Fráleit skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi.

Eina sveitarfélagið á Íslandi sem skipt er í tvö kjördæmi er Reykjavík. Þetta er fáránleg skipan. Hún varð til vegna þess að landsbyggðarþingmenn heimtuðu það. Landsbyggðarþingmennirnir fengu sjálfur að ráða skiptingu sinna kjördæma en Reykvíkingum var meinað að vera saman í kjördæmi.

Skiptingin er á skjön við þá röksemd að kjördæmaskipting sé nauðsynleg vegna þess að hagsmunir kjósenda séu mismunandi eftir búsetusvæðum. KJósendur sunnan Hringbrautar hafa nefnilega enga aðra hagsmuni en kjósendur norðan götunnar í tuttugu metra fjarlægð.

Heldur ekki íbúar í nokkurra tuga metra fjarlægð frá hver öðrum í Grafarholtshverfi, sem mega þar að auki eiga það yfir höfði sér að vera fluttir á milli kjördæma hvenær sem er.

Ef rökin um skiptingu eftir mismunandi svæðishagsmunum hefðu átt að gilda hefði átt að skipta Reykjavík um línu um Elliðaár og niður Fossvogsdal. Þarna eru skil í byggðinni á milli úthverfanna annars vegar og Reykjavíkur vestan Elliðaánna hins vegar. Hagsmunir úthverfanna eitthvað ólíkari en hagsmunir eldri byggðarinnar.

Önnur rök fyrir kjördæmaskiptingunni voru þau að kjördæmin væru álíka stór. Þetta er samt ekki þannig. 2007 voru 21 þúsund kjósendur í Norðvesturkjördæmi en 54 þúsund í Kraganum.

Enn ein röksemdin fyrir misvægi atkvæða var sú að þeir sem fjærst byggju þingstaðnum væri bætt það upp. Þetta er nú samt ekki einhlítt.

Sitt hvorum megin við Reykjavík eru tvö byggðarlög sem eru nokkurs konar ystu úthverfi höfuðborgarinnar, Akranes í norðri og Hafnarfjörður í suðri. Bæði innan sama atvinnusvæðis. En atkvæði hvers kjósanda á Akranesi vegur samt tvöfalt þyngra en atkvæði hvers Hafnfirðings!

Og ekki bara það. Atkvæði hvers Akurnesings vegur 20% þyngra en atkvæði hvers íbúa á Raufarhöfn, sem þó er eins langt frá Reykjavík og komist verður!

Ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi 2007 hefði Íslandshreyfingin ekki verið svipt þingfylgi í samræmi við kjörfylgi. Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi virðist byggja á einhvers konar óskhyggju þess efnis að höfuðborgin eigi helst að vera helmingi fámennari en hún er.

Af hverju er borginni bara skipt í tvö kjördæmi en ekki í tvö sveitarfélög?

Mér hefur alltaf fundist þessi kjördæmaskipting vera fráleit og hef fært að því rök í þessu bloggi.


mbl.is Grafarholt skiptist áfram milli kjördæma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hugsaðu þig vel um áður en..."

Ummæli Helga Magnússonar minna á ýmis svipuð ummæli áður.

"Hugsaðu þig vel um áður en....". Nokkurn veginn þessi var upphaf skilaboða sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttur sagði á borgarafundi að sér hefðu borist í síma um það að setja ekki starfsheiður sinn í hættu með því að tala óvarlega um viðkvæm pólitísk mál.

"Þú verður að stöðva umfjöllun manns þíns og átt ekki um annað að velja því annars verður hann stöðvaður hvort eð er."

Svipuð hugsun var á bak við vinsamlegt einkasamtal við konu mína fyrir tíu árum. Hugsun þöggunarinnar.


mbl.is „Andrúmsloft þöggunar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilhlökkunarefni.

Það veitir ekki af góðum fréttum þessa dagana á borð við þá að myndin Draumalandið verði sýnd. Ég hef fengið tækifæri til að sjá grófklipptan stóran hluta hennar og hún verður mögnuð. Bókin var það líka og hefði átt að fá verðlaun eða í það minnsta tilnefningu sem besta blaðamannaverk ársins á sínum tíma auk bókmenntaverðlaunanna.

Auk Andra Snæs, Þorfinns og fleira góðs kvikmyndagerðarfólks stendur hljóður hugsjónamaður á bak við þessa mynd, Sigurður Gísli Pálmason, framleiðandi hennar. Það er lítils að skrifa bækur og kvikmyndahandrit ef ekki fæst neitt fjármagn til að koma því á framfæri. Þess vegna á Sigurður Gísli sérstakar þakkir skildar.


mbl.is Fyrsta sýnishorn úr Draumalandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn skal álitinn sekur...

"Enginn skal álitinn sekur nema sekt hans sé sönnuð." Þetta er hin gullna meginregla nútíma réttarfars. En gætum betur að því hver er forsenda þessarar reglu.

Skoðum orðin "...nema sekt hans sé sönnuð." Forsenda þeirra er að almennileg rannsókn hafi farið fram sem leiði fram sannleikann, sekt eða sýknu. Ef þetta er ekki gert dettur botninn úr hinn gullnu reglu og enginn ætti að fagna því meira að öllum efa sé eytt en sá sem rannsóknin beinist að.

Slík rannsókn er eðlileg í ljósi umræðna að undanförnu og nauðsynleg til að varpa ljósi á aðdraganda hrunsins og beitingu Breta á hryðjuverkalögum. Ég hef áður bloggað um Ísland-Enron og það hve margt var líkt með því hvernig Enron var blásið upp í himinhæðir fyrir hrunið og hvernig svipaðar aðferðir voru notaðar hér í hliðstæðu "efnahagsundri."

Rannsókn í anda Evu Jolin er öllum fyrir bestu.

Sjálfur varð ég að sæta rannsókn vegna starfa minna fyrir níu árum. Bornar voru upp alvarlegar ásakanir á hendur mér, meðal annars á fjöldafundi, fyrir að hafa misnotað aðstöðu mína hjá Sjónvarpinu og stundað hlutdrægan fréttaflutning í langan tíma. Þess var krafist að ég yrði rekinn og jafnvel yfirmenn mínir líka.

Ég minnist þess enn hvað ég var því feginn því að þessar ásakanir voru bornar fram af svo miklu þunga að það kostaði sérstaka rannsókn. Í ljósi hótana við konu mína nokkru fyrr hafði ég verið viðbúinn aðför sem hrekti mig úr starfi en kannski ekki svona stórkostlegri, heldur lúmskari þar sem smám saman yrði grafið undan mér.

Niðurstaðan af ítarlegri rannsókn varð sú að ég hefði ekkert brotið af mér. Þetta var að sjálfsögðu óþægilegt á meðan á því stóð en án þessarar rannsóknar hefði allt starf mitt árin á eftir verið stórum erfiðara.

Nú þarf að fara ofan í orðin "...nema sekt hans sé sönnuð" og orða má gullnu regluna á þennan veg: "Enginn skal álitinn sekur sem sannað er að sé sýkn saka."


mbl.is Liechtenstein veitir upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillum ekki grónum samböndum.

Hin einstæða afhending handritanna 1971, sem á sér enga hliðstæðu í heiminum, var þáttur í því að náið samband Íslands og Danmerkur þróðist úr sambandi hins sterka nýlenduvalds við hálfgerða nýlendu yfir í samband tveggja jafn rétthárra bræðraþjóða.

Það kom mér skemmtilega á óvart eitt sinn er ég dvaldi í Danaveldi að heyra lesnar veðurfregnir í danska útvarpinu eldsmemma um morgun þar sem farið var yfir allt hið forna Danaveldi um Færeyjar, Ísland og Grænland. Þarna var hægt að heyra allt um veðrið á Íslandi.

Sonur minn naut sérstakra fríðinda í háskólanum í Horsens fyrir það að vera sonur foreldra, sem höfðu verið þegnar Danakonungs í frumbernsku, faðirinn í þrjú ár og móðirin í eitt ár.

Þegar Ísland varð fullvalda árið 1918 sáu Danir um landhelgisgæslu hér við land fyrir okkur fram að stríði.

Þeir sjá enn um landhelgisgæslu í löndunum sitt hvorum megin við okkur, Færeyjum og Grænlandi, og Ísland liggur því vel við til þess að þeir veiti okkur aðstoð og hafi við okkur samvinnu.

Nú hefur það verið staðfest af sérstakri nefnd að staða Íslands er á ný orðin svipuð og hún var fyrstu áratugi 20. aldar.

Bandaríski herinn fór vegna þess að engin sérstök hernaðarvá steðjar að landinu eins og er. Öryggismál okkar liggja því á ný á svipuðu sviði og fram að 1940 og beinast að öryggi á sjó og aðgerðum gegn vá vegna mengunarslysa og annarra sjóslysa. Árekstur tveggja kjarnorkukafbáta nýlega sýnir að á því sviði er fyrst og fremst nauðsyn stórefldra varna.

Varðskipin eru búin vopnum og við höfum háð þrjú þorskastríð við einn stærsta sjóher heims. Landhelgisgæslan er að þessu leyti sjóher Íslands og miklu skiptir fyrir öryggi Íslands að hún geti átt sem nánasta, milliliðalausasta og traustasta samvinnu við hinn danska sjóher.


mbl.is Danski sjóherinn hikar í samstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband