Færsluflokkur: Bloggar
22.9.2013 | 21:44
Dýrðardagur frá sólrisi til sólseturs.
Dagurinn í dag var dýrðardagur frá sólrisi til sólseturs og svo sannarlega dagur til að skapa í flugferð fyrir sjónvarpsþáttinn "Ferðastiklur".
Flogið var og lent á nokkrum viðkomustöðum allt frá Dölum norður um Strandir og suður um Vestfirði og Breiðafjörð.
Svona heilsaði Hvalfjörður okkur í morgun spegilsléttur með Botnssúlur í baksýn.
Og einhvern tíma á útmánuðum mun væntanlega geta að líta sólarlagið yfir sunnanverðum Breiðafirði á leið suður í 8500 feta hæð.
Svona dagar hafa því miður verið miklu færri en undanfarin sumur, en kannski vorum við orðin of góðu vön.
Þess vegna var ánægjan því meiri þegar lent var í Reykjavík á níunda tímanum í kvöld.
![]() |
Afar fallegt sólarlag í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2013 | 09:07
Skelfa út fyrir landsteinana.
Það er ekki nýtt að uppreisnarmenn og stigamenn í Sómalíu hafi ekki aðeins látið að sér kveða innan landamæra landsins heldur líka í nágrannalöndunum Kenía og Eþíópíu.
Fyrir nokkrum árum fengu Eþíópíumenn Bandaríkjamenn til að gera flugskeytaárás á búðir þeirra í Sómalíu til þess að minnka ógnina af þeim.
Árið 2006 átti ég leið um suðausturhluta Eþíópíu með íslenskum trúboða áleiðis til El-Kere, sem er fjallahérað þar norður af. Í Hindane, héraðshöfuðborg, sem farið var í gegnum, fengum við aðvaranir um það að leiðin væri ótrygg vegna stigamanna, sem ættu það til að gera strandhögg á þjóðleiðinni og hverfa síðan til baka yfir landamærin.
Þetta fyllti mann ákveðnum óhug en ekkert gerðist í þetta sinn.
Á hafinu austur af Sómalíu hefur ríkt einstakt ástand sjórána um árabil, heimsbyggðinni til hrellingar.
Og nú sér maður sjóræningja í öðru ljósi en í bókunum um Captain Blood og aðrar "sjóræningjahetjur" sem maður las sem strákur fyrir 60 árum.
Með árásinni í Nairóbi breiðist út vaxandi ótti við þessa óaldarmenn. Næsti vettvangur gæti orðið Addis Ababa í Eþíópíu.
Þessir óþjóðalýður gerir ekkert nema illt af sér. Hann gerir einræðisstjórnum í nágrannaríkjunum einfaldlega auðveldara fyrir með að herða harðstjórnartök sín, en slíkt ástand hefur ríkt í raun í Eþíópíu og óafléttu hernaðarástandi milli landsins og Eritreu borið við.
Ekkert er kærkomnara fyrir einræðisstjórnir en að geta bent á utanaðkomandi óvin.
![]() |
Enn setið um árásarmennina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2013 | 16:48
Vissi hann um Sigurð Þórarinsson?
Fyrir næstum 60 árum spurði nemandi í M.R. Sigurð Þórarinsson menntaskólakennara hvort hómósexúalismi væri ættgengur. "Nei, ekki ef hann er praktiseraður eingöngu" svaraði Sigurður að bragði.
Þetta varð fleygt svar og spurningin er hvort Pútín hefur frétt af þessu þótt seint sé þegar hann dregur ályktanir af svipuðum toga.
![]() |
Berlusconi dæmdur vegna kynhneigðar sinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.9.2013 | 12:43
Góð auglýsing fyrir íslenska náttúru en vond um ólöglegan akstur.
Ég fæ ekki betur séð en að þeir sem gerðu myndbandið þar sem "akstur í íslenskri náttúru er dásamaður" hafi á nokkrum stöðum brotið gegn banni um akstur utan merktra vega og slóða.
Þeir þeysa um vikurbreiður þar sem sjást mörg för þvers og kruss. Á öðrum stað þeysa þeir um fjöru neðan stórstraumsfjöruborðs, sem er að vísu umdeilanlegri akstur.
Þótt myndbandið sé flott auglýsing um dýrð íslenskrar náttúru er því spillt með þessum akstri, þótt myndskeiðin séu ekki löng.
Ég hef komið í þjóðgarðinn "Giljaland" (Canyonland) í Bandaríkjunum sem sértaklega gerir út á ferðir á aldrifsbílum og er nálægt bænum Moab sem er Mekka torfæruaksturs í Bandaríkjunum.
Í þjóðgarðinum eru 1600 kílómetrar af vegaslóðum sem heimilt er að aka aldrifsbílum á en hins vegar blátt bann við akstri utan þeirra og háar sektir ef út af er brugðið.
Á þeim slóðum sem við hjónin ókum í þjóðgarðinum, til dæmis hina frægu slóð "Shafer trail" var hvergi hægt að sjá að nokkur maður hefði brotið gegn þessum ströngu reglum.
Hér á landi eru minnst 20 þúsund kílómetrar af merktum vegum og slóðum sem aka má á aldrifsbílum og þess vegna er 12 sinnum minni ástæða til að brjóta gegn ákvæðum um akstur hér en í Giljalandi.
Þótt hinn ólöglegi akstur í bandarísku myndinni sé aðeins í litlum hluta hennar er hvergi gefið í skyn annað en að aka megi að vild hvar sem er í íslenskri náttúru og því eru þessi myndskeið verri en lengd þeirra segir til um.
![]() |
Dásama akstur um fjöll og firnindi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2013 | 18:01
Prófsteinn á íslenskt réttarfar og gildi laga í landinu.
Gálgahraunsmálið er smám saman að verða miklu stærra og mikilvægara en nemur deilu um framkvæmdir, lögmæti þeirra og nauðsyn á svæði, sem er á náttúruminjaskrá.
Vegagerðin hefur rekið málið þannig að henni komi meðferð málsins fyrir dómstólum ekki við heldur sé nóg að vegamálastjóri ákveði fyrirfram að málið sé unnið af hálfu hennar.
Til hvers eru þá dómstólar og réttarfar ef hver sem er getur farið fram á þennan hátt?
Þetta er alveg einstaklega ósvífinn valdhroki og ekki síður siðleysi, sem felst í því að valda sem mestum óafturkræfum umhverfisspjöllum á meðan dómstólar fjalli um málið, þannig að með því að sniðganga lög og rétt nógu hratt og lengi sé hægt að vinna "sigur" í málinu með beitingu valds vélaherdeildarinnar, sem sett hefur verið í það að mylja Gálgahraun mélinu smærra.
Ég vona heitt og innilega að Vegagerðin láti af þessari hegðun.
Ef afsökunin fyrir því að rótast í hrauninu er sú, að það sé of dýrt að gefa eftir ætti stofnunin ekki að eiga í meiri vandræðum með það en hún virðist eiga við að tapa tveimur nýlegum skaðabótamálum upp á hátt í 300 milljónir króna.
Í morgun var frétt um 30 milljón króna staðabætur vegna framgöngu hennar sem leiddi til skaðabótamáls og ekki er langt síðan en hún var dæmd til greiðslu 250 milljóna króna skaðabóta í öðru máli. Kannski eru ófarir hennar fyrir dómstólum ástæða þess að hún hyggst sniðganga þá hér í Gálgahraunsmálinu.
Alls konar hártoganir eru notaðar til þess að reyna að láta líta svo út sem framkvæmdirnar fari ekki fram í Gálgahrauni heldur Garðahrauni.
Þetta er hlálegt þegar litið er á mynd hér við hliðina, sem ég tók í gær.
Þar sést upplýsingaskilti um hraunið sem gerir kleift að sjá að þarna er um að ræða þann hluta hraunsins þar sem einna mestar sögulegar minjar eru sem og einstök fyrirbæri hraunsins og að þetta skilti er rétt hjá þeim stað þar sem þegar hefur hafist óafturkræf eyðilegging þess. .
Á efri myndinni af skiltinu sést að vísu ekki hvernig ætlunin er að gera þar brautir, sem anni alls 50 þúsund bíla umferð, en til samanburðar fara nú 7 þúsund bílar um Álftanesveg. En í stuttu máli má segja, að með því að fara út í þessar fáránlegu framkvæmdir í stað þess að breikka veginn þar sem hann er núna, verði líkt og krossað stórt X yfir helming þess svæðisins sem sýnt er á skiltinu.
Afsakið að önnur myndanna fór óvart tvisvar inn á síðuna.
![]() |
Taka fyrir kröfu umhverfissamtakanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
20.9.2013 | 09:44
Árangursríkasta byltingin í bílvélum.
Sú var tíðin að það þótti bara nokkuð gott þegar afköst dísivéla í bílum voru rúmlega 20 hestöfl á lítra rúmtaks og togið um 50 newtonmetrar. Núna eru margar dísilvélar 4-5 sinnum aflmeiri, þökk sé forþjöppunum, og eyðslan samt minni.
Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem vélar eins og dísilvélin í Volkswagen Golf breyttu ímynd dísilvéla úr kraftlitlum,hávaðasömum, þungum, mengandi og dýrum drifkrafti í svo hljóðlátar og þýðgengar vélar, að stundum átta bílstjórar og farþegar sig ekki á því að það sé dísilvél í bilnum.
Þegar dísilvélarnar virtust ætla að stinga bensínvélarnar af fyrir nokkrum árum uppljóstraði bílvélafrömuður Fiat verksmiðjanna um það að á döfinni væru byltingarkenndar bensínvélar þar á bæ, sem myndu jafna muninn.
Hann stóð við orð sín með margverðlaunuðum Twin-Air vélum sem kreista á milli 100 og 125 hestöfl út úr hverjum líta sprengirýmis og Ford fylgdi í kjölfarið með Ecoboost vélunum, sem eru á svipuðu róli.
Hver hefði trúað því fyrir bara nokkrum árum að boðið væri upp á slöttungsstóran bíl eins og Ford Mondeo með þriggja strokka eins líters vél sem afkastaði samt 125 hestöflum og eyddi minna en allra minnstu bílarnir fyrir aðeins áratug?
Eða að Benz myndi dirfast að bjóða upp á fjögurra strokka vél í sinni frægu S-línu stærstu lúxusbíla?
Eða að flugvélaframleiðendur myndu bjóða upp á dísilvélar í flugvélar, svo þungar sem slíkir hreyflar hafa verið?
Forþjappan og framþróun hennar hefur ekki verið það eina sem hefur skapað þessa byltingu. Tveir yfirliggjandi kambásar, bein innspýting og aðrar nýjungar varðandi það svið eiga líka stóran þátt.
Öll þessi tækni hafði að vísu þann ókost að gera vélarnar flóknari og dýrari, en með stanslausum betrumbótum og verulegum árangri hefur þessi mikla bylting orðið að veruleika.
![]() |
Forþjappa í allar vélar VW |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2013 | 22:51
Nú verður að finna "fiskimjölsverksmiðjutrix".
Greinilegt er að Landsnet hefur yfir góðum PR-mönnum að ráða því að þeir eru áberandi slungnari í málflutningi sínum en áður. Þannig hafa verið fluttar fréttir í fjölmiðlum af brýnni nauðsyn til þess að leggja risaháspennulínu yfir Sprengisand vegna þess að annars vanti fiskimjölsverksmiðjurnar rafmagn.
Fyrir almenning lítur þetta þannig út að það verði að virkja meira og leggja fleiri og stærri línur, því að annars hefðum við ekki nóg rafmagn fyrir okkur og þeir sem andæfi þessu séu "á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu."
"Við verðum að hafa rafmagn" er oft sagt við mann til þess að réttlæta virkjanir og línur.
Enginn fjölmiðlamaður spyr þeirrar einföldu spurningar hvers vegna það geti verið rafmagnsskortur hjá okkur fyrst við framleiðum 4-5 sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf.
En svarið við því er það að stóriðjan þarf svo mikið rafmagn að við sjálf lendum í rafmagnsskorti og að engin þörf væri til að reisa risalínurnar, sem sagt er að þurfi að reisa til að "auka afhendingaröryggi til almennings", nema vegna þess að stóriðjan þarf þessa gríðarlegu raforku.
En "fiskimjölsverksmiðjutrixið" svínvirkar á meðan fjölmiðlarnir kóa með þögguninni sem hentar stóriðjustefnunni.
Nú verður fróðlegt að sjá hvaða "fiskimjölsverksmiðjutrix" verði hægt að finna til þess að finna einhverja þá þöggun, sem gæti bægt athyglinni frá Hellisheiðarvirkjun varðandi ryðið og tæringuna í burðarvirkjum Landsnets á Hellisheiði.
Að ekki sé nú talað um að þagga niður aðra skaðsemi sem útblástur brennisteinsvetnis veldur á fólki og tækjum.
![]() |
Ryð og tæring í burðarvirkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.9.2013 | 16:08
Mjór er mikils vísir.
Myndin hér við hliðina er af Alpine sportbílnum sem var upphafið að sigurgöngu þessa undralétta og knáa bíls, sem byggður var á grunni Renault 4CV smábílsins og með vél og driflínu hans.
Renault 4CV var "Bjalla" Frakka fyrst eftir síðari heimsstyrjöldina. Hann var fyrsti franski bílinn sem seldist í meira en milljón eintökum á árunum 1947 til 1961. Mig hefur alltaf langað til að eiga svona bíl, því að hönnun hans gaf Bjöllunni lítið eftir.
Renault 4CV var stæling á Bjöllunni, vélin að aftan og afturdrif en 4CV var mun minni en Bjallan, án þess þó að það kæmi í veg fyrir að fjórir fullorðnir gætu komist inn í hann, 30 sm styttri á milli hjóla en VW, 11 sentimetrum mjórri og 140 kílóum léttari. Beygjuhringurinn aðeins 8,4 metrar.
Fjögurra strokka vatnskæld fjórgengisvél, furðu stór farangursgeymsla í nefinu og fernar dyr.
Á nefinu var "gerfigrill" og framendinn afar amerísku í útliti, en hin raunverulegu loftinntök fyrir rassvélina voru á afturbrettunum við afturhurðina.
Sjálfstæð gormafjöðrun á öllum hjólum var alger nýjung á svona litlum bíl en er allsráðandi nú.
Renault Dauphine var byggður á sama grunni og 4CV, og um 1960 var farið að segja upp"tjúnaðar" vélar í bílana til kappaksturs og síðan smíður sérstakur sportbíll, Alpine, með slíkum vélum á botni 4CV en með fisléttri trefjaglersbyggingu. Fór hann mikinn í aksturskeppni næstu áratugi.
Blái liturinn var einkennislitur og síðar framleiddi Renault fimmuna með kraftmeiri vél og kallaði þann bíl Renault 5 Alpine, auðveita dökkblár að lit.
Á slíkum bíl áttum við Jón bróðir margar góðar stundir, daga, vikur og mánuði, og nú er Alpine að endurfæðast með glæsibrag.
![]() |
Alpine vinnur fyrsta sigurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.9.2013 kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2013 | 21:28
Steypan varðandi það að hver sem er stöðvi hvað sem er.
Fjölmargar stórar framkvæmdir hafa verið kláraðar hér á landi á undanförnum misserum án þess að um það hafi verið ágreiningur sem nokkru nemi. Má sem dæmi nefna Búðarhálsvirkjun og Suðurstrandaveg.
Árósasamningurinn svonefndi hefur verið í gildi í öðrum Evrópulöndum en Íslandi í að meðaltali um 15 ár og reynst afar vel.
Við Íslendingar drógum lappirnar eins og nátttröll og hér á landi eru settar miklu þrengri skorður fyrir skilyrði til að vera lögaðilar en í öðrum löndum, þar sem samingurinn hefur verið í gildi.
Hér geta aðeins öflug félagasamtök orðið lögaðilar.
Furðulegt er að gera lítið úr hagsmunum stórra hópa af fólki, sem nýtir ósnortna og einstæða náttúru sér til andlegrar og líkamlegrar næringar.
Í öðrum löndum Árósasamningsins voru tekin upp ný, sanngjarnari og lýðræðislegri vinnubrögð en áður tíðkuðust.
Hér á myndunum sjást Hraunavinir í morgun innan um vinnuvélarnar og er Reynir Ingibjartsson í bláa úlpugallanum, - sestur niður á nýjum stað á myndinni fyrir neðan.
Í þessum alþjóðasamningi er séð til þess að minnka það óheyrilega misvægi á milli hagsmunaaðila sem hér hefur þótt þóknanlegt verktökum og handhöfum stjórnmálalegs og peningalegs valds.
Í stað þess að beita ofríki, hroka og einhliða áframkeyrslu með vélaherdeildum jarðýtnanna hefur mótast ástand rökræðna, samtals og minna ójafnræði en áður var. Meiri sátt hefur náðst um framkvæmdir fyrir bragðið.
Íslenskir handhafar valdsins mega ekki heyra slíkt nefnt og sýna meira að segja dæmalausa óvirðingu við lög og rétt í siðuðu þjóðfélagi með því að segjast ætla að taka sér það vald að þeim dugi að meta mál sér í vil fyrirfram og keyra þau áfram á óafturkræfan hátt í skjóli þess að ef þeir tapi fyrir dómstólum verði þeir búnir áður en dómur fellur, að "hrauna yfir allt og alla" eins og ég lýsi í næsta bloggpistli á undan þessum.
Það kann að vera að þessum mönnum finnist að þeirra sé ríkið og mátturinn, en þeirra er ekki dýrðin.
Myndband á facebook-síðu minni, tekin á Gálgahaunsvaktinni í morgun er táknræn fyrir það ójafnræði milli manna annars vegar og stórvirkra véla og dínamíts annars vegar sem hér hefur ríkt og mál er a linni. .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.9.2013 | 15:59
Orðspor Vegagerðarinnar og afstaða til réttarríkisins.
Vegagerðin hefur hingað til haft ágætt orðspor. Þarna vinna góðir og gegnir menn og þár á ég ýmsa vini, sem gott hefur verið að hafa samband við í gegnum tíðina.
En heimsókn þangað í dag gefur mér tilefni til að hafa áhyggjur af orðsporinu, einkum ákveðin ummæli starfandi Vegamálastjóra, sem voru þess eðlis, að ég trúði vart mínuj eigin eyrum.
Í hádeginu átti hluti varðsveitar náttúruverndarmanna úr Gálgahrauni athyglisverðan fund með starfandi Vegamálastjóra, sem varðmenn hraunsins höfðu farið fram á. Ætlun þeirra var að leita samkomulags við Vegagerðina um að hún biði eftir úrslitum vegagerðarmálsins fyrir dómstólfum áður en farið yrði inn á hraunið og þar valdið óafturkræfum spjöllum.
Þessari tillögu var algerlega hafnað og sagt að Vegagerðin færi eftir samgönugáætlun og léti verktakana halda verkinu áfram af fullum krafti.
Stjórinn var spurður hvað hann myndi gera ef náttúruverndarsamtökin ynnu málið, - hvernig hann hygðist þá skila hrauninu til baka eins og það var áður en það var mulið niður.
Hann sagðist ekki einu sinni hafa íhugað það vegna þess að hann vissi að hann myndi vinna sigur í þessum málaferlum.
Við spurðum hann þá hvort að það væri í samræmi við réttarríki á 21. öld að annar aðilinn í hverju deilumáli gæti ákveðið það sjálfur fyrirfram hvernig málið færi og færi sínu fram í samræmi við það.
Spurðum til hvers lög, reglur og dómstólar væru ef þetta væri öllum þeim aðilum heimilt, sem stæðu í málarekstri.
Hann sagðist hvorki hafa hugsað út í það né myndi hann gera það. Það væri alger óþarfi.
Þá vitum við það.
![]() |
Orðsporið fjúki ekki út í veður og vind |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)