Afturgöngutal upp úr pólitískri gröf.

1995 sendu Íslendingar bænarskjal til álfursta heims og buðum þeim ódýrustu orku í heimi og að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mati á umhverfisáhrifum, - það væri sveigjanlegt. Fyrir þessu stóðu ráðherrar Framsóknarflokksins fyrst og fremst með Halldór Ásgrímsson og Finn Ingólfsson í broddi fylkingar. Þessir fulltrúar einnar af ríkustu þjóðum heims óðu fram fyrir fátækari þjóðir og undirbuðu þær við sölu vatnsorku.

Halldór Ásgrímsson hefur haft hægt um sig síðan hann hætti í stjórnmálum fyrir tveimur árum og hefði farið best á því að svo hefði verið áfram. En nú rís hann upp við dogg í Kaupmannahöfn og telur sig eiga brýnt erindi við þjóðina. Og erindið er hið svipað og 1995 en þó talað mun skýrar en þá um að ryðja öllu mati á umhverfisáhrifum burt og virkja strax allt sem virkjanlegt er, helst í gær. 

Framtíðardraumurinn felst í því að gera Ísland að útskeri sem byggi allt sitt á stóriðju og framleiðslu hráefna og skammvinnum virkjana- og stóriðjuframkvæmdum. Auglýsingar Alcoa-Fjarðaráls segja sitt um það á hverju meginhluti þessarar atvinnusköpunar byggist: Auglýst er aftur og aftur eftir fólki þar sem engar sérstakar kröfur eru gerðar um menntun. 

Í sambærilegum samfélögum í nágrannalöndum okkar sést til hvers þessi 19. aldar atvinnustefna leiðir: Unga fólkið flýr til annarra landa þar sem þjóðarframleiðslan og velgengnin byggir sem mest á hugviti og menntun og framleiðsluvörum sem skapaðar eru á þann hátt en ekki að mestu leyti á vinnu í verksmiðjum, þar sem aðeins 2-3% vinnuafls Íslands verður í fullvirkjuðu landi, ef við tökum tvær olíuhreinsistöðvar með í reikninginn.

Nú á nota erfiðleika þjóðarinnar til að selja henni úrræði sem byggja enn sem fyrr á skammsýni á kostnað komandi kynslóða. Mikið óskaplega hefði verið gott ef Halldór Ásgrímsson hefði haft eitthvað skárra að segja en þetta afturgöngutal upp úr pólitískri gröf.  

 


mbl.is Allt í fína á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Bjarnason

Getur einhver sagt mér hvað gjaldeyristekjurnar aukast mikið við álver, þegar búið er að taka tillit til þess að hráefnið er allt innflutt og það þarf að taka lán í þá uppbyggingu?

Ég veit að þetta er ekkert sambærilegt við útflutning á fiski, nýtingu annarra innlendra auðlinda.

Það væri gaman að sjá samanburð við t.d. ef orkan væri notuð til að lýsa upp gróðurhús og framleiðslan væri flutt á erlenda markaði.

Björn Bjarnason, 13.10.2008 kl. 20:52

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Halldór Ásgríms er svo sannarlega afturgenginn endurskoðandi, enda þótt hann hafi gefið mér pönnsur með jarðarberjasultu og rjóma niðri á Alþingi.

Heimsmarkaðsverð á áli lækkaði um 25% á tveimur mánuðum nú síðsumars og í haust og flytja þarf inn hráefnið:

http://www.visir.is/article/20080917/FRETTIR01/846324704

Mikil lækkun á gengi krónunnar undanfarið kemur hins vegar öllum til góða sem flytja út vöru og þjónustu, ekki bara sjávarútveginum. Þar má til dæmis nefna ferðaþjónustuna, útflutning á tækjum til veiða og fiskvinnslu, stoðtækjum, lyfjum, hugbúnaði og erlendar áskriftir að tölvuleiknum EVE Online, sem gefur mörg hundruð milljóna króna gjaldeyristekjur á ári.

Hér verða reist fleiri hótel á næstunni, veitingastaðir selja útlendingum mat og drykk, íslenskar landbúnaðarvörur með tilheyrandi virðisauka, og eftir örfá ár verða ferðamenn transporteraðir hér á milli staða í rafmagnsbílum, sem þurfa ekki á rándýrum erlendum orkugjafa að halda, olíu eða bensíni.

Útlendingar fara hér tugþúsundum saman í hvalaskoðunarferðir, til dæmis frá Húsavík, og greiða nokkur hundruð milljónir króna á ári fyrir sjóstangveiði, til að mynda á Vestfjörðum. Og Icelandair flytur erlenda ferðamenn á milli Íslands og annarra landa.

Og nú hverfa íslenskir bankamenn, sem nú misstu störf sín, til þessara starfa en nokkrum tískuverslunum hér verður lokað. Íslenska ríkið tók yfir bankana hér en nú taka íslensku lífeyrissjóðirnir þá yfir að stórum hluta og við eigum bæði ríkið og lífeyrissjóðina.

Þar að auki munu vextir lækka hér mikið á næstunni og því auðveldara á margan hátt að reka íslensk fyrirtæki en undanfarin ár.

Þorsteinn Briem, 13.10.2008 kl. 21:42

3 Smámynd: Jóhannes Einarsson

Blessaður kallinn Dóri, hann hefur kanski farið í Magasín eða Illum og séð grínarana frá Extrablaðinu með Íslands-baukana, og Móri hefur bært á sér. En  bara ef þið hafið ekki tekið eftir því þá hafa draugar vaknað á fleiri stöðum.

Jóhannes Einarsson, 13.10.2008 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband