Gullfiskaminnið entist í rúmt ár.

Orðið "gullfiskaminni" hefur stundum verið notað um það hve kjósendur hafa oft verið fljótir að gleyma fortíðinni og gerbreyta um skoðun. 

Það á svo sannarlega við fyrrverandi stjórnarflokka sem sátu hér saman við völd í tólf ár og hófu hrunadans "gróðærisins", mesta efnahagsfyllerí Íslandssögunar með einkavinavæðingu bankanna og Kárahnjúkavirkjun 2002 og upphafi húsnæðislánasprengingarinnar 2003.

Ég nota orðið "efnahagsfyllerí" og ofangreind þrjú atriði, sem samsvara fyrstu þremur brennivínsflöskunum sem fylleríið var hafið með. 

Síðan fjölgaði flöskunum og partíið varð að lokum að fjöldasukki með tugum efnahagslega brennivínsflaskna og endaði með þeim ósköpum sem kölluð eru "hrunið".

Sjálfstæðisflokkurinn stóð vaktina í partíinu til enda en fékk sér nýjan bláeygan og syfjulegan "kóara" á lokastigi þess.

Sjálfstæðisflokknum var refsað verðskuldað í síðustu kosningum og settur á varamannabekkinn og þá var von mín að hann sæti á bekknum næstu fjögur ár og endurhæfði sig til þess að verða gjaldgengur á ný inni á vellinum í krafti nýrra leikmanna og breytt leikskipulags.

En gullfiskaminnið hefur séð til þess að nú hefur flokkurinn náð jafn miklu fylgi og snemmsumars 2008, þegar fjármálaráðherra hans hafði mælt hin fleygu orð á Alþingi þegar hann dásamaði hið frábæra stuð "gróðærisins" með því að segja við þá sem gagnrýndu það á þingi: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!"  

Flokkurinn, sem höfuðábyrgðina bar á mesta efnahagshruni í sögu þjóðarinnar nýtur nú langmests trausts þeirrar sömu þjóðar. 

Og ekki bara það. Nýi formaðurinn virðist ekki njóta neitt meira trausts en sá sem bar höfuðábyrgðina á efnahagsstefnunni sem brást svo hrapallega.  


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum vitleysingar, stjórnmálamenn hafa alltaf stólað á það... og nú er það endanlega sannað..

Well kannski ekki ég og þú Ómar minn + 67% þjóðarinnar... samt er mikil hætta á að framsóknarhækjan og sjálfstæðið komist aftur að .

Hver getur bjargað okkur undan okkur sjálfum.. kannski bara best að reka okkur fyrir björg eins og skjáturnar í tálkna.

DoctorE (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 21:29

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Árni Mathiesen er reyndar ennþá fjármálaráðherra.

Hann er dýralæknir.

Við skulum vona að hann geri minni óskunda í því fé.

Þorsteinn Briem, 31.10.2009 kl. 21:34

3 Smámynd: Sævar Helgason

Endurspeglar þessi niðurstaða ekki að fólk er að mótmæla ástandinu ?

Sjálfstæðisflokkurinn er svipan - svona eins og VG voru notuð  í stjórnarandstöðu.

Nú kemur skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis fyrir almenningssjónir í byrjun febrúar 2010.

Er líklegt að Sjálfstæðisflokkur komi þar fram sem ímynd frelsandi engils ?

Við bíðum spennt.

Sævar Helgason, 31.10.2009 kl. 21:40

4 Smámynd: Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson

Hvursu ömurlegt er okkar andlega mein.Greindarvísitalan er sýrustig á þvagi.Því höfuðið er mestmegnis bein.Og innihaldið er ekki í lagi

Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson, 31.10.2009 kl. 21:54

5 identicon

Ég held ekki að fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins sé honum að þakka og enn síður sé skýringa að leita í fortíðinni.  Ég held að ástæðan séu vonbrigði með stjórnarhætti Samfylkingarinnar og VG.  Leynimakk, lygar, klíkuskapur og aðrir þjólegir siðir eru enn í heiðri hafðir.   Það á ekki að leiðrétta skuldir almennings, því skjaldborginni var slegið upp utan um fjármagnseigendur.   Þessum flokkum verður aldrei aftur treyst og þeir munu aftur dúsa 20 ár utan stjórnar og áhrifa á Íslandi.  Vonandi tekst að blása lífi í Borgarahreyfinguna og aðra nýja flokka - annars tekur Sjálfstæðisflokkurinn völdin aftur sem skásti kostur.

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 21:57

6 identicon

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að nauðsyn var til þess að koma stjórnlagaþingi á hér eftir hrunið og breyta uppbyggingu valdsins, afnema valdstrúktúr fjórflokksins og embættismannakerfisins. Það var líka ekki að ástæðulausu sem margir voru mjög á móti því. Þeir voru að verja völdin sín sem sumir þeirra eru nú með og aðrir virðast á góðri leið með að ná aftur. Sama drullan.

olii (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 22:09

7 Smámynd: Sjóveikur

ég lýsi mig sama fábjánann og aðrir eru í þessum málum, ég vil frekar hafa gott partý með mikilli þynku eftirá en þennan djöfulsins vesaldóm sem tók við völdum í kofahriflinu 

það er ekkert þor í þessari þjóð virðist mér ! og þeir sem engu þora fá enga umbun

"byltingar" Kveðja sjoveikur

Sjóveikur, 31.10.2009 kl. 22:33

8 Smámynd: Haraldur Hansson

Það má ekki gleyma að líta á björtu hliðarnar. Þó ekki fagni ég fylgisaukningu D lista þá eru góðu fréttirnar þær að fylgi Samfylkingarinnar minnkar.

Haraldur Hansson, 31.10.2009 kl. 22:43

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landinu er ekki stjórnað samkvæmt skoðanakönnunum.

Um 70% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu
, við sunnanverðan Faxaflóa, og þar er fylgið mest við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Á því svæði hefur Sjálfstæðisflokkurinn einnig mest fylgi og þar hefur mesta atvinnuleysið verið undanfarið.

Á höfuðborgarsvæðinu var mesta byggingaræðið hér undanfarin ár og því eru margir iðnaðarmenn og byggingaverkamenn atvinnulausir á því svæði. Og margir útlendingar, sem hingað fluttu til að taka þátt í byggingaæðinu, eru hér á atvinnuleysisskrá.

Nú eru hins vegar lán Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna loks í höfn og því fer allt í fullan gang í Reykjanesbæ nú í vetur, til dæmis á Ásbrú, hvort sem reist verður álver í Helguvík eða ekki.

Og fljótlega fara einnig í gang framkvæmdir við ókláruð íbúðarhús á höfuðborgarsvæðinu en eitt og hálft ár tekur að reisa hér fjölbýlishús.

Gengi íslensku krónunnar lækkar ekki meira en um 30% á næstunni, þannig að ferðamannastraumurinn heldur áfram að aukast til landsins með aukinni velmegun erlendis eftir kreppuna. Hér þarf því að reisa fleiri hótel um allt land og auka þjónustuna við ferðamenn.

Þar að auki fara tiltölulega fáir Íslendingar til útlanda vegna lágs gengis krónunnar, miðað við undanfarin ár. Þeir ferðast í staðinn hér innanlands og af því er mikill gjaldeyrissparnaður, sem einnig má líta á sem útflutning, rétt eins og sölu á landbúnaðarvörum hér til útlendinga í verslunum og veitingahúsum.

Verðbólga hér fer langleiðina niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans á næsta ári, um 2,5%, og stýrivextir verða því einnig lágir.

Vinsældir núverandi ríkisstjórnar munu því aukast verulega á næsta ári og umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verður samþykkt hér í þjóðaratkvæðagreiðslu.


Gullfiskurinn
heldur hins vegar áfram að hringsóla í krukku úti í Móa.

Dýralæknirinn heldur í honum líftórunni og mokar í hann þunglyndislyfjum.

Þorsteinn Briem, 31.10.2009 kl. 23:36

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gengi íslensku krónunnar hækkar ekki meira en um 30% á næstunni, átti þetta nú að vera.

Þorsteinn Briem, 31.10.2009 kl. 23:46

11 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Það var lagið Steini.

Þráinn Jökull Elísson, 1.11.2009 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband