Færsluflokkur: Bloggar

"Hann er með´etta!"

Ofngreind upphrópun er eitt af eftirlætis orðatiltækjum eins af barnabörnum mínum þegar einhver fer á kostum. 

Upphrópunin gæti vel átt við góðan árangur Baltasar Kormáks í kvikmyndagerð.

Aftur og aftur virðist hann vera með þetta og gaman að fylgjast með því þegar landinn er að gera það gott úti í hinum stóra heimi.

Til hamingju, Baltasar Kormákur ! 


mbl.is Byssur Baltasars á toppnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að hella eldsneyti úr bíl? Já.

Það hefur komið fyrir furðu marga að setja óvart  bensín á dísilbíla eða disiloliu á bensínbíla. 

Þótt það sé misjafnt eftir framleiðendum hvort þeir telji þetta óhætt í smáum stíl, er það þó viðurkennt að það sé í lagi, þótt allt að 5% magns í geymi dísilbíls sé bensín. Í sumum tilfellum leyfir framleiðandi þetta.

Setjum sem svo að fylla eigi dísilbílinn og óvart sett bensín á hann, en að það uppgötvist áður en ca fimm lítrar eru komnir, á að vera hægt að bæta fyrir þetta með því að fylla geyminn af dísiloliu.

Menn setja stundum nokkra lítra af steinoliu eða bensíni á jöklajeppa ef aka á þeim í miklu frosti því að við það verður olían þynnri, en hún er ólík bensíni eða steinoliu að því leyti, að hún verður leiðinlega þykk í miklu frosti.

Mér er hins vegar ekki kunnugt um að nokkur bílaframleiðandi leyfi að segja dísilolíu í bensín.

Eitt af því, sem ég hef alltaf meðferðis í ferðum mínum er hæfilega mjó gegnsæ plastslanga og hefur hún komiið sér vel  í tugum skipta ef þurft hefur að viðhafa tilfæringar á eldsneyti.

Ég lenti einu sinni í því að setja óvart 15 lítra af dísilolíu á litinn gamlan Súkkujeppa 12 kílómetra frá Egilsstöðum. Var orðinn bensínlaus en hafði með mér brúsa sem því miður var ekki með bensíni heldur dísiloliu. 

Ég glápti á ónothæfan jeppann og sá verkefni helgarinnar fokin út um gluggann.  

Það var helgi og hvergi hægt að fá verkstæðisþjónustu. En nú kom sér vel hafa slöngu meðferðis.

Ég lagði hana fyrst niður um opið eins langt ofan í bensíngeyminn og unnt var og saug það upp úr honum yfir í tóma brúsann.  En það var bara lítill hluti af olíunni. 

Þegar ég stóð þarna og horfði til skiptis á Súkkuna og brúsann, laust allt í einu hugmynd niður í hausinn á mér.

Ó, hvað þetta var einfalt. Spurningin var þessi: Ef þú ert með ílát og vilt hella úr því, hvað gerir þú þá?

Jú, þú hallar ílátinu og hellir úr því.

Súkkan var bara ílát rétt eins og brúsinn. Ef þú er með ílát í formi bíls og vilt hella úr því, hvað gerir þú þá? Jú, þú hallar honum bara og hellir úr honum !  

Ég hringdi í vin minn á Egilsstöðum sem kom á jeppa til hjálpar.

Við ýttum Súkkunni upp að hallandi bakka, lögðum taug í gegnum báðar framdyrnar og yfir þakið, bundum hana í dráttarkrók bíls vinar míns og hann tók síðan með henni í Súkkuna þangað til hún vó salt í jafnvægi. 

Þá tók ég að mér að halda við hana þannig að hún ylti á hvoruga hliðina meðan aðstoðarmaður minn losaðii spottann, færi bil sinn hinum megin við Súkkuna og tyllti spottanum þeim megin í hana svo að haldið væri við hana á þann hátt.  

Síðan lét vinur minn bíl sinn síga ofurhægt áfram þanngað til Súkkan lagðist utan í mjúkan grashallann án þess að skemmast neitt en olían rann á meðgan rólega eftir slöngunni ofan í brúsann.  

Síðan veltum við Súkkunni aftur við, drógum hana á bensínstöð og fylltum hana. Í  ljós kom að aðeins nokkur hundruð grömm af olíu höfðu orðið eftir í geyminum !

Niðurstaða: Ef þú fyllir bíl þinn af röngu eldneyti, hvað gerir þú þá? Svar: Hallar honum og hellir því úr honum.

Eftir á var ég mest hissa á því að það skyldi taka mig heilan klukkutíma að finna út jafn augljósan og einfaldan hlut og eyða þeim tíma öllum í tóma vitleysu og rugl.   


mbl.is Kærður vegna bensíns á díselbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"You ain´t seen nothing yet!"

Það er ekki hægt að lýsa því fyrirfram, sem Íslendingur upplifir við það að fara á Íslendingaslóðir í Vesturheimi. Hátíðahöldin og fólkið í Mountain í Norður-Dakota eru aðeins hluti af því sem þær hafa upp á að bjóða. 

Þekktastar eru byggðirnar í Manitoba, Gimli, Winnipeg, Árborg, Rivertown, Hecla island o. s. frv., en magnað er líka að koma til Íslendingabyggða vestar, allt vestur á slóðir Klettafjallaskáldsins í Alberta. 

Þá eru ótaldar þær byggðir, sem komu mér mest á óvart vestra, en það er annars vegar litla eyjan Washington island við vestanvert Michicanvatnið og hins vegar bærinn Spanish fork í Utah, skammt fyrir sunnan Salt Lake City.

Margt mætti segja um báða staðina og um þá gerði ég þætti fyrir Sjónvarpið.

Á Washington island er minning Þórðar Guðmundssonar læknis frá Eyrarbakka í hávegum höfð og þakklæti sýnt fyrir það hvernig nann bjargaði lífi fjölda fólks í upphafi landnámsins við ótrúlega erfið skilyrði með að hafa stórt minnismerki á leiði hans í kirkjugarðinum.  

Í Spanich fork hefur ræktarsemin við íslenskan uppruna fólksin náð fágætum hæðum og í kirkjugarðinum þar hef ég orðið einna snortnastur á Íslendingaslóðum.

Þar eru leiði þeirra, sem fóru fótgangandi þúsundir kílómetra yfir slétturnar og Klettafjöllin á leið til fyrirheitna landsins, skreytt með stórum heiðursskjöldum sem á er letrað gylttu letri: "Faith in every footstep", þ. e. " trúartraust í hverju einasta skrefi." 

Að standa við slíkt leiði og lesa nöfn íslenskra karla og kvenna sem slíkt afrek unnu er upplifun sem aldrei gleymist.

Ég er nú að vinna að því að setja saman einn auka Stikluþátt fyrir útgáfu þeirra í haust, þar sem farið er á Íslendingaslóðir vestra.  

Til þess að átta sig til fulls á íslensku arfleifðinni í vesturheimi nægir ekki að fara bara á einn ofangreindra staða.

Það er gott að ráðamenn íslensku þjóðarinnar sýni löndum okkar vestra ræktarsemi, en  það má segja við þann, sem hefur aðeins komið á einn þeirra: You ain´t seen nothing yet!  


mbl.is „Þetta er ótrúleg upplifun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölbreytnin er fyrir öllu.

Fjölgun erlendra ferðamanna á landinu hefur leitt í ljós hið augljósa: Ferðamennirnir eru eins margvíslegir og með eins margvíslegar óskir og þeir eru margir. 

Sem aftur þýðir það að ferðaþjónustufólk verður að kynna sér þessar óskir og þarfir og finna "markhópa" sem vilja borga fyrir að fá þær uppfylltar.  

Síðan er annað atriði: Ef ferðamönnunum líkar vel við það sem þeir upplifa í Íslandsferðinni eru þeir líklegir til að koma aftur seinna og þá getur tvennt gerst:

1. Þeir sækjast eftir endurupplifun fyrri ferðar, oft í fylgd með maka eða samferðafólki, sem þeir vilja deila upplifuninni með. 

2. Kjör þeirra hafa breyst og þeir eru komnir í nýjan "markhóp", sem vill veita sér meiri þægindi en þeir höfðu áður efni á.

Oft blandast þetta saman hjá ferðamönnunum.

Ferðaþjónustan verður að laga sig að þessu og sífellt að kynna sér hvað sóst er eftir. 

Dæmi um hóp númer 1: 

Meðal bíla sem bílaleigan Geysir leigir út eru Lada Sport jeppar. Það er ekki aðeins vegna þess að þetta sé ódýrasti jeppinn og sá óbreyttasti í 36 ár sem völ er á, heldur lika vegna þess að sumir þessara ferðamanna komu hingað ungir og lítt efnum búnir fyrir um 30 árum og ferðuðust þá á Lada Sport.

Vilja upplifa svipað að nýju. Læt fylgja með mynd af gamalli Lödu, sem reyndist mér vel sem farartæki og gististaður fyrir tveimur árum. 

IMG_9704

Dæmi um hóp númer 2: 

Hef áður nefnt þetta dæmi, Ulrich Munzer prófessor sem kemur árlega til landsins með hóp nemenda sinna og hefur efni á að velja sér gististað eftir því sem kröfur hans til þæginda segja til um. Þegar Ulrich kom fyrst til landsins 1976 var hann skilgreindur í hópi "bakpokalýðs" sem þótti óæskilegur, af því að það fólk ferðaðist á puttanum, tjaldaði og skildi lítið eftir af peningum.

Dæmið um Ulrich sýnir, að fjölbreytnin er fyrir öllu í framboði á aðstöðu og upplifun fyrir ferðafólk.

Það getur skilað sér síðar í mörgum tilfellum.

Í Noregsferðum mínum hef ég ferðast á mismunandi hátt og við misjafnar aðstæður. Í 14 daga ferðalagi mínu 1998 gistum við hjónin í 12 nætur á venjulegum hótelum. Í minningunni renna þau öll saman við tugi hótela um allan heim með svipuðum aðbúnaði sem við öll þekkjum.

En í tvær nætur gistum við á gerólíkum stöðum, annars vegar í hálendisskála á Harðangursheiði og hins vegar í afar gamaldags sveitahóteli í Suður-Kjós í Finnmörk, þar sem áttræð kona var hótelhaldari.

Þessi tveir gististaðir lifa í minningunni en enginn hinna.

Fjallakofinn og frumstæða og gamla sveitahótelið veittu öðruvísi og minnisstæðari upplifun og voru norskari en hótelin, sem voru öll eins. Þeir voru ómissandi hluti af upplifun á því stórkostlega landi sem Noregur er. 

Í kvikmyndagerð minni innanlands sækist ég ekki eftir hótelum þegar ég er einn á ferð, heldur gisti í litlu gömlu bílunum mínum, oft á tjaldstæðum. Margfalt ódýrara að sjálfsögðu en hóteldvalir, og vegna bakveiki og bakflæðis sef ég best í þeirri stellingu, sem afturhallanleg framsæti veita.

Ég hef ekki komið í lúxushótelið Grímsborgir en þekki Ólaf Laufdal og einnig Friðrik Pálsson, sem rekur hótel Rangá. Samkvæmt tengdri frétt er Ólafur natinn við gestina og bæði hann og Friðrik leggja sig í líma við að vera sjáanlegir á hótelum sínum og sýna gestunum, hve annt þeim sé um að þeim líði sem best og fái sem besta þjónustu.

Þetta eru dugnaðarforkar og natni þeirra skilar sér áreiðanlega til afspurnar, sem er besta auglýsingin.

Síðari hluti orðsins ferðaþjónusta lýsir best höfuðatriði hennar hvað varðar þá, sem við hana starfa, en það er þjónustulundin, sem við Íslendingar þurfum að rækta betur og gleymum stundum í ásókn okkar eftir skjótfengnum gróða. 

Ef þjónustulundin er fyrir hendi kveikir hún nauðsynlega fjölbreytni af sjálfu sér, sem skilar sér síðar í ágóða. Fjölbreytning getur spannað svið allt frá bakpoka til lúxushótels. Lúxushótel er jafn sjálfsagður hlutur og lúxusmatur, til dæmis sá sem er á borðum hjá okkur á stórhátíðisdögum, eitthvað til að gera sér dagamun.  

Og afrakstur fjölbreytninngar skilar sér einnig í uppfyllingu þess skilyrðis viðskipta að báðir aðilar hagnist á þeim.  

  


mbl.is Lúxushótel Óla Laufdal slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Methöfnun - og síðan metfrægð.

Skyldi fréttin um höfnun 2000 sinnum á umsóknum um atvinnu fela í sér met fyrir heimsmetabók Guinnes? Það er ekki gott að segja en sagan geymir ótal dæmi um það að góðum hlutum hafi verið hafnað svo tugum eða jafnvel hundruðum tilfellum skiptir. 

Ég sá einhvers staðar á netinu að eitt af heimsmetunum í Guinnes bókinni sé bókin, sem útgefendur höfnuðu 122 sinnum en var síðan loks gefin út og seldist í 5 milljón eintökum.

Söngflokkurinn The Platters var búinn að starfa í þrjú ár með engum árangri og meðal annars fá þann dóm um lagið "Only you", að það væri algerlega vonlaust og ekki útgáfuhæft.

Síðan sló lagið sló skyndilega í gegn hjá þeim af því að þeir sungu það aftur inn á plötu. 

Söngvarinn Frankie Laine lapti dauðann úr skel í 17 ár í upphafi ferils síns. 1949 var svo komið að hann svaf á bekk í Central Park í New York og átti aðeins nokkur sent.

En hann hafði alltaf verið að, komið sér í kunningsskap við allar stóru söngvarana, Bing Crosby, Frank Sinatra og kó, og datt inn í það að syngja lag, sem virtist alveg vonlaust og stórsöngvaranir höfðu ekki áhuga á, enda gerólíkt þeim dísætu lögum sem þá voru í tísku.

En einstæður, kraftmikill og tilfinningaþrunginn flutningur Frankie Laine á laginu "Jezebel" færði honum heimsfrægð á mettíma og í kjölfarið fylgdi áratugur, þar sem hann var einn um hituna varðandi túlkun af þessu tagi á topplögum, eða þar til Ray Charles ruddi soul-söngnum braut á toppinn með allri þeirri tilfinningu og túlkun sem fylgir þeim söng.

En á þessum áratug var Frankie Laine einn af allra vinsælustu söngvurum heims.

Þegar Fréttablaðið kvaddi til "sérfræðinga" á sviði dægurlagatónlistar í ársbyrjun 2003 til að tilnefna 30 bestu íslensku dægurlagasöngvarana voru kunnugleg nöfn á toppnum, Elly Vilhjálms, Haukur Morthens, Bubbi Morthens, Vilhjálmur Vilhjálmsson o. s. frv.

Ragnar Bjarnason komst hins vegar ekki á blað, svo ótrúlegt sem það virðist nú. Meira að segja ég og Jón Ólafsson frá Bíldudal komumst á listann !

Ég man að það fauk í mig og ég ætlaði að skrifa skammarbréf, en þetta gerðist einmitt þegar ég vann dag og nótt að myndinni "Á meðan land byggist" og ég hafði aldrei tíma til þess.

Ég ætlaði í skammargreininni að spyrja sérfræðingana hvort þjóðin hefði verið úti að aka á árunum 1957 fram undir 1970 þegar Haukur Morthens og Ragnar kepptu um vinsældatoppinn og Ragnari veitti oftast betur.

Líka að spyrja um hvort einhver annar gæti sungið betur jafn ólík lög og "Vertu ekki að horfa..", "Vorkvöld í Reykjavík", "Kokkur á kútter frá sandi" og lögin úr Járnhausnum.

Kornungur Austfirðíngur, Vilhjálmur Einarsson að nafni,  bað íþróttaþjálfara nokkurn að leggja mat á hvort hann ætti einhverja möguleika á að ná árangri í frjálsum íþróttum.

Þjálfaranum leist ekki vel á þennan útskeifa og þyngslalega ungling en sagði, að hugsanlega gæti hann orðið liðtækkur kúluvarpari !

Nokkrum árum setti Vilhjálmur Ólympíumet í þrístökki á leikunum í Melbourne og hreppti að lokum silfrið. Íslandsmet hans hefur staðið í 53 á, enginn Íslendur komist nálægt því og Vilhjálmur líklega mesti íþróttamaður, sem Ísland hefur alið..   

Svona mætti lengi telja dæmi þess að í kjölfar höfnunar hafi fylgt velgengni, frægð og frami.

Og það getur verið huggun fyrir alla taparana sem eygja smá von um að komast að einhvern tíma.  

  


mbl.is Baldvin hafnað 2.000 sinnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umfjöllunar og umræðu er þörf. Annars lagast ekkert.

Þegar ákveðin söguskoðun er nánast löggilt kynslóðum saman er erfitt að hagga henni, jafnvel þótt nýjar upplýsingar og ný viðhorf komi fram. Þess vegna vil ég þakka þeim mörgu, sem hafa sent inn fróðlegar og athyglisverðar upplýsingar,  röksemdir og skoðanir við bloggpistilinn "Það er ekki lengra síðan".

Nú  er það efni, sem birtist í þessum athugasemdum orðið mun lengra en pistillinn sjálfur. Er það vel og ég hvet fólk til að kynna sér þær.

Ég tengi þennan pistil við frétt um það að Landssamband smábátaeigenda "þakkar velvild þjóðarinnar í garð strandveiða." 

IMG_9681

Sjálfur er ég ekki í þeim samtökum, þótt ég eigi smábátinn sem ber heitið "Örkin", en gæti vel hugsað mér að láta gamla draum rætast, að fara á eigin bátskel, í þessu tilfelli Örkinni, hafa barnabörnin mín með mér og veiða nokkra fiska.  

Það þurfti að berjast fyrir strandveiðunum á sínum tíma. Í kosningunum 2007 voru það eiinkum tvö framboð, Íslandshreyfingin - lifandi land og Frjálslyndi flokkurinn sem lögðu þunga áherslu á að þeim yrði komið á fó

Það var skyldleiki með þessari hugsun og því að rýmka almennt hlut almennings og kjör þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Í strandveiðunum snerist það um að rétta hlut "litla mannsins" gegn ofurvaldi hinna útvöldu í kerfi, þar sem síðustu árin hefur myndast ástand leiguliða gagnvart eigendum kvótanna, sem um margt hafa svipaða stöðu og landeigendur og aðalsfólk fyrr á tíð.

Það er ekki tilviljun að orðið sægreifar varð til.

Nú er það svo eins og alltaf, að forðast verður alhæfingar. Fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki um allt land eru vel rekin og skila mun meiri arði til þjóðfélagskins en hinar mislukkuðu bæjarútgerðir á öldinni sem leið.

Hliðstæður er að finna frá öllum tímum. Kristur umgekkst ríkt fólk og tollheimtumenn, sem voru af sauðahúsi þeirra sem verst voru þokkaðir af alþýðu á þeim tíma, af því að innan um var ágætis fólk.  

En síðan má sjá dæmi úr íslenskri samtíð sem ganga fram af fólki.  

Svo var komið að kvótaverðið var orðið svo hátt, að þeir sem leigðu þá voru í svipaðri aðstöðu og bláfátækir leiguliðar fyrri tíma.  

"- lifandi land" er síðari hluti nafns Íslandshreyfingarinnar hugmyndin um strandveiðar snerist um það að hleypa lífi í strandbyggðir, sem höfðu verið drepnar í dróma, - gera þær að lifandi landi en ekki dauðu. 

Í því gátu falist margfeldisáhrif, til dæmis gagnvart öðrum atvinnugreinum eins og verslun, þjónustu, samgöngur og menningu, að ekki sé talað um ferðaþjónustuna, þar sem vaxandi hluti ferðafólks sækist eftir því að kynnast sérkennum lífshátta og þjóðfélags á hverjum stað, eins og í sjávarbyggðunum.

Þótt auðvitað megi ýmislegt bæta varðandi strandveiðarnar eins og allt annað, sem maðurinn tekur sér fyrir hendur, sést að þjóðin hefur haft skilning á því að opna þyrfti kvótakerfið eftiir því sem það væri unnt og skynsamlegt.

Þjóðin sýndi þessu velvild af því að hún skynjaði það sem réttlætismál almennings og alþýðu.  

 


mbl.is Þakka velvild gagnvart strandveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki lengra síðan.

Undanfarin dægur hefur farið fram lífleg umræða á netinu um það hvort á Íslandi hafi verið stéttlaust þjóðfélag og flutningur fjórðungs þjóðarinnar til Ameríku á árunum 1870-1890 hafi mestan part verið vegna slæms árferðis en ekki vegna fátæktar og misréttis. 

Augljóst ætti vera að jafn stórfelldur flótti landsmanna úr landi og  flutningur fjórðungs þjóðarinnar til Ameríku á minna en aldarfjórðungi getur ekki hafa stafað að mestu vegna slæms árferðis þótt Öskjugosið 1875 ylli því að flutningarnir væru mestir frá Austurlandi. 

Rannsóknir sagnfræðinga undanfarna áratugi sýna, að megin orsökin var sú, að íslensk valda- og auðstétt hélt þjóðfélaginu í heljargreipum, kom í hátt á aðra öld í veg hafnarbætur og bættan skipakost og þar með í veg fyrir myndun þéttbýlis við sjóinn, sem gæti ógnað völdum hinna útvöldu.

Myndun þéttbýlis með auknum fiskafla, vinnslu, iðnaði, siglingum, samgöngum og verslun var eina leiðin til að uppfylla þarfir þjóðar, sem fjölgað hafði úr 50 þúsund í 70 þúsund á nítjándu öld, en frumstæður landbúnaður gat ekki framfleytt án neyðar, skorts og ófrelsis hjá þorra landsmanna.

Aðeins 5% bænda átti jarðirnar, sem þeir bjuggu á, en 95% voru leiguleiðar. Það ríkti í raun lénsskipulag þar sem stórbændur og embættismenn áttu landið og voru íslensk aðalstétt.

Svo sterk var þessi stétt að í doktorsritgerð og bók sænska sagnfræðingsins Hans Gustavsson, "Fraan kung til almuge" er sýnt fram á að hvergi í Evrópu var einvaldskonungur eins valdalítill og á Íslandi.

Kristján 7. stofnaði svonefnda Landsnefnd 1770 með tíu framfaraverkefni til meðferðar varðandi samgöngur, iðnað, verslun og byggð.  Á þeim tíma fjölgaði fólki alls staðar hratt á Norðurlöndum á sama tíma sem því fækkaði ef eitthvað var, á Íslandi. Það hlaut eitthvað mikið að vera að á Íslandi. 

Nefndin skilaði merkum tillögum til umbóta. Þær voru að engu hafðar og í þeirri Íslands sögu, sem flestir Íslendingar hafa lært, er ekki minnst á Landsnefndina. Það passar ekki inn í þá kenningu að allt illt hafi verið Dönum að kenna eða slæmu árferði, en ekkert Íslendingum sjálfum.  

Íslenski aðallinn naut ekki einasta að mestu forréttinda dansks aðals, til dæmis hvað snerti aðgang sona sinna að dönskum skólum, heldur þurfti íslenski aðallinn ekki að senda syni sína í herþjónustu eins og sá danski. 

Í sögunni, sem okkur var kennt, þegar brýna þurfti þjóðina í sjálfstæðisbaráttunni, mátti skilja flest sem svo að illir Danir hefðu einir staðið fyrir allri kúgun á Íslandi og að menn eins og Skúli fógeti hefðu nánast algerlega af eigin rammleik risið til andófs.

Auðvitað gátu íslenskir umbótasinnar ekki náð neinum árangri án þess að fá til þess stuðning umbótaafla í Kaupmannahöfn, sem tókust þar á við danska valdastétt.  En íslenski aðallinn og sá danski höfðu af því sameiginlegan hag að bæla umbætur niður eftir því sem unnt var.  

Íslensku þjóðinni var haldið í hlekkjum hugarfarsins líkt og Baldur Hermannsson lýsti í sjónvarpsþáttum sínum, og það er ekki lengra síðan að þessari áþján og ófrelsi lauk, að á bænum sem ég var á sveit sem strákur voru fimm konur niðursetningar, allar fórnarlömb misréttis og fátæktar.

Tvær þeirra að minnsta kosti, voru hæfileikaríkar og svo eftirminnilegar, að ég skrifaði um þær og fleira bókina "Manga með svartan vanga" fyrir réttum 20 árum.

Ásdís Jónsdóttir skáldkona, sem þraukaði við illan kost í örreytiskotinu Rugludal langt frammi á Auðkúluheiði með bónda sínum og tveimur dætrum, í meira en 400 metra hæð yfir sjávarmáli, varð að gefast upp og lenti síðar á vergangi. Endaði ævi sína á ömurlegan hátt í hálfhrundum torbæ.

Ég hef undir höndum bónarbréf, sem hún skrifaði vinkonu sinni, þar sem hún sárbað um hjálp; -  "ögn af sméri eða keti", er allt sem hún biður um í þessu bréfi, sem segir meira um kjör þorra þjóðarinnar en öll þau hundruð bréfa höfðingja og embættismanna sem varðveitt eru í söfnum.  

Margrét Sigurðardóttir, fædd 1869, mátti frá barnæsku þola "hallæri, hungur og fár" eins og ég orða það í ljóðinu "Íslenska konan", var niðursetningur þegar í barnæsku og hraktist á milli bæja og sveita.

Hún og Ásdís voru í hópi  einhvers ófrjálsasta fólks, sem lifað hefur á Íslandi, fæddust of seint til að nýta sér vesturferðirnar og voru orðnar of gamlar og örlög þeirra ráðin, þegar aðeins lifnaði yfir ferðunum og þjóðlífinu undir aldamótin 1900.

Manga kynntist heiminum, heimsbókmenntunum og íslenskum og erlendum skáldum við lestur bóka á höfðubólunum þar sem hún þrælaði sem vinnuhjú, og kvöl hennar var meiri en ella við það að vita, hvað heimurinn bauð upp á en geta ekki notið þess. Hún kunni verk íslensku og norsku stórskáldanna að mestu utanað.

Hún var ekki fríð en skörp og skýr, og von kviknaði þegar hún varð barnshafandi eftir myndarlegan vinnumann og kannski möguleiki á að komast með honum til búskapar á einhverju kotinu eða heiðarbýlinu.

En vinnuharkan var svo mikil, að hún missti barnið í fæðingu. Þar með voru ömurleg örlög hennar ráðin.  Eftir það uppnefndu sumir hana því miskunnarlausa viðurnefni "Gelda-Manga".

Systir hennar, Steinunn, vinnuhjú á bæ í Vatnsdal, þráði að hitta barn sitt sem var vistað á bæ í Víðidal. Hún hreppti slæmt veður á þeirri leið að vetrarlagi, lá í fönn og missti báða fæturna fyrir neðan hné. Var eftir það aldrei kölluð neitt annað en Steinunn fótalausa.

Tvær systur, tveir litilmagnar, aðstæður réðu því að önnur þráði barn en missti það, hin þráði að hitta barn sitt en missti fæturna.

Gelda Manga og Steinunn fótalausa. Þetta var nú öll mannúðin og stéttleysið oft á tíðum.

Ég er að tala um fólk, sem var á sama bæ og ég. Það er ekki lengra siðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta.   

Afi minn gekk átta vetur á aldrinum 18-26 ára í janúar alla leið frá Hörgslandi á Síðu vestur í Garð á Suðurnesjum um vegleysur og yfir óbrúaðar ár til þess að þræla í vosbúð og sjávarháska á vertíð og gekk aftur til baka í mai til þess að færa húsbónda sínum mestallan afraksturinn. Þetta var nú allt stéttleysið.

Og ég er að tala um afa minn, - það er ekki lengra síðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta. 

Þegar amma mín var sjö ára gisti vel stæður bóndi frá höfuðbóli í Öræfum að Hólmi í Landbroti, þar sem hún var alast upp. Svinafellsbóndanum  rann til rifja ómegðin, fátæktin og sulturinn á bænum og gerði langömmu og langafa tilboð, sem þau gátu ekki hafnað.

Það voru slétt skipti; - hann vantaði vinnukraft, þau vantaði kú.

Amma var á réttum aldri, nógu ung til þess að geta þjónað húsbóndanum austur í Öræfum sem lengst og nógu gömul til þess að geta rakað með hrífu. Það var því farið með ömmu austur í Öræfi og leidd kú til baka.

Það var ekki um annað að ræða. Langafi hlýddi köllun sinni að líkna nauðstöddu fólki, bæði heima og að heiman,og langamma hjálpaði honum oft heima við en þurfti að sjá um búið þegar hann var langdvölum að heiman. Það var ekki hægt að hringja á lækni, sjúkrabíl eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Enginn veit hve mörgum mannslífum þau björguðu.

Svínafellsbóndinn gat ekkert annað en boðið eina ráið við sultinum: Að fækka munnunum í Hólmi og koma með lífsbjörg þangað. Hann var góðmenni. Annars hefði amma ekki skírt frumburð sinn í höfuðið á honum. Dóttir mín heitir líka Jónína.  

Svona var þetta þegar kýr gat verið fjarlægur lúxus hjá fátæku bændafólki og sá sem gat séð af kú var óendanlega mikið ríkari en hinn sem átti enga. 

Bróðir ömmu, Valdimar, þremur árum yngri en hún, var líka leiddur burt á hesti til fósturs. Ekki fylgir sögunni hvort kýr kom í staðinn, - sennilega ekki.  

Amma mín náði sér aldrei eftir þá hrikalegu höfnun, sem henni fannst hún upplifa, að vera skiptimynt fyrir kú. 

93ja ára gömul sat hún á rúmstokknum á Hrafnistu og talaði enn um það, sem gerst hafði þegar hún var sjö ára og velti fyrir sér spurningum eins og:  "Var það vegna þess að ég var lakasta barnið, að ég var send burtu?" Og bætti síðan við: "En kannski lifðu systkini mín af vegna þess."  

Ég er að tala um ömmu mína, - það er ekki lengra síðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta. 

Síðan heyrir maður talað um í fullri alvöru, jafnvel á hátíðarstundum, að hér á landi hafi alltaf verið stéttlaust þjóðfélag án misréttis.

1976 ók ég með hjón af íslenskum ættum, sem komu frá Manitoba til ættarslóða sinna, og vildu sjá bústað ömmu og afa. 

Þegar þau stóðu yfir húsatóftunum uppi á Aðalbólsheiði með Eiríksjökul gnæfandi yfir heiðina í sindrandi sólarbirtu fjarskans, hágrétu þau svo tárin féllu á tóftir heiðabýlisins litla.

Þegar ég spurði þau hvort þau grétu af hrifningu yfir því magnaða umhverfi sem formæður og feður þeirra höfðu lifað í og yfirgefið, svöruðu þau:

"Nei, þvert á móti. Það var gefið í skyn vestra að þau hefðu flúið að óþörfu frá svo stórkostlegu og fallegu landi sem Ísland væri, og það var talað um það í þeim tóni, að þau hefðu guggnað og svikið land sitt og þjóð. Nú sjáum við hvílík kjör þau bjuggu í raun. Þéss vegna grátum við.

Þau hafa fengi uppreisn æru í okkar huga. Við sjáum líf þeirra og kjör í nýju ljósi, skiljum af hverju þau voru neydd til þess að taka sig upp og fara um óraveg til að komast úr ófrelsi skortsins, og við erum stolt af því að þau skyldu hafa þrek og dug til að gera það."

Þetta var 1976. Það er ekki lengra síðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta.

Og kannski er sitthvað hliðstætt nær okkur í tíma og rúmi en við teljum okkur trú um. 

 


"Skjóta helvítin!"

Ofangreind upphrópun Ladda í gervi veiðiáhugamannsins norðlenska heyrist nú æ oftar.

Þess er krafist að hætt verði friðun dýralífs í friðlöndum eins og Hornströndum og refaveiðar hafnar þar vegna þess hve refurinn valdi miklum  og vaxandi skaða á fuglalífi um allt land. 

Er þá horft fram hjá því að sveitarfélögin hafa ekki haft efni á því að fækka refnum og að refurinn á Hornströndum á engan þátt í því.  

Krafist er að aflétt sé aldargömlu banni við veiðum á álftum. Sú beiðni er tilkomin vegna nýrrar búgreinar, repjuræktar, sem Alþingismenn fyrir öld sáu ekki fyrir. 

Krafan um stækkað veiðisvæði hvala í Faxaflóa á ný hefur verið uppfyllt með þeim sjáanlegu afleiðingum að fyrir nokkrum dögum voru aðeins nokkrir kílómetrar frá hvalaskoðunarbáti að hvalveiðibáti, sem var að eltast við sömu hvali og ferðafólkið vildi sjá. 

En það er ekki bæði hægt að eiga tertuna og éta hana, eða hvað?  

Nú síðast heimta "skjóta helvítin!"-menn það að hafnar verði veiðar á hnúfubak, sem hafa legið niðri í 58 ár. Sagt er að hnúfubak hafi fjölgað og það er auðvitað óviðunandi.

Sérstaklega er tiltekið að þeim hafi fjölgað fyrir norðan, eins og til dæmis á Skjálfandaflóa, þar sem dýrmætasta og flottasta hvalaskoðunarsvæðið er.

Við slíkt er auðvitað ekki hægt að búa nema "skjóta helvítin".

Farin er svipuð leið í kröfunni um veiðarnar og farin var þegar aflétt var friðun Almenninga og Þórsmerkur með því að fara þar inn með aðeins 30 kindur, þrátt fyrir hávær mótmæli Landgræðslunna.

Sagt er að 30 kindur geti varla haft áhrif, og sagt varðandi veiðar á hnúfubak, að aðeins sé farið fram á veiðar "í vísindaskyni", kannski ekki nema tíu dýr.

Á bak við liggja fullyrðingar um að hvalirnir séu að stúta fiskistofnunum og rökrétt afleiðing af því hlýtur að vera sú að veiða mörg hundruð, helst þúsundir hvala til að ná einhverjum árangri í því að sjáist högg á vatni á þessu skaðræði. 

Þau tuttugu ár síðan Íslendingar undirrituðu skuldbindingar sínar í Ríó-sáttmálanum um sjálfbæra þróun og það að náttúran skuli njóta vafans, hefur hvorugt verið virt hér á landi ef mönnum þóknast svo að brjóta í bága við þessi grundvallaratriði.

Hvers vegna er hnúfubakurinn svona gæfur á Skjálfandaflóa?  Gæti það verið vegna langvarandi friðunar hans?  Samkvæmt hugsun Ríó-sáttmálans ættu allar veiðar "í vísindaskyni" ekki að vera til umræðu, - náttúran eigi að njóta vafans.

En kannski er hugsunin á bak við vísindaveiðarnar sú að rannsaka, hvort friðunin hafi haft áhrif á hegðun hnúfubaksins og hvort veiðar muni gera þá fælna þegar til lengri tíma er litið.

Það væri kannski áhugaverðasta viðfangsefni "veiða í vísindaskyni". En með því væri tekin áhætta á því, að ef veiðarnar gerðu dýrin fælnari, tæki kannski marga áratugi að vinda ofan af því tjóni á hvalaskoðunum, sem slíkt myndi hafa.

Af hverju má náttúran ekki njóta vafans í friði?  

 

 

 


Ekkert verra en hjá mörgum Íslendingum.

Nú hneykslast margir í tilefni af misskilningi erlendra ferðamanna vegna íslenskra örnefna, sem veldur því að þeir eru ekki á þeim slóðum sem þeir halda. Í umræddu tilefni rugluðu útlendingarnir sama Grænalóni að Fjallabaki og Grænalóni við Skeiðarárjökul. 

Þarna er kastað úr stóru glerhúsi, því að jafnvel íslenskir fjölmiðlamenn eru stundum ekkert betri.

Og nýlega greint frá því að Íslendingar hafi farið upp í Borgarfjörð til þess að leita að tónlistarhátíðinni Bræðslunni, sem haldin er hinum megin á landinu.  

Nýlega sýndi íslenskur fjölmiðill á korti, að Landmannalaugar væru undir Eyjafjöllum, en á mili Skóga og Eyjafjalla eru Eyjafjallajökull, Goðaland, Þórsmörk, Almenningar, Emstrur, Syðri-Fjallabaksleið og Torfajökulssvæðið!

Þegar leitað var að Íslendingum og þeir fundust látnir á meðan á gosinu í Fimmvörðuhálsi stóð, greindu fjölmiðlar frá því að þeir væru í grennd við gosið.

Hið rétta var að á milli þeirra og leitarsvæðisins að þeim annars vegar og gossins hins vegar voru Goðaland, Þórsmörk og Almenningar og fólksins var leitað og það fundið á Syðri-Fjallabaksleið, víðsfjarri gosinu.

Dæmin eru ótal mörg og fjölmiðlarnir rugla léttilega nöfnum á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess, alveg við bæjardyrnar.

Sandskeið er fært upp í Svínahraun og Hellisheiði er á Reykjanesi.

Því er það nærtækara að krefjast fyrst betri þekkingar okkar Íslendinga sjáfra á landi okkar í stað þess að einblína á vanþekkingu útlendinga.  

  


mbl.is Voru við annað Grænalón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær þrýtur langlundargeðið ?

Flugdólgurinn, sem kostaði Icelandair hundruð þúsunda og fjölda farþega mikið ónæði og vandræði, hlýtur að hafa verið óvenju illvígur. 

Þá ályktun dreg ég af því að mér hefur lengi fundist með ólíkindum hvílíkt langlundargeð áhafnir og farþegar íslenskra flugvéla hafa sýnt ölvuðu fólki í flugvélum.

Sú var tíðin að reykingar voru leyfðar í flugferðum og að það hefði þótt agalegt að banna þær.

Nú eru þær að sjálfsögðu bannaðar og engum dettur í hug að taka þær upp aftur.

Fyrir nokkrum árum var ég á leið til Íslands í sex klukkustunda flugi. Þegar þotan var komin vel á veg byrjaði einn ölvaður farþegi að abbast upp á mig með leiðinda röfli og pexi og fann mér flest til foráttu og atyrti mig fyrir flest sem ég væri að gera svona almennt.

Hann espaðist við það þegar ég benti honum á að hann væri að valda konu minni og öðru fólki, sem sæti mér næst ónæði að ósekju.

Smám saman kom upp ástand, sem var illleysanlegt vegna þess hvað flugvélin var komin langt áleiðis og þess, að maðurinn virtist verða ölvaðri og meira uppáþrengjandi eftir því sem á leið, kannski vegna langvarandi þjórs og vöku fyrir flugferðina.

Engin leið var að koma tauti við þennan mann og nú voru góð ráð dýr, því að komin var nótt og farþegar vildu hvílast við deyfð ljós.

Að lokum fannst sú lausn, að ég færði mig í autt sæti fremst í almenna farþegarýminu. Maðurinn elti mig þá þangað og lá yfir mér alla leiðina heim og úthúðaði mér og var mér til sem mestra leiðinda stanslaust.

Fann nýtt tilefni með því að þylja í sífellu: "Voða ertu merkilegur með þig. Geturðu ekki setið innan um annað fólk?  Hver þykistu eiginlega vera? Andskotans merkikertu ertu! Ertu of merkilegur til að tala við mig? Þú ert ömurlegur!" O. s. frv...  

En á meðan voru farþegarnir fyrir aftan nokkurn veginn í meira friði en áður.

Þótt sífellt væri verið að sussa á manninn, lækkaði hann róminn að vísu tímabundið en varð þeim mun orðljótari í návíginu sem hann var við mig.  

Þessu var ekki hægt að breyta, því að annars hefði ónæðið af dólginum bitnað á mun fleirum en mér. 

Sumir virðast vera þeirrar gerðar, að þeir þola ekki að fara í gegnum flugstöð án þess að detta í það.

Mætti kalla það "Leifstöðvar-heilkennið."  

Í gamla daga var þetta kallað "Ártúnsbrekkuheilkennið";  notað yfir menn sem stóðust það ekki að aka upp Ártúnsbrekku nema detta í það.

Hversu oft í gegnum tíðina hefur leiðinda ölvun ekki verið til ama um borð í flugvélum?  

Nú kann vel að vera að flugfélögin græði á því að selja venjulegu fólkim sen kann að fara með vín, áfenga drykki  um borð í flugvélum.

Í gamla daga minnir mig að tóbaksvörur hafi verið til sölu líka.  

En hvenær þrýtur þetta langlundargeð, sem enn ríkir gagnvart ölvuðu fólki í flugvélum?

Hvenær mun það þykja jafn sjálfsagt að úthýsa ölvun og áfengi úr flugvélum eins og reykingum?

Það myndi einfalda málið mikið, því að ef einhver kæmi inn í dyrnar við brottför undir áhrifum, myndi honum snúið við hið snarasta, rétt eins og hverjum þeim sem kæmi reykjandi inn.  


mbl.is Þurfti að snúa við vegna flugdólgs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband