2.12.2009 | 20:13
Mikill heiður fyrir Andra Snæ og þjóðina.
Andri Snær Magnason hefur fengið glæsileg menningarverðlaun, ein þau virtustu í Evrópu og er ástæða til að fagna því, því að það ekki á hverjum degi sem slíkt gerist.
Ég hélt satt að segja að allir myndu samgleðjast honum og þjóðinni en það sýnir hve heiftúðugir margir eru hér á landi vegna umhverfismála, að í athugasemd Sigríðar Laufeyjar Einarsdóttur er farið hinum verstu orðum um þetta.
Andri Snær er sakaður um "umhverfisverndariðnað" og "gróðabrall" og að hafa viðhaft tilfinningasemi og slegið á skynsemi og rök.
Hið síðastnefnda er algert öfugmæli hvað snertir bókina "Framtíðarlandið". Gildi þeirrar bókar var ekki hvað síst frábær rannsóknarblaðamennska þar sem einmitt komu fram staðreyndir og rök sem framsett voru af djúpri skynsemi.
Í bloggskrifum gærdagsins um annan og mikinn heiður, sem Andra hefur hlotnast, mátti sjá sams konar heift og andúð.
Andri Snær hefur skrifað fleiri bækur, meðal annars hina víðfrægu bók "Bláa hnöttinn" en samt eru sumir virkjanafíklar svo heitir að þeir bannfæra Andra Snæ og ófrægja hann.
Þessi heift virðist vera meiri en heiftin sem ríkti um það leyti sem Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin og þjóðin skiptist í gagnstæðar fylkingar Kalda stríðsins vegna deilna um NATÓ-aðild og andstæð þjóðfélagsform.
Halldór hafði þá verið og var heitur Stalínisti, einn helsti og öflugasti liðsmaður íslenskra kommúnista og deilur landsmanna einhverjar þær hörðustu sem um getur.
Engu að síður gátu Íslendingar allir unnt honum þess að fá sín bókmenntaverðlaun, viðurkennt hann sem listamann og samfagnað með honum.
Því virðist ekki að heilsa nú og satt að segja finnst mér það áhyggjuefni að heift virkjanafíklanna skuli ganga svo langt.
Ég verð sorgmæddur við að verða vitni að þessu.
![]() |
Andri Snær hlýtur Kairos verðlaunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.12.2009 | 13:37
Hvimleiður og dýr ratleikur.
Ratleikur getur verið skemmtilegur ef þú hefur tíma og tækifæri til að fara í hann. En sá ratleikur sem við lendum oft í þegar við þurfum að finna heimilisfang er bæði hvimleiður og dýr.
Hvað skyldi það kosta mikla peninga að aka fram og aftur um götur og hverfi í leit að staðnum sem fara þarf til? Og verst er þetta í tímaþröng þegar mínúturnar geta verið dýrkeyptar.
Í símaskránni er yfirleitt tilgreint um götu og húsnúmer hjá einstaklingum og fyrirtækjum. En það er til lítils þegar húsnúmer vantar á jafnvel heilu húsalengjurnar.
Síðan er það sitt á hvað hvernig húsnúmerum er raðað. Oftast eru oddatölur vinstra megin og jafnar tölur hægra megin þegar ekið er í áttina frá lægri númerum til þeirra hærri.
En í sumum götum fer þetta í hring þannig að hús númer 1 stendur gegnt húsi númer 34.
Slæmar merkingar eru þó verstar og ekkert virðist gert af hálfu yfirvalda til að skikka menn til að merkja húsin almennilega.
Það er hægt að nefna ótal dæmi um slæmar og villandi merkingar en iðnaðarhverfið við Skemmuveg og Smiðjuveg í Kópavogi hefur um árabil verið þannig að þangað fer maður helst ekki, heldur velur sér frekar fyrirtæki sem stendur við götur með sæmilega og skynsamlega merktum húsum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.12.2009 | 02:18
Málfar í molum: "...sagði að ef hann tekur..."
Fréttin um Lamborghini lögreglubílinn sem eyðilagðist er alveg einstaklega illa skrifuð að mínu mati.
Og nú er ég kominn í þá aðstöðu að þurfa að bæta við ummælum um slæma málvillu, sem ég heyrði nú rétt í þessu. Byrjum á fréttinni um bílslysið.
Samkvæmt fréttinni var bíllinn til sýnis en það orðalag er vanalega notað um kyrrstæða hluti.
En síðan kemur í ljós í fréttinni að verið var að aka bílnum og að ökumaðurinn hefði orðið að taka beygju til að forðast árekstur en lent á tveimur kyrrstæðum bílum.
Nú fyrst er sagt frá því í fréttinni að "önnur bifreið" hafi ekið í veg fyrir lögreglubílinn í stað þess að segja það strax. Og við hvað eiga orðin "önnur bifreið"? Er þetta ekki fjórða bifreiðin sem kemur við sögu úr því að þegar er búið að nefna þrjár bifreiðar?
Og síðan er þetta kórónað með því að segja að annar lögreglumaðurinn, sem var í bílnum hafi rifbeinsbrotnað "á meðan" hinn hlaut mar.
Orðalagið "á meðan" er ein af þessum ambögum sem veður uppi hjá mörgum fjölmiðlamönnum þegar þeir þýða úr öðrum tungumálum.
Í íslensku er orðalagið "á meðan" notað um tímasetningu eða tímalengd en orðið "en" þegar sagt er frá tvennu sem nefnt er í sömu setningu.
Nú er það svo að mar kemur ekki fram á sekúndubroti heldur líður tími á meðan blóð er að renna inn í skaddaðan vef og marið að myndast.
Rif brotnar hins vegar á sekúndubroti og varla á nokkurs manns færi að fullyrða að rifið hafi brotnað "á meðan" marið var að myndast.
Hér er líklegast verið að þýða enska orðið "while" sem þýðir "en" í þessu samhengi en ekki "á meðan."
Þegar búið er að liggja í nokkurn tíma yfir þessari frétt giska ég á að hún lýsi þessari atburðarás:
Á samkomu fyrir ítalska námsmenn fengu þeir að sjá lögreglumenn aka dýrasta bíl ítölsku lögreglunnar, sem er af gerðinni Lamborghini og kostar 30 milljónir króna.
En þá varð óhapp. Bíl var ekið í veg fyrir lögreglubílinn svo að ökumaður hans varð að taka krappa beygju til að forðast árekstur.
Við það hafnaði lögreglubíllinn á tveimur kyrrstæðum bílum og skemmdist svo mikið að hann er talin ónýtur. Annar lögreglumaðurinn rifbeinsbrotnaði en hinn marðist.
Og nú heyrði ég út undan mér að íþróttafréttamaður Stöðvar 2 komst þannig að orði að aðeins börnum er ætlandi: "....Heimir sagði að ef Viðar tekur..."
Grundvallarmálvillur af þessu tagi færast nú í aukana. Samsvarandi villur í máli fréttamanna við sjónvarpsstöðvar í nágrannalöndum væru óhugsandi, - þar eru gerðar kröfur til fjölmiðlamanna, sem virðast ekki gerðar hér.
En enn bætist við fáum mínútum síðar, talað um Raufarhafnarlegg. Hvaða bein er nú það? Nei, nú þykir ekki lengur fínt að tala um veg eða leið heldur er enska orðið "leg" tekið beint upp.
Þessu linnir ekki. Ekki liðnar fimm mínútur þegar ég heyri í útvarpsviðtali að formaður Heimssýnar kann ekki að beygja nafn félagsins sem hann er í forsvari fyrir.
![]() |
Lögreglan lagði Lamborghini í rúst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.12.2009 | 02:10
Stoltur af Andra Snæ.
Andri Snær Magnason er magnaður maður bæði sem fjölhæfur rithöfundur og hugsuður, einn merkastima maður okkar samtíma.
Bókin Framtíðarlandið hefði allt eins átt að fá blaðamennskuverðlaun ársins 2006 eins og Hin íslensku bókmenntaverðlaun, því að hún var ekki síður rannsóknarblaðamennskuverk af bestu gerð en frábært ritverk.
Hann er því vel að þessari nýju og makalausu sæmd kominn og ég óska honum til hamingju með hana. Íslendingar þurfa aldrei sem nú á svona mönnum að halda.
Ég tel það forréttindi að hafa kynnst honum og er stoltur af honum.
![]() |
Andri Snær hlaut verðlaun verðlaunanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)