Hvað eru "stjórnmálaflokkar"?

Sem talsmaður Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands hef ég orðið var við athyglisverðan tvískinnung gagnvart hreyfingunni, sem meðal annars hefur birst á mótmælafundum og borgarafundum að undanförnu. Á fyrsta borgarafundinum í Iðnó var talsmönnum flokkanna sem eiga menn þingi boðið að sitja fyrir svörum en Íslandshreyfingin ekki talin með.

Bak við þetta stóð sú staðreynd að enda þótt hreyfingin fengi atkævðamagn sem hefði nægt fyrir tveimur þingmönnum hjá hinum flokkunum, kom ósanngjörn kosningalöggjöf í veg fyrir hún fengi þingfulltrúa í samræmi við fylgi sitt. Mikill áróður fór fram til að hræða kjósendur frá því að kjósa hreyfinguna vegna þess að atkvæðin myndu "falla dauð."

En fyrir bragðið er Íslandshreyfingin eini stjórnmálaflokkurinn sem ekki á aðild að því sem gert hefur verið á þingi, til dæmis eftirlaunaósómanum. Á stofndegi hreyfingarinnar var lýst yfir því að hún vildi öll slík sérréttindi í burtu jafnhratt og þeim var komið á. Fróðlegt var að sjá í Kastljósi í kvöld röksemd Þuríðar Bachmann fyrir hönd VG sínum tíma fyrir sérréttindum handa þingmönnum og æðstu ráðamönnum, sem eftirlaunalögin kveða á um.

Allir þingflokkarnir áttu hlut að þessu máli og hafa notið og munu njóta sérréttinda meðan lögin gilda.

Íslandshreyfingin var eini stjórnmálaflokkurinn sem lagði upp í síðustu kosningabaráttu á síðustu stundu með tvær hendur tómar og er eini flokkurinn sem sérstök lög um fríðindi fyrir formenn gilda ekki um og ættu að vera innaflokksmál hvers flokks.

Á næsta borgarafundi var formönnum flokkanna boðið og ég koma á fundinn, en aftur voru þingflokkarnir einir um það að eiga fulltrúa uppi á sviði. Samt var tiltekið í sjónvarpsfréttum að ég og Steingrímur J. Sigfússon hefðum verið einu formennirnir sem komu á fundinn.

Í raun er Íslandshreyfingin grasrótarsamtök utan þings. Önnur grasrótarsamtök utan þings sýnast samt ekki átta sig á þessu og skilgreina okkur sem slík heldur sem sams konar stjórnmálaflokk og flokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi.

Það sést á baráttumálum þessara hópa og samtaka að þau eru í raun þrælpólitísk og er það vel. Ef þau byðu fram til þings yrði það ekkert frábrugðið framboði okkar síðast og því eru þessi samtök í raun skilgreinir stjórnmálaflokkar eða bandalag byggt á stjórnmálum ef þau byðu fram.

Þess utan er athyglisvert að stefnumál Íslandshreyfingarinnar nú eru nokkurn veginn þau sömu og hinna grasrótarsamtakanna eins og koma mun vel fram í ályktun, sem stjórn hreyfingarinnar mun senda frá sér til fjölmiðla á morgun og stefnt er að að verði komin á heimasíðu Íslandhreyfingarinnar í kvöld.

Við viljum kosningar sem fyrst þar sem kosið persónukosningu eftir nýjum kosningalögum, ítarlega rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga, tafarlausan stuðning af ríkisfé til að bjarga þeim sem verst eru staddir, að þegar verði skipt um menn í ábyrgðarstöðum o. s. frv.

Stjórnarmenn og fleiri í hreyfingunni hafa sótt mótmælafundi og borgarafundi og haldið eigin fundi á eftir Austurvallafundunum.

Þessi áherslumál okkar hafa speglast í bloggpistlum mínum og því ítreka ég þá skoðun mína að Íslandshreyfingin - lifandi land eigi heima í hópi grasrótarsamtakanna sem hafa sprottið upp með stórauknum stjórnmálaáhuga undanfarnar vikur.


mbl.is Íslendingar boðaðir á þjóðfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmalaust ástand.

Leita þarf 59 ár aftur í tímann til jafn eldfims ástands og nú ríkir hér á landi, en óróinn vegna inngöngu Íslands í NATÓ náði hámarki 30. mars 1949 í hinum miklu óeirðum, sem þá urðu á Austurvelli, hinum mestu í þjóðarsögunni. Ég man eftir þessu ástandi og held að ástandið núna sé jafnvel eldfimara en þá.

Það var fróðlegt að fylgjast með andlitum ráðherra og þingmanna á borgarafundinum í Háskólabíói þegar þeir stóðu eða sátu í fyrsta sinn augliti til auglitis við fjöldann, sem fyllir Austurvöll viku eftir viku. Í raun horfðu þeir framan í þau 70% þjóðarinnar sem í skoðankönnun vantreysti þeim.

Senn fara jól í hönd og ekki er víst að upp úr sjóði héðan af fyrir áramót. Hitt er víst að þegar komið verður fram í febrúar verður ástandið mun verra en nú og hver einasti maður minntur á það daglega þegar hann opnar budduna hverjir brugðust honum.

Miklu myndi breyta ef stjórnvöld sýndu einhver merki þess að þau vilji koma til móts við hina hörðu og útbreiddu gagnrýni sem á þeim dynur. Þau taka óþarfa áhættu með því að hrófla ekki við neinum og fresta því þar til mál verði endanlega gerð upp, - kannski ekki fyrr en eftir heilt ár.

Í Bretlandi gerist það býsna oft að skipt er út mönnum úr ríkisstjórn og stokkað upp í ráðherraliðinu af miklu minna tilefni en hér er að finna nú. Að ekki sé nú talað um embættismennina, sem virðast ginnheilagir, gagnstætt því sem fólkið upplifir, sem missir atvinnuna vegna mistaka embættismannanna.


mbl.is Á ekki von á byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er stjórnarmyndun hættuleg?

Meðal raka forseta ASÍ að hættulegt sé að halda kosningar er sú truflun sem ríkisstjórnarmyndun myndi valda eftir kosningar. Þessu er hægt að andmæla. Ef núverandi stjórnarflokkar héldu meirihluta sínum eins og skoðanakannanir benda raunar til, ættu þeir varla í vandræðum með myndun nýrrar ríkisstjórnar eða það að láta núverandi ríkisstjórn standa óbreytta.

Mun auðveldara væri eftir slíkar kosningar að skipta út ráðherrum heldur en nú og uppfylla þannig óskir Gylfa.

Og ekki bara það. Eftir slíkar hefði hvaða ríkisstjórn sem væri umboð frá þjóðinni í samræmi við gerbreyttar aðstæður.

Ef kosið væri um það sérstaklega hvort eigi að sækja um aðild að ESB yrði auðveldara að mynda stjórn, vegna þess að þá hefði þjóðin sjálf sent erindisbréf til komandi stjórnar og auðveldara yrði að mynda stjórn heldur en ef ESB-málið truflaði bestu hugsanlega stjórnarmyndun.

Eins og er heldur ESB-málið íslensku stjórnmálalífi og stjórnmálaflokkunum í gíslingu. Því ætti að vera hægt að breyta í kosningum.


mbl.is Kosningar eru hættuspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband