6.3.2009 | 16:43
Hvað skyldu allar stjórnarskrárnefndirnar hafa kostað?
Erfitt er að hafa tölu á öllum þeim stjórnarskrárnefndum, sem starfað hafa síðustu 65 ári til þess að endurskoða stjórnarskrá, sem að stofni til er frá 1849 á dögum dansks einvaldskonungs. Varla hafa nefndarmenn verið í sjálfboðavinnu við að þæfa stjórnarskrármálið þótt sumar nefndirnar hafi reyndar gert svo lítið að launin geta varla hafa verið há.
Árangursleysi þessarar nefndarstarfsemi síðustu 65 ári stingur í augun og ævinlega afsakaðar á alls konar vegu svo sem því að breytingar væru ekki tímabærar.
Ef þær eru ekki tímabærar nú eftir klúður ráðherraræðisins, hvænær þá?
Nú vilja sumir greinilega koma í veg fyrir að nokkuð muni þoka í umbótaátt og hafa allt á hornum sér, bæði gagnvart minnstu breytingum kosningalaga og stjórnlagaþingi.
![]() |
Telur stjórnlagaþing kosta meira en milljarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.3.2009 | 13:13
Minnir á 1959.
Aðeins tvisvar á lýðveldistímanum hefur komið upp hliðstætt ástand og nú ríkir á Alþingi. Fyrir réttum 50 árum, í árslok 1958, var þjóðarskútan strand, ríkisstjórnin sagði af sér og minnilhutastjórn tók við sem beitti sér fyrir svipuðu og nú, efnahagsaðgerðum og breytingum á stjórnarskrá.
Dálítið sérkennilegt ástand myndaðist þá. Minnihlutastjórnin notaðist við liðstyrk Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags til að koma stjórnarskrárbreytingunum á þótt Alþýðubandalagið væri á móti efnahagsaðgerðunum.
Sjálfstæðismenn gátu varið minnihlutastjórnina vantrausti en hún hafði samt ekki meirihluta í báðum deildum.
Utanþingsstjórn var engum þingflokki að skapi og því varð lausnin sú að minnihlutastjórnin sótti sér stuðning eða hlutleysi í fleiri en eina átt.
Framsóknarmenn hafa nú gert það að skilyrði fyrir að verja stjórnina vantrausti að ekki verði hróflað við stóriðjuáformum. Í fyrri stjórn lék Sjálfstæðisflokkurinn svipaðan leik. Fyrir liggur að Mörður Árnason mun ekki styðja frumvarp Össurar en að öðru leyti virðist Samfylkingin ætla að sitja uppi með þetta mál sem slæman og skammarlegan arf frá fyrri stjórn.
Fyrir andstæðinga stóriðjustefnunnar hefur ríkt ófært ástand í þessum málum síðustu ár og nú síðast verða báðir stjórnarflokkarnir að kyngja kröfum Framsóknar. Hlutskipti Samfylkingarinnar virðist þó ætla að verða sýnu verra úr því að ráðherra úr hennar röðum tekur að sér að bera þetta mál fram og fá atbeina stóriðjuflokkanna til að samþykkja það.
Afsökunin er sú að á meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi meirihluta á þingi verði ekki að gert.
Ef vinstri flokkarnir fengju hreinan meirihluta í komandi kosningum yrði sú afsökun hins vegar ekki tekin gild. Þess vegna er eina vonin til þess að þessum málum verði hnikað sú að þessir flokkar geti ekki lengur haft hina gömlu afsökun.
Innan VG er öflugur hópur grænna og reynir að standa sig eins vel og aðstæður leyfa. Þeir standa grænu vaktina dável úti á vinstri kanti stjórnmálanna og þurfa ekki liðveislu þar.
Það er á miðjunni og til hægri sem þarf að efla umhverfisverndarfólk. Innan Samfylkingar er öflugur hópur grænna sem er í sókn. Ég mun líta inn hjá einum þeirra, Dofra Hermannssyni, síðar í dag. Hann og fleiri slíkir eiga erindi á þing. Því miður hefur verið sterkur hópur stóriðjusinna í Samfylkingunni sem hefur sett flokknum úrslitakosti. Því ástandi þarf að linna.
2002 voru úrslitakostirnir þeir að rýja Samfylkinguna fylgi í norðausturkjördæmi og í verkalýðshreyfingunni ef hún samþykkti ekki Kárahnjúkavirkjun.
Þetta má ekki gerast enn og aftur. Græni hópurinn í Samfylkingunni þarf liðveislu við.
Í síðustu kosningum stefndi Íslandshreyfingin að því að veita slíka liðveislu með því að vera álitlegur kostur fyrir umhverfisverndarfólk á miðjunni og hægra megin við hana og efla þannig þann hluta grænu fylkingarinnar.
Óréttlát kosningalög komu í veg fyrir slíkt og standa aftur nú í vegi fyrir endurteknu framboði í þessa veru.
Eina vonin er því sú að efla svo grænu fylkinguna í Samfylkingunni og þingstyrk hennar, að komandi stjórn hafi ekki lengur afsökun fyrir undanhaldi í umhverfismálum.
![]() |
Steingrímur á móti Helguvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2009 | 11:58
"Lítið sem ekkert..."
Ofangreind orð voru notuð af einum bloggara á bloggsíðu minni í gær um áhrif Hálslóns á leirfok og náttúruna umhverfis lónið.
Þau áttu að lýsa því hve lítil áhrif leirfburður í Hálslón hefði á aðstæður við lónið og hve "lítið sem ekkert" leirfokið væri.
Fróðlegt kann að vera af þessu tilefni að skoða nokkrar myndir sem ég tók góðviðrisferð sem ég fór síðastliðið sumar að lóninu.
Efsta myndin er við svonefnda Hrauka rétt hjá flugvellinum á Sauðármel. Við eðlilegar aðstæður og í litlum vindi eins og var þarna, er loftið tært.
Til hægri er loftmynd af vesturströnd Hálslóns þar sem lónið hefur rifið niður 2-3 metra þykkan jarðveg og sett í staðinn fíngerðan leir. Þegar ísa leysir á vorin geta hinar þurru sandleirur orðið allt að 30 ferkílómetrar að flatarmáli. Það er auðvitað "lítið sem ekkert."
Næsta mynd fyrir neðan er af leirfokinu af því svæði þar sem áður var grænn og þykkur gróður beggja vegna við gilið Stuðlagátt fyrir neðan Töfrafoss.
Til hægri er mynd af samferðafólki mínu rétt norðan við fossinn sem reynir að klæða af sér sandfokið, sem verður þarna í ótrúlega litlum vindi. Fyrir virkjun var þarna þéttgróið grænt landsvæði. Skömmu síðar stöðvaðist myndavélin mín vegna þess að leirduftið smýgur inn um allt.
Ég á miklu magnaðri kvikmyndir af leirfokinu þarna sem vonandi birtast í myndinni Örkinni, hvenær sem að því kemur að hún verður fullgerð.
Næsta mynd þar fyrir neðan til vinstri sýnir Töfrafoss hálfsokkinn í lónið. Þarna var áður gróið gil en á aðeins nokkrum mánuðum hefur Kringilsá hálffyllt það af stórum sethjöllum sands og leirs. Maðurinn uppi á bakkanum til hægri gefur hugmynd um stærðarhlutföllin.
Í mati á umhverfishrifum er sagt að það muni taka ána heila öld að fylla gilið upp. Ég er ansi hræddur um að það taki styttri tíma miðað við þessi óhemju afköst Kringilsár sem við blöstu snemmsumars.
En að mati eins þeirra sem gerðu athugasemdir við blogg mitt í gær eru þetta smámunir og leirfokið af svona svæði "lítið sem ekkert."
Minni síðan á möguleikana á að stækka myndirnar upp á skjánum hjá sér til að njóta þeirra betur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.3.2009 | 00:52
Skrýtin lýðræðisást.
Bjarni Harðarson hefur geyst fram á völlinn sem talsmaður og forystumaður í samtökum sem berjast gegn flokksræði og fyrir lýðræði. Þegar ég heyrði þessa setningu úr munnum forsvarsmanna L-listans leist mér vel á það.
En nú verð ég að viðurkenna að á mig sækja spurningar, því að skömmu síðar kemur það frá Bjarna klárt og kvitt að hann ætli að verða efsti maður á lista framboðsins í einhverju af kjördæmunum og að efsti maður hvers lista verði einvaldur um aðra niðurröðun listans.
Breytingarnar á kosningalögunum munu ekki banna Bjarna að viðhafa allt það einræði sem hann vill á lista sínum.
Það eina sem breytist er það að leyfa öðrum framboðum að hafa óraðaða lista ef þau vilja. Af hverju er Bjarna svona illa við það? Af hverju má ekki hvert framboð ákveða sjálft hvernig það vill hafa þetta, rétt eins og Bjarni hefur sjálfur ákveðið að raða upp á sinn lista og hafa um það úrslitavald? Það er enginn að banna honum það.
Gæti það verið vegna þess að fylgismenn hans muni fara fram á að listar L-listans verði óraðaðir og Bjarni fái þá ekki það einræðisvald um röðun á listans sem hann hefur ákveðið sér til handa?
Fyrir tveimur árum starfaði ég með samherjum mínum að því að raða 132 manns á framboðslista Íslandshreyfingarinnar í sex kjördæmum í miklu tímahraki á þann hátt að þetta varð eina framboðið í sögu landsins sem var með fullkomna fléttulista á alla lund og þar með mesta jafnrétti kynja sem þekkst hefur hér.
Taka þurfti tillit til ótal sjónarmiða og það tók eðliega mikinn tíma að finna lausn sem allir voru sáttir við.
Það hefði verið mikill tímasparnaður fólginn í því að mega hafa óraðaða lista og slíkt hélt ég að kæmi sér einmitt best fyrir nýju framboðin, sem þurfa að lyfta grettistökum í vinnu sinni í tímahraki.
Það ætti að vera ólíkt auðveldara að finna 18-24 persónur til að skipa óraðaðan lista en að raða þeim öllum fyrirfram.
Hin lausnin virðist vera Bjarna hugleiknari, að einvaldarnir í efsta sætinu á hverjum lista, vinni þetta einir og taki ómakið af öðrum fylgismönnum hins "lýðræðislega" framboðs. Fyrirgefðu Bjarni. Útskýrðu betur fyrir mér, einfeldningnum, hvernig þetta samrýmist því fyrsta sem þú sagðir og mér fannst svo gott, að þú berðist gegn flokksræði og fyrir lýðræði.
![]() |
Persónukjör stjórnarflokkunum í hag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
6.3.2009 | 00:32
Margfalt hneyksli ?
Ólafur Guðmundsson flutti fróðlegt erindi fyrir einu ári á Vetrrhátíð í Reykjavík um það að íslenska malarefnið, sem notað er í malbik á götum Reykjavíkur standist ekki kröfur ESB, sem Íslendingar hafa ekki lögleitt í gegnum EES.
Íslenska efnið sé margfalt lélegra en lægstu kröfur í Evrópu leyfa og valdi margfalt hraðara og meira sliti og þar af leiðandi svifryki, vatnsrásum og viðgerðarkostnaði.
Ofan á þetta er lítið lát á óþarfa nagladekkjanotkun og skefjalausum austri salts, sem ég hef heyrt sögur um að sé blandað ólöglegum fosfórefnum til að auka bræðinguna en auka jafnframt tæringu í bílum, þar á meðal í hemlakerfum og öðrum nauðsynlegum öryggisbúnaði.
Það er hlálegt að Reykjavík, "borgin með hreinasta lofti í heimi" skuli vera með loft, sem stenst ekki kröfur Kaliforníu í 40 daga á ári vegna brennisteinsmengunar frá Hellisheiðarvirkjun og hefur farið yfir heilsuverndarmörk af sömu ástæðum.
Auk þess fer loftið niður fyrir heilsuverndarmörk marga daga á vetri hverjum vegna svifryks af völdum margfalds hneykslis varðandi efnanotkun og naglatrú.
![]() |
Helstu götur rykbundnar í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)