Í minningu Flosa.

Reykholtskirkja rúmaði varla þá sem vildu votta Flosa Ólafssyni virðingu sína þegar hann var jarðsunginn þar í dag. Hún bar vott um þá miklu virðingu og hlýhug sem margir hafa haft til þessa ljúfa orðsnillings. 

Jarðarfarir í sveitum hafa þann kost fram yfir jarðarfarir í þéttbýlinu að þær fara ekki fram á virkum dögum, heldur á laugardögum.

Með því að hafa þessar athafnir um helgar fá þær meiri helgi heldur en ef þær færu fram í önn vinnudaga.

Hápunktur þessarar jarðarfarar voru snilldargóð minningarorð séra Geirs Waage, sem voru svo vel saman sett að halda hefði mátt að stílsnillingurinn Flosi hefði samið þau sjálfur.

Er sjaldan að maður verði vitni að slíkum efnistökum við svona tækifæri.  

Prestar eru stundum sakaðir um væmni og tepruskap í líkræðum sínum og að þeir gefi of mikla og stundum ósanna glansmynd af þeim látnu.

Ræða séra Geirs var ekki síst góð fyrir það að hvergi örlaði á slíku í henni, heldur lýsti hann hinum margbrotna og þar af leiðandi hrífandi persónleika Flosa þannig að unun var á að hlýða.

Af samtölum við kirkjugesti eftir athöfnina var það einróma skoðun viðmælenda minna að svona ættu líkræður að vera og að þessi hefði verið afburða góð.  

Fráfall Flosa varð lokaáfangi þess að ég lyki við sálm sem ég vil nefna "Felum okkur í hans hendur."

Þetta eru fjórar ferskeytlur, - í því formi sem var aðall Flosa.

2. erindið varð til í útför æskuvinar míns, Davíðs Helgasonar, sem féll óvænt frá í hjartaáfalli við morgunverðarborð.

Í jarðarför hans fékk maður á fremsta bekk í kirkjunni hjartaáfall og stöðvaðist athöfnin í um 10 mínútur þar til sjúkraliðar höfðu borið hann út í sjúkrabíl.

Þetta allt var magnað tilefni til gerðar vísunnar: "Feigðin grimm um fjörið krefur...".

1. erindið varð til í útför Bessa Bjarnasonar leikara. Hann tengdist ótal ferðalögum mínum um landið og mér varð hugsað til þess hve oft á ferðum mínum ég hef hlotið "...happ á tæpri skör..." í eitt sinn í bókstaflegri merkingu um hávetur í myrkri við Ísafjarðardjúp. 

3. og 4. erindið ásamt lagi við sálminn komu síðan á leið norður í land þar sem ekið var um örlagastað Flosa þar sem hann lenti í bílslysi.  

Þessir þrír menn, Davíð, Bessi og Flosi, féllu allir sviplega frá. Nú lítur þessi smíð, tileinkuð þeim, svona út:  

(Þess má geta að línan: "Vítt um geim um lífsins lendur..." er byggð á trú minni á að eilífðin og óendanleikinn séu grunnur tilverunnar og að af því leiði líf á óteljandi stöðum í hinum óendanelga alheimi alvaldsins mikla )  

 

FELUM OKKUR Í HANS HENDUR.  

 

Ljúfur Drottinn lífið gefur, -  /

líka misjöfn kjör   / 

og í sinni hendi hefur   /

happ á tæpri skör.    /

 

Feigðin grimmm um fjörið krefur, -  /

fátt er oft um svör.   /

Enginn veit hver annan grefur, -  /

örlög ráða för.   /

 

En ég veit að orðstír lifir, - 

ást og kærleiksþel.  /   

Sá sem vakir öllu yfir  /

æ mun stjórna vel.   /

 

Vítt um geim um lífsins lendur  /

lofuð séu´hans verk.  /

Felum okkur í hans hendur   /

æðrulaust og sterk.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er laglega saman sett og hæfir þeim ágætismönnum sem það er til minningar um. Hins vegar eru þetta ekki ferskeytlur. Bragarhátturinn heitir „skammhenda“.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 23:04

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ómar þetta frábært eins og flest sem þú gerir!!!!/blessuð sé myning Flosa/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 31.10.2009 kl. 23:42

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Góður sálmur, blessuð sé minning Flosa Ólafssonar

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.11.2009 kl. 00:24

4 identicon

Falleg kveðja.  Blessuð sé minning Bessa, Davíðs og Flosa.

ASE (IP-tala skráð) 1.11.2009 kl. 00:54

5 identicon

Frábært hjá þér og blessuð sé minning þessara þriggja heiðursmanna. Flosa og Bessa þekkti ég  eins og þjóðin, en þeir voru nánast þjóðareign í hjörtum allra. Davíð Helgason var glæsimenni og öðlingsdrengur  sem mér þótti alltaf vænt um. 

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.11.2009 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband