Færsluflokkur: Bloggar

Bjargar sólin sjálf málum í bili ?

Það hefur komið fram í vísindaritum að þegar litið sé fram til næstu árþúsunda sé líklegt að hægt og bítandi lækki hitinn á jörðinni.

Að því leyti til hefur það vakið vonir um að hin hraða hlýnun af mannavöldum sem menn hafi óttast, verði ekki með öllu svo slæm, þegar litið sé til næstu árþúsunda, heldur aðeins það að varasamt sé að hún sé jafn hröð og mikil og spáð hefur verið og varað við vegna alvarlegra afleiðinga víða um lönd.

Nýjustu fréttir af mun meiri minnkun á sólarvirkni en menn höfðu reiknað með,  kunna að gera dæmið meira spennandi og tvísýnna í nokkur ár. Sé eitthvað svipað í uppsiglingu og seint á 17. öld kynni það að fresta hlýnuninni, sem spáð hefur verið eða hægja á henni um sinn.

Það breytir hins vegar ekki því að sé litið til lengri tíma og höfð í huga hraðvaxandi magn gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum, svo að annað eins hefur ekki þekkst í mörg þúsundir ára, er ekki víst að hægt sé að treysta á tímabundna dynti sólarinnar til þess að bjarga málum.

Kuldatrúarmenn munu samt vafalaust kætast við þessi tíðindi ef þau leiða til þess að þeir geti sýnt fram á það með tölum um sinn, að loftslag fari ekki hlýnandi á næstu árum.

Hið skondna er að sumir þessara manna byggja allra manna mest miklar skýjaborgir varðandi það að Ísland verði miðjan í gerbreyttri heimsmynd í kjölfar bráðnunar heimskautaíssins með risastórri "heimshöfn" í Finnafirði og allt að 20 sinnum meiri olíugróða á hvern Íslending en er nú í Noregi.

En þessar gróðahugmyndir byggja að mestum hluta á því að ísinn haldi áfram að bráðna á sama tíma og veðurfar fari kólnandi! Og þá verður ekki nóg að það verði eitthvað svalara í nokkur ár, heldur til langframa, en því er ekki spáð.


mbl.is Kaldari veður og sjaldséð norðurljós?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnakennd umræða.

Síðustu mánuði hefur athygli manna beinst mjög að styrkri stöðu íslensku krónunnar og jákvæðum áhrifum þess. Gjaldeyrishöftin, sem svo mikið var talað um fyrri hluta árs í fyrra, hafa varla verið nefnd en þó er sagt að þau séu nauðsynleg til að halda krónunni stöðugri.

En er hægt að skilja þetta tvennt í sundur? Umræðan um gjaldeyrishöftin var um það hve hamlandi þau væru á innstreymi erlends fjár inn í íslenskt hagkerfi, þ. e. erlendar fjárfestingar.

Á hinn bóginn snerist umræðan um það hvernig væri hægt að ná þessum fjármunum af þeim fjárfestum sem höfðu verið hvattir til þessir og lokkaðir til að leggja fé sitt inn hér á landi og búa til það, sem þá mátti kalla "snjóhengjuna".

Það er svolítið erfitt að skilja það að í öðru orðinu er sagt að þetta hafi verið og séu "hýenur" og slæmir vogunarsjóðir, þótt meira en helmingur þeirra hafi verið fjárfestar af svipuðum toga og lífeyrissjóðirnar okkar og íslenskir fjárfestar, - en í hinu orðinu að það þurfi að lokka fleiri útlendinga til þess að fjárfesta hér á landi.

Svona álíka tviskinnungur og þegar sagt var að IPA-styrkirnir svonefndu væru hið versta mál og að engu hafandi, en kvarta síðan hástöfum yfir því sem svikum þegar þeir voru felldir niður.

Nú heyrist sagt að það þurfi að nota gjaldeyrishöftin til að halda krónunni stöðugri líkt og í öndunarvél, en við þekkjum það að þegar fólki er haldið í öndunarvél er lýsing á ástandi þess oft sú að "líðanin sé stöðug" sem þykir jákvætt út af fyrir sig þótt líðanin sé auðvitað ömurleg. 

Stöðug líðan krónunnar er dásömuð en á sama tíma sagt að við þurfum nauðsynlega að losa um þessi höft sem eru ígildi öndunarvélar. 

Þegar fréttaveita Reuters segir frá lítilli erlendri fjárfestingu um þessar mundir á Íslandi er því slegið upp á blogginu að erlendu fjármagnseigendurnir," kröfuhafarnir," séu í samvinnu við vont íslenskt samfylkingarlið og meðreiðarsveina þess að "planta" slíkri frétt."

Hins vegar er ekki minnst á það hvort fréttin sé rétt eða röng, sem ég hélt að væri aðalatriðið. Hér á landi tíðkast nefnilega það að það er alltaf spurt um "hver?" en ekki "hvað?".


mbl.is Fjárfesta ekki ennþá á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus veldishröðun hagvaxtar gengur ekki upp.

Orðið hagvöxtur er orðið slíkt trúaratriði að ekki virðist lengur skipta máli hvort hann er í kapítalísku ríki eða kommúnísku, allir falla fram og tilbiðja þennan mikla guð nútímamanna.

Setjum sem svo að nægur uppgangur í hagvexti felist í því að það sé 7% vöxtur á ári, sem er minna en það sem hefur verið í gangi í Kína. Það þýðir 50% vöxt á sex árum eða tæpa tvöföldun vergrar þjóðarframleiðslu á aðeins 10 árum.

Eftir 20 þarf þjóðarframleiðslan að hafa fjórfaldast ef 7% hagvöxtur á ári heldur áfram, á 30 árum að áttfaldast, 40 árum að sextánfaldast og á 50 árum að verða 32 sinnum meiri !

Allan tímann liggur þó fyrir að auðlindir jarðarinnar eru  föst stærð og sú stærð byrjar að rýrna varðandi margar þær helstu á næstu áratugum vegna rányrkju.  

Dæmið er svo einfalt að það blasir við hve fráleit þessi trú á takmarkalausan og endalausan hagvöxt er.  


mbl.is Minnsti hagvöxtur í 14 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál til að læra af.

A níunda áratugnum var höfundur ævisögu einnar, sem kærður hafði verið fyrir meiðandi ummæli, dæmdur sekur fyrir þau. Bókaútgefandi einn sagði þá við mig að hann og kollegar hans væru í raun fegnir, vegna þess að fram að dómnum hefðu svo mörg hliðstæð mál verið á "gráu svæði" að gott væri að vissu leyti að fá um það úrskurð hvar lína hins ósæmilega og særandi lægi.

Við horfumst nú í augu við hliðstætt mál varðandi ummæli í ljósvakamiðli. Auðvitað er slæmt og slysalegt að slíkt skuli hafa hent en málið vekur umræður og umhugsun sem getur verið lærdómsrík og nauðsynleg fyrir alla.

Það eru nefnilega takmörk eins og Svíar segja stundum.

Sumir eiga erfitt með að skilja viðbrögðin við ummælunum, sem RUV hefur beðist afsökunar á, en það er kannski auðveldara að skilja þessi viðbrögð ef við setjum dæmið þannig upp að snúa hlutverkum Austurríkismanna og Íslendinga við og spyrjum, hvernig við hefðu tekið hliðstæðum ummælum úr munni austurrísks íþróttafréttamanns í hálfleik, þar sem Austurríkismenn hefðu haft algera yfirburði í fyrri hálfleiknum, og þessi ummæli fengið flug víða um lönd:

"Austurríkismenn eru að gera það sama og nasistarnir á kafbátunum 1944, - að slátra Íslendingum."

Púff!

Fyndið?  Nei. Ekki fyrir Íslendinga og ekki heldur fyrir neinn, allra síst Austurríkismenn að landi þeirra dytti í þessa gryfju og austurríska sjónvarpið þyrfti að biðja HSÍ, RUV og íslensku þjóðina afsökunar.

Það er mannlegt að skjátlast og allir geta gert og gera mistök.  Ég hef trú á Birni Braga Arnarssyni, hæfileikaríkum og skemmtilegum ungum manni, sem á framtíðina fyrir sér, einkum ef hann axlar til fulls ábyrgð á mistökum sínum og lærir af þeim. Geri hann það, lærir að lifa með þessum mistökum og nýtir hæfileika sína skynsamlega mun honum vel farnast og njóta góðra verka sinna.

En það þurfum við raunar öll að gera. Hér á landi hafa svona mál verið tekin of lausum tökum almennt og eðli svona mála ekki rætt nógu vel eða hve nauðsynlegt er að viðhafa aðgát í nærveru sálar.

Vonandi verður hægt að höndla þetta mál þannig að lágmarka tjónið af því með lagni, skilningi, auðmýkt og vilja til að læra af því.  

  


mbl.is RÚV biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að stórminnka flugbann.

Gosið í Eyjafjallajökli 2010 var tímamótaeldgos hvað snerti afleiðingar þess á flugumferð og samgöngur í heiminum, eftirköst þess og afleiðingar.

Grundvallarástæðan var reyndar alvarlegt flugatvik mörgum árum fyrr yfir Indónesíu, þar sem stórþota flaug óvart í gegnum fljúgandi öskukökk í blindflugi sem slökkti á  öllum hreyflum vélarinnar.

Þegar þeir kólnuðu á niðurleið losnaði bráðin öskuskánin hins vegar þannig að þeir hrukku í gang á síðustu stundu.

Þegar Eyjafjallajökull gaus og askan úr honum barst í átt til Evrópu fóru menn eðlilega á límingunum og notuðu tölvulíkön til að reikna út hættusvæði, sem fjótlega sást og hefur nú komið í ljós að voru allt of stór og í flestum tilfellum óþörf.

Allar rannsóknir eru mikils virði eins og sú sem er að fæða af sér möguleika á að spá fyrir hæð og stærð öskumakkar. Jónas Elíasson 1

Meðfylgjandi myndir voru teknar á fyrirlestri Jónasar Elíassonar prófessors á dögunum, en ein myndanna, sem raunar er ekki sýnd hér, var tekin úr mikilli hæð fyrir sunnan land 1. maí 2010.

Á þeirri mynd sést hvernig brúnan gosmökkinn úr Eyjafjallajökli leggur undan stífum norðavestavindi í öllum hæðum til suðausturs en að öðru leyti er loftið hreint yfir Íslandi. Jónas Elíasson 2

Á þessum sama tíma ætlaði ég að fljúga frá Reykjavík austur á Hvolsvöll en vegna útreikninga tölvu í London var sett á flugbann til norðvesturs frá Eyjafjallajökli allt vestur að Þjórsá.

Samt stóð 30 hnúta vindur í jarðarhæð úr norðvestri í átt að fjallinu, 35 hnúta norðvestan nv-vindur í 5000 feta hæð,

40 hnúta nv-vindur í 10 þúsund feta hæð og 18 þúsund feta hæð. Þessar staðreyndir og ljósmyndin sýna að engin aska gat borist frá fjallinum á móti vindinum, sem samt var lokað fyrir flug ! TF-TAl mælingar 3TF-TAL mælingar 1

Áhugi á þessu kviknaði hjá Jónasi Elíassyni prófessor, sem síðan hefur rannsakað þetta mál í samvinnu við háskóla í Dusseldorf og í Japan.

Ásamt Jónasi blöskraði okkur Sverri Þóroddssyni blöskraði ástandið og Jónas smíðaði í samvinnu við Sverri lítið mælitæki, sem hægt var að nota á lítilli einshreyfils flugvél Sverris, TF-TAL. TF-TAL. Mælingar 2

Tækifæri til að nota það fékkst í Grímsvatnagosinu 2011 og með notkun þess á flugi á TF-TAL tókst í meira en sólarhring að halda opnum Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli í heiðskíru veðri, þegar tölvan í London staðhæfði að það yrði að loka völlunum vegna eldfjallaösku í loftinu!

Jónas hefur síðan fullkomnað tilraunir sínar og útreikninga í nálægð eldfjalls í Japan þar sem flogið var með mælitæki hans í svipaðri flugvél og á Íslandi, og við blasir að næst þegar gýs hér á landi ætti að vera hægt að stórminnka og jafnvel afstýra hundraða milljarða tapi vegna ótímabærs flugbanns.

Hinn eldvirki hluti Íslands er eitt af helstu undrum veraldar og það er vel að við Íslendingar séum í fararbroddi rannsókna sem gagnast öllum þjóðum varðandi þekkingu á eldfjöllum og eldgosum.

Frá landnámi hafa orðið þrjú svakaleg stórgos á svæðinu milli Fjallabakssvæðisins og Lakagíga með um 4-500 ára millibili, 934, 1480 og 1783. 

Skaftáreldar 1783 ollu dauða milljóna manna víða um heim og Eldgjárgosið 934 var enn stærra.

   


mbl.is Geti spáð fyrir um hæð gosmakkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært !

Ætli það séu ekki 40 ár síðan ég sá lokað svæði fyrir æfingaakstur á Spáni og reyndi að vekja athygli á gildi slíks hér á landi með þeim rökum, að úr því að mun fátækari þjóð en við gæti gert þetta, gætum við gert það líka. Þá voru Spánverjar ekki farnir að græða á ferðaþjónustunni neitt líkt því og síðar varð og enn undir einræðisstjórn Francos.

1978 kom í ljós í ferðalagi mínu til Sovétríkjanna að kennsla í akstri var skyldunámsgrein í skólum þar, í landi þar sem bílaeign var aðeins brot af því sem þá var hér á landi.

Í hönd fór áratuga bið eftir því að hreyfing kæmist á málið hér á landi. Fyrir nokkrum árum var sýndur ökuhermir á sýningu í Smáralind og í honum var til dæmis hægt að prófa sig áfram í sparakstri.

Því er fagnaðarefni þegar byltingarkenndur ökuhermir er kominn til skjalanna og vonandi að fleiri fylgi á eftir.

Það var fyrir löngu kominn tími til að nota nýjustu tækni og samræmt átak til þess að bæta akstursvenjur og akstursfærni okkar Íslendinga.

Það má ekki einbína á hvað svona átak kostar, því að ávinningurinn er margfalt meiri við að komast hjá þjáningum, meiðslum og miklu útgjöldum vegna tjóns á bílum og fólki.


mbl.is Tæknibylting í ökunámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt sjálfsagðir hlutir en sumt skrýtið.

Stundum er það svo að ljóð sem kölluð eru dægurlagatextar reynast vera alveg eins innihaldsrík og ljóð sem á ytra borði eru hátimbruð og flokkast undir djúpa list.

Ég hef til dæmis alltaf haldið upp á textann "Little things mean a lot" og fundist það vera góð lífspeki sem í honum felst.

Nú má sjá ýmsar niðurstöður mikillar og væntanlega dýrrar rannsóknar á lífshamingju fólks, sem flestar hverjar sýnast liggja í augum uppi og jafnvel óþarfi að eyða miklu fé og mannafla til að finna þær út.

Svolítið er nú ánægju mæðra með hlutskipti snúið með því að segja að mæður í óhamingjusömum samböndum séu ánægðastar allra jarðarbúa.

Samkvæmt því ættu karlmenn, barnsfeður kvenna, að gera allt sem þeir geta til þess að konur þeirra séu sem óhamingjusamastar!?

Og síðan er klykkt út með því að feður séu óhamingjusamari og óánægðari með lífið en þeir sem engin börn eiga !?

Detta  mér nú allar dauðar lýs úr hári, - ef eitthvað væri eftir af því.

Ég fer að efast um að peningunum, sem eytt var í þessa könnun, hafi verið vel varið.  

 


mbl.is Mæður í óhamingjusömum samböndum ánægðastar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð og máli lokið.

"Aðgát skal höfð í nærveru sálar". En stundum falla orð í hita augnabliksins sem betur hefðu verið ósögð.

Þau geta hafa verið sögð óvart, verið óviðeigandi, óþörf og ósæmileg eftir atvikum, jafnvel rugl, en þegar þau eru dregin strax til baka og beðist afsökunar,  á málinu að vera lokið og allir að hafa lært sitt og orðið menn að meiri.

Úr því að orðin "fóru í loftið" eins og sagt er, má skoða þau stuttlega, því að þau sýna greinilega að þau voru óhugsuð og í meira lagi ruglingsleg.

Austurríkismaðurinn Hitler innlimaði að vísu Austurríki í Þýskaland árið 1938 ( Anschluss) en hann slátraði ekki Austuríkismönnum það ár, því að svo var að sjá af fagnaðarmóttökunum, sem hann fékk í innreið sinni í Vín að meirihluti landsmanna væri sameiningunni samþykkur. Hitler var meira að segja valinn maður ársins 1938 hjá tímaritinu Time.

Í mars árið eftir innlimaði hann Tékkóslóvakíu gegn eindreginni andstöðu Tékka og fólkið grét á götunum af sorg þegar hann fór inn í Prag. Í hönd fóru árin fram til 1945 þegar sem nasistar slátruðu tugþúsundum austurrískra og tékkneskra gyðinga.

Sjálfur datt ég í þann pytt sem íþróttafréttamaður á áttunda áratugnum, þegar Austur-Þjóðverjar höfðu eitt sinn í landsleik í handbolta stillt upp þvílíkri vörn að ekkert skot komst í gegnum hana langtímum saman, að þá datt út úr mér: "Það er eins og þeir séu búnir að reisa Berlínarmúr í vörninni." 

Ég áttaði mig sem betur fer á því strax, að enda þótt samlíkingin ein og sér væri ekki út í hött, væri hún óviðeigandi og ósæmileg í vináttulandsleik í íþróttum, baðst strax afsökunar og dró ummælin til baka.

Mér fannst þetta kannski sjálfum fyndið í hita augnabliksins en sá strax að alvara málsins var slík að þetta var ekkert fyndið, - múr, sem var dauðans alvara og viðkvæmt mál, hafði kostað mörg mannslíf og kom íþróttalandsleik ekkert við.

Málinu var þar með lokið á stundinni og kannski er ég sá eini sem man eftir þessu, af því að það var lærdómsríkt fyrir mig persónulega. Mál- og prentfrelsi er að vísu dýrmætt, en, eins og segir í siðareglum blaðamanna, á umfjöllun ekki að vera meiðandi eða særandi að óþörfu.

  

 

 

 


mbl.is Biðst afsökunar á ummælum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður í manns stað? Ólafur Guðmundsson einn af þeim.

Það hefur verið ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hve mikið hefur mætt á helstu máttarstólpum íslenska landsliðsins í handbolta á EM.

Í fyrri hálfleik leiksins við Austurríki kviknar hins vegar von um að þetta geti breyst. Nýir menn hafa komið inn á og staðið sig frábærlega, til dæmis Ólafur A. Guðmundsson, sem hefur verið unun að horfa á.

Ástæða er til að minnast á hve mikils virði það er að fá hágæða lýsingu á leiknum hjá manni, sem sjálfur þekkir alla kima handboltans erlendis út og inn.

Markvarslan, vörnin, sóknin, flugeldasýning, unun.

Nú er að sjá hvernig spilast úr þessu í síðari hálfleik.


mbl.is Allt gekk upp gegn Austurríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hótel Borg tekur til starfa 1930."

Þessa dagana er þess minnst að Eimskipafélag Íslands var stofnað 17. janúar 1914, eða fyrir réttum 100 árum. Stofnun þess var stór áfangi í sjálfstæðisbaráttunni, því ein af ástæðum þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262 var sú, að landsmenn gátu ekki lengur tryggt nægar samgöngur við landið og sömdu við Noregskomur um að gera það.

Þegar ég leit í minnisbókina mína í morgun sá ég að við 18. janúar stendur: "Hótel Borg tekur til starfa 1930."

Ég veit ekki hvort við gerum okkur fulla grein fyrir því hve mikill áfangi þetta var í menningarlífi okkar og þjóðlífi því að nú um stundir eru það vart tíðindi þótt tekin hótel í notkun hér á landi.   

En 1930 var öldin önnur. Fram að því hafði ekkert hótel verið á landinu sem gat staðist samjöfnuð við bestu hótelin í öðrum löndum. Ekkert þáverandi hótela var í steinhúsi og gat boðið upp á 1. flokks þjónustu og aðstöðu.

Aðeins örfá stórhýsi voru á Íslandi þá.

Á þeim tíma sem Hótel Borg var tekin í notkun hefði það líklega verið eina hótel landsins sem hefði getað státað af fimm stjörnum á þess tíma mælikvarða.

Helstu hótelin í Reykjavík voru Hótel Ísland, Hótel Vík og Hótel Hekla, öll í timburhúsum og ekki sambærileg að gæðum við það besta erlendis.

1930 var stórkostlegt ár á Íslandi, enda í lok "the roaring twenties", gríðarlegs uppgangstíma, einkum í Ameríku en einnig í Evrópu, þótt í minna mæli væri þar, því að Evrópa og heimsveldi hennar voru enn ýmist í sárum eða í rúst eftir Heimsstyrjöldina fyrri.

Ríkisútvarpið, Landsspítalinn, koma Zeppelin-loftfaranna, stórglæsileg Alþingishátið o. fl. setti mark sitt á árið, því að áhrif hrunsins á Wall street og upphafs kreppunnar miklu, voru ekki komin fram.  

Hótel Borg reis því á hárréttum tíma og það kom í veg fyrir að bíða þyrfti í 30 ár í viðbót eftir slíku, því að næsta hótel í líkingu við Borgina reis ekki fyrr en 30 árum síðar, Hótel Saga.

Eftir 1930 fór kreppan í hönd, síðan stríðsárin, þegar bygging stórhýsis og hótels hefði verið óhugsandi, fram til 1950 voru Þjóðleikhúsin og endurnýjun fiskiskipaflotans í forgangi og eftir 1950 áburðarverksmiðja og Sogsvirkjanir.  

Stórhuginn og afreksmaðurinn Jóhannes Jósefsson færði landi sínu og þjóð því mikið með því að ávaxta sitt pund hér en ekki í Vesturheimi og gera með því mikið gagn.

1944 brann Hótel Ísland og má nærri geta hvílíkt ástand hefði skapast þá ef Hótel Borgar hefði ekki notið við.

Fjögur hús sem kallast á í miðborg Reykjavíkur, Iðnó, Menntaskólinn í Reykjavík, Sjálfstæðishúsið (NASA) og Hótel Borg mörkuðu tímamót í mínu lífi og því fyllist ég þakklæti þegar mér verður hugsað til þeirra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband