Fráleit skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi.

Eina sveitarfélagið á Íslandi sem skipt er í tvö kjördæmi er Reykjavík. Þetta er fáránleg skipan. Hún varð til vegna þess að landsbyggðarþingmenn heimtuðu það. Landsbyggðarþingmennirnir fengu sjálfur að ráða skiptingu sinna kjördæma en Reykvíkingum var meinað að vera saman í kjördæmi.

Skiptingin er á skjön við þá röksemd að kjördæmaskipting sé nauðsynleg vegna þess að hagsmunir kjósenda séu mismunandi eftir búsetusvæðum. KJósendur sunnan Hringbrautar hafa nefnilega enga aðra hagsmuni en kjósendur norðan götunnar í tuttugu metra fjarlægð.

Heldur ekki íbúar í nokkurra tuga metra fjarlægð frá hver öðrum í Grafarholtshverfi, sem mega þar að auki eiga það yfir höfði sér að vera fluttir á milli kjördæma hvenær sem er.

Ef rökin um skiptingu eftir mismunandi svæðishagsmunum hefðu átt að gilda hefði átt að skipta Reykjavík um línu um Elliðaár og niður Fossvogsdal. Þarna eru skil í byggðinni á milli úthverfanna annars vegar og Reykjavíkur vestan Elliðaánna hins vegar. Hagsmunir úthverfanna eitthvað ólíkari en hagsmunir eldri byggðarinnar.

Önnur rök fyrir kjördæmaskiptingunni voru þau að kjördæmin væru álíka stór. Þetta er samt ekki þannig. 2007 voru 21 þúsund kjósendur í Norðvesturkjördæmi en 54 þúsund í Kraganum.

Enn ein röksemdin fyrir misvægi atkvæða var sú að þeir sem fjærst byggju þingstaðnum væri bætt það upp. Þetta er nú samt ekki einhlítt.

Sitt hvorum megin við Reykjavík eru tvö byggðarlög sem eru nokkurs konar ystu úthverfi höfuðborgarinnar, Akranes í norðri og Hafnarfjörður í suðri. Bæði innan sama atvinnusvæðis. En atkvæði hvers kjósanda á Akranesi vegur samt tvöfalt þyngra en atkvæði hvers Hafnfirðings!

Og ekki bara það. Atkvæði hvers Akurnesings vegur 20% þyngra en atkvæði hvers íbúa á Raufarhöfn, sem þó er eins langt frá Reykjavík og komist verður!

Ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi 2007 hefði Íslandshreyfingin ekki verið svipt þingfylgi í samræmi við kjörfylgi. Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi virðist byggja á einhvers konar óskhyggju þess efnis að höfuðborgin eigi helst að vera helmingi fámennari en hún er.

Af hverju er borginni bara skipt í tvö kjördæmi en ekki í tvö sveitarfélög?

Mér hefur alltaf fundist þessi kjördæmaskipting vera fráleit og hef fært að því rök í þessu bloggi.


mbl.is Grafarholt skiptist áfram milli kjördæma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Einn kjósandi, eitt atkvæði. Hvað er athugavert við það?

Villi Asgeirsson, 12.3.2009 kl. 21:34

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hagkvæmt væri fyrir sveitarfélögin frá Mosfellsbæ að Álftanesi að sameinast en íbúar þessara sveitarfélaga hafa ekki viljað sameina þau.

Hagsmunir þeirra allra eru hins vegar þeir sömu í alþingiskosningum og þau gætu þess vegna verið í sama kjördæminu. Hagsmunir íbúa í Suðvesturkjördæmi eru þeir sömu og íbúa Reykjavíkur, bæði norður og suður, og ekki þurfa að vera jafn margir þingmenn í öllum kjördæmum landsins.

Þorsteinn Briem, 12.3.2009 kl. 23:11

3 identicon

Misvægi atkvæða á ekki að líðast. Vonandi er Þorkell ekki þurrundinn og getur teiknað nýja kjördæmaskipan sem skilar árangri fyrir flokka í samræmi við fylgi en auðvitað er það bara fáránlegt að gera ekki landið að einu kjördæmi og geta þá snúið okkur að einhverju öðu til að deila um .... eins og stóriðju.

Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 23:30

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ómar, hver laug þessu að þér um kjördæmisskiptinguna: "Hún varð til vegna þess að landsbyggðarþingmenn heimtuðu það"?

Jón Valur Jensson, 13.3.2009 kl. 00:00

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þeir eru ansi margir sem hafa "logið" þessu að mér og öðrum og haft þetta eftir þeim sem um þetta véluðu á sínum tíma. Þetta hefur komið fram hjá talsmönnum flokka á fundum.

Þetta var orðað þannig að kjördæmin ættu öll að vera álíka stór en bæði borgaryfirvöld í Reykjavík og aðrir talsmenn Reykvíkinga mótmæltu þessu án árangurs.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2009 kl. 01:23

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

NEFNDU NÖFN, ÓMAR. Valdið ber ekki grímu, það á að láta menn sæta ábyrgð, ganga eftir hlutunum, tiltaka hver sagði þetta!

Sjálfur er ég viss um, að þetta er RANGT hjá þér, þeir hafa fundið annaðhvort eftiráskýringar eða borið þetta fyrir sig.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði hag af því að koma þessu svona fyrir, en það mátti auðvitað ekki vitnast, enda lengi gert sér vonir um að ná og halda meirihlutafylgi í borgarstjórn, og þar er þetta ekki gott afspurnar fyrir flokkinn.

Kristín Sigurðardóttir viðskiptafræðingur, sem kom úr Kvennalista og sat í kjördæmalaganefndinni, bar því skýrt vitni í viðtali í fréttatíma Rúv, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu viljað hafa þetta svona og neitað mönnum um að samþykkja, að atkvæðavægi væri jafnað milli landshluta, nema þessi skipting Reykjavíkur fylgdi þá í kaupbæti. (Samt er ennþá gríðarlegt misvægi atkvæða!)

Með þessu mótinu tókst Sjálfstæðisflokki að búa til NÝJAN MÚR, til viðbótar við 5%-múrinn, og þessi er upp á 8–9%, í stað þess, að ef Reykjavík væri eitt kjördæmi, eins og vera ber, þá þyrfti vart nema 4% atkvæða til að ná þar þingsæti.

Ég er búinn að segja þér þetta áður, en þú virðist ekki hafa náð því. Og nú ertu kominn yfir í annan flokk, en þá er þetta samvizkuspurningin: ÆTLARÐU AÐ BEITA ÞÉR EINDREGIÐ FYRIR SAMEININGU REYKJAVÍKURKJÖRDÆMIS, EF ÞÚ KEMST Á ÞING?

Og hin tilmælin fremst í þessu innleggi, gleymdu þeim ekki.

Jón Valur Jensson, 13.3.2009 kl. 09:07

7 identicon

Ástæður þess að Reykjavík var skipt upp liggur fyrir í athugasemdum með frumvarpinu sem kom núverandi skipan á. Eitt af markmiðum höfunda kosningakerfisins var að sem jafnastur fjöldi þingmanna væri í kjördæmunum. Það er eðlilegt sjónarmið þar sem að annars verða til misháir þröskuldar á milli kjördæma, lítil framboð ættu erfiðara uppdráttar í landsbyggðarkjördæmum með fáa þingmenn en í einu stóru Reykjavíkurkjördæmi. Öll gagnrýnin sem kemur fram á þetta fyrirkomulag á samt rétt á sér. Það virkar kjánalegt að skipta Reykjavík í tvennt og það er fráleitt að íbúar í Kjós hafi aðeins hálft vægi á við granna sína norðan Hvalfjarðar. Það er hægt að laga misvægið á milli kjördæma og samt hafa álíka marga þingmenn í hverju kjördæmi en það krefst þess að það séu ennþá handahófskenndari línur dregnar um landið og höfuðborgarsvæðið. Við erum einfaldlega það fámenn og ójafnvægið á byggðinni svo mikið (þéttbýlt SV-horn en dreifbýlt annars) að það er engin leið að búa til rökrétta og sanngjarna kjördæmaskipan. Það er tímabært að gera landið að einu kjördæmi.

Bjarki (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 19:08

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kannski er sannleikurinn blanda af því tvennu sem við erum að tala um. Sjálfstæðisflokkurinn og landsbyggðarþingmenn hans og annarra sáu hagsmuni í því að Reykjavík væri skipt.

Þetta kom sér illa í síðustu kosningum fyrir landsbyggðarflokkinn Framsókn.

Ég er ekki í framboði fyrir þessar kosningar eins og komið hefur fram en myndi hafa beitt mér fyrir sameiningu Reykjavíkur 2007 ef ég hefði þá farið á þing.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2009 kl. 21:06

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var ekki að biðja um neina "kannski"-ályktun eða öllu ágizkun af þinni hálfu, Ómar, heldur var ég með konkret spurningu eða tilmæli: Tiltaktu hver sagði þetta, nefndu nöfnin!

Jón Valur Jensson, 13.3.2009 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband