Djúp tilfinning í Íslandsferð.

Fór síðasta sunnudagskvöld til að horfa á Íslandsmynd Stefans Erdmanns í Austurbæ, en hún er sýnd hér í tengslum við kvikmyndahátíðina Shorts&docs. Stefan er ekkert að skafa utan af hlutunum í þessari mynd heldur talar hann í myndum, máli og tónlist beint frá hjartanu til áhorfandans þegar hann lýsir djúpri upplifun í Íslandsferð sinni.

Myndin er sem sagt einn samfelldur dýrðaróður til landsins og lýsir vel þeim tilfinningum sem margir útlendingar fá í Íslandsferðum. Myndatakan er í mörgum myndskeiðum mjög listræn, grípandi og tæknilega góð og stemningin mögnuð.

Áhorfandinn verður að setja sig í sérstakar stellingar, svona svipað og þegar Íslendingur ekur um þveran og endilangan Noreg og það tekur nokkra daga að ná niður hraðanum og sætta sig við það hve hægt verður að aka. Manni verður ljóst að óhjákvæmilegt er að slappa af og hægja á sér og finnur að maður hefur gott af því.

Stefan leitast við að fá áhorfandann til að upplifa landið okkar á svipaðan hátt og hann, slappa af og leyfa tímanum að líða hægt áfram eða næstum því að standa kyrr. Fyrir borgarbúa og þá sérstaklega íbúa í hinum þéttbýlu löndum Evrópu er þessi djúpa, hæga og kyrra upplifun það dýrmætasta sem Íslandsferð getur gefið.

Að þessu gefnu er það hrein nautn á stórum köflum að horfa á þessa Íslandsmynd. Hún virkar dálítið langdregin á köflum og myndatakan kannski í full einhæfum stíl, sömu hægu hreyfingarnar og mixin út alla myndina, en tilgangurinn er að lokka áhorfandann inn í sömu djúpu upplifunina og myndatökumannsins þar sem fegurðin ríkir ein, ofar hverri kröfu og klukkan hefur stöðvast.

Fyrir stressaðan og tímakrepptan nútímamann getur verið holl tilbreyting fólgin í slíku og þess vegna mæli ég með því að fólk sjái þessa kraftmiklu, hjartnæmu og um leið upplýsandi mynd, ekki síst þeir sem þekkja lítið til föðurlands síns. Myndin verður sýnd klukkan 15:00 á morgun, fimmtudag, í Austurbæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband