MUNURINN Á FRÖKKUM OG BANDARÍKJAMÖNNUM.

Þegar Lewinsky-málið var í hámæli dundi fárviðri spurninga fjölmiðanna á forseta Bandaríkjanna sem voru að deyja úr hræsnisfullri hneysklun á einkamáli sem kom ekki öðrum við. Nýgræðingur í blaðamannastétt í Frakklandi hélt á blaðamannafundi Mitterands Frakklandsforseta að hægt væri að fiska eitthvað svipað upp þar og náði því að standa upp og spyrja forsetann: Er það rétt sem hvískrað er um, að þú hafir átt hjákonu í mörg ár? "Já," svaraði Mitterand, - "næsta spurning?" Málið dautt.

Framhjáhald Bandaríkjaforseta hefði aldrei átt að verða neitt mál frekar en einkamál Frakklandsforseta, En Bill bognaði undan hræsnisfullri hnýsni landa sinna og laug að þjóðinni og heiminum. Í því fólst alvarleiki málsins eingöngu að mínum dómi. Ef hann hefði sagt satt eins og hinn franski kollegi hans hefði málið horft öðruvísi við, að minnsta kosti í hugum flestra annarra þjóða en Bandaríkjamanna.

Ég verð að segja það að ef það á nú að fara að rífa og blása þetta mál upp að nýju til þess að gera Hillary Clinton erfitt fyrir er það dæmi um hvernig skinhelgin og hræsnin og það sem "selur" getur brenglað umræðuna og leitt athyglina frá þeim stórmálum sem ræða þarf við val á valdamesta manni heims.

Hillary hefur að mínum dómi komið óaðfinnanlega fram í þessu máli öllu þótt sumir núi henni nú um nasir að fyrirgefa eiginmanni sínum breyskleikann.

Hvar er nú allt kristilega siðgæðið sem hluti Bandaríkjamanna notar sem svipu á landa sína? Hver var það sem boðaði gildi kærleikans og fyrirgefningarinnar?


mbl.is Lewinskymálið skýtur á ný upp kollinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

YFIRLÝSING UM TÓNLISTARVANGETU?

Tónlist er listform. Dans er listform. Myndnotkun líkamans og hreyfinga hans getur verið listform. Listin þarf frelsi. Mercedes Club vill að sjálfsögðu komast á toppinn. Ef tónlistin nægir ekki til að koma þeim á toppinn og hreyfingar, myndbeiting og útfærsla tónlistarinnar fara út á eða út fyrir ystu nöf almennra viðhorfa um þau takmörk sem skynsamleg eru, er yfirlýsing um nektarmyndband í raun opinber viðurkenning Mercedes Club á því að tónlistarhæfileikarnir þurfi alvarlegrar hjálpar við til þess að skila þeim áfram.

Ég hvet Mercedes Club til að grípa ekki til örþrifaráða í framaviðleitni sinni heldur að þroska betur tónlistar- og tjáningarhæfileika innan skynsamlegra marka. Ég hef hins vegar ekkert við það að athuga að sveitin nýti sér líkamlega yfirburði yfir annað tónlistarfólk til að styðja góða tónlist sína.

Ég nefni sem dæmi Pál Óskar Hjálmtýsson sem alla tíð hefur staðið svo mjög framar öðrum tónlistarflytjendum í notkun líkamlegra hæfileika til túlkunar að aðrir flytjendur hafa oft verið eins og spýtudúkkur í samanburði við hann.
Páll Óskar er hins vegar svo góður tónlistarmaður og flytjandi að hann þarf ekki að grípa til örþrifaráða til þess að komast á þann stall sem nýleg tónlistarverlaun báru vitni um.

Það er alltaf hægt að sækjast eftir meira frelsi en að því kemur ævinlega í lokin að farið er yfir strikið.

Takið ykkur Pál Óskar til fyrirmyndar og dýpkið og fágið hæfileika ykkar eins og hann hefur gert við sína hæfileika. Þið eigið ekki að þurfa að gefa yfirlýsingar um nekt til þess að koma tónlist ykkar á framfæri því að það getur litið út eins og yfirlýsing ykkar um vangetu á tónlistarsviðinu. Ég hélt einmitt að þið væruð í svo góðu líkamlegu formi að þið þyrftuð síst allra á nekt að halda.

Sú þróun tónlistar að gera hana æ háðari kynferðislegri útfærslu á myndböndum hefur ekki orðið tónlistinni til góðs að mínu mati heldur afhjúpað stöðnun hennar og skort á hugmyndaauðgi, frumleika og sköpunargetu innan hennar sjálfrar.

Besta tónlistarfólkið þarf ekki á slíkum umbúðum að halda utan um list sína, umbúðum, sem svo margir virðast ekki geta verið án utan um innihaldslitlar og andlausar afurðir.

Raunar er sú staðreynd að æ fleiri þurfi á kynferðislegum umbúðum að halda, þessi kvöð er að svipta tónlistina frelsi og binda hana niður í ákveðið form, sem þrengir viðfangsefni hennar. Það er umhugsunarefni.

Þá getur ákallið um meira frelsi snúist upp í andhverfu sína.


mbl.is Vilja vera nakin í myndbandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALBERT GERÐI ÞETTA LÍKA !

Ronaldo er ekki eini knattspyrnumaðurinn í heiminum sem hefur notað þá sparktækni sem hefur gagnast honum svo vel í aukaspyrnum. Albert Guðmundsson sýndi í tveimur frábærum mörkum sínum í leik á Melavellinum fyrir rúmri hálfri öld að þessa tækni hafði hann á sínu valdi.

Í þessu leik lék Valur við frábært erlent gestalið og það var leikur kattarins að músinni sem gestirnir unnu og hefðu getað skorað fleiri mörk en þeir gerðu. En Albert Guðmundsson, sem þá var í fríi hér heima, sá fyrir því að gestirnir urðu að hafa fyrir sínu.

Ekki þýddi fyrir Albert að liggja frammi því að þá fékk hann aldrei boltann. Leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Valsmanna og þar var Albert við miðju vallarhelmingsins, plataði nokkra mótherja upp úr skónum í þau skipti sem hann fékk boltann og gaf síðan frábærar sendingar á samherja sem fengu alla vallargesti til að klappa af hrifningu. Þegar hann fékk boltann hópuðust mótherjarnir að honum eins og flugur að haug og engin leið var fyrir Albert að prjóna sig alla leið í gegn, oftast nær endilangan völlinn, hvað þá að finna smugu sem hægt væri að skjóta í gegnum.

Í örfá skipti komst hann þó fram fyrir miðju en sá að of margir voru á leið hans nær markinu, hún var lokið bæði fyrir einleik og skot. Albert hafði fram að þessu gefið boltann til baka í þessari stöðu en tekur nú upp á því alveg upp úr þurru að spyrna firnafast af 35-40 metra færi í átt að markinu en þessi þrumufleygur stefndi þó hátt yfir og framhjá markinu hægra megin. Markvörðurinn var rólegur og rölti af stað til að sækja boltann aftur fyrir.

En þá gerðist það sem ég hef aldrei, fyrr né síðar, séð í knattpyrnuleik. Rétt áður en boltinn var kominn að markinu, hægðist hratt á honum og hann skrúfaðist inn að markinu og "datt" efst ofan í markhornið. Það var mark!

Skömmu síðar gerðist svipað, hann lék snilldarlega á nokkra mótherja og af 35-40 metra færi skaut hann þrumfleyg sem var nákvæmlega eins og hinn fyrri, firnafast skot sem stefndi þráðbeint yfir og fram hjá markinu. Í þetta skiptið var markvörðurinn á varðbergi og skutlaði sér sem elding til þess að tryggja að Albert endurtæki ekki leikinn frá fyrra marki sínu.

En aftur gerðist það sama og fyrr. Þegar allir héldu að boltinn væri á fleygiferð yfir og framhjá markinu, hægði hann skyndilega á sér og skrúfaðist inn fyrir stöngina, efst í markhornið, gersamlega óverjandi fyrir markvörðinn þótt hann skutlaði sér sem óður væri í átt þangað. Albert hafði skorað tvö mörk á þann hátt sem aðeins snillingum er gefið.

Talsmenn gestanna sögðu eftir leikinn að Albert væri tvímælalaust í hópi ellefu bestu knattpsyrnumanna Evrópu og áttu ekki orð yfir því hvernig hann fór að því að skora þessi tvö mörk.

Skýringin liggur líklegast í því að vegna þess hvað skotið er firnafast stefnir það lengi vel yfir markið og jafnvel framhjá því um leið. En mikill snúningur sem er á boltanum og má nefna skásnúning, þ. e. boltinn snýst bæði í láréttu og lóðréttu plani - þessi snúingur fer að virka betur þegar loftmótstaðan hægir á skotinu og þá skrúfast boltinn niður á við og "dettur" undir slána og inn fyrir stöngina.

Ég gæti sagt fleiri sögur af snilli Alberts, allt fram um sjötugsaldur þegar hann var kominn vel á annað hundrað kílóa þyngd en læt þetta nægja.

P.S. Nú hef ég séð í fyrsta sinn aukaspyrnu Ronaldos og sé ekki betur en að spyrnur Alberts hafi verið enn flottari, miklu fastari og af miklu lengra færi !


mbl.is Botna ekkert í aukaspyrnum Ronaldos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DÆMIGERT FYRIR ÍSLENDINGA.

Hugsanlegt afnám UNESCO-gæðastimpilsins af Þingvöllum er dæmigert fyrir vítavert skeytingarleysi Íslendinga um mestu verðmæti landins. Fyrir meira en áratug komst til umræðu að nokkrir staðir á Íslandi gætu komist á heimsminjaskrá UNESCO og héldu Íslendingar að Þingvellir og Mývatn ættu þar góða möguleika. Erlendis vakti hugmyndin um Mývatn aðhlátur vegna tilvistar Kísiliðjunnar og kísilnáms í þessu einstæða vatni.

Nú er að koma í ljós óafturkræf og áframhaldandi eyðilegging á stórum hluta lífríkis vatnsins af völdum verksmiðju sem starfaði aðeins í 40 ár með eins ósjálfbæra og skaðlega starfsemi gagnvart einstæðum verðmætum vatnsins og hugsast gat.

Þáverandi sveitarstjóri hafði engan skilning á gildi þess gæðastimpils og þeim tekjumöguleikum sem UNESCO-viðurkenningin hafði þótt ég sýndi honum hvernig UNESCO-stimpill bryggjuhúsanna í Björgvin var nýttur á norskum ferðamannabæklingi til að laða ferðafólk þangað með því að hafa bryggjuhúsin á forsíðu helsta kynningarbæklings um landið.

Þótt Kísiliðjan sé farin munu Mývetningar fjarlægjast UNESCO-viðurkenninguna enn frekar á næstu árum með þeim hrikalegu umhverfsspjöllum sem í ráði eru með skefjalausum virkjunum fyrir austan og norðaustan vatnið.

Ég hef í blaðagreinum lýst því hvernig er í lófa lagið að stytta hraðleið milli uppsveita Árnessýslu og Reykjavíkur fyrir sunnan Þingvallavatn. Á það er ekki hlustað heldur talað um nauðsynlega hraðleið skólabarna um Lyngdalsheiði. Börnunum hefur farið fækkandi og mun nú hægt að telja þau á fingrum annarrar handar. Með lítilsháttar lagfæringum á núverandi Gjábakkavegi og notkun öflugs jeppa í nokkra daga á vetri er auðvelt að leysa þetta mál.

Líka má spyrja hvort skólaumdæmaskipting landsins sé svo heilög að ekki megi láta þessi börn læra í skóla í Mosfellsbæ í aðeins 20 mínútna aksturfjarlægð.

Fastheldni slendinga í úrelt nýtingarsjónarmið og skaðleg skammtímagræðgi er með ólíkindum. Náttúruverndarnýting er okkur fjarlæg hugsun en aðeins hugsað um "skástu leikina í stöðunni" hverju sinni varðandi stanslausar virkjana- stóriðjuframkvæmdir sem byggjast nú að mestum hluta á jafn ósjálfbærri nýtingu og hjá Kísiliðjunni á sinni tíð.


mbl.is Þingvellir af heimsminjaskrá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband