Hvimleiður og dýr ratleikur.

Ratleikur getur verið skemmtilegur ef þú hefur tíma og tækifæri til að fara í hann. En sá ratleikur sem við lendum oft í þegar við þurfum að finna heimilisfang er bæði hvimleiður og dýr. 

Hvað skyldi það kosta mikla peninga að aka fram og aftur um götur og hverfi í leit að staðnum sem fara þarf til?  Og verst er þetta í tímaþröng þegar mínúturnar geta verið dýrkeyptar. 

Í símaskránni er yfirleitt tilgreint um götu og húsnúmer hjá einstaklingum og fyrirtækjum. En það er til lítils þegar húsnúmer vantar á jafnvel heilu húsalengjurnar.

Síðan er það sitt á hvað hvernig húsnúmerum er raðað. Oftast eru oddatölur vinstra megin og jafnar tölur hægra megin þegar ekið er í áttina frá lægri númerum til þeirra hærri.

En í sumum götum fer þetta í hring þannig að hús númer 1 stendur gegnt húsi númer 34.

Slæmar merkingar eru þó verstar og ekkert virðist gert af hálfu yfirvalda til að skikka menn til að merkja húsin almennilega.

Það er hægt að nefna ótal dæmi um slæmar og villandi merkingar en iðnaðarhverfið við Skemmuveg og Smiðjuveg í Kópavogi hefur um árabil verið þannig að þangað fer maður helst ekki, heldur velur sér frekar fyrirtæki sem stendur við götur með sæmilega og skynsamlega merktum húsum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þú ættir að kíkja á götuna þar sem eg bý: Arnartanga í Mosfellsbæ. Þar er allt í einu kraðaki og er fólk oft að aka fram og aftur um hverfið sérstaklega þar sem Katastrófuhúsin er, þ.e. Viðlagasjóðshúsin en eg bý í einu þeirra.

Ef einhver veikist og þarf að fá sjúkrabíl úr Reykjavík, þá er sjúklingurinn kannski kominn yfir móðuna miklu áður en bílsstjórinn hefur fundið rétta húsið!

Gárungarnir sögðu í eina tíð að númeraröðin í götunni hafi verið ákveðin á mánudegi eftir mikla árshátíð Mosfellinga fyrir langt löngu!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 2.12.2009 kl. 15:06

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Þetta er hverju orði sannara. Allar götur síðan fyrir stríð, meira að  segja. 

Eiður Svanberg Guðnason, 2.12.2009 kl. 15:09

3 identicon

Ég hef vanið mig á að nota kortið á Já.is ef ég er að fara eitthvert sem ég rata ekki. Þar eru hús merkt með húsnúmeri, stundum merki ég húsið í google.maps á símanum mínum sem er svo tengt við GPS tækið.

En auðvitað á fólk að merkja húsin sín. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband