Færsluflokkur: Pepsi-deildin
6.7.2010 | 00:17
Alltaf jafn gaman!
Ég fór á völlinn eftir mjög langt hlé í kvöld með tengdasonum mínum og dóttursyni til að sjá mína menn.
Þeir unnu ekki í kvöld. Þeir lentu 0:2 undir snemma í fyrri hálfleik og fengu á sig víti sem þó var varið glæsilega. En það var samt ógurlega gaman því að það er svo magnað hvað rígfullorðnir menn sleppa sér alveg aftur og aftur á svona leikjum og verða frá sér numdir af tilfinningum af ýmsu tagi, hrifningu, fyrirlitningu, æsingi, dofa, reiði, vorkunn, andúð, aðdáun, von og vonleysi til skiptis.
Það er hrópað og dómarinn verður fljótlega óvinsælasti maðurinn á vellinum og fylgjendur beggja liða sammála um það.
Það er rifist úm atvik, leikaðferðir, leikmenn, þjálfarana og hvað sem er.
Síðan skora mínir menn í uppbótartíma í lok fyrri hálfleiks og gerast síðan betri aðilinn á vellinum í síðari hálfleik, alveg að gera mann vitlausan af spenningi og ótta við að andstæðingarnir skori og vinni sigur.
Þegar jöfnunarmarkið kemur verður allt vitlaust og enn vitlausara þegar okkar maður er rekinn útaf og hægt að rífast um það atvik jafn lengi og um gatmarkið fræga á Melavellinum fyrir meira en hálfri öld sem menn rífast enn um.
Ég hélt þá með Skagamönnum og fannst boltinn lenda réttu megin inni í markinu hjá þeim, en gamlir Valsmenn, vinir mínir, eru enn jafn sannfærðir um að boltinn hafi gert gat á fúið þaknetið og farið þar í gegn.
Mínir menn sóttu stíft þótt þeir væru einum færri síðasta kafla leiksins og maður var haldinn mörgum sterkum tilfinningum í leikslok, vonbrigðum um að þeir skyldu ekki uppskera meira úr öllum færunum, óánægju með útafreksturinn og hrifningu á strákunum hvað þeir börðust allt til leiksloka eins og ljón.
Ég fór með peysu með mér á völlinn ef það skyldi verða of kalt að sitja og horfa á, en var svo sjóðheitur allan leikinn af æsingi að peysan var óþörf.
Aldeilis makalaust hvað eltingarleikur 22jaa manna við leðurtuðru getur skapað mikið tilfinningarót og haldið á manni hita þótt maður sitji allan tímann nema þegar allir rísa upp í æsingi og hrópa sig hása þegar mörkin og marktækifærin koma.
Alltaf jafn gaman! Alveg eins og á Melavellinum í gamla daga! Alveg eins og var alltaf og verður alltaf!
Lifi knattspyrnan! Áfram Fram! Áfam Ísland! Áfram íþróttirnar!
![]() |
Gunnlaugur: Þetta var mjög sérstakur leikur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2010 | 12:42
"Þegiðu, Egill! Þetta er Valur!"
Óforbetranlegur Framari eins og ég getur átt það til að halda með öðru liði en Fram, eins og það væri hans eigið félag.
Þannig er það með mig og marga aðra þegar KR er annars vegar. Hvernig stendur á þessuf?
Þetta er orðin mjög gömul hefð, allt frá miðri síðustu öld þegar KR var öflugasta íþróttafélag landsins, einkum í vinsælustu íþróttunum, knattspyrnu og frjálsum íþróttum.
Það er nefnilega kalt á toppnum og það fengu KR-ingar að reyna þegar Framarar, Valsarar og Víkingar héldu ákaft með Akurnesingum þegar þeir léku við KR.
Það gátu allir aðrir en KR-ingar sameinast um að vera á móti KR og halda til dæmis ákaft með Akurnesingum.
Ekki spillti fyrir að leikaðferð Akurnesinga, stuttar, hraðar sendingar, svonefnd meginlandsknattspyrna, gladdi augað meira en stórkarlalegur leikur KR sem byggðist á löngum spyrnum eins og oft voru notaðar í ensku knattspyrnunni.
Háar spyrnur og langar voru kallaðar "KR-spörk". Á móti hafa KR-ingar löngum kallað leikaðferð Fram "dúkkuspil" og "miðjumoð."
Gullaldarlið KR í kringum 1960 með Þórólf Beck, Ellert B. Schram, Garðar Árnason, Örn Steinsen og fleiri var að vísu svo glæsilegt og frábært að það var erfitt fyrir áhangendur annarra félaga að halda fast við að vera á móti KR.
Á sjötta áratugnum átti Fram að vísu líka gott lið og á síðari hluta þess áratugar voru Fram, Valur og ÍBA með bestu liðin.
Ég hef einu sinni hrópað "áfram KR" en það var þegar Jón með nefið (Jón Sigurðsson) og félagar hans í B-liði KR sló A-liðið út úr bikarkeppni á sjötta áratugnum.
Í laginu um Jóa útherja er Egill rakari látinn hrópa: "KR-ingar, þið eigið leikinn!" og honum er svarað: "Þegiðu, Egill, þetta er landsliðið!"
Í gær hefði verið hægt að hrópa "KR-ingar, þið eigið leikinn!" og svarið hefði verið: "Þegiðu, Egill (Bjarni), þetta er Valur!
Og í anda gamallar hefðar segi ég bara, þótt Framari sé: "Til hamingju, Valsmenn".
![]() |
Sigurganga Vals heldur áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.6.2010 | 08:03
Langþráður stöðugleiki.
Með hverju árinu fjarlægist í minningunni sú mynd af úrvaldsdeildarliði Fram að sveiflast eins og jójó frá lægstu lægðum upp í hæstu hæðir og bjargast á ævintýralegasta hátt í heimi frá falli niður úr deildinni.
Liiðið sýnir nú mikinn stöðugleika og karakter og er með því að gefa mér, gömlum Framara, góða afmælisgjöf.
Um þessar mundir eru nefnilega 70 ár síðan ég var skráður félagi í Fram, en það var þremur mánuðum fyrir fæðingu, svo miklir Framarar voru foreldrar mínir.
Þau voru aðeins átján ára en hann spilaði með 1. flokki á leið til Íslandsmeistaratitils góðviðrissumarið mikla 1939 og var valinn efnilegasti leikmaður liðsins.
Sextíu árum síðar var sonarsonur hans, Ragnar Ómarsson, valinn efnilegasti leikmaðurinn í sínum flokki.
Já, sagan endurtekur sig. Koma svo, Framarar, áfram með smjörið !
![]() |
Framarar aftur upp í 2. sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.8.2009 | 21:20
Karakter hjá mínum mönnum.
Það er talað um að það sé karakter í keppnisliði ef það brotnar ekki við mótlæti, heldur eflist og snýr taflinu við.
'Á þetta skorti oft hjá meistaraflokki Fram árin sem Framarar björguðu sér frá falli ár eftir ár, oft á ævintýralegan hátt á síðustu mínútum mótsins.
Mér skilst að liðið hafi sett heimsmet í heppni að þessu leyti og ég hélt því fram á þessum tíma að þetta væri sálfræðileg vont fyrir liðið því að undir niðri væri treyst væri á heppni sem gæti ekki haldið áfram og að hugurinn byndist smám saman við botnbaráttu í stað þess að hugsa hærra.
Miklu betra væri fyrir Fram að falla hreinlega niður, stokka allt upp og byrja frá grunni með nýju hugarfari.
Það kom í ljós að þetta reyndist rétt og karakterinn í liði Fram hefur verið sterkur í sumar.
Um daginn lentu strákarnir í stöðunni 0:3 eftir fyrir hálfleik en tókst að snúa dæminu við í þeim síðari.
Nú leika þeir þetta aftur og ég sem verið hef skráður í Fram fjórum mánuðum lengur en ég hef lifað, fagna þessu hjartanlega. Áfram Fram !
![]() |
Hjálmar tryggði Fram ótrúlegan sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.6.2009 | 20:07
Á við þrjá aðra sigra?
Mér var alveg hætt að lítast á blikuna með liðið mitt áður en það gerði sér lítið fyrir og vann sætan sigur nú síðdegis.
Fyrir innvígða Framara er sigur á KR líkast til á við þrjá aðra sigra, svo mikils virði er KR í heimsmynd Framara þar sem annar póllinn hefur í heila öld verið í Vesturbænum og hinn í Austurbænum.
Nú hefur aukist von um að Fram þoki sér af of gamalkunnu svæði frá árunum í kringum aldamótin og komi sér á svipað ról og liðið var á í fyrra. Er það vel.
![]() |
Sanngjarn sigur Fram á KR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.6.2009 | 07:16
Magnús Scheving gerði þetta líka.
Það blæs ekki byrlega fyrir mitt lið, Fram, um þessar mundir í fótboltanum. Nú verða mínir menn að fara að taka sig á ef þeir eiga ekki að lenda á kunnuglegum slóðum frá því fyrir nokkrum árum í deildinni.
Innköst Steinþórs Þorsteinssonar hjá Stjörnunni eru frábær, jafnast á við spyrnu hvað snertir hæð, lengd og nákvæmni.
Hann er þó ekki sá fyrsti sem þetta gerir. Í Stjörnuliðinu mínu svonefnda tók Magnús Scheving svona innköst yfir endilangan eða þveran völlinn eftir atvikum hér á árum áður og vakti gríðarlega lukku á hinu fjölmenna árlega Shellmóti í Vestmannaeyjum.
Magnús lumaði auk þess að ýmsum öðrum stórkostlegum óhefðbundnum brögðum í knattspyrnunni.
Raunar væru uppátæki Stjörnuliðsmanna í gegnum ári efni í hluta úr bók, svo marga skemmtilegar og óvenjulegar kúnstir gerðu þeir oft á tíðum.
![]() |
Frábær sigur Stjörnunnar á Fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 07:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2008 | 03:29
Framararnir! Frækið lið!
Það er stutt síðan ég skrifaði bloggpistil með þessari yfirskrift, en það var þegar Fram vann FH og hleypti öllu í uppnám í deildinni. Þá héldu sumir að Fram hefði með þessu gagnast Keflvðíkingum einum, því enginn bjóst við að Fram gæti unnið tvö efstu liðin í deildinni og allra síst á lokasprettinum þegar toppliðin tjölduðu öllu sem til var.
En auðvitað gerði Fram ekki upp á milli toppliðanna heldur vann þau bæði og réði þar með úrslitum á toppnum auk þess að tryggja sér Evrópusæti.
Hvílík umskipti frá undanförnum áratug!
Keflvíkingar geta ekki sakað Framara um að hafa unnið með FH-ingum með frammistöðu sinni í dag fremur en FH-ingar voru súrir yfir því að Framarar tóku upp á því að vinna þá um daginn.
Sem Framari síðan ég var enn ófæddur óska ég mínum mönnum til hamingju með frábæran endasprett og karakter og vísa til baráttusöngsins sem ég birti um daginn.
![]() |
FH Íslandsmeistari 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 09:31
Framararnir, - frækið lið!
Það má ekki minna vera en ég kvitti fyrir það á blogginu mínu sem Framari í 68 ár og þrjá mánuði (ég var skráður inn í félagið þremur mánuðum fyrir fæðingu) hve mínir menn stóðu sig vel í gærkvöldi þegar þeir urðu örlagavaldar um úrslit Íslandsmótsins. Það er að minnsta kosti ákaflega veik von fyrir FH eftir þessa rassskellingu að ná Keflvíkingum að stigum.
Leikurinn var bráðskemmtilelg skemmtun því að góðir taktar sáust hjá báðum liðunum þrátt fyrir afleitar aðstæður.
Nú er spurningin hvort Framararnir ná þriðja sætinu (Evrópusæti) í deildinni. Bæði KR og Valur eiga mögueika á að fara fram úr Fram og allt er þar galopið.
Þetta eru mikil og gleðileg umskipti á Framliðinu frá mörgum erfiðum árum. Reyndar bar hvert "afrek" liðsins, - sem fólst í að setja heimsmet í heppni með að hanga í deildinni ár eftir ár - dauðann í för með sér. Þetta var sálrænt afar slæmt.
Skárra hefði verið að falla fyrr og koma þá fyrr sterkur inn að nýju, reynslunni ríkari og með aðeins eina leið framundan: Upp á við í stað þess að hanga uppi á botninum með möguleikann einn á móti milljónum.
Ég raulaði fyrir munni mér í gærkvöldi baráttulag fyrir Fram, sem ég hef gert og byrjar svona í klapptaktinum sem Framarar nota gjarnan á leikjum liðsins:
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framararnir! - Frækið lið! -
Eru í fararbroddi´að hressa´upp mannfólkið.
Flottar stelpur!
Frískir menn!
Eru í fremstu röð og vinna sigra enn!
Eru í fremstu röð og vinna sigra enn!
Framarar! (Klapp, klapp, klapp) o. s. frv.
Nú getur maður verið stoltur af að syngja á þennan hátt og njóta þess að það eru mínir menn sem eiga skilið að vera hampað í tónum og takti.
Því miður virðist sú ekki vera raunin í augnablikinu hvað varðar gamla textann minn "Skagamenn skoruðu mörkin".
Það hljómaði að minnsta kosti ekki vel þegar Skagamaður skoraði sjálfsmark ársins í síðasta leik.
En kannski er það skást úr því sem komið er að Skaginn falli núna og komi síðan sterkur til baka eins og Fram.
![]() |
Fram vann stórsigur á FH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.7.2008 | 12:08
Er sóknin alltaf besta vörnin?
Í fjölmiðlum er talað um að ráð hinna nýju þjálfara til að lyfta Skagaliðinu upp felist í að skerpa sóknina. Sumir tala um að Guðjón hafi lagt of mikla áherslu á varnarleikinn. Ég er ekki viss um að þetta sé sú patent-lausn sem leysi vandann. Ef Skaginn hefði átt að vinna Breiðablik hefðu sóknarmennirnir orðið að skora sex mörkum meira en þeir gerðu!
Ég sá að vísu ekki leikinn en myndirnar af mörkum Breiðabliksmanna sýndu glögglega Skagavörn, sem var eins og rjúkandi rúst. Toppliðunum hefur í sumum leikjum nægt að skora eitt mark til að fá stig, - nú síðast Valsmönnum og í leiknum við Breiðablik skoruðu Skagamenn þó eitt mark. Slök byrjun Valsmanna í sumar stafði mest af því að vörnin brást.
Ég er einlægur aðdáandi góðs sóknarleiks og hata markalaus jafntefli. Fátt er leiðinlegra eða meira frárhrindandi fyrir áhorfendur en leikir, þar sem varnirnar leika svo mikið aðalhlutverk að úr verður leiðindaþóf manna, sem hópast saman við vítateigana sitt hvorum megin.
En markatalan í leiknum við Breiðablik talar sínu máli og raunsæi verður að ráða meira förinni en draumórar. Það er óhjákvæmilegt að bæta vörnina og þar lenda bræðurnir í rústabjörgun í næstu leikjum.
Auðvitað er það rétt að með góðu sóknarspili heldur lið boltanum lengur og gefur andstæðingunum færri tækifæri til að byggja upp sínar sóknir. Þannig voru Skagaliðin á gullaldarárunum en á fyrstu gullöldinni á sjötta áratugnum áttu þeir ekki bara bestu sóknarmennina, heldur líka besta miðvallarpar landsins, Guðjón Finnbogason og Svein Teitsson.
Í markinu stóð lengst af landsliðsmarkvörðurinn Helgi Daníelsson og það kom fyrir að meira en helmingur landsliðsins væru Skagamenn.
Þótt ég sé Framari hef ég miklar taugar til Skagamanna frá fornu fari, - annars hefði ég varla gert textann "Skagamenn skoruðu mörkin." Ný gullöld byggist á auðvitað á því en það dugir ekki að skora mörk ef menn fá á sig fleiri mörk en skoruð eru.
Líklega byggjast vonir Skagamanna á því að allt liðið endurheimti sjálfstraust sitt svo að vörn jafnt sem sókn smelli saman og að það sjáist ekki aftur sama hörmungin og ráðvillt og galopin vörnin var í leiknum við Breiðablik, sem flestir Akurnesingar vilja áreiðanlega gleyma sem fyrst.
![]() |
„Akranes er félagið okkar“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |