Meira þarf til. Hvað um "finnsku leiðina?"

Nýjustu fregnir af verðbréfamörkuðum gera það að spennandi verkefni að fara í gegnum atburðarásina undanfarinn hálfan mánuð á meðan beðið er eftir því að meira verði að gert og fjármálakerfi heimsins tekið til gagngerrar endurskoðunar. Takist það og þar með að komast hjá langvinnri og djúpri kreppu munu ekki aðeins vakna spurningar varðandi þær ráðstafanir sem gerðar voru hjá okkur í panik, heldur líka um þá leið sem við ættum að fara út úr þessu.

Í aðdraganda kosninganna 2007 hélt ég mjög fram finnsku leiðinni sem svo er nefnd og Ágúst Ólafur Ágústsson gerir líka að umtalsefni í bloggi sínu í dag. Við það má hins vegar bæta að Finnar stóðu í upphafi djúprar efnahagslægðar á tíunda áratugnum frammi fyrir því freistandi örvæntingarúrræði að virkja vatnsafl í stórum stíl fyrir stóriðju.

Í ljós kom að breyta þyrfti stjórnarskrárákvæði til þess að gera það fljótt og vel, en ráða má af tali sumra hér heima um það að sigla eigi fram hjá mati á umhverfisáhrifum og ákvæðum EES , að þá sé slíkt nú ekki mikið mál. 

En lagaákvæðin voru ekki það sem urðu til þess að Finnar vísuðu stóriðjuhugmyndunum frá heldur hitt að slíkar hugmyndir um verksmiðjuframleidd hráefni voru 19. aldar úrræði og að ekki væri hægt að verja takmörkuðu fjármagni bæði í það og hina leiðina sem þeir fóru.

Finnska leiðin var kallað "finnska efnahagsundrið." Þeir efldu þekkingu, hugvit og menntun sem ól af sér framleiðslu á gæðavörum á borð við Nokia-símana.

Nú um stundir hallmæla menn "útrás" sem af hinu illa og setja alla slíka undir sama hatt og áhættufjármálastarfsemi. Það er gert til að fá þjóðina til að fara hráefnisverkmiðjuleiðina.

Í landinu er nú fullt af fyrirtækjum, sem sannanlega hafa nýtt hugvit og þekkingu í finnskum stíl. Þarf ekki annað en nefna CCP, Össur, Marel og fleiri slík í því sambandi, fyrirtæki sem hafa raunveruleg verðmæti að selja með sem hæstum virðisauka.

Finnska leiðin felur í sér samfélag vel borgaðra starfa sem byggjast á mannauði og menntun.

Hin íslenska verksmiðjuleið felur í sér framtíðarsýn um útskerið Ísland þar sem virkjanir, stóriðja og skammvinnar mannvirkjaframkvæmdir hafa tekið alla orku landsins með ómældri eyðileggingu náttúrugersema á kostnað komandi kynslóða.

Vinna fyrir 2-3% vinnuafls landsins í átta risaverkmiðjum (ef tvær olíuhreinsistöðvar eru teknar með) er allur afraksturinn og meiri hluti starfanna í stíl við margítrekaðar auglýsingar Alcoa-Fjarðaráls: "Engrar sérstakrar menntunar krafist." Þessi stefna þýðir bara eitt fyrir Ísland: Flótta unga fólksins frá landinu til landa þar sem innreið 21. aldarinnar hefur verið viðurkennd. 

 


mbl.is Mesta dagshækkun Dow Jones
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Akureyringar völdu "finnsku leiðina". Í stað þess að reisa álver á Gáseyri settu þeir á laggirnar háskóla með nemendum af öllu landinu og erlendum nemum, sem koma með gjaldeyri inn í landið. Nemendurnir leigja margir hverjir herbergi og íbúðir á Akureyri og þegar þeir útskrifast flytja þeir til dæmis út vörur og þjónustu og fá þannig mikinn gjaldeyri inn í landið. Og Akureyri er nú blómlegt bæjarfélag.

Viðskiptafræðingar, hagfræðingar og tölvunarfræðingar, sem missa nú vinnuna í bönkunum, nokkur hundruð manns, fá vinnu strax, eða fljótlega, í útflutningsfyrirtækjum, sem nú þegar eru fyrir í landinu og flytja út bæði vörur og þjónustu, til dæmis sjávarafurðir, tæki til veiða og fiskvinnslu, hugbúnað, lyf og ferðaþjónustu. Ekki álveri sem tæki til starfa eftir nokkur ár.

Nú er einungis gert ráð fyrir 2% atvinnuleysi hérlendis nú í október en allt að 4% skráð atvinnuleysi er almennt talið "eðlilegt skráð atvinnuleysi" á meðan fólk leitar að nýrri vinnu. Og hér voru allt að 17 þúsund útlendingar við störf fyrr á þessu ári en skráð atvinnuleysi var samt sem áður 1%.

Sambandsverksmiðjurnar á Akureyri og Álafossverksmiðjan byggðust á útflutningi til Sovétríkjanna, sem hrundu árið 1991, og fjöldinn allur af sjávarþorpum hér seldu þangað árlega hundrað þúsund tunnur af saltsíld. Útflutningurinn til Sovétríkjanna nam allt að þriðjungi af útflutningstekjum okkar og útflutningur okkar Íslendinga varð því ekki síður fyrir áfalli en útflutningur Finna þegar Sovétríkin hrundu.

Þorsteinn Briem, 14.10.2008 kl. 00:46

2 Smámynd: Sævar Finnbogason

Já Ómar, nú heyrum við ál-klukkna hljóm klingja í kreppunni.

Einu sinni var kallað á þegar svona ástand geysaði.

Nú er bara kallað á ál?

Jæja reinum að vera í góða skapi, það kostar ekkert, áfram Ísland

Sævar Finnbogason, 14.10.2008 kl. 01:43

3 Smámynd: Sævar Finnbogason

nú heyrum við ál-klukkna hljóm klingja í kreppunni.

Einu sinni var kallað á blóð þegar svona ástand geysaði.

Sævar Finnbogason, 14.10.2008 kl. 01:45

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Góður pistill Ómar.  Við þetta má bæta að finnskir bankar eru með þeim fáu í Evrópu sem ekki hafa þurft aðstoð undanfarnar vikur.

Sjá grein: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/10/13/finnskir_bankar_thurfa_ekki_adstod/

Tek líka undir spurningu Gísla Marteins þegar hann spurði um Sviss.  Hvernig stendur á því að bankakerfið í Sviss getur verið miklu stærra en ríkið?  Hvað getum við lært af þeim?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 14.10.2008 kl. 01:48

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef alltaf verið hlynntur EES og í fréttum og þáttum um virkjanamál sagði ég fyrstur manna frá því 1998 hvernig Norðmenn höfðu tekið upp sína rammaáætlun.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2008 kl. 09:45

6 identicon

Thú gleymdir  mjög stóru atridi. Finnarnir byggdu og byggdu kjarnorkuver í stad thess ad virkja vatnsaflid.

benediktus (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 21:41

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Finnarnir byggðu kjarnorkuver ekki fyrir stóriðju heldur aðra notkun.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2008 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband