Meira þarf til. Hvað um "finnsku leiðina?"

Nýjustu fregnir af verðbréfamörkuðum gera það að spennandi verkefni að fara í gegnum atburðarásina undanfarinn hálfan mánuð á meðan beðið er eftir því að meira verði að gert og fjármálakerfi heimsins tekið til gagngerrar endurskoðunar. Takist það og þar með að komast hjá langvinnri og djúpri kreppu munu ekki aðeins vakna spurningar varðandi þær ráðstafanir sem gerðar voru hjá okkur í panik, heldur líka um þá leið sem við ættum að fara út úr þessu.

Í aðdraganda kosninganna 2007 hélt ég mjög fram finnsku leiðinni sem svo er nefnd og Ágúst Ólafur Ágústsson gerir líka að umtalsefni í bloggi sínu í dag. Við það má hins vegar bæta að Finnar stóðu í upphafi djúprar efnahagslægðar á tíunda áratugnum frammi fyrir því freistandi örvæntingarúrræði að virkja vatnsafl í stórum stíl fyrir stóriðju.

Í ljós kom að breyta þyrfti stjórnarskrárákvæði til þess að gera það fljótt og vel, en ráða má af tali sumra hér heima um það að sigla eigi fram hjá mati á umhverfisáhrifum og ákvæðum EES , að þá sé slíkt nú ekki mikið mál. 

En lagaákvæðin voru ekki það sem urðu til þess að Finnar vísuðu stóriðjuhugmyndunum frá heldur hitt að slíkar hugmyndir um verksmiðjuframleidd hráefni voru 19. aldar úrræði og að ekki væri hægt að verja takmörkuðu fjármagni bæði í það og hina leiðina sem þeir fóru.

Finnska leiðin var kallað "finnska efnahagsundrið." Þeir efldu þekkingu, hugvit og menntun sem ól af sér framleiðslu á gæðavörum á borð við Nokia-símana.

Nú um stundir hallmæla menn "útrás" sem af hinu illa og setja alla slíka undir sama hatt og áhættufjármálastarfsemi. Það er gert til að fá þjóðina til að fara hráefnisverkmiðjuleiðina.

Í landinu er nú fullt af fyrirtækjum, sem sannanlega hafa nýtt hugvit og þekkingu í finnskum stíl. Þarf ekki annað en nefna CCP, Össur, Marel og fleiri slík í því sambandi, fyrirtæki sem hafa raunveruleg verðmæti að selja með sem hæstum virðisauka.

Finnska leiðin felur í sér samfélag vel borgaðra starfa sem byggjast á mannauði og menntun.

Hin íslenska verksmiðjuleið felur í sér framtíðarsýn um útskerið Ísland þar sem virkjanir, stóriðja og skammvinnar mannvirkjaframkvæmdir hafa tekið alla orku landsins með ómældri eyðileggingu náttúrugersema á kostnað komandi kynslóða.

Vinna fyrir 2-3% vinnuafls landsins í átta risaverkmiðjum (ef tvær olíuhreinsistöðvar eru teknar með) er allur afraksturinn og meiri hluti starfanna í stíl við margítrekaðar auglýsingar Alcoa-Fjarðaráls: "Engrar sérstakrar menntunar krafist." Þessi stefna þýðir bara eitt fyrir Ísland: Flótta unga fólksins frá landinu til landa þar sem innreið 21. aldarinnar hefur verið viðurkennd. 

 


mbl.is Mesta dagshækkun Dow Jones
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturgöngutal upp úr pólitískri gröf.

1995 sendu Íslendingar bænarskjal til álfursta heims og buðum þeim ódýrustu orku í heimi og að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mati á umhverfisáhrifum, - það væri sveigjanlegt. Fyrir þessu stóðu ráðherrar Framsóknarflokksins fyrst og fremst með Halldór Ásgrímsson og Finn Ingólfsson í broddi fylkingar. Þessir fulltrúar einnar af ríkustu þjóðum heims óðu fram fyrir fátækari þjóðir og undirbuðu þær við sölu vatnsorku.

Halldór Ásgrímsson hefur haft hægt um sig síðan hann hætti í stjórnmálum fyrir tveimur árum og hefði farið best á því að svo hefði verið áfram. En nú rís hann upp við dogg í Kaupmannahöfn og telur sig eiga brýnt erindi við þjóðina. Og erindið er hið svipað og 1995 en þó talað mun skýrar en þá um að ryðja öllu mati á umhverfisáhrifum burt og virkja strax allt sem virkjanlegt er, helst í gær. 

Framtíðardraumurinn felst í því að gera Ísland að útskeri sem byggi allt sitt á stóriðju og framleiðslu hráefna og skammvinnum virkjana- og stóriðjuframkvæmdum. Auglýsingar Alcoa-Fjarðaráls segja sitt um það á hverju meginhluti þessarar atvinnusköpunar byggist: Auglýst er aftur og aftur eftir fólki þar sem engar sérstakar kröfur eru gerðar um menntun. 

Í sambærilegum samfélögum í nágrannalöndum okkar sést til hvers þessi 19. aldar atvinnustefna leiðir: Unga fólkið flýr til annarra landa þar sem þjóðarframleiðslan og velgengnin byggir sem mest á hugviti og menntun og framleiðsluvörum sem skapaðar eru á þann hátt en ekki að mestu leyti á vinnu í verksmiðjum, þar sem aðeins 2-3% vinnuafls Íslands verður í fullvirkjuðu landi, ef við tökum tvær olíuhreinsistöðvar með í reikninginn.

Nú á nota erfiðleika þjóðarinnar til að selja henni úrræði sem byggja enn sem fyrr á skammsýni á kostnað komandi kynslóða. Mikið óskaplega hefði verið gott ef Halldór Ásgrímsson hefði haft eitthvað skárra að segja en þetta afturgöngutal upp úr pólitískri gröf.  

 


mbl.is Allt í fína á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skamma stund varð hönd höggi fegin.

"Skamma stund verður hönd höggi fegin" segir máltækið og það hefur átt við um Breta þessa dagana. Þeir reiddu hátt til höggs gegn Íslendingum í stundarbræði og atkvæðasnapi gerðu með því aðeins illt verra fyrir sjálfra sig.

 Atburðir gerast hratt þessa dagana og áhrifin koma undraskjótt fram á tækniöld. Sem dæmi má nefna að við eftirgrennslan hef ég komist að því að frá því að ef áhrifamaður í einhverju landi segir eitthvað markvert í fjölmiðlum er það komið út um allan heim á innan við 30 mínútum, í fjölmiðla og til allra stofnana og fyrirtækja sem skipta máli. Tökum sem dæmi ummæli Davíðs Oddssonar í frægu Kastljósviðtali.

Ég var staddur í Bandaríkjunum og þar var hægt að fylgjast beint með samtalinu á netinu um klukkan eitt eftir hádegi að staðartíma á vesturströndinni. Hin einstæða og ótrúlega frétt um þjóðina, sem ætlaði ekki að borga, var komin á sjónvarpsstöðvarnar í Bandaríkjunum að kvöldi þess sama dags og nú rétt í þessu er Breti einn einmitt að lýsa íslensku þjóðinni sem vanskilamönnum í viðtali í Kastljósi.

Viðleitni til leiðréttinga hafa ekki ratað í fréttir því að það er ekki frétt að einhver ætli að standa við skuldbindingar sínar, - það á jú að vera almenna reglan.  

Davíð hélt að hann væri að brillera gagnvart íslenskum áhorfendum með glæsilegri höggafléttu hrífandi málflutnings þegar hann í raun var að sturta orðstír og viðskiptavilja þjóðar sinnar niður í klósettið fyrir framan agndofa heimsbyggðina.  


mbl.is Bretar lána Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðasamningar.

Síðustu daga Hitlers trúði hann því statt og stöðugt að þýska þjóðin myndi farast með sér. Borgir landsins voru í rústum og í hans huga blasti við miklu verri staða en eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar aldrei hafði verið barist á þýskri grund en óraunhæfar stríðsskaðabætur gerðu Þjóðverjum samt lífið óbærilegt eftir styrjöldina. 

Hitler sá það ekki fyrir að menn höfðu lært af mistökum fyrri tíma. Það eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í því að refsa þjóð, - það er ekki hægt að læsa hana inn í fangelsi og það er engum til góðs. Hins vegar getur þjóð farið í meðferð, endurhæfingu og í betrunarvinnu þar sem hún leggur sitt af mörkum til samfélags þjóðanna, öllum til hagsbóta.

Þetta gerðu Þjóðverjar og sigurvegararnir í stríðinu í sameiningu og eftir rúmlega tíu mögur og erfið ár uppskáru þeir einhverja mestu efnahagslega endurreisn og uppgang sem sagan kann frá að greina. 

Þetta var ekki þjóðargjaldþrot eins og Hitler hélt að það yrði heldur skynsamlegir og sanngjarnir nauðasamningar. Þannig má líta á stöðu íslensku þjóðarinnar í dag. Við förum í svipaða nauðasamninga, meðferð, endurhæfingu og tökumst á við afleiðingar gjörða okkar og annarra í sameiningu og eindrægni og sé rétt að þessu staðið verður þjóðin sterkari eftir tíu ár en hún var í græðgisvímu liðinna ára.  


mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og 1919-39?

Stundum er eins og dýrkeyptasta reynsla dugi ekki til að menn læri af henni. Í Versalasamningunum eftir fyrri heimsstyrjöldina voru ráðamenn Frakka og Breta sjóðandi illir út af hegðun Þjóðverja í styrjöldinni og settu á þá óuppfyllanlegar kvaðir sem urðu einhver mestu mistök veraldarsögunnar og leiddu af sér aðra heimsstyrjöld sem var í raun aðeins framhald af þeirri fyrri.

Afleiðingin varð jarðvegur í Þýskalandi fyrir gremju sem braust út í fylgi við Hitler og flokk hans, verstu villimennsku síðari tíma.

Eftir seinni heimstyrjöldina var eyðileggingin mest í Þýskalandi og því auðveldara fyrir hina skynsamari meðal Bandamanna að nýta sér reynsluna af fyrri mistökum og láta gríðarlega erfiða uppbyggingu í Þýskalandi nægja sem refsingu.

Meira að segja hjálpuðu Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar Þjóðverjum til að ná styrkleika og geta á þann hátt orðið að meira liði við almenna uppbyggingu eftir styrjöldina en verið hefði ef þeir hefðu verið beittir refsingum sem þeir gátu engan veginn risið undir. 

Nú er eins og breskir ráðamenn hafi ekkert lært af þessu. Þeir láta ógætileg ummæli íslenskra ráðamanna reita sig til reiði og grípa til fáránlegra refsiaðgerða. Eftir fyrri heimsstyrjöldina ollu vandræði Þjóðverja öllum nágrannaþjóðunum vandræðum. Þeir gátu ekki greitt skaðabæturnar og á endanum töpuðu allir. 

Nú gerist það sama þótt í minna mæli sé, enda Íslendingar smáþjóð. Bresku ráðamennirnir verða fyrir því sama og við Íslendingar þegar ballið byrjaði hér heima þegar Glitnir var tekinn: Með því að hella olíu á hinn íslenskættaða banka í Bretlandi veiktu bresku ráðamennirnir aðra banka og eigið fjármálakerfi og kveiktu elda sem ekki sér fyrir endann á hvort eða hvenær verði slökktir. 

Ef Bretar ætla að fara fram gegn Íslendingum af sama óraunsæi og hörku og þeir gerðu gegn Þjóðverjum 1919 verður það mikið glapræði og mun bitna á Bretum jafnt sem öðrum. Breskir "óreiðumenn" áttu ekki minni þátt í því sem gerðist í tengslum við hina íslensku fjármálastarfsemi í Bretlandi en Íslendingarnir og því engin hæfa í því að ætlast sé til að þeir fái betri kjör en aðrir sem áttu hlut af þessum málum.

Ef Bretar ætla að ná ósanngjörnum kröfum fram í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn verður að standa gegn því, ekki aðeins vegna Íslendinga heldur Breta sjálfra. Ég hef oft sagt að mesta gæfi Íslendinga á fyrri öldum hafi verið að úr því að landið varð að vera nýlenda einhverrar annarrar þjóðir skyldu það vera Danir en ekki Bretar sem voru (að miklu leyti til málamynda) við völd hér.

Það verður að vona að þessi vinaþjóð, sem við skulum enn skilgreina sem slíka, grípi ekki til óraunhæfra aðgerða frekar en orðið er.  

 


mbl.is Breskir bankar yfirteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband