Textinn og lagið "Saga Jóhönnu."

Ég var spurður á sjötta tímnum í dag hvort ég gæti ekki sett lagið "Saga Jóhönnu" á netið, en viðkomandi hafði heyrt lagið spilað í útvarpinu. Þetta minnti mig á að hingað til hef ég ekki búið yfir þeirri kunnáttu að geta sett myndir eða tónlist inn á bloggið mitt svo að ég ákvað að bæta nú loksins úr þessu og þótt fyrr hefði verið.

Fór í það að gera þetta hvort tveggja í bloggpistli fyrr í kvöld.

Með hjálp Láru dóttur minnar gekk ljósmyndarmálið vel en innsetning lagsins hefur vafist fyrir okkur í allt kvöld vegna forritavandamála. Var þá ekki ónýtt að fá hjálp frá tengdasonum mínum, Hauki Olavssyni og Inga R. Ingasyni.

Og rétt í þessu skilst mér að málið sé leyst og hægt sé að opna lagið hér fyrir neðan textann og einnig fyrir neðan fyrri bloggpistilinn. Og ljósmyndina má sjá og stækka út úr bloggpistlinum fyrr í kvöld.

Útsetningu, undirleik, upptöku og hljóðblöndun annaðist Vilhjálmur Guðjónsson.

SAGA JÓHÖNNU.

(Með sínu lagi og eftirlíkingu af rödd Jóhönnu)

"MIinn tími mun koma" ég sagði eitt sinn
er sigur mér tókst ekki að vinna í slag við formanninn.
Þau sögðu mig búna að vera og eiga enga von
en "minn tími mun koma" ég söng lon don,
"já, minn tími mun koma, Jón Baldvin Hannibalsson.

Ekki virtist gatan greið.
Í nýjum flokki fann hún leið.
Fýrar háðskir fóru á skeið, -
um flokkinn ortu á þessa leið:

Eins og verkur í baki
í ástarleik með rúmbraki
eða blettur í laki
er hann, þessi Þjóðvaki.

Og árin liðu og liðu og liðu, uns góðar fréttir loks mín biðu.

Nú samherjarnir syngja er þeir taka mér höndum tveim:
"Ég er hýr og ég er góð, Jóhanna er komin heim."
Ég uppreisn fékk um síðir. Sælan er yndisleg
því sá sem mig vann um árið komst aldrei eins langt og ég.

Því ætla ég að segja að sumir ættu að þegja.
Það saknar þeirra enginn, ó, Gölli Valdason.
Og sá hlær best sem síðast hlær, nú syng ég lon og don:
Minn tími er kominn, Jón Baldvin Hannibalsson !

Minn tími er kominn!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sleppir aðalmálinu, skuldunum.

Það væri ekkert sérstaklega slæmt ef það eina, sem væri að á Ísland, væri 10% minnkun kaupmáttar, jafnvel 20% minnkun. 20% minnkun myndi færa okkur til ársins 2000 og minnist þess nokkur að hér væri svo voðalega slæmt að búa hér þá? Nei, auðvitað ekki.

Geir H. Haarde sleppir því hins vegar að geta þess að skuldir heimilanna fjórfölduðust á síðustu árum og skuldir fyrirtækjanna þrefölduðust. Íslensk heimili eru hin skuldugustu í heimi og nú eru allir landsmenn sem heild að verða það.

Stjórnarstefnan var aðal hvatinn að þessari fáránlega miklu skuldasöfnun, allt of hátt gengi, húsnæðislánasprengja og boði inn í efnahagslegt fíkniefnapartí þar sem lánsféð flaut um allt.

Þú "græddir" þeim mun meira sem þú keyptir meira í þessu rammskakka umhverfi.

Nú sitja tugþúsundir fólks uppi með lán, sem er að keyra það í gjaldþrot og ekki er hægt að selja neinar eignir nema á brunaútsölu. Raunar varla hægt að selja neitt. Markaðirnir frosnir.

Allt í einu virðist engin ástæða til að segja: "Guð blessi Ísland." Blessun Sjálfstæðisflokksins virðist vera nóg.


mbl.is Geir óttast sundrung og misklíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þá getum við alveg eins..."Lofar ekki góðu.

Ég hjó eftir einni setningu í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar varðandi það að Framsóknarmenn telja sig hafa umboð til þess ráða stjórnarsáttmála stjórnar sem þeir telja sig ekki hafa umboð til að sitja í.

Hann sagði að verkáætlun komandi vinstri stjórnar væri þannig að þá gætu við alveg eins haft stjórnina sem var.

Enn og aftur komum við að oddaaðstöðu Framsóknar, sem ég benti á eftir síðustu kosningar og hún notar sér til hins ítrasta nú.

Flokkurinn ætlar að anda ofan í hálsmálið á komandi ráðherrum og rífa í stýrin ef þurfa þyki. Lofar ekki góðu um föst tök komandi stjórnar á vandamálum þjóðarinnar.

Úr orðum Sigmundar Davíðs má lesa hótun Framsóknar um að fara sömu leið og í borgarstjórn að fara á ný inn í gamla meirihlutann með Sjálfstæðisflokknum.

En slíkur hringlandaháttur myndi verða stjórnarmyndunarflokkunum til þvílíkrar minnkunar að útilokað er að klókir stjórnmálamenn gangi svo langt að klúðra þessari stjórnarmyndun. Tími Jóhönnu hlýtur að koma. 

Á hinn bóginn er sérkennilegt að vinstri flokkarnir skuli ekki hafa reiknað með því að Framsókn þyrfti einhvern tíma til að sjá víxilinn sem þeir áttu að láta fara í umferð. Aflýsing hátíðarinnar á Austurvelli er neyðarleg og klaufaleg uppákoma. 

Nú fer helgin sem sé í aðrar stjórnamyndunarviðræður. 


mbl.is Telur forsendur fyrir stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga Jóhönnu og drápið á Faxa.

Óvænt eldflaugarskot á Jóhönnu Sigurðardóttur efst upp á himin stjórnmálanna mun vafalaust kveikja áhuga sagnaritara á að skrá sögu hennar.

Í mér blunda meðal annarra sagnfræðingur og tónlistarmaður og skemmtikraftur.

Þessir þrír menn hafa oft lagt saman í púkk í fimmtíu ár og ekkert lát þar á. Atburðirnir í vetur hafa verið gullnáma fyrir skemmtikraftinn.

Í tengslum við það að birta fyrstu ljósmyndina á þessari bloggsíðu læt ég fljóta með til gamans lagið "Saga Jóhönnu, sem ég raulaði inn á disk fyrir hennar hönd með undirleik Vilhjálms Guðjónssonar. 

DSCF0941

 

Myndin er af fossinum Faxa í Jökulsá í Fljótsdal, ein af síðustu myndunum sem tekin var af 15 fossum, sem þurrkaðir voru upp í Jökulsá í Fljótsdal í haust til að veita vatninu úr þeim yfir í jarðgöng til Kárahnjúkavirkjunar. 

Á vef virkjunarinnar segir nú flestir þessara fossa séu meira en 30 metra háir, sem sé á hæð við allan Gullfoss. Þrætt var fyrir þetta áður en fossarnir voru teknir en nú er það "óhætt," ekki aftur snúið.

Faxi og Kirkjufoss eru tveir fossar á hæð við Gullfoss ofarlega í ánni. Faxi er tvílitur, eini stórfossinn af ca 10-12 stórfosssum á Íslandi sem þannig var.

Hægra megin er fossinn tær vegna þess að vatnið úr Laugará fellur þar í hann.  

Með einni virkjun, Kárahnjúkavirkjun, voru þurrkaðir upp þrír af stórfossum Íslands, 30% fossa í þessum flokki. Ef smellt er inn á myndina af Faxa má stækka hann og með því að smella á hann aftur fá myndina í fulla stærð og þá nýtur fossinn sín betur. P. S. Meðan reynt var að treysta á það hve lítt þekktir fossarnir eystra voru var reynt að gera sem minnst úr þeim. Talan 15 fossar sem eru hærri en 30 metrar eins og stendur í fréttinni á Kárahnjúkavefnum er hins vegar ýkjur, hvaðan sem það er nú komið. Fossarnir eru fimmtán en aðeins Kirkjufoss og Faxi eru svo háir. Hinir eru minni. Og síðan er annar eins fjöldi í Kelduá sem drepnir voru í haust. Og eitt enn: Þegar vatnið var tekið af Faxa var einn maður viðstaddur aftöku fossins og enginn viðstaddur við Kirkjufoss, því ekki gat ég verið á báðum stöðunum í einu. Allir voru uppi við stífluna þegar þetta gerðist.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Ömmi frændi"

Strax í starfi sínu sem frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá RUV kom ijós mikill félagsmálaáhugi Ögmundar Jónassonar. Fljótlega varð hann formaður Starfsmannafélags Sjónvarpsins og var mjög annt um hag hvers einasta félagsmanns.

Hann vann sér trúnað og vinsældir og fékk fjótlega viðurnefnið "frændi" hjá okkur því að var eins og hvert okkar væri í fjölskyldu hans. Þá myndaðist vinátta með okkur sem hefur haldist æ síðan.

Mér er það eftirminnilegt hve yfirvegaður hann var í upphafi verkfalls opinberra starfsmanna og vildi ekki stíga feilspor. Það er algengur misskilningur að hann hafi verið upphafsmaður að hinni frægu stöðvun útsendinga RUV þar sem stefið "Ár vas alda" stimplaði sig óverðskuldaað inn sem eitthvert leiðinlegast stef allrra tíma.

Ögmundur spurði strax í upphafi þeirrar spurningar hvort við myndum ekki fá svona algera stöðvun í hausinn.

Eitt gott kom þó út úr þessu, afnám einokunar RUV á markaðnum. Nú myndi engum detta í hug að fara aftur í gamla farið, að minnsta kosti ekki meðan RUV verður áfram sú kjölfesta sem nauðsynleg er.

Eldskírn sína utan félagsins fékk Ögmundur á frægum baráttufundi í Austurbæjarbíói í upphafi þessa verkfalls
Þá flutti hann mjög eftirminnilega ræðu, eina af þessum sem maður gleymir ekki.

Framhaldið þekkja flestir og það kom svo sem ekki á óvart að hann skyldi hasla sér völl á vinstri væng stjórnmálanna. Hann er vel að því kominn að vera orðinn ráðherra.

Ögmundur vill alla hluti gera vel og á vafalaust eftir að leggja sig fram. Honum flyt ég árnaðaróskir í tilefni þessa.


mbl.is Ögmundur verður ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ójöfnuður eykst.

Á sama tíma sem þúsundir manna bætast í hóp atvinnulausra af völdum hruns sem fjármálaglæfrastefnan olli, berast fréttir af því að á síðasta ári hafi forstjórar Eimskips fengið að meðaltali hálfa milljón króna í laun á dag !

Það eru tvö hundruð sinnum hærri laun en atvinnuleysisbæturnar.

Launin komust meira að segja upp í allt að milljón á dag. 2008 tap á rekstri Eimskips það mesta sem vitað er um hér á landi hjá nokkru fyrirtæki og árið áður var líka tap.

Ofurlaun forstjóra voru á sínum tíma réttlætt með því hve mikill gróði væri á fyrirtækjunum, sem þeir stjórnuðu og að þeim ætti að umbuna fyrir það.

Í ljósi þessa er það óskiljanlegt að ofurlaunin hafi haldið áfram, ekki bara tapárið 2007 heldur líka margfalt verra tapár á eftir. Í "gróðærinu" jókst ójöfnuður í þjóðfélaginu og það virðist ekkert lát á því.


mbl.is Atvinnulausum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fyrsta sinn: Utanþings kona ráðherra.

Ef Björg Thorarensen verður dóms- og kirkjumálaráðherra verður það í fyrsta sinn sem kona utan þings verður ráðherra. Þetta er skref í rétta átt en miðað við allt það sem breyta þarf í íslensku samfélagi, stjórmálum og löggjöf, er þetta þó aðeins hænufet.

En þúsund mílna hefst á einu skrefi segir kínverskt máltæki.


mbl.is Ríkisstjórnin kynnt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins lítið skref í rétta átt.

Kristinn Guðmundsson var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Ólafs Thors 1953-56. Síðan þá hefur flokksræðið verið gersamlega alrátt í framkvæmdavaldinu hér á landi og hin hefðbundna leið inn í ráðherrastól að vera alinn upp innan flokksins frá ungligsárum og klifrað upp metorðastigann þar í takt við flokkseigendafélagið.

Stundum hafa nær heilu þingflokkarnir verið í ráðherrastólum og ráðherrarnir skipað sérstakan tólf manna þingflokk á þinginu.

Ókostir vaxand ofríkis framkvæmdavaldsins hafa orðið æ berari og nú er svo komið að þjóðin verður að segja: Nú er nóg komið !

Það verður að breyta þannig hugsunarhætti og stjórnskipan að fram fari nauðsynleg og tafarlaus endurreisn lýðréttinda og lýðræðis.

Skipun Gylfa Magnússonar, ef af verður, er lítið en mikilvægt skref í rétta átt. Helst hefði meirihluti nýrrar stjórnar þurft að vera utanþingsráðherrar til þess að marka það upphaf komandi skipunar að ráðherrar sitji ekki jafnframt á þingi.


mbl.is Gylfi tók ráðherraboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband