Færsluflokkur: Bloggar

Svikin ná stundum út fyrir gangstéttina.

Þess má geta í tengslum við ummæli Karls Garðarssonar á þingi um bótasvik hér á landi, að allt of oft má sjá sérstaka tegund af "bótasvikum" í bílastæðum, sem ætluð eru hreyfihömluðum fyrir utan húsið sem Tryggingarstofnun Íslands er í.

Þau felast í því að algerlega fullfrískt fólk leggur þar bílum maka sinna, sem eru hreyfihamlaðir, og þessi bílstjórar stökkva síðan inn í húsið til að reka þar erindi eiganda bílsins, sem hefur fengið merki um undanþágu í bílgluggann.

Þarna hitti ég eitt sinn mann, sem var einn á bíl konu sinnar en skokkaði léttilega inn og kom síðan út aftur. Hann brást hinn reiðasti við þegar ég gerði athugasemd við þetta við hann og sagði að merkið í glugganum á bílnum veitti honum rétt til að leggja bílnum í hvaða bílastæði hreyfihamlaðra í borginni sem hann gæti notað.

"Skiptu þér ekki af því sem kemur þér ekki við" sagði hann, og ég svaraði því á móti, að ég ætti hreyfihamlaðan son og vini meðal hreyfihamlaðra og það fólk hefði sagt mér að víst kæmi öllum þetta við.

Síðan eru aðrir sem hafa þetta þannig, að hinn hreyfihamlaði er farþegi í framsæti en fer þó ekki út úr bílnum heldur lætur hinn fullfríska um það.

Er langt gengið þegar hreyfihamlaður farþegi lætur sig hafa það að láta fullfrískan bílstjóra stela stæðinu af hreyfihömluðum þjáningarsystkinum sínum.  


mbl.is „Veldur óþolandi siðrofi í þjóðfélaginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þótt fyrr hefði verið að merkja betur!

Það er ekki hægt annað en að hafa samúð með þeim erlendu ferðamönnum, sem vöruðust það ekki að vegarkaflinn sem þeir voru að aka inn á bjó yfir hættu, sem hægt er að jafna við það að aka inn í fellibyl erlendis.

Það hefur lengi verið landlægt hjá okkur að láta skorta á upplýsingar utanhúss, ekki aðeins fyrir útlendinga, heldur líka okkur sjálf.

Allir kannast við það, hve erfitt er að finna mörg hús á Íslandi af því að húsnúmer vantar eða að húsum er raðað niður á hreint ótrúlega ólíkan hátt í hverfunum, þannig að ekkert samræmi ríkir frá hverfi til hverfis.

Hrein afturför hefur orðið í þessu efni frá mínum unglingsárum þar sem göturnar voru beinar og talið til austurs fyrir austan læk og til vesturs fyrir vestan læk, og oddatölurnar vinstra megin en jöfnu tölurnar hægra megin.

Nú er þetta sums staðar þannig að engu er líkara en ætlast sé til þess að allir viti alls staðar hvar allt er.

Og alveg dæmigert að erlent fólk eigi að vita það að "ófært" þýði "closed."

Það vekur athygli að á á skiltinu sem myndin er af á tengdri frétt á mbl.is er orðið "closed" með gulum stöfum. Af hverju ekki með rauðum stöfum?    


mbl.is „Closed“ kemur í stað „Ófært“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogga Færeyjanna vantar meðgjöf.

Sú var tíðin að Morgunblaðið á Íslandi og Dimmalætting í Færeyjum báru höfuð og herðar yfir alla aðra prentmiðla. Nú er það liðin tíð og líkast til hefði Morgunblaðið hætt að koma út fyrir fjórum árum ef atbeini og innspýting fjársterkra aðila hefði ekki bjargað blaðinu.

Svipað er kannski það eina sem getur bjargað Dimmalætting nú.

Það er ekki nema rúmur áratugur síðan Morgunblaðið hafði slíka yfirburði á Íslandi, að til urðu fyrirbæri, sem ég kallaði "Moggaheilkennin."

Eitt þeirra var það, að iðulega kom það fyrir að á fréttafundum komu einstakir fréttamenn fram með umfjöllunarefni sem hlutu engar undirtektir á fréttafundum.

Síðan gerðist það síðar að Mogginn fjallaði um sama efni og þá ruku allir upp til handa og fóta yfir því og sögðu: "Sáuð fréttina í Morgunblaðinu? Við verðum að gera eitthvað í þessu?

Annað Moggaheilkenni var það að annar fjölmiðill, til dæmis fréttastofa RUV eða Stöðvar 2, kom með "skúbb" frétt, sem vakti mikla athygli og lukku. ´

Þá gerðist það iðulega að Mogginn virtist láta sér þetta í léttu rúmi liggja.

En síðan var það nokkrum vikum síðar, hæfilega löngu síðar að farið væri að fyrnast yfir fréttina, að Mogginn kom með alveg nýtt sjónarhorn á hana, sem var ekki aðeins ígildi "skúbb"fréttar, heldur líka efni í drjúga fréttarskýringu blaðsins og fréttir afleiddar fréttir.

Að baki þessu lá það augljóslega, að hjá Mogganum drógu menn rólega andann, settur var blaðamaður  í djúpa rannsóknarblaðamennsku, sem bar þann árangur, að á endanum "stal" Mogginn upphaflegu fréttinni og gerð hana að sinni eigin.

Og sama morgunin eftir heyrðist á fréttamannafundum hinna fjölmiðlanna: "Sáuð þið fréttina í Mogganum í morgun? !!"

Já, eins og sungið var hér í den: "Those were the days, my friend."


mbl.is Dimmalætting líklega á leið í gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar vel heppnuð verðlaunaveiting.

Það var ánægjulegt og til sóma fyrir umhverfisráðuneytið, ráðherra og starfsfólk, hvernig staðið var að hátíðarsamkomu í dag þar sem Páli Steingrímssyni og Vigdísi Finnbogadóttur voru veitt fjölmiðlaverðlaun og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Páll hóf nám í kvikmyndagerð við erlendan háskóla um sextugt og hefur síðan gert líkast til um 60-70 myndir um náttúru og mannlíf sem hafa borið hróður hans og lands hans víða um lönd.

Ekki þarf að fjölyrða um það hve vel Vigdís Finnbogadóttir er að sínum verðlaunum komin, eins gríðalega mikið og eftir hana liggur beint og óbeint á því sviði.

Hamingjuóskir til þeirra beggja !


mbl.is Páll Steingrímsson verðlaunaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deginum bjargað.

Ég hef haldið mig til hlés undanfarna daga náttúrunnar að öðru leyti en því að koma þar fram eða taka þátt í þeim atburðum þar sem þess hefur verið óskað. En í þetta sinn varð ekki umflúið að sinna því máli, sem upp kom í Gálgahrauni. Ástæðan er þessi:

 

Íslendingar eiga þrjá daga sem helgaðir eru þrennunni sem Snorri Hjartarson orti um:

 "Land, þjóð og tunga",

þrenning sönn og ein,

þér var ég gefinn barn við móðurkné.

Ég lék hjá þér við læk og blöð og stein,  

þú leiddir mig í orðs þíns háu vé."

 Snorri veltir hverju orði og afstöðu þeirra hvers til annars fyrir sér.

Land-þjóð-tunga, er rökrétt röð: Landið kemur fyrst, því að án landsins, náttúrunnar, er engin þjóð.

Og þjóðin skapar tunguna og hvorugt getur án hins verið.

Ekkert af þessu getur án annars verið, - þess vegna er þetta "þrenning sönn og ein."

Sama er um röðina  "...læk og blöð og stein." Lækurinn er vatnið, sem ekkert líf þrífst án, blöðin eru gróður jarðarinnar og steinninn er tákn hraunanna, sem allt Ísland er byggt úr.

Og þetta þrennt leiðir skáldið inn í undraheim íslenskrar tungu, "orðsins háu vé."  

Sjálfur var ég á aldrinum 7-9 ára þrjú heil sumur í Kaldárseli og "lék..við læk og blöð og stein," drakk í mig grunn þess skilnings sem landið leiddi mig inn í hin heilögu vé tungunnar.

Dagur íslenskrar náttúru, lýðveldisdagurinn og Dagur íslenskrar tungu eru "þrenning sönn og ein."

Á þeim dögum er um fjölmargt að velja sem þjóðin getur sameinast um að halda á lofti í einhug varðandi sig sjálfa og þau mestu verðmæti, sem hún á eða hefur verið falið að varðveita fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt, sem eru náttúran og tungumálið.

Það stefndi í að þessi samhljómur yrði rofinn með því að byrja þennan dag íslenskrar náttúru með mjög svo umdeildum aðgerðum í Gálgahrauni og það án þess að búið væri að reka málið til enda fyrir dómstólum.

Verkstjórinn og hans menn hættu við að gera þetta í dag en munu athafna sig annars staðar til kvölds.

Í mínum huga var deginum bjargað með þessu svo að engan skugga beri á varðandi þá tugi og hundruða atburða smárra og stórra, sem eru á dagskrá í dag.

Megi þeir hafa þökk fyrir sem að því stóðu.

 

 

 


mbl.is Hraunvinir við gröfur ÍAV í Gálgahrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti viðburðurinn í tilefni dagsins að hefjast.

Fyrsti af hundruðum hátíðarviðburðum Dags íslenskrar náttúru virðist vera að hefjast hér í Gálgahrauni þegar þessi bloggfærsla er færð þar á áttunda tímanum. IMG_0918Vinnuflokkur er kominn í vinnubúðir til þess að hefja hér þá athöfn í tilefni dagsins og til heiðurs og virðingar við íslenska náttúru að ráðast með vinnuvélum inn í hraunið og ryðja því burtu ásamt fánunum sem þar er. 

En nú rétt í þessu barst sú frétt hingað úr vinnubúðunum að ætlunin væri að nota daginn í önnur verkefni tengd þessum framkvæmdum en að ráðast á hraunið sjálft.

Á myndinni sjást nokkrir "varðmenn" Hraunavina, sem komnir voru á staðinn klukkan sjö í morgun.


mbl.is Hraunavinir mótmæltu í Gálgahrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsið bæði of lítið og of stórt fyrir of marga!

Skriffinnskan getur oft getið af sér furðulegar uppákomur og eru of löng nöfn á skírteinum ekki það eina.

Þegar í fjölskyldu minni voru alls níu manns var húsnæðið okkar orðið heldur lítið. Okkur bauðst annað sem var 20 fermetrum stærra og því var sótt um húsnæðismálastjórnarlán.

En viti menn: Því var hafnað á þeim forsendum að húsið sem ætti að kaupa, væri of lítið ! Ástæðan var sú að það var ekki nógu mörgum prósentum stærra en það sem selja átti.

Ég gafst ekki upp og prósentutalan ætti ekki að gilda heldur frekar aukningin í fermetrum.

Málið var aftur tekið fyrir hjá stjórn stofnunarinnar en nú brá svo við að umsókninni var hafnað af því að húsið, sem kaupa ætti, væri of stórt!  Sem sagt bæði of lítið og of stórt !

Enn þrasaði ég og benti á að fermetrafjöldi á hvern íbúa hjá okkur væri langt undir því sem tíðkaðist.

Fyrir "klíkuskap", - Þráinn Valdimarsson var í stjórninni frá Framsóknarflokknum, - fékk ég hálft lán !

Gott að eiga Framsóknarmenn að vinum !

Sótti um á eyðublaði, þar sem aðeins var dálkur fyrir sjö í fjölskyldunni, og setti því tilvísun um, að þau tvö nöfn, sem vantaði, væru á bakhlið blaðsins.

Umsókninni var hafnað. Hún væri ógild af því að ekki mætti setja neitt á bakhliðar umsóknareyðublaða ! 

Spurði ráða hjá starfsmanni, sem lét mig hafa tvö eyðublöð, þar sem allir nema tveir væru í réttum dálki á öðru blaðinu en tveir væru í réttum dálki á hinu eyðublaðinu.

Umsókninni var hafnað. Óheimilt væri að senda inn tvö eyðublöð fyrir eina umsókn.

Nú var búið að hafna sömu umsókninni fjórum sinnum, sem Þráinn sagði mér, að væri sennilega met í sögu stofnunarinnar.

Hann fór því enn einu sinni á stúfana og fékk því framgengt að hálfa lánið fengist. Góður maður og skilningsríkur, Þráinn.   

 


mbl.is Nafnið of langt á ökuskírteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ólíkt höfumst vér að."

Þessa helgardaga og á morgun á Degi íslenskrar náttúru verða fjölmargir viðburðir um allt land til að veita landinu okkar og náttúru þess virðingu og lotningu.

Einn viðburður sker sig þó úr. Í fyrramálið verður haldið áfram því verki sem hafið var á föstudag við að mylja niður Gálgahraun undir hraðbraut, sem er eins mikið 2007-fyrirbæri og hugsast getur, langtum stærra dýrara og flóknara en nokkur þörf er á.

Þeir sem siga þessum vélaherdeildum á hraunið og verðmæti þess þóknast helst að ramma Dag íslenskrar náttúru inn í þessi gersamlega óafturkræfu og neikvæðu umhverfisspjöll.

Þeir gátu ekki beðið eftir endanlegum lyktum málsins fyrir dómstóllum né heldur unnt fólki þess að halda þessa daga hátíðlega á þann hátt sem sameinar en sundrar ekki.

Eins og sagt var forðum: "Ólíkt höfumst vér að."

Þetta er ögrun sem skiljanlegt er að náttúruverndarfólki finnst það knúið til að svara með því að koma saman við hraunið klukkan 14:00 í dag.


mbl.is „Finnst æðislegt að snerta dúninn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þolmörkin eru oft huglægt atriði.

Þolmörk ferðamannasvæða geta falist í fleiru en ástandi landsins og náttúrufyrirbæranna. Víða í erlendum þjóðgörðum hafa myndast takmarkanir á því hve margir megi vera á ákveðnu svæði í einu og má nefna um það mörg dæmi.

Tvö skulu nefnd. Í Yellowstone þjóðgarðinum eru um 1600 kílómetrar af göngustígum, en beitt er ítölu varðandi fjölda ferðamanna, sem leyft er að ganga um þá. Þeir fá úthlutað ákveðinni gönguleið og ákveðnum afmörkuðum tíma til að ganga hana.

Getur biðtími eftir því að fá að ganga numið mörgum mánuðum eða árum ef svo ber undir.

Þetta er gert vegna kröfu göngufólksins um frið, þögn og lágmarks einsemd.

Hitt dæmið eru siglingar niður Kólóradófljótið fyrir neðan Glen Canyon stífluna. Þar er krafan líka sú að ferðin líkist sem mest fyrstu ferð hins eineygða landkönnuðar Powells og að hver sá sem siglir níður fljótið finnist hann vera sá fyrsti sem gerir það.

Fyrir bragðið var 14 ára biðtími eftir þessu þegar við Helga vorum þar 2002. Meðal þeirra Íslendinga sem þetta hafa gert og varla átt orð til að lýsa hrifningu sinni eru tónlistarmennirnir Vilhjálmur Guðjónsson og Magnús Kjartansson.

Við Íslendingar eigum því miður langt, langt í land með allt sem viðkemur þessi mál og umgegndi okkar við einstæða náttúruna hér á landi. Það er ömurlegt að sjá hvaða ástand ríkir hjá okkur, því að við erum þetta þrjá til sex áratugi á eftir þeim þjóðum sem við getum helst borið okkur saman við í allri umræðu og hugsunarhætti.


mbl.is Fjöldi ferðamanna reynir á þolmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstæður jökull á heimsvísu.

IMG_0645Líklega hefur tvöfalt meira land komið samanlagt undan Brúarjökli frá árinu 1890 en frá 1973. Jökullinn hljóp fram á heimsmetshraða á nokkurra áratuga fresti fram á þessa öld, síðast 1934.

Þá sat fólk að snæðingi úti á Jökuldal í margra tuga kílómetra fjarlægð þegar miklar drunur heyrðust.

"Það hljóp hann" sagði  þá gamall maður við borðið. "Hljóp hver?" spurði fólkið. "Brúarjökull, svona heyrðist í honum 1890" svaraði sá gamli.

Mynd, sem ég set með þessum pistli, er tekin af brautarenda Sauðárflugvallar og sést til suðurs í átt að jöklinum og skýjum huldum Kverkfjöllum i fjarska, jökullinn vinstra megin og Kverkfjöllum til hægri. 1890 var náði jökullinn næstum því niður að þeim stað þar sem myndin er tekin.

Aðeins þremur kílómetrum fyrir innan eru svonefndir Sauðárhraukar, hluti af 15 kílómetra langri hólaröð, sem á sér engar hliðstæður í heiminum nema við Eyjabakkajökul. Jökullinn hljóp svo hratt fram að hann vöðlaði upp gróðri á undan sér eins og rúllutertu án þess að hafa tíma til að grafa sig niður og mynda venjulegar jökulöldur, og hann var það þunnur, að hann fór hratt til baka aftur og skildi hraukana eftir.

ÁIMG_0710 loftmynd sem ég tók af flugvellinum í gær sést, að jökulinn er langt í burtu.

Á myndinni er Sauðá meinleysisleg bergvatnsá, en fram yfir 1940 var hún jökulsá sem beljaði niður Sauðárdal í átt að Kárahnjúkum.  

Vegna þrengsla utar í dalnum, safnaði hún flötu seti en gróf síðan niður beggja vegna við það þegar haftið útfrá rofnaði og skildi eftir stæði fyrir næst stærsta flugvöll á Íslandi.

Brúarjökull bjó til með jökulám sínum fleiri einstæð náttúruundur, svonefnda Krákustígshryggi, hjallana í Hjalladal, bergmyndanirnar litfögru á botni hans á aðeins tæpri öld, sem er á táknmyndinni efst á þessari síðu, Dimmugljúfur og Hafrahvammagljúfur að mestu á 700 árum, og hjallamyndanir á Jökuldal og sanda við Héraðsflóa.

Þýski jarðfræðiprófessorinn Emmy Todtmann rannsakaði Brúarjökul 1938 og síðar þrjú ár á sjöunda áratugnum og skrifaði merka ritgerð um þær rannsóknir.

Ekki hefði hana órað fyrir því að aðeins 40 árum síðar myndu menn eyðileggja á algerlega óafturkræfan hátt stærstan hluta þeirra sköpunarverka Brúarjökuls sem áttu sér engan lika nokkurs staðar í veröldinni.  


mbl.is Mikið land kemur undan Brúarjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband