Ekki skal nefna snöru í hengds manns húsi.

Ummæli Davíðs Oddssonar í Kastljósinu sem flugu um heiminn um að við borguðum ekki munu lengi loða við okkur Íslendinga og verða okkur erfið í samskiptum við útlendinga um langa hríð. Ummælin fólu í sér að allir hér á landi fengju sitt en útlendingar mættu éta það sem úti frysi.

Ummælin snerust um það að mismuna ætti innistæðueigendum eftir þjóðerni, Íslendingum í hag.

Ummæli forseta Íslands, þótt löguð væru svolítið í hendi í endursögn hins erlenda blaðamanns, snerust ekki um að Íslendingar ætluðu að mismuna eftir þjóðernum sér í hag, heldur að þjóðin væri undrandi á þeim kröfum erlendis að fólki þar yrði að fullu bættur skaðinn á sama tíma og Íslendingar misstu sitt að mestu eða öllu.

Forsetinn vitnaði til þeirrar skoðunar margra hér heima að mismunun eftir þjóðernum sem bitnaði á Íslendingum en ekki öðrun þjóðum gæti varla verið sanngjörn.

Uppistandið vegna þessa viðtals verður fyrst og fremst vegna þess að eftir hin fyrri ummæli um mismunun í hag Íslendingum megum við Íslendingar varla nefna þetta mál á nafn erlendis án þess að það skaði okkur.

Máltækið orðar það svo að forðast skuli að nefna snöru í hengds manns húsi. Í því felst kannski lærdómurinn sem forsetinn segir að hann og Dorrit hafi lært af viðtölum þeirra við fjölmiðla að undanförnu.


Þola ekki 80 daga stóriðjuhlé.

Stóriðjuflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þola ekki 80 daga stóriðjuhlé. Nei, Kolbrún Halldórsdóttir skal fá að sitja framan á stóriðjuhraðlestinni og halla sér fram eins og styttan framan á húddinu á einni bílategundinni hér í den tid og þenja brjóst framan í vindinn.

Og á morgun ætla Sjálfstæðismenn að taka að sér það hlutverk Framsóknarflokksins að berja Kolbrúnu til hlýðni eins og gert var á fyrsta starfsdegi stjórnarinnar.

Staðan núna er verri en hún var fyrir kosningarnar 2007. Þá voru þrír stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Frjálslyndi flokkurinn yfirlýstir stóriðju- og landsspjallaflokkar. Samfylkingin kvaðst berjast gegn alls 500 þúsund tonna álverum í Helguvík og á Bakka og Vinstri grænir voru á sama róli.

Þá snerist barátta náttúruverndarfólks um að koma í veg fyrir úrslitaáhrif þessara þriggja flokka á virkjana- og umhverfismál.

Strax eftir kosningarnar hófst hins vegar kapphlaup vinstri flokkanna tveggja að komast heim með Geir eftir kosningaballið og gefa álverin eftir.

Nú er búið að stækka þau upp í 700 þúsund tonn alls.

Ég er hvorki vinstri né hægri maður en höfuðatriði í næstu kosningum verður hið sama og í síðustu kosningum að koma í veg fyrir að Sjálfstæðis-Framsóknar- og Frjálslyndi flokkurinn fái að hafa úrslitaáhrif á stjórnarmyndun.

Ef þeir halda áfram þeirri stöðu sinni eru þeir vísir til að skítnýta sér aðstöðu sína til að stjórna umhverfisráðuneytinu eins og Framsókn gerir nú, hver sem verður þar ráðherra að nafninu til.


mbl.is Tekist verður á um Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul saga: Hver lak ?

Alltaf finnst mér jafn dásamlegt þegar stórmál koma upp í kjölfar þess að leynilegum trúnaðarupplýsingum hafi verið "lekið" að þá snýst málið upp í það að aðalatriðið sé hver lak því í fjölmiðla eða til almennings en innihald þess sem lekið var verður að aukaatriði.

Davíð Oddsson var snjall í því á sínum tíma að halda upplýsingum leyndum ef með þurfti og var klassadæmi um það þegar því var haldið vandlega leyndu fyrir kosningarnar 2003 að herinn væri á förum.

Og nú ræða menn um ekki síðri snilli Davíðs að leka heppilegum upplýsingum eða að láta í veðri vaka að hann búi yfir óþægilegri vitneskju, samanber ræðuna frægu hjá viðskiptaráðinu í haust.


mbl.is Birgir aflétti leynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ef við styðjum hvert annað..."

Ég er ánægður með það að Bubbi skuli koma og slá svipaðan tón á mótmælafundi og ég gerði í upphafi mótmælanna með aðstoð Halla Reynis á fundi á tröppum Ráðherrabústaðarins í haust í laginu "Styðjum hvert annað."

Það munar um Bubba. Hann sló þennan sama tón fyrstur allra síðastliðið haust og kemur nú sterkur inn.

Okkur Íslendinga kann að greina á um margt en fyrir öllu er að í róðrinum af strandsstað í gegnum brimskaflana verði handtökin taktföst sem við verðum að sameinast um að taka.

Í því sambandi minni ég á diskinn "Birta - styðjum hvert annað" sem er til sölu hjá Skífunni, Smekkleysu, Olís og Bónusi.

Þar syngur sönghópurinn "Birta", ungu söngvararnir Edgar Smári Atlason og Elísabet Ormslev ásamt Halla Reynis, Helgu Möller og Kristjönu Stefánsdóttur lagið "Styðjum hvert annað", en önnur lög á diskinum fjalla um land og þjóð, æðruleysi, hugrekki og samstöðu.

Allt söluandvirðið hefur frá upphafi runnið óskipt til Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík.

Áður en dagur er runninn stefni ég að því að setja lagið "Styðjum hvert annað" á tónlistarspilarann hér við hliðina þar sem lagið "Saga Jóhönnu" er þegar komið á bloggfóninn.


mbl.is Bubbi rokkar Seðlabankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Örlög okkar ráðast líka erlendis.

Þegar íslenska þjóðveldið riðaði til falls um miðja þrettándu öld réðust örlög þess að miklu leyti í Noregi. Þangað ýmist fóru deilandi höfðingjar íslenskir eða að Noregskonungur stefndi þeim þangað.

Þá, eins og nú, höfðu skammgróðasjónarmið, spilling og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum, auk flokkadrátta innanlands, komið íslenska þjóðarbúskapnum og þjóðveldinu á kné.

Þá, eins og nú, reið yfir landið kreppa af utanaðkomandi ástæðum, - í það sinn af
völdum kólnandi veðurfars. Snorri Sturluson missti 120 nautgripi við Svignaskarð í einu óveðri.

Þá, eins og nú, var þjóðin illa undir slíka utanaðkomandi veðurfarskreppu búin, vegna þess að hún hafði farið langt með að höggva alla skóga landsins og átti ekki lengur við til að smíða skip. Af þessum sökum var hafin stórfelld jarðvegseyðing sem komandi kynslóðir þurftu að súpa seyðið af og nauðsynleg samskipti við útlönd og siglingar yfir hafið voru í hættu.

Af völdum Íslendinga sjálfra var óhjákvæmilegt 1262 að fá hjálp Noregskonungs og að gjalda þá hjálp hinu dýra verði sjálfstæðismissisins.

Davíð Oddsson bregst við eins og hann gerði varðandi fjölmiðlafrumvarpið 2004, neitar að horfast í augu við að hann er með tapað mál.

Með þessu skaðar hann ímynd landsins út á við og það gera líka þeir íslensku ráðamenn sem vanmeta stórlega þann skaða sem það veldur að án hjálpar, velvilja og trausts erlendra þjóða á okkur er lítil von til þess að íslenskt efnahagslíf geti risið úr öskustó.

Örlög okkar eru að sjálfsögðu mest undir okkur sjálfum komin en ekki síður undir áliti umheimsins á okkur.


mbl.is Deilur á Íslandi valda skaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband