27.8.2008 | 22:45
Djúp tilfinning í Íslandsferð.
Fór síðasta sunnudagskvöld til að horfa á Íslandsmynd Stefans Erdmanns í Austurbæ, en hún er sýnd hér í tengslum við kvikmyndahátíðina Shorts&docs. Stefan er ekkert að skafa utan af hlutunum í þessari mynd heldur talar hann í myndum, máli og tónlist beint frá hjartanu til áhorfandans þegar hann lýsir djúpri upplifun í Íslandsferð sinni.
Myndin er sem sagt einn samfelldur dýrðaróður til landsins og lýsir vel þeim tilfinningum sem margir útlendingar fá í Íslandsferðum. Myndatakan er í mörgum myndskeiðum mjög listræn, grípandi og tæknilega góð og stemningin mögnuð.
Áhorfandinn verður að setja sig í sérstakar stellingar, svona svipað og þegar Íslendingur ekur um þveran og endilangan Noreg og það tekur nokkra daga að ná niður hraðanum og sætta sig við það hve hægt verður að aka. Manni verður ljóst að óhjákvæmilegt er að slappa af og hægja á sér og finnur að maður hefur gott af því.
Stefan leitast við að fá áhorfandann til að upplifa landið okkar á svipaðan hátt og hann, slappa af og leyfa tímanum að líða hægt áfram eða næstum því að standa kyrr. Fyrir borgarbúa og þá sérstaklega íbúa í hinum þéttbýlu löndum Evrópu er þessi djúpa, hæga og kyrra upplifun það dýrmætasta sem Íslandsferð getur gefið.
Að þessu gefnu er það hrein nautn á stórum köflum að horfa á þessa Íslandsmynd. Hún virkar dálítið langdregin á köflum og myndatakan kannski í full einhæfum stíl, sömu hægu hreyfingarnar og mixin út alla myndina, en tilgangurinn er að lokka áhorfandann inn í sömu djúpu upplifunina og myndatökumannsins þar sem fegurðin ríkir ein, ofar hverri kröfu og klukkan hefur stöðvast.
Fyrir stressaðan og tímakrepptan nútímamann getur verið holl tilbreyting fólgin í slíku og þess vegna mæli ég með því að fólk sjái þessa kraftmiklu, hjartnæmu og um leið upplýsandi mynd, ekki síst þeir sem þekkja lítið til föðurlands síns. Myndin verður sýnd klukkan 15:00 á morgun, fimmtudag, í Austurbæ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2008 | 20:13
Langt út fyrir handboltann.
Þessir dagar hafa verið afar dýrmætir fyrir þjóðina á þeim tíma sem okkur er þörf á að geta notið þess að vera samhent, glöð og bjartsýn þjóð þrátt fyrir óveðursský á himni í kjörum margra. Það eitt að hafa fyrstir smáþjóða silfurverðlaun fyrir flokkaíþrótt í meira en aldarsögu Ólympíuleikanna er svo mikils virði fyrir þjóðina og aðrar smáþjóðir heims að það nær langt út fyrir íþróttina handbolta.
Við höfum áður eignast einstaklinga sem hafa náð í fremstu röð á heimsvísu en þetta er alveg nýtt og ekki víst að það gerist nema einu sinni á öld. Þess vegna var það svo dýrmætt hve margir tóku þátt í hátíðarhöldunum í kvöld og sköpuðu fjöldastemningu sem lifir.
![]() |
Með stöðugan kökk í hálsinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2008 | 14:31
Viðeigandi að heiðra Hafnarfjörð.
Ég legg til að silfurmennirnir frá Peking aki eftir herlegheitin í Reykjavík til Hafnarfjarðar og heiðri þessa Mekku handboltans á Íslandi með því að fara fram hjá borðunum sem þar átti að setja upp í góðri trú.
Að öðru leyti er ég áfram þeirrar skoðunar sem ég set fram í pistli hér á undan með upptalningu á nokkrum þeirra sem komu til landsins í Reykjavík: Friðrik 8, Kristján 10, Halldór Laxness, Nelson, Lindberg, Balbo, fyrsta millilandaflugvélin, Friðrik 9, Vilhhjálmur Einarsson, fyrsta íslenska þotan, íslensku handritin, Bobby Fisher.
![]() |
Svið reist á Lækjartorgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.8.2008 | 14:09
Silfurmaðurinn, kóngarnir og Lindberg lentu í Reykjavík.
Ég undrast að menn skuli fetta fingur út í það að silfurstrákarnir lendi í Reykjavík. Vilhjálmur Einarsson, silfurmaðurinn frá ÓL í Melbourne lenti í Reykjavík og Brusselfararnir lentu með tvo Evrópumeistara í Reykjavík. Fyrsta flug á Íslandi var í Reykjavík og Nelson, Lindberg og Balbo lentu á Reykjavíkurhöfn. Bobby Fisher lenti á Reykjavíkurflugvelli og Friðrik 9. Danakóngur sömuleiðis.
Friðrik 8. og Kristján 10. stigu á landi í Reykjavík sem og Nóbelskáldið Halldór Laxness. Íslensku handritin komu á land í Reykjavík og fyrsta millilandaflugvél Íslendinga og fyrsta þota Íslendinga lentu á Reykjavíkurflugvelli. Þannig mætti lengi telja þjóðhöfðingja og frægt fólk, sem lenti í Reykjavík en ekki á Miðnesheiði.
Ég sé fyrir mér aðstöðu í framtíðinni þar sem góðir gestir geta gengið eftir rauðum dregli fá sérvöldum stað við austanverðan völlinn upp í Perluna.
Með lendingu silfurmannanna frá Peking og Melbourne í Reykjavík er að myndast hefð fyrir því að slíkir lendi í Reykjavík. Megi svo verða um alla framtíð.
![]() |
Flogið beint til Reykjavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)