfararnir!" Eða "Upplifðu Ísland eins og geimfararnir!"


mbl.is „Upplifðu Ísland að hætti Mittys“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ráðskonan giftist húsbóndanum.

Nefna má eitt dæmi um það þegar "atvinnuþáttaka" breytir um form en ekki eðli, en minnkar samt verga landsframleiðslu (GNP) þótt hún auki "verga landshamingju" (GNH)

Það er þegar ráðskona, sem lengi hefur unnið fyrir húsbónda sinn, tekur saman við hann og þau giftast.  

Hún heldur áfram að vinna sömu vinnuna og fyrr og sömuleiðis hann, en með þessum formgerningi hefur verg landsframleiðsla minnkað, því að ráðskonan, sem orðin er eiginkona, er ekki lengur launþegi.

Giftingin hefur hins vegar fært þeim skötuhjúunum mikla hamingju, þannig að verg landshamingja hefur aukist á sama tíma og verg landsframleiðsla hefur minnkað.

Hvorn mælikvarðann skyldi nú vera réttara að nota, verga landsframleiðslu eða verga landshamingju?


mbl.is Hagsæld ekki mæld með vergri landsframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðnun jökla átti að bæta vatnsbúskapinn.

Það rímar ekki saman að jöklar landsins séu að minnka en að samtímis búi Landsvirkjun sig undir tap vegna lakari vatnsbúskapar annað árið í röð, og nú mun víðtækari vatnsskort en var í fyrra.

Það er enginn efi á því að jöklarnir minnka, - það sýna mælingar. Vatnsbúskapurinn var miðaður út frá loftslagi og rennslistölum 1960-1990 þegar kuldatímabil var hér á landi. Kringilsá vor 10

Fyrstu árin eftir að Hálslón var búið til blasti við að rennsli í það að sumarlagi var mun meira en reiknað hafði verið með og einnig að aurframburðurinn var miklu meiri en reiknað hafði verið með.

Mynd, sem fylgja á þessum pistli er tekin tveimur árum eftir að Hálslón hafði verið fyllt alveg í fyrsta skipti og á henni sést að þar sem áður var gil með nokkrum fossum Kringilsár, voru þá þegar komnar sléttar jökulleirur. Kringilsá vor 10.2

Kringilsá hafði sem sé fyllt upp gilið, sem var neðst á annað hundrað metra djúpt og var gefið nafnið Stuðlagátt vegna einstaklega fallegra stuðlabergshamra sitt hvorum megin við það.

Í mati á umhverfisáhrifum var spáð, að sandurinn myndi kaffæra Töfrafoss efst í því á 100 árum, en á efri myndinni sést hve langt er komið á aðeins tveimur árum.

Ég tel nauðsynlegt að Landsvirkjun upplýsi hvernig á vandræðunum með vatnsbúskapinn stendur.

Sem leikmanni detta mér nokkur atriði og spurningar í hug:

1. Breytt vatnsrennsli á veturna og vorin sem veldur því að lónin tæmast svo mjög á vorin, að það verður minnka rennslið til orkuveranna?

2. Hve mikið hefur miðlunargeta Blöndulóns og þó einkum Sultartangalóns minnkað vegna þess að þau eru að fyllast upp af auri? Þess var lítt eða ekki getið þegar Sultartangalón var myndað að það myndi fyllast upp af auri á nokkrum áratugum og verða að mestu ónothæft. Er það kannski skýringin á þeirri pressu sem nú er sett á það að fara út í Norðlingaölduveitu ?  

3. Selur Landsvirkjun meiri orku en reiknað var með og lendir þess vegna í vandræðum þegar vatnsbúskapurinn höktir?

Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og skuldar henni útskýringar á ástandi sem rímar ekki við það að jöklarnir séu að bráðna og minnka.   

 

 


mbl.is Einn minnsti jökull landsins að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað með það?

Þjóðkjörnir forsetar og stjórnmálamenn eru valdir til þess að sinna ákveðnum verkefnum fyrir þjóðir sínar. Það fer síðan eftir því hvernig þeim tekst til við að sinna þessum verkefnum, hvernig kjósendur bregðast við því, sýna þeim stuðning, lítinn eða mikinn eftir atvikum,  í skoðanakönnunum eða kosningum.

Franskir kjósendur hafa verið óvenju ónægðir með störf og stefnu forseta síns og láta hann vita af því í skoðanakönnunum.

Mikill meirihluti franskra kjósenda telur að þetta skipti máli, - ekki einkalíf forsetans eða það hvort hann heldur með þessu knattspyrnuliðinu eða hinu.

Tökum smá samanburð:

Kvikmyndaleikarar og fleiri listamenn eru stétt fólks sem vinnur ákveðin listræn verk. Löngum hefur verið heilmikið um að vera í einkalífi þeirra en ekki þekki ég dæmi þess að það hafi bitnað á mati á verkum þeirra á hvíta tjaldinu eða í öðrum birtingarformum listarinnar.

Sama ætti að gilda um stjórnmálamenn, að þeir séu fyrst og fremst metnir og dæmdir eftir því hvernig þeir standa sig við stjórnmálastörf.

Tvívegis á síðustu öld voru bandarískir hermenn sendir til Frakklands til að berjast í heimsstyrjöldunum.

Þeir virðast hafa komið heim með býsna miklar sögur af frjálslyndi Frakka í ástamálum, því að það varð yrkisefni í ótal dægurlögum, bókmenntum og kvikmyndum.

Af hverju? Jú, Bandaríkjamennirnir komu úr hræsnisfullu samfélagi sem á yfirborðinu var púritanskt en smjattaði samt á einkalífi fólks og þetta samfélag hagaði sér áreiðanlega ekkert betur.

Faðir minn heitinn sagði stundum: "Það er ekki hægt að berja fólk til ásta."  Og það hefði mátt bæta við: ...né berja fólk frá ástum."

Ef það eru einhver vandræði hjá forystumanna þjóða í einkalífi þeirra á það að vera þeirra mál. Þessi vandræði eru oftast þungbær og nógu erfið til þess að vera ekki að gera þau verri með því að bera þau á torg. Ef stjórnmálamennirnir láta þetta bitna á störfum sínum fyrir almenning á að leggja mat á það með því að skoða störfin ein.

Þegar slegið er upp fréttum af því sem oft er afrakstur gróusagna og eineltis ágengra paparazzi-ljósmyndara og beðið um viðbrögð alemmings við því er réttasta svarið: Og hvað með það?  

 


mbl.is Hittust á laun í tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukinn nýtingarkostnaður vegur þyngst.

Fyrir um hálfri öld var sett fram spá um að olíulindir jarðarinnar yrðu á þrotum í byrjun þessarar aldar.

Nú finnast þeir sem telja að þetta hafi verið ástæðulaus "heimsendaspá" vegna þess að enn sé það hagkerfi í fullum gangi á jörðinni sem byggir á olíunotkuninni.

Þeir benda á að gríðarmiklar olíulindir sé að finna á nýjum svæðum, einkum heimskautasvæðunum.

Athuganir á spánni fyrir hálfri öld og stöðunni nú sýnir hins vegar að hún var í meginatriðum rétt, olíuvinnslan í heiminum er komin í hámark og að framundan er samdráttur á næstu áratugum.

Það er nefnilega varasöm einföldun að benda á hugsanlegar og miklar olíulindir muni geta tekið þannig við af núverandi olíulindum að hægt sé að viðhalda núverandi ástandi og jafnvel auka olíunotkunina.

Aðalástæðan er sú að sífellt verður dýrara og erfiðara að finna olíuna og vinna hana og þegar olíuverðið hækkar og hækkar grefur það undan undirstöðum "olíualdarinnar" sem tveggja alda tímabilið frá 1890-2090 mun fá í sögubókum framtíðarinnar.

Auk þess liggur fyrir að magn olíunnar á þessum nýju olíusvæðum er hvergi nærri eins mikið og á núverandi svæðum, sem mest gefa af sér, en munu varla endast nema örfáa áratugi í viðbót.  

Fáir hafa fram til þessa áttað sig á gildi fosfats í búskap mannkynsins, en ef svo heldur fram sem horfir, fer að fjara undan þeirri auðlind á næstu áratugum með með slæmum afleiðingum í landbúnaði og á fleiri sviðum.  

...Aðeins ein jörð.

Það er ekki um fleiri að ræða.

Takmörkuð er á ýmsa lund

uppspretta lífsins gæða...


mbl.is Auðlindir heimsins eru ekki óþrjótandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við ofurefli að etja.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu urðu baráttuglaðir handboltalandsliðsmenn okkar að lúta í lægra haldi fyrir heimsmeisturum Spánverja.

Það er engin skömm að tapa fyrir slíku liði þótt tapið hefði mátt vera minna.

Athygli vekur að í báðum hálfleikjum leiksins ná Spánverjar undirtökum síðustu mínúturnar.

Undirliggjandi orsök í leikjum okkar við stórþjóðirnar getur verið sú að mannval þeirra er meira en okkar. Þeir geta komið til leiks með 16 manna hóp, þar sem allir eru jafn góðir.

Það er gríðarlegt álag lagt á máttarstólpa íslenska landsliðsins á stórmótum og á þessu móti hefur ekki bætt úr skák hve margir af okkar bestu handboltamönnum eru meiddir.

Handknattleikur er hópíþrótt, og enda þótt það séu jafn margir inni á báðum megin, skiptir "bekkurinn" ekki síður miklu máli. Og þá gildir máltækið, ekki síst til lengdar á erfiðu móti, að "enginn má við margnum."  

 

 


mbl.is Fimm marka tap gegn Spánverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað "skref" og fyrir 65 árum.

Aerocar_at_EAA[1]Um miðja síðustu öld hefði verið hægt að gera svipaða frétt og þessi bloggpistill er tengdur. Fyrirsögnin hefði þá verið "fljúgandi bíll í Bandaríkjunum." Taylor-Aerocar-III[1]

Slíkur bíll var smíðaður og flaug þá og virtist álitlegur, gaf álíka stórum tveggja sæta flugvélum ekki mikið eftir varðandi fluggetu, var knúinn eins hreyfli og þær og bar raunar svipað nafn og flugbíllinn, sem smíðaður hefur verið í Slóvakíu.

Þessi bandaríski flugbíll náði hins vegar aldrei flugi sem framleiðsluvara.

Það er hins vegar gaman að sjá útlit Aerocar III, því að það var greinilega hálfri öld á undan samtíð sinni.

Fyrir minni peninga var hægt að kaupa álíka stórar fjögurra sæta flugvélar sem flugu mun hraðar með sömu hreyflum, voru miklu ódýrari í viðhaldi, klifruðu betur og voru mun léttari.

Og þá, sem nú, var helsti þröskuldurinn fyrir stórfelldu einkaflugi almennings, sem margir spáðu í stríðslok sá, að flugnám var dýrt, flugvélarnar og rekstur þeirra dýrar og umvafinn dýrara og flóknara kerfi reglna, eftirlits og viðhalds en bílar.

Meginmunur á landfarartæki og loftfari er sá, að hið síðarnefnda er notað í þremur víddum í stað tveggja og hreyfist bæði lóðrétt og lárétt. Þessi munur og þær hindranir sem eru í vegi fyrir flugbílnum hafa ekki breyst í grundvallaratriðum.

Í Bandaríkjunum kom fram ný tegund flugbíla fyrir nokkrum misserum en hefur ekki náð útbreiðslu.  

Meginmunurinn á slóvakíska flugbílnum og þeim bandarísku er sá, eftir því sem ráðið verður af kynningu á honum, að sá slóvakíski notar svipaða tækni til að koma vængjunum í flugstöðu og notuð hefur verið á þeim orrustuþotum Bandaríkjamanna og Rússsa, sem áttu að koma til skjalanna hjá flugherjum þessara landa í kringum 1980.

Á ensku heitir þessi tækni "variable geometry" þ. e. að hægt er að hreyfa vængina þannig á flugvélinni að þeir fari úr þeirri stöðu að vísa beint út frá skrokki vélarinnarvið flugtak og lendingu yfir í þá stöðu að vísa á ská út og aftur þegar komið var á meiri hraða.

Horfið var frá þessu og í staðinn eru bestu orrustuþotur nútímans með föstum vængjum.

Ástæðan er sú, að það þarf flókinn, nákvæman og viðhaldsfrekan búnað til þess að framkvæma þessa tilfærslu vængjanna og erfitt er að sjá annað en að svipað muni eiga við um flugbíl Slóvaka.

Það er gaman að fylgjast með þessum tilraunum Slóvaka og Bandaríkjamanna síðustu árin, en vandséð að höfuðvandamálin hafi verið leyst svo mikið betur nú en fyrir 65 árum að flugbílar verði samkeppnishæfir við venjulegar flugvélar.

Bandaríski flugbíllinn á sínum tíma dró sjálfur vængina á eftir sér eftir þjóðvegum, og síðan voru þeir tengdir við skrokkinn með handafli.

Slóvakíska lausnin er fljótlegri og flottari, en kostar greinilega það að leysa handafll af hólmi, sem ævinlega þarf búnað með tilheyrandi þyngd og viðhaldi til þess að framkvæma.

Þess má geta að á Íslandi eru til tvær eða þrjár litlar tveggja manna flugvélar, sem hægt er að taka vængina af og láta bíla draga eftir vegunum.

En þær hafa ekki fengið frekari útbreiðslu og er flogið sáralítið svo ég viti.     


mbl.is Fljúgandi bíll í Slóvakíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að vita um aldur ferðamanna og stöðu.

Ein af ástæðum þess að minni tekjur hafi séu af hverjum erlendum ferðamanni getur verið sú, að ferðamennirnir séu yngri, til dæmis námsfólk, sem hafi minna á milli handanna en eldra fólk.

Líka þarf að finna út hve margir þeirra koma aftur til landsins síðar þegar þeir eru orðnir miklu betur stæðir og þá jafnvel með maka eða kunningja í slagtogi.

Í kringum 1970 fundu bandarísku bílaframleiðendurnir það út að japanskir bílar, sem voru í boði á bandaríska markaðnum, væru einna minnstir og ódýrastir boðinna bíla og því engin ógn við veldi bandarískra bíla.

Þeir gættu ekki að því að japanir höfðu gert leynilega áætlun um ná markaðnum, með því að höfða fyrst til yngstu kaupendanna, sem höfðu minnsta peninga og vildu bíla, sem væru sem ódýrastir í rekstri.

20 árum síðar kom árangurinn í ljós: Smám saman höfðu japönsku bílarnir stækkað, og námsfólkið, sem japönsku smábílarnir höfðu reynst svo vel, keypti dýrari og stærri japanska bíla þegar það hafði lokið námi og var komið í vel launaðar stöður.

Japanskir og evrópskir bílaframleiðendur höfðu skákað bandarísku bílaframleiðendunum, meira að segja dýrustu og stærstu  bandarísku bílunum, með því að bjóða Lexus, Benz S og BMW 7 og auk þess stækkað Honda Civic og Honda Accord upp í mun dýrari bíla.

Ungur og auralítill erlendur ferðamaður, sem líkar vel í fyrstu ferð sinni til Íslands, er líklegur að koma aftur til landsins síðar og það jafnvel oftar en tvisvar. Ég þekki nokkur dæmi um slíkt og hef nefnt eitt besta dæmið áður, "puttaferðalanginn", einn af "bakpokalýðnum" frá 1976 sem kemur árlega til Íslands með 30-40 manna hóp með sér.  

Meiri breidd þarf að vera í því sem í boði er. Mér skilst að nýtt, vandað og "dýrt" hótel á Patreksfirði hafi ekki eyðilagt eftirspurn eftir ódýrari gistingu, heldur eingöngu skapað nýjan markhóp ferðamanna í viðbót við þann sem var og verður áfram.

 


mbl.is Fleiri ferðamenn en minni tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hélt að snjóflóðið á Blönduósi væri toppurinn.

Hver setur þessa mynd af sólarlaginu í Reykjavík í fyrradag í samband við snjóflóð í borginni? Sólarlag.Rvík

Þetta virðist ekki ríma saman, snjóflóð og sólardýrð, en hvort tveggja gerist þessa blíðudaga, sem nú eru í borginni, nánast eins og vorblíða.

Á hinum miklu snjóflóðaárum 1993 - 1995 var það haft til marks um hvers konar ástand hefði verið á landinu þessa snjóavetur, að meira að segja féll snjóflóð á Blönduósi.

Þótti með ólíkindum snjóflóð gæti fallið úr jafn lágri brekku og var þar sem það féll.  

Einnig þótti það magnað að skammt fyrir norðaustan bæinn var sett upp skíðasvæði með tilheyrandi lyftu. Sumir sögðu að það væri raunar lélegasta skíðasvæði landsins, en aðrir, að ekkert skíðasvæði væri betra fyrir byrjendur.

Snjóflóð í Reykjavík sem lokar umferðargötu og það við eina af stærstu verslunarmiðstöðvum borgarinnar sýnist mér ryðja snjóflóðinu á Blönduósi úr toppsætinu sem ótrúlegasta snjóflóð landsins.

Hvað næst? Snjóflóð úr Arnarhóli niður á Kalkofnsveg?

Myndin sú arna er tekin á rétt hjá slökkvistöðinni á Reykjavíkur og er horft til suðurs í átt að Kópavogi.  

Ef tvísmellt er á hana verður hún stærri.


mbl.is Snjóflóð við veginn að Bauhaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband