Færsluflokkur: Bloggar
1.12.2013 | 13:57
Lærdómsríkt mál.
Tyrkneskur tölvuhakkari hefur heldur betur hrist upp í fjarskiptakerfinu hér á landi og afhjúpað veikleika, ekki bara gagnvart kerfinu sjálfu, heldur líka gagnvart upplýsingagjöf fyrirtækja.
Það var átakanlegt að heyra viðbrögð fjölmiðlafulltrúa Vodafone í hádegisfréttum útvarps í gær þegar hann var að réttlæta kattarþvott fyrirtækisins varðandi rangar upplýsingar um hina grafalvarlegu stöðu sem blasti við.
Í hádegisfréttum kom í ljós að þau Gunnar Hrafn Jónsson og Alma Ómarsdóttir höfðu unni hratt og vel næstu klukkustundir á undan til þess að upplýsa um hið raunverulega ástand, sem var það að hver sem er gat farið inn á slóðina sem tyrkneski hakkarinn skildi eftir og séð þar trúnaðarsamskipti tugþúsunda Íslendinga í öllum þrepum þjóðfélagsins, allt upp í þingmenn og ráðherra.
Á sama tíma lét Vodafone eins og þessi staðreynd, sem blasti við öllum, væri ekki til.
Ein afsökunin var sú að á þeim tíma, sem fréttatilkynning Vondafone var send út, hefði fyrirtækið ekki vitað betur.
Aumt var það.
Þarna var um að ræða alvarlegustu árás af þessu tagi sem gerð hafði verið hér á landi, og á sama tíma og tveir útvarpsfréttamenn höfðu afhjúpað málið allt og veitt bráðnauðsynlegar upplýsingar áttu útvarpshlustendur að trúa því að sérfræðingar fyrirtækisins og upplýsingafulltrúi hefðu ekki vitað neitt í sinn haus.
Aðeins tvær skýringar gátu verið á því: Annað hvort sváfu þessir menn algerlega á verðinum fram undir hádegi, eða reyndu að lágmarka skaðann með því að veita rangar upplýsingar. Beinskeyttar og nauðsynlegar spurningar Ölmu vörpuðu skýru ljósi á málið.
Síðan var það innanhússmál hjá Vodafone hvort sérfræðingar fyrittækisins leyndu upplýsingafulltrúann þessum staðreyndum og véluðu hann þar með til þess að senda út rangar upplýsingar eða hvort upplýsingafulltrúinn var þvingaður til að makka rétt.
Í slíku tilfelli er það umhugsunaratriði fyrir hvaða fjölmiðlafulltrúa sem er, hvort hann hefur geð í sér til að vinna áfram fyrir slíka húsbændur og segi ekki frekar upp og beri við trúnaðarbresti.
Hafi upplýsingafulltrúinn hins vegar verið of seinn á sér til að birta umsvifalaust réttar upplýsingar hlýtur hann að skoða alvarlega í eigin barm.
Bogi Ágústsson lýsti frumatriðum þessa máls, sem snertir kjarna allrar fjölmiðlunar, vel í facebook færslu sinni í gær.
Sá sem ætti að vera fyrirmynd allra fjölmiðlamanna, Kristur, sagði það eitt um erindi sitt á jörðinni, þegar Pílatus spurði að því að hann væri "kominn til að bera sannleikanum vitni". Og Pílatus spurði grundavallarspurningar á móti: "Hvað er sannleikur?"
![]() |
Öryggisáætlun Símans virkjuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.11.2013 | 20:56
"Fugl í skógi"?
Ofangreind orð notaði Bjarni Benediktsson í sjónvarpsumræðum fyrir kosningarnar í vor varðandi það hvernig erlendir "hrægammar" og vogunarsjóðir myndu verða látnir borga skuldaniðurfellingu heimilanna.
Eftir kosningarnar hef ég ekki heyrt orðin "hrægammar" eða vogunarsjóði nefnda, enda er ekki hægt að skilgreina stóran hluta kröfuhafanna í þrotabúum bankanna með þessum heitum af þvi að þar er um að ræða ósköp venjulega kröfuhafa af ýmsu tagi, fyrirtæki, einstaklinga, lífeyrissjóði og opinbera sjóði.
Nú svarar Sigmundur Davíð því til að það verði að bíða enn um sinn í ótiltekinn tíma eftir því að hægt verða að sækja fé í þennan langstærsta fjársjóð, sem kosningaloforð Framsóknarmanna byggðust á.
Forsætisráðherra er bjartsýnn um að málaferli vegna jólagjafar hans vinnist og það kann vel að vera rétt. Áður en það vinnst verður þó þar líka um að ræða "fugl í skógi."
Jólagjöf ríkisstjórnarinnar virðist við fyrstu sýn vera afrakstur nokkuð haganlega unnrar úrlausnar.
Vel má vera að allt fari á besta veg og að þetta skili einhverjum árangri þótt tíminn verði að leiða það endanlega í ljós. Og vonandi fer þetta allt saman vel svo að betur sé farið af stað en heima setið.
Ef það hins vegar heppnast ekki og afleiðingarnar lenda á ríkissjóði á endanum er hætt við að sá stóri hluti þjóðarinnar sem ekki fær neina jólagjöf núna frá ríkisstjórninni til að bæta fyrir "forsendubrestinn" sem allir urðu fyrir, en verður síðar að borga brúsann, verði ekki ánægður.
Enda myndu þau útgjöld líka lenda á þeim sem nú fá gott í skóinn.
![]() |
Greiðslubyrði lána lækkar strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
30.11.2013 | 16:16
"Holla skítur!"
Með árunum hefur myndast ákveðið blótsyrði hjá mér, sem ég kalla upp ef ég er einn á ferð og enginn heyrir til.
Ég kalla upp: "Holla skítur!", eða "holla skíturinn!" og er orðið "holla" ekki borið fram eins og orðið hollur heldur eins og þegar talað er um að taka inn fólk "í hollum".
Þetta blótsyrði mitt varð einhvern veginn til sem hljóðlíking við enska blótsyrðið "holy shit" , - og ef menn fallast á það að nafnorðið "holl" hafi áunnið sér rétt í íslensku, þýðir blótsyrðið mitt að skíturinn sé það mikill að hann sé í hollum.
Að sjálfsögðu er lítið vit í þessu, enda aldrei ætlunin, - ég nota þetta aðeins þegar enginn annar heyrir til og einhvern veginn varð þetta til af sjálfu sér.
Vildi gjarna hafa dottið niður á eitthvað skárra, en orðinn of vanur þessari upphrópun til þess að reyna að breyta henni úr þessu. Ansans vandræði það, - holla skíturinn! "
![]() |
Hvað áttu að segja í staðinn fyrir sjitt? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2013 | 15:11
Eitt magnaðasta markaðsafrek allra tíma.
Árið 1960 var Chevrolet Corvair byltingarkenndasti bíll hvað hönnun og alla gerð snerti, sem bandarísku bílarisarnir hafa sett á markað.
Vélin var afturí, ekki frammi í. Hún var loftkæld en ekki vatnskæld. Hún var flöt "boxaravél" en ekki upprétt og aldrei fyrr höfðu bílaverksmiðjur framleitt sjálfar sex strokka boxaravél.
Tucker var að vísu með flest af þessu 1948, en vélin í þeim bíl var flugvélahreyfill, framleidd af Franklin, og aðeins 51 eintak var smíðað.
Corvair fól hins vegar í sér markaðlseg mistök. Vélin varð mun þyngri en upphaflega stóð til, það þurfti alveg nýja þekkingu og verkfæri til að gera við hana og viðhalda henni enda frekar flókin, til dæmis sem sex aðskilin "hedd".
Þetta var einfaldlega of byltingarkenndur bíll.
Ford setti á flot álíka stóran ósköp venjulegan bíl, Falcon, sem laghentur eigandi gat gert við í bílskúr sínum og seldist mun betur en Corvair.
Á árunum 1961-63 reyndi GM að auka úrval Corvair bíla með því að framleiða skutbíl og sportgerðina Monza. Heildarsalan jókst að vísu ekki en Monza seldist miklu betur en venjulegi bíllinn.
GM áttaði sig hins vegar ekki á því að þarna hafði myndast alveg nýr markhópur kaupenda, fólk sem vildi eiga nettan og léttan sportlegan bíl sem gæti tekið fjóra í sæti, þótt þröngt væri setið í aftursæti.
Lee Iacocca var markaðsmaður hjá Ford og kom auga á þetta.

Hann náði eyrum yfirmanna sinna og til varð Ford Mustang, í grunninn svipaður Falcon og með sömu vélum, en útlitið var nýbreytni í amerísku bílaflórunni, ný stærðarhlutföll, bíllinn hlutfallslega nokkuð breiður og lágur, með óvenju langa vélarhlíf, lágt og frekar stutt farþegarými og stuttan og kubbslegan afturenda.
Studebaker sett að vísu á flot Avanti, sportbíl með líku útliti og Mustang, en hafði enga burði til að gera hann að mikilli söluvöru, enda verðið alltof hátt.
Svo sannfærða gerði Iacocca yfirmenn sína um að Mustang dæmið myndi ganga upp, að enda þótt bíllinn kæmi fram og byrjað væri að selja hann á allt öðrum tíma árs en tíðkaðist venjulega, seint í apríl, yrði hægt að anna eftirspurninni, nánast sama hver hún yrði.
Af því að grunnur bílsins, vélar og driflína áttu svo margt sameiginlegt með Ford Falcon og Mercury Comet, gátu samlegðaráhrif þessara bíla tryggt þetta og Mustang var afar einfaldur í öllu viðhaldi.
Skemmst er frá því að segja að Ford Mustang varð eitt mesta markaðsafrek allra tíma að mínum dómi, - kannski ekki eins stórfellt og Ford T hafði verið á sínum tíma, en örugglega mesta markaðsáhlupið, fór alla leið á örfáum mánuðum.
Byrjað var að selja bílinn 17. apríl 1964, en áður en árið var liðið höfðu selst meira en 700 þúsund eintök af bílnum á aðeins rúmlega átta mánuðum. Hann fangaði hug allra stétta og allra aldurshópa, enda var boðið upp á meira úrval af sérbúnaði en þekkst hafði fram að því.
Það var hægt að kaupa hræódýran, léttan einfaldan og sparneytinn Mustang með lítilli 2,7 lítra sex strokka Falcon vél, álíka þungan og Volkswagen Golf er núna, en líka með úrvali af V-8 vélum allt upp í fimm lítra á þriðja hundrað hestafla véla sem tilsvarandi drifbúnaði og fjöðrun.
Fólk flykktist í hundraða þúsunda tali í sýningarsali til að skoða bílinn, vörubílstjórnar óku hugfangnir og annars hugar upp á gangstéttir og inn í búðarglugga og Mustanginn tók Ameríku með trompi.
Þegar við Helga komum til Los Angeles á þessum árum tók rígfullorðin kona, Jóna Freymóðsdóttir, á móti okkur á Ford Mustang, einhver ólíklegasta manneskja sem hugsast gat til þess að aka sportbíl með tilþrifum.
En Mustanginn hennar var þræl sparneytinn, ódýr í rekstri og lipur í akstri, og rýmið frammi í var afar gott.
![]() |
50 ára saga Mustang á 100 sekúndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2013 | 03:45
Gott að hafa verið jólaglöggur alla tíð.
Lögreglan stöðvaði mig í fyrrakvöld og lét mig blása af öllu afli í blöðru. Ég er í ágætu formi og blés ekki úr nös eftir þetta.
Því hefðu ekki fundist nein merki um kókaínneyslu hjá mér þótt leitað hefði verið að þeim.
Löggan hafði ekkert upp úr þessu, enda hef ég verið allsgáður frá fæðingu og því með jólagleggstu mönnum landsins. Býð mig fram sem Gáttaþef til að þefa upp í menn eftir vínangan og auka þannig afköst í leitinni að slompuðum ökumönnum.
Ég fagna því hve löggan er jólaglögg þessa dagana hvað varðar neyslu á samnefndum vökva.
Lögreglan má gera meira af þessu. Bendi henni á að láta Gunnar Eyjólfsson blása líka því að hann er í meiri öndunaræfingu en flestir aðrir hér á landi.
![]() |
Jólaglöggið ekki í umferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.11.2013 | 16:50
Drullusvaðið í Syðri-Straumfirði 1999.
Undir forystu Arngríms Hermannssonar var farin fyrsta og eina jeppaferðin fram og til baka yfir Grænlandsjökul í maí 1999. Frá upphafi til enda unnu fræknir leiðangursmenn frækið afrek, og enda þótt ég gerði nokkra fréttapistla um þetta á meðan á leiðangrinu stóð er eftir að gera heimildarmynd úr öllu efninu.
Eftir að leiðangursmenn höfðu sigrast á yfirgengilega stórum og úfnum skriðjöklum í fjórgang, bæði á vestur- og austurströndinni, var komið niður í langan dal inni af Syðri-Straumfirði og þegar aðeins voru örfáir kílómetrar eftir datt engum í hug annað en að sigrast hefði verið á öllum hinum ótrúlegu hindrunum sem urðu á vegi leiðangursins.
En þegar komið var að síðustu smáhæðinni sem var eftir á leiðinni þurfti að fara yfir nokkuð stórt drullusvað.
Arngrímur var fremstu á einum af þremur ofurjeppunum en þegar hann kom út í svaðið var það svo sleipt, þótt það væri ekkert sérlega djúpt, að hann strandaði þar alveg og komst hvorki lönd né strönd.
Uppi á jökli hafði verið hægt að gera alls konar undakúnstir, nota hugvitsamlegar grindur framan á bílnum og hleypa úr hinum stóru hjólbörðum, en ekkert slíkt dugði hér.
Þetta var sprenghlægilegt en Arngrími var samt ekki skemmt að þurfa að beygja sig fyrir ósköp auvirðillegu drullusvaði og láta draga sig upp úr því eftir öll afrekin að baki.
![]() |
Skriðdreki festist í drullupolli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.11.2013 | 13:20
Hafa forsendur breyst ?
Ekki veit hve oft það mál hefur komið upp að leggja hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
Í fyrri skiptin hafa mikill stofnkostnaður og rekstrarkostnaður, miðað við tekjur, ævinlega hrundið þessum áformum.
En ævinlega koma þau aftur upp á borðið.
Fyrrum var talað um um 30 milljarða á þávirði, en núna er talan 100 milljarðar uppi á borðinu.
Forsendur hljóta því að vera breyttar verulega ef þetta á að geta gengið núna.
Margir hafa rætt um að svona lest gerði Reykjavíkurflugvöll óþarfan en þá gleymist það, að eftir sem áður lengist samanlögð ferðaleið fram og til baka milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar um 170 kílómetra ef innanlandsflugið er flutt til Keflavíkur og sömuleiðis missir millilandaflugið varavöll.
![]() |
Borgin skoðar háhraðalest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
28.11.2013 | 22:40
Hve margar hæðir er útvarpshúsið?
Þetta gæti verið ágæt spurning í Útsvari eða Gettu betur. Flestir sem sjá húsið sjaldan myndu giska á þrjár hæðir, af því þriðja hæðin, sem er neðst í skrifstofuturni hússins sést ekki í næsta nágrenni þess og fyrsta hæðin ekki þegar komið er vestan að húsinu.
En rétt svar er: Sex hæðir, já, 6 hæðir! Sumir skilgreina hæðina sem bílakjallarinn er í sem kjallara, en undir þeim kjallari er annar kjallari, ótrúlegt en satt, sem er nokkurs konar leynihæð.
Sá kjallari hýsir hið óhemju stóra og dýra loftræstikerfi hússins, sem einnig tekur að mestu yfir þriðju hæðina og tekur einnig mikið rými samtals á öllum hæðum!
Af hverju er loftræstikerfið svona mikið skrímsli? Af því að í húsinu er brotin eitt af elstu lögmálum arkitektúrs eða húsasmíðarlistar, sem er þess efnis, að sé breidd húss yfir ákveðnum mörkum, verða loftræstivandamálin óviðráðanleg.
Þess vegna eru til dæmis Pentagon fimm raðir mjórra húsa í fimmhyrningi, Lovre-safnið í París og byggingarnar við Thames í hjarta London mjóar og langar byggingar.
Loftræstikerfið safnar að sér óhreinindum. Þegar ég var með stíflugulu og ofsakláða í þrjá mánuði 2008 varð ég gersamlega viðþolslaus af kláðanum um leið og ég kom inn í þetta skelfilega hús.
Húsið var aldrei hannað sem allsherjar útvarpshús með hljóðvarpi, sjónvarpi og tækjadeild, heldur átti þetta hús að vera eingöngu fyrir hljóðvarpið, en annað hús við hliðina fyrir sjónvarp og þriðja húsið sem tækjahús!
Í stað þess að setjast niður þegar hætt var við að reisa öll þessi hús og hanna nýtt og smærra hús fyrir alla starfsemi RUV, var reynt að lappa upp á hljóðvarpshlutann með því að troða þar öllu inn!
Farið var um alla Evrópu til að finna fyrirmynd og útvarpshúsið í Dyflinni tekið sem helsta fyrirmynd.
Þegar hópur írskra blaðamanna kom í heimsókn til Íslands og var sagt frá þessu, fengu þeir hláturskast og spurðu hvernig í ósköpunum okkur hefði dottið í hug að taka misheppnaðasta útvarpshús Evrópu sem fyrirmynd.
Önnur spurning: Af hverju er húsið svona ofslega breitt og breiðir flatt þak út fyrir neðan skrifstofuturninn?
Írsku blaðamennirnir svoruðu: Af því að við hönnum útvarpshússin í Dyflinni var þetta haft svona svo að koma mætti fyrir vélbyssum umhverfis skrifstofuturninn til að verjast árás skæruliða !
Útvarpshúsið hefur kostað íslenska menningu milljarða sem betur hefði verið varið í að framleiða menningarefni. Því að það er laukrétt sem Hrafn Gunnlaugsson sagði: Útvarpshús er verksmiðja sem framleiðir menningarefni, en á ekki að vera fáránlega dýrt og óhagkvæmt montmusteri.
Það má kasta því fram að gott væri að geta selt útvarpshúsið. En hver væri svo vitlaus að kaupa svo afkáralegt rekstrarskrímsli ?
Líklega er það einsdæmi í veröldinni að starfsmannafélag stofnunar hafi einróma skorað á stjórnvöld að flytja ekki starfsemi hennar í splunkunýtt hús úr húsi, sem var hannað fyrir allt öðru vísi starfsemi (Bílasmiðjuhús).
En engu skipti þótt starfsmenn Sjónvarpsins grátbæðu stjórnvöld um þetta þegar til stóð að ana út í byggingu þessa fáránlega húss. Það var eins og að skvetta vatni á gæs.
![]() |
Páll vill selja útvarpshúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.11.2013 | 18:27
"Svokallað Hrun".
Til eru þeir áfram sem halda því fram enn og aftur að vegna þess að í Hruninu hafi verið um að ræða peninga, sem "voru aldrei til" hafi í raun ekki orðið neitt hrun, heldur hafi þetta í raun verið froðupeningar sem voru einskis virði og tjónið að sama skapi lítið sem ekkert.
Þetta er aldeilis fráleitt. Hvað um þúsundir og jafnvel tugþúsundir fólks, sem átti sannanlega einhverjar eignir áður en allt fór á fulla ferð og tapaði ekki aðeins viðbótareignum heldur öllu sem það hafði átt áður en hrunadansinn hófst?
Hvað um samdrátt, uppsagnir og atvinnuleysi, sem Hrunið leiddi af sér? Bara "froða" og ekkert annað?
![]() |
Kröfur vegna peninga sem voru aldrei til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.11.2013 | 20:14
Stórfellt sinnuleysi um menningarverðmætin.
Þingsályktunartillagan um varðsveislu menningarverðmæta er afar þarft mál. Þótt þjóðskjöl séu varðveitt í tveimur eintökum sitt hvorum megin á landinu er það aðeins hluti af menningarverðmætum landsmanna og sá vaxandi hluti hans sem felst í mynd- og hljóðefni er stórlega vanmetinn.
Auðvitað ætti slíkt efni að vera varðveitt í tveimur eintökum sitt hvorum megin á landinu við viðunandi skilyrði og brýnt að koma því öllu yfir í aðgengilegt og fyrirferðarlítið, öruggt form.
Ég hef talað fyrir þessu í áratugi en allt of lítið hefur verið gert í þessum efnum.
![]() |
Vilja varðveita menninguna stafrænt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)