2.9.2008 | 23:53
Skinhelgi kana.
Enn einu sinni verða fjölskyldu- og einkamál ofarlega á baugi varðandi bandaríska stjórnmálamenn. Merkileg er gagnrýni kvennahreyfinga þar á það að Palin geti ekki stundað krefjandi starf vegna þess að hún eigi fimm börn, barn með Downs-heilkenni og ófríska unglingsdóttur. Maður hélt að kvennahreyfingar berðust fyrir jafnrétti kynjanna og spyrja má, hvort þessi gagnrýni hefði verið svona áköf ef viðkomandi hefði verið fimm barna faðir með barn með Downs-heilkenni og ófríska dóttur.
Öðru máli gegnir um það hvort treysta megi henni til að berjast gegn sérgæsku og spillingu í stjórnmálum og hvort gerðir hennar og stefna á hinum pólitíska vettvangi gefi henni góðan og traustvekjandi vitnisburð, - hún er jú í kjöri sem stjórnmálamaður.
![]() |
Uppljóstranir um Söruh Palin valda óróa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.9.2008 | 20:03
Orwell í fullu gildi.
Vel er við hæfi að gefa alþingismönnum verk George Orwells, ekki aðeins vegna hins sígilda boðskapar um það hvernig sumir verða jafnari en aðrir þegar völdin spilla, heldur einnig það hvernig ráðamenn finna nöfn á fyrirbæri sem eru alger öfugmæli eða þá að nógu lengi er tönnlast á hugtökum, sem í sjálfu sér eru neikvæð en fá jákvæða merkingu.
Þetta er stundað ótæpilega hér á landi. Orka, sem endist ekki nema í nokkrar áratugi er kölluð "endurnýjanleg orka", "sjálfbær þróun" o. s. frv. og hugtakið "orkufrekur iðnaður", sem samkvæmt orðanna hljóða þýðir orkubruðl, hefur með áhrifum síbyljunnar öðlast jákvæða merkingu og eftirsóknarvert í orkuþyrstum heimi að stofna til stóriðju sem er sem allra orkufrekust.
Afhenda mætti ráðamönnum þessar bókmenntir með viðaukum yfir nýjustu hugtökin þar sem merkingu orða er snúið á haus.
![]() |
Þingmenn fá Animal Farm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2008 | 18:52
Ekki horft til framtíðar.
Með einhæfri sýn á það hvað skapar verðmæta atvinnu og velmegun til frambúðar einblína ráðamenn nú á virkjana- og stóriðjuframkvæmdir sem eru ígildi afréttara gegn timburmönnum eftir þenslufyllerí, - það eina sem þeir virðast halda að skapi velmegun.
Í fimm álverum af fullri stærð sem krefjast allrar orku landsins, verða aðeins 2% af vinnuafli landsmanna. Það er því argasta öfugmæli að tönnlast sífellt á orðinu atvinna þegar á að keyra stóriðjuhraðlestina áfram. Það jafngildir því þegar alkinn dásamar vellíðanina sem fylgir sterkum afréttara eftir fyllerí.
![]() |
Forgangsverkefni að tryggja fulla atvinnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2008 | 18:20
Skilningsrík hjálparhella.
Verðhækkanir á aðföngum hafa reynst bændum landsins þungur ljár í þúfu, einkum sauðfjárbændum, sem voru ekki of vel haldnir fyrir. Mér er enn minnisstætt þegar ég fór um landið fyrir þrettán árum og kynntist kjörum bænda, sem komust ekki lengur af bæ eða gátu haldið við eignum sínum. Þátturinn hét "Ærnar þagna" og mér fannst ömurlegt hvernig komið var fyrir mörgum, sem voru læstir inni í fangelsi fátæktar.
Nærri má geta að fyrir fatlaðan bónda er baráttan enn erfiðari og Ólafur Magnússon hefur sýnt sérstakan skilning og hjálpsemi með því að rétta einum af þeim bændum, sem minnst máttu sín, hjálparhönd í erfiðleikum hans. Góðar fréttir, skapaðar af góðum manni.
![]() |
Fékk styrk til að leysa út vélarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2008 | 00:46
Ef Þjóðverjar hefðu vitað um völlinn og hnitið...
Þór Whitehead prófessor hefur fundið kort, sem gert var af útsendurum Þjóðverja yfir mögulega lendingarstaði á Íslandi í stríðsbyrjun. Þeir eru merktir með krossum um allt land en enginn lendingarstaður var tiltækur, - annað hvort voru þeir of stuttir eða að það þurfti vikur eða marga mánuði til að gera þá nothæfa.
Enginn kross er við Sauðármel á þessu korti, sem var einmitt staðurinn sem Þjóðverja vantaði til að taka Ísland af Bretum í september 1940 og halda landinu líkt og þeir höfðu gert í Noregi með tilstyrk yfirráða sinna í lofti frá fyrsta degi. Á Sauðármel hefðu þeir getað valtað nógu langar brautir með flugvélum á einum degi og komið fyrir nægilega mörgum flugvélum og birgðum til að styðja innrásina úr lofti.
Enginn var þarna á ferli, langt frá byggð, og Þjóðverjar voru eina stríðsþjóðin 1940 sem réði yfir nógu langfleygum flugvélum til að stunda flutninga á liði, vopnum og vistum loftleiðis til Íslands. Áætlunin Ikarus var tilbúin og auðvelt að taka landið, en forsenda til að halda því voru yfirráð í lofti.
Það, að ekki var krossað við Sauðármel á kortinu, þýðir að hvorki Emmy Todtmann né Agnar Koefoed Hansen unnu fyrir þýsk hernaðaryfirvöld. Ég er að gera kvikmynd um þetta með nákvæmri heimildavinnu og það hvernig þetta hefði breytt gangi stríðsins verulega og orðið þjóðarharmleikur fyrir Íslendinga.
Hnit vallarins er 16 02 - 64 50 og hann er aðeins fyrir sunnan örnefnið Kvíslar, sem sýnt er á nokkrum kortum. Fyrir sunnan völlinn eru gamlar eyrar Sauðár, sem eru að gróa upp og líta því út eins og grænn blettur í fjarska. Völlurinn er rétt austan við beina línu milli Kverkfjalla og Kárahnjúka og með því að fljúga frá Sauðardalsstíflu upp með Sauðá vestari detta menn inn á völlinn.
Á hlaði vallarins standa þrír fornir bílar, rauður, hvítur og grár.
Aka má þangað með því að fara sömu leið og til Grágæsadals, en beygja til vinstri við skilti sem á stendur "Brúarjökull 8km." Þaðan eru 3,5 km til vallarins. Gamla Brúardalaleiðin liggur um völlinn, yfir Sauðá á vel merktu vaði og þaðan eru um 6km að Hálslóni og Töfrafossi, þann tíma vors sem hann er sjáanlegur.
2,5 km fyrir sunnan völlinn er hluti Hraukanna, hólaraðar sem er fyrirbæri, sem hvergi er að finna í veröldinni nema þarna. Auðgengið er þangað en líka liggur þangað um 5km langur vegarslóði.
Sjá nánar pistilinn hér á undan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)