Færsluflokkur: Bloggar

"Setja jarðýtu á Korpúlfsstaði" í dag ?

Af sérstökum ástæðum er ég að blaða í nákvæmlega 20 ára gömlum dagblöðum i dag og sé í DV um þetta leyti þá, að samkvæmt skoðanakönnun blaðsins voru 62% þeirra, sem tóku afstöðu, fylgjandi því að húsin sem þá og nú standa á Korpúlfsstöðum jöfnuð við jörðu en aðeins 38% meðmælt því að gera húsin þar að því sem þau eru í dag.

"Láta jarðýtu brjóta húsin niður", -  "þetta var reist sem fjós, burt með það." Svona ummæli mátti sjá hjá þeim yfirgnæfandi meirihluta sem vildi láta brjóta þessi stórmerkilegu, einstæðu og flottu hús brautryðjandans Thors Jensens niður.

Ætla hefði mátt að fylgjendur Sjálfstæðisflokksins hefðu kannski verið eitthvað veikari fyrir sögulegu gildi hússins sem ríkasta manns á Íslandi á sinni tíð og föður Thorsaranna, sem voru burðarásar í Íhaldsflokknum og síðar Sjálfstæðisflokknum fram yfir 1960.

En rétt eins og Sjálfstæðismenn sáu ekkert gildi í Kveldúlfshúsunum og Völundarhúsinu við Skúlagötu voru þeir jafn ólmir og aðrir í að mölva Korpúlfsstaði mélinu smærra fyrir réttum 20 árum.

Gaman væri ef haldin væri skoðanakönnun í dag um það hvort fólk teldi rétt að hafa látið Korpúlfsstaði standa og nota þá eins og nú er gert.

Eða hvort rétt hefði verið að jafna Bernhöftstorfuna við jörðu og endurbyggja ekki húsin á horni Lækjargötu og Austurstrætis og húsin tvö neðst við Laugaveg.


Af hverju þessi sérstaða í fréttaflutningi?

Löng hefð er komin á varðandi fréttaflutning af viðburðum, sem koma til kasta lögreglu.

Kvikni í húsum eða öðru er látið vita af því og yfirleitt hefur það verið látið fréttast snemma þegar sérsveit lögreglu hefur verið kölluð út vegna hættu.

Þegar hættuástand myndast eins og í aðgerðunum í Hraunbæ er það öryggisatriði að láta almenning vita af því hvenær sólarhringsins sem er.

Þess vegna hlýtur sú spurning að vaka hvers vegna aðgerðirnar í Hraunbæ voru í raun þaggaðar niður lengi vel, þótt fregnir bærust af minni atburðum.

Varla getur það hafa verið gert til að koma í veg fyrir að forvitið fólk streymdi á staðinn enda ætti þá að reyna að leyna hverju því sem fréttnæmt er á sviði löggæslu.

Stóra fréttin í Hraunbæ var ekki aðeins það að í fyrsta sinn í sögu landsins var maður skotinn í skotbardaga við lögreglu heldur það mikla ófremdarástand sem ríkir í málefnum geðsjúkra.  


mbl.is Meta hvort fréttaflutningur skapi hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær Frans aftur svipað starf?

Í tilefni af því að Franz páfi hafi fyrrum verið útkastari á næturklúbbi má skella þessu fram:

 

Útkastarar eru hér

út um breiða sviðið.

Frægastur samt allra er

einn við Gullna hliðið.

 

                           Herrann Pétur heitir sá

                           og hefur lengi starfað

                           Brátt hann um það biðja má

                           við betra djobb fá garfað.

 

Afleysingar- mætan mann

mun hann verða að fá þar 

vanan strák er starfið kann

og sterkum tökum ná þar.

 

                              Einn þá páfi er þar næst

                              sem á því ná mun tökum,

                              upp til himna eflaust fæst

                              með afar sterkum rökum.

 

Dýrir verða dómar hans,

drengjunum í syndafans

þegar segir "farvel", Frans,

"og farðu nú til andskotans."


mbl.is Páfinn vann sem útkastari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkar Birgis og Eysteins?

Alþingismennirnir Eysteinn Jónsson og Birgir Kjaran voru meðal helstu brautryðjenda í náttúruvernd í Íslandi á liðinni öld. mynd

Eysteinn var alþingismaður í fjóra áratugi, ráðherra í rúm 20 ár og varaformaður og síðar formaður Framsóknarflokksins.

Hann studdi alla tíð náttúruvernd og beitti sér fyrir stofnun Náttúruverndarráðs enda mikill náttúruverndarmaður og útivistarmaður.

Ég kynntist þessu í ferðum, sem ég fór með honum um landið þegar ég skemmti á héraðsmótum Framsóknarmanna á sjöunda áratugnum.

Þá miðlaði hann af fróðleik sínum og reynslu á þessu sviði. 62-220

Birgir Kjaran alþingismaður var einnig ötull náttúruverndarmaður og formaður Náttúruverndarráðs 1960-72, en þá tók Eysteinn við formennsku.

Í tíð þessara tveggja manna var unnið mikið brautryðjendastarf með gerð viðamikilllar náttúruminjaskrár yfir friðlýst svæði og önnur merk svæði hvað náttúrufar snertir.

Þegar hugsað er til þessara tveggja frumherja í röðum Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna hljómar nöturlega herhvöt Gunnars Braga Sveinssonar til samherja sinna í þingflokki Framsóknarmanna með sms-skeyti á útmánuðum 2013 um að standa vaktina sem allra best gegn náttúruverndinni í beitingu málþófs á Alþingi til að koma í veg fyrir afgreiðslu náttúruverndarlaga.

Og síðan hin dæmalausa einhliða tilskipun umhverfisráðherra flokksins um að hann hefði ákveðið að afturkalla náttúruverndarlögin.

Alþingi hvað?


Kína var ekkert stórveldi.

"Kínverjar þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir eru ekkert stórveldi heldur aðeins gamalt asískt land..." 

Svona hefðu Bretar getað talað niður til Kínverja allt fram að miðri síðustu öld í lok eymdartíma hins gamla stórveldis sem Kína hafði verið fyrr á tímum.

Á þeim tíma sem vestrænu nýlenduveldin blómstruðu best nýttu þau stöðu sína til þess að kúga kínverja og lítillækka þá.  Þar fóru Bretar fremstir í flokki.

Hæst skein dýrðarsól Breta fyrir réttum hundrað árum, áður en Fyrri heimsstyrjöldin skall á.

Þá hneig sólin aldrei til viðar í hinu mikla breska heimsveldi.

Styrjöldin og heimskreppan fóru illa með Breta og Seinni heimsstyrjöldin, sem Churchill vildi ekki aðeins heyja til að bjarga vestrænu lýðræði, heldur enn frekar til að viðhalda heimsveldinu, varð líkkistunaglinn í veldi Breta jafnframt því sem ný stórveldi, Bandaríkin og Sovétríkin, tóku við.

Breska nýlenduveldið hrundi og á tímabili var jafnvel talað um Bretland sem  "vesaling Evrópu", ("the sick man of Europe").   

Um 1970 fóru Japanir að rétta hratt úr kútnum og uppgangur Kínverja hefur verið ævintýri líkastur síðustu tuttugu ár.  Auk þess hafa Indland og Suður-Kórea styrkt stöðu sína sem efnahagsveldi.

Ég man þá tíð þegar Kína var vesalingur en sagt var: "Kína er sofandi risi. Guð hjálpi okkur þegar hann vaknar".

Síðustu ár hafa þessi orð fengið nýja merkingu. Ummæli kínverska sjónvarpsins, ef rétt eru eftir höfð, lýsa hroka en ekkert er nýtt undir sólinni. Ummæli vestrænna nýlenduherra um Kínverja voru ekki síður hrokafull í mínu ungdæmi.  


mbl.is Bretland ekkert stórveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílíkt fimbulfamb um það hvernig RUV hafi brugðist.

Nú sér maður það á blogginu að sumir þeir sömu og vilja að Ríkisútvarpið verði lagt niður eða fjársvelt sem mest kenna RUV um það að vitneskja um ástandið í Hraunbæ í fyrrinótt varð ekki öllum fjölmiðlum kunnugt fyrr en alllöngu eftir að það hefði getað orðið. 

Þessi bloggarar, sem vilja fjársvelta RUV sem mest, segja að lögreglunni beri ekki að segja fjölmiðlum frá því ef hættuástand myndast vegna óðs byssumanns, heldur eigi RUV að hafa fréttamann á vakt allan sólarhringinn við öll íbúðarhús landsins. Annars bregðist það skyldum sínum. 

Setjum sem svo að Veðurstofan hefði á undan síðasta Heklugosi ekki hringt í RUV 40 mínútum fyrir gos til að láta vita af því að samkvæmt ákveðnum vísbendingum á mælum myndi byrja að gjósa innan klukkustundar. En þetta gerði Veðurstofan og RUV brást strax við.

Samkvæmt ályktunum ofangreindra bloggar myndi það hafa verið RUV að kenna ef ekki hefði verið sagt frá síðasta Heklugosi fyrr en það hófst af því að fréttastofa RUV hefði ekki fastan fréttamann allan sólarhringinn til að vakta alla mæla Veðurstofunnar.

Raunar sagði RUV frá gosinu 40 mínútum áður en það hófst og var fyrst fjölmiðla með þá frétt, en eingöngu vegna þess að vaktmaður á Veðurstofunni lét fréttastofuna vita.

Visir.is sagði frá ástandinu í Hraunbæ um svipað leyti og RUV og ætti því sennilega að leggja báða helstu ljósvakamiðlana niður að mati óvildarmanna RUV, úr því að báðir "brugðust".  

Ofangreindir bloggarar fimbulfamba um hluti sem þeir vita greinilega ekkert um.

Allir fjöllmiðlar reyna að vera með puttan á púlsi fréttanna eftir bestu getu og hafa áratugum saman reynt að beita þrýstingi á almannayfirvöld, lögreglu og aðra um að láta fjölmiðla vita um allt það sem almenning varðar.

Sjálfur hef ég frá upphafi fréttamannsferils míns kappkostað að vera ævinlega í sem bestri viðbragðsstöðu varðandi það ef eitthvað gerist, sem kallar á sem fljótast viðbragð.

Ég gekk meira að segja í björgunarsveit og fór í leitir á flugvél minni á eigin kostnað  til að slá tvær flugur í einu höggi, leggja mitt fram við leit og björgun og geta í leiðinni verið á tánum sem fréttamaður fyrir mína fréttastofu.  

Ég er enn í þessari viðbragðsstöðu og þess vegna var ég meðal annars fyrstur til að taka góðar myndir í návígi og koma eim í birtingu af síðasta Grímsvatnagosi.  

Síðast i gær fór ég út á Reykjavíkurflugvöll til að snúa TF-FRÚ upp í vindinn og binda hana vel, skafa af henni snjó og losa um flapa. Stundum geri ég þetta daglega. 

Ég er ævinlega ef þess er nokkur kostur með allan jöklabúnað minn tiltækan í þeim bílum sem ég ek daglega og tek því árásir fyrrgreindra óvildarmanna RUV persónulega til mín. 

Allir fjölmiðlar og fjölmiðlafólk reyna að vera á tánum eftir því sem aðstæður og fjárráð leyfa til að geta flutt áríðandi fréttir sem fyrst og réttast.  

Síðan koma óvildarmenn RUV og sýna með skrifum sínum að þeir eigi enga ósk heitari en að lögreglan og önnur yfirvöld þegi sem lengst of fastast yfir því sem varðar almenning, bara vegna þess að það sanni að RUV bregðist skyldu sinni og sé óþarft.  


mbl.is Lögreglan lét fjölmiðla ekki vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blautt ár.

Ársin 2013 verður minnst sem blauta ársins, ekki vegna þess að úrkoman hafi verið eitthvað óskaplega mikil, heldur vegna þess að hún var svo mikil sumarmánuðina og sumrin þar á undan og raunar flest sumur síðustu tíu árin, höfðu verið svo staðviðrasöm, björt og hlý. 

Sumir kuldatrúarmannanna, sem ég kalla svo, gleðjast yfir því að árið skuli vera miðlungi hlýtt og jafnvel heldur svalara en meðalárin frá áramótum, en gleyma því, að loftslagsbreytingar gerast yfirleitt miklu hægara en svo að hægt sé að miða við hvert ár um sig.

Hitinn sveiflast upp og niður á svipaðan hátt og getið er um í ritningunni um sjö feit ár og síðan sjö mögur ár, en þegar dregin er lína í gegnum miðjurnar á niðursveiflunum og uppsveiflunum kemur samfelld hækkun fram frá árinu 1990 og raunar líka samfelld hækkun frá árinu 1890.  

Enda gengu skriðjöklar lengra fram það ár en nokkru sinni fyrr frá landnámi.  


mbl.is Næstum þrjátíu prósent meiri úrkoma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátleg "hugkvæmni" og meðvirkni.

Sérkennilega hugkvæmni má sjá birtast víðar en í því að senda jólapakka með smáþyrlum til viðtakenda. 

Þegar líður nær jóluim eykst örtröð við verslanir og þá er stundum erfitt að krækja sér í bílastæði. 

Ég hef fylgst svolítið með því hvernig stæði sérmerkt hreyfihömluðu fólki eru notuð og mest blöskrar mér þegar bílar með merki hreyfihamlaðra í framglugga eru misnotaðir á þann hátt að fullfrískir bílstjórar leggi þeim í sérmerktu stæðin og skokki síðan léttilega inn í verslanir eða stofnanir til að sinna erindum sínum eða hinna hreyfihömluðu.

Steininn tekur þó úr þegar hinn hreyfihamlaði situr inni í bílnum á með hinn lipri bílstjóri nýtir sér merkið sem bíllinn er merktur með til þess að misnota aðstöðu sína.

Í aðeins einu af þeim ótal tilfellum sem ég hef gefið mig á tal við það fólk, sem hefur farið svona að, hefur það séð neitt athugavert við það og að rökræða um málið hefur verið eins og tala við stein.

Finnst mér magnað að til skuli vera fatlað fólk sem finnst það í lagi að fullfrískir bílstjórar taki stæði af hreyfihömluðum með samþykki hins hreyfihamlaða skráða eiganda bílsins. 

Það er á hreinu að tilgangurinn með því að hafa merki í glugga bílsins er fólginn í því að auðvelda hreyfihömluðum að komast á milli bíls og húss en ekki að gera það auðveldara fyrir fullfrískt fólk.

Þess vegna er varla hægt að álykta öðruvísi en svo að heimska eða eigingirni eða jafnvel hvort tveggja felist í því að reyna að réttlæta misnotkun af því tagi sem virðist vera furðu algeng hvað snertir notkun bíla í eigu hreyfihamlaðra.  

Smá dæmi um "rökræðu" við einn líkamlega fullfríska bílstjórann.

 

"Þetta stæði er fyrir hreyfihamlaða".

"Já, það er svoleiðis merki í bílglugganum."

"En þú ert ekki hreyfihamlaður".

"Nei, konan mín er það, sem situr þarna í bílnum og á bílinn."

"Já, en þú fórst inn í húsið en ekki hún. Hún er búin að sitja allan tímann inni í bílnum."

"Já, en hún á bílinn og ég var að versla fyrir hana."

"Rétturinn til að nota stæðið fyrir þennan bíl gildir aðeins þegar hún þarf að fara út úr bílnum og inn í hann."

"Nei, hann gildir fyrir mig líika þegar ég fer inn í hennar erindagerðum".

"Hér eru tvö stæði og það var kominn bíll í hitt þannig að þú komst í veg fyrir að raunverulega hreyfihamlaður bílstjóri gæti lagt hérna af því að þú ollir því bæði stæðin voru upptekin."

"Það hefur áreiðanlega enginn slíkur bíll komið hér rétt á meðan ég var rétt að skjótast inn."

"Hvernig veistu það aðe enginn slíkur bíll hafi komið? Og hvernig átti sá sem var á þeim bíl að vita að þú ætlaðir bara "rétt að skjótast inn".

"Það er alveg óþarfi að hafa tvö stæði hérna fyrir fatlaða." 

"Jæja? Hér eru apótek, læknamiðstöð, bankaútbú og blokkir fyrir aldraða á bak við. "

"Ég gat ekkert vitað um það."

"Nei, en þú máttir vita að borgarstarfsmennirnir sem gerðu tvö stæði hér teldu vera nauðsyn fyrir þau."

"Nei, ég gat ekkert vitað um það."

"Leggurðu bílnum jafnvel í svona stæði án þess að konan þín sé með?

"Já, alltaf þegar ég get."  

"Og er konan þín ánægð með það? "

"Já, að sjálfsögðu, ég er að nota bílinn fyrir hana. Ég er með merkið í glugganum og hef rétt til þess og þér kemur þetta ekkert við."

"Jú, ég á fatlaðan son og mér kemur þetta víst við, og það jafnvel þótt ég ætti engan fatlaðan ættingja eða vin."  

"Hættu þessu helvítis röfli og dónaskap og hunskastu burtu." 


mbl.is Ætla að senda pakkana með smáþyrlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær bíll með barnasjúkdóma?

Tesla rafbíllinn er einn magnaðasti bíll sem ég hef skoðað og ekið, angandi af hugviti hönnuðanna. 

Galli við rafbíla hefur verið sá, að rafgeymarnir hafa tekið mikið rým og verið þungir auk þess sem drægi bílanna hefur verið allt of stutt til þess að þeir geti keppt við jarðefnaknúna bíla nema sem snattbílar í borgum eða annar af tveimur bílum sama eiganda.

Með því að nýta sér meðfærileika lítilla raflhlaðna eins og eru í farsímum hefur tekist að raða þeim þannig og dreifa um Tesla bílinn að þær taka svo litið rými, að það þarf næstum því að leita að þeim.

Í flestuim rafbílum eru rafhlöður undir gólfinu, en það gerir bílinn hærri og takmarkar lofthæð inni í farþegarýminu.

Tesla bíllinn er hins vegar þannig, að hann er næstum eins og sportbíll að hæð, með lægri bílum án þess að það skemmi fyrir rými fyrir farþegana.

Bæði að framan og að aftan eru stórar farangursgeymslur og það þarf líka að leita að aflvélinni.

Drægið er mörg hundruð kílómetrar og afl og viðbragð einstakt, því að rafhreyfill gefur fullt tog (torque) frá lægsta snúningshraða, en venjulegur bensínknúinn hreyfill fer ekki að toga að gagni fyrr en komið er á annað þúsund snúninga og nær ekki hámarkstogi fyrr en um 3000 snúninga.

Eðlilegt er að nýjung eins og rafbíl með hinni nýju Tesla-tækni fylgi barnasjúkdómar. Bensín- og olíuknúnir bílar hafa haft 120 ár til þróunar og eru enn í hraðri framþróun.   


mbl.is Tesla sætir rannsókn sökum elda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjartanlega sammála forsætisráðherra.

Áður en sambandslagalögin voru gerð og samnþykkt var Ísland hluti af Danaveldi líkt og Grænland og Færeyjar eru núna og Ísland hafði verið ófrjálst síðan 1262. 

Með sambandslögunum 1918 varð miklu meiri bylting í landshögum en með lýðveldisstofnuninni 1944 og það er vel til fundið hjá Morgunblaðinu að enda 100 daga hringferð sína í dag. 

Ástæðan var sú, að 1918 var í raun endanlega rutt burtu öllum hindrunum í vegi þess að Ísland yrði ekki aðeins frjálst og fullvalda ríki, heldur líka með tryggan möguleika til þess að verða lýðveldi frá og með árinu 1943 með eigin þjóðhöfðingja, því að fyrir þeim rétti var sérstakt ákvæði í sambandslögunum, sem kvað á um að þjóðín gæti sjálf ákveðið eftir 25 ár, hvort eða hvernig sambandinu við Danmörku yrði háttað, og slitið því ef hún vildi.

1. desember var mikill hátíðisdagur í mínu ungdæmi þótt þjóðhátíðardagurinn 17. júní væri kominn þá. 

Síðan hefur hallað undan fæti jafnt og þétt og kominn tími til að gera eitthvað til að efla ímynd dagsins.

Mikill einhugur þjóðarinnar kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandslögin á sínum tíma.

Samt tók innan við helmingur kjósenda á kjörskrá þátt í henni. Að sjálfsögðu hefur engum dottið í hug að gera lítið úr atkvæðagreiðslunni út af þessu, - ekki heldur þeir, sem aftur á móti ályktuðu sem svo að vegna þess að álíka margir tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá 2011 og 1918, hefði meirihluti þjóðarinnar verið á móti stjórnarskránni 2011 en ekki 1918 !


mbl.is Mætti gera meira úr 1. desember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband