31.10.2009 | 22:23
Í minningu Flosa.
Reykholtskirkja rúmaði varla þá sem vildu votta Flosa Ólafssyni virðingu sína þegar hann var jarðsunginn þar í dag. Hún bar vott um þá miklu virðingu og hlýhug sem margir hafa haft til þessa ljúfa orðsnillings.
Jarðarfarir í sveitum hafa þann kost fram yfir jarðarfarir í þéttbýlinu að þær fara ekki fram á virkum dögum, heldur á laugardögum.
Með því að hafa þessar athafnir um helgar fá þær meiri helgi heldur en ef þær færu fram í önn vinnudaga.
Hápunktur þessarar jarðarfarar voru snilldargóð minningarorð séra Geirs Waage, sem voru svo vel saman sett að halda hefði mátt að stílsnillingurinn Flosi hefði samið þau sjálfur.
Er sjaldan að maður verði vitni að slíkum efnistökum við svona tækifæri.
Prestar eru stundum sakaðir um væmni og tepruskap í líkræðum sínum og að þeir gefi of mikla og stundum ósanna glansmynd af þeim látnu.
Ræða séra Geirs var ekki síst góð fyrir það að hvergi örlaði á slíku í henni, heldur lýsti hann hinum margbrotna og þar af leiðandi hrífandi persónleika Flosa þannig að unun var á að hlýða.
Af samtölum við kirkjugesti eftir athöfnina var það einróma skoðun viðmælenda minna að svona ættu líkræður að vera og að þessi hefði verið afburða góð.
Fráfall Flosa varð lokaáfangi þess að ég lyki við sálm sem ég vil nefna "Felum okkur í hans hendur."
Þetta eru fjórar ferskeytlur, - í því formi sem var aðall Flosa.
2. erindið varð til í útför æskuvinar míns, Davíðs Helgasonar, sem féll óvænt frá í hjartaáfalli við morgunverðarborð.
Í jarðarför hans fékk maður á fremsta bekk í kirkjunni hjartaáfall og stöðvaðist athöfnin í um 10 mínútur þar til sjúkraliðar höfðu borið hann út í sjúkrabíl.
Þetta allt var magnað tilefni til gerðar vísunnar: "Feigðin grimm um fjörið krefur...".
1. erindið varð til í útför Bessa Bjarnasonar leikara. Hann tengdist ótal ferðalögum mínum um landið og mér varð hugsað til þess hve oft á ferðum mínum ég hef hlotið "...happ á tæpri skör..." í eitt sinn í bókstaflegri merkingu um hávetur í myrkri við Ísafjarðardjúp.
3. og 4. erindið ásamt lagi við sálminn komu síðan á leið norður í land þar sem ekið var um örlagastað Flosa þar sem hann lenti í bílslysi.
Þessir þrír menn, Davíð, Bessi og Flosi, féllu allir sviplega frá. Nú lítur þessi smíð, tileinkuð þeim, svona út:
(Þess má geta að línan: "Vítt um geim um lífsins lendur..." er byggð á trú minni á að eilífðin og óendanleikinn séu grunnur tilverunnar og að af því leiði líf á óteljandi stöðum í hinum óendanelga alheimi alvaldsins mikla )
FELUM OKKUR Í HANS HENDUR.
Ljúfur Drottinn lífið gefur, - /
líka misjöfn kjör /
og í sinni hendi hefur /
happ á tæpri skör. /
Feigðin grimmm um fjörið krefur, - /
fátt er oft um svör. /
Enginn veit hver annan grefur, - /
örlög ráða för. /
En ég veit að orðstír lifir, -
ást og kærleiksþel. /
Sá sem vakir öllu yfir /
æ mun stjórna vel. /
Vítt um geim um lífsins lendur /
lofuð séu´hans verk. /
Felum okkur í hans hendur /
æðrulaust og sterk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.10.2009 | 21:17
Gullfiskaminnið entist í rúmt ár.
Orðið "gullfiskaminni" hefur stundum verið notað um það hve kjósendur hafa oft verið fljótir að gleyma fortíðinni og gerbreyta um skoðun.
Það á svo sannarlega við fyrrverandi stjórnarflokka sem sátu hér saman við völd í tólf ár og hófu hrunadans "gróðærisins", mesta efnahagsfyllerí Íslandssögunar með einkavinavæðingu bankanna og Kárahnjúkavirkjun 2002 og upphafi húsnæðislánasprengingarinnar 2003.
Ég nota orðið "efnahagsfyllerí" og ofangreind þrjú atriði, sem samsvara fyrstu þremur brennivínsflöskunum sem fylleríið var hafið með.
Síðan fjölgaði flöskunum og partíið varð að lokum að fjöldasukki með tugum efnahagslega brennivínsflaskna og endaði með þeim ósköpum sem kölluð eru "hrunið".
Sjálfstæðisflokkurinn stóð vaktina í partíinu til enda en fékk sér nýjan bláeygan og syfjulegan "kóara" á lokastigi þess.
Sjálfstæðisflokknum var refsað verðskuldað í síðustu kosningum og settur á varamannabekkinn og þá var von mín að hann sæti á bekknum næstu fjögur ár og endurhæfði sig til þess að verða gjaldgengur á ný inni á vellinum í krafti nýrra leikmanna og breytt leikskipulags.
En gullfiskaminnið hefur séð til þess að nú hefur flokkurinn náð jafn miklu fylgi og snemmsumars 2008, þegar fjármálaráðherra hans hafði mælt hin fleygu orð á Alþingi þegar hann dásamaði hið frábæra stuð "gróðærisins" með því að segja við þá sem gagnrýndu það á þingi: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!"
Flokkurinn, sem höfuðábyrgðina bar á mesta efnahagshruni í sögu þjóðarinnar nýtur nú langmests trausts þeirrar sömu þjóðar.
Og ekki bara það. Nýi formaðurinn virðist ekki njóta neitt meira trausts en sá sem bar höfuðábyrgðina á efnahagsstefnunni sem brást svo hrapallega.
![]() |
Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.10.2009 | 11:31
Almenningur borgi sem mest ?
Tryggingagjald er að stærstum hluta skattur á almenning, einhver hvimleiðasta og oft ósanngjarnasta skattheimta sem þekkist vegna þess að það fer ekki eftir afkomu þess sem greiðir það.
Þess vegna er það athyglisvert að það skuli vera samtök með nafninu Alþýðusamband Íslands sem berst fyrir því að auka þessa skattheimtu svo að stóriðjan sleppi við hana.
Umhverfisgjöld byggjast á kenningunni um það að sá skuli borga sem notar. Þau eru í gildi í flestum nágrannalöndum okkar og í mun meiri mæli í mörgum þeirra en hér.
Það verður að sjálfsögðu að líta til þess að þessi gjöld verði ekki hærri hér á landi en í samkeppnislöndum um að laða að erlenda fjárfestingu.
En mig grunar að grátkórinn sem nú hefur hafist byggist af stórum hluta á uppmögnuðum hræðsluáróðri.
Hvað er að því að stórfyrirtækin, sem hingað til hafa sloppið við að sæta hliðstæðri skattheimtu og þykir sjálfsögð í öðrum löndum borgi sanngjarnt gjald fyrir það sem þau nota?
Listinn yfir fríðindi þessara fyrirtækja er svo langur að ekki er pláss fyrir hann í þessum pistli.
Þess gjöld geta verið lægri hér en annars staðar ef menn eru svona óskaplega hræddir við að þau fæli erlend fyrirtæki frá því að fjárfesta hér á landi, en það er svolítil grátkórs-lykt af viðbrögðunum, finnst mér, og einkennileg umhyggja fyrir almenningi að láta hann taka þetta alveg á sig.
![]() |
Hækkun tryggingagjalds auki ekki útgjöld sveitarfélaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)