Minnir á 1959.

Aðeins tvisvar á lýðveldistímanum hefur komið upp hliðstætt ástand og nú ríkir á Alþingi. Fyrir réttum 50 árum, í árslok 1958, var þjóðarskútan strand, ríkisstjórnin sagði af sér og minnilhutastjórn tók við sem beitti sér fyrir svipuðu og nú, efnahagsaðgerðum og breytingum á stjórnarskrá.

Dálítið sérkennilegt ástand myndaðist þá. Minnihlutastjórnin notaðist við liðstyrk Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags til að koma stjórnarskrárbreytingunum á þótt Alþýðubandalagið væri á móti efnahagsaðgerðunum.

Sjálfstæðismenn gátu varið minnihlutastjórnina vantrausti en hún hafði samt ekki meirihluta í báðum deildum.

Utanþingsstjórn var engum þingflokki að skapi og því varð lausnin sú að minnihlutastjórnin sótti sér stuðning eða hlutleysi í fleiri en eina átt.

Framsóknarmenn hafa nú gert það að skilyrði fyrir að verja stjórnina vantrausti að ekki verði hróflað við stóriðjuáformum. Í fyrri stjórn lék Sjálfstæðisflokkurinn svipaðan leik. Fyrir liggur að Mörður Árnason mun ekki styðja frumvarp Össurar en að öðru leyti virðist Samfylkingin ætla að sitja uppi með þetta mál sem slæman og skammarlegan arf frá fyrri stjórn.

Fyrir andstæðinga stóriðjustefnunnar hefur ríkt ófært ástand í þessum málum síðustu ár og nú síðast verða báðir stjórnarflokkarnir að kyngja kröfum Framsóknar. Hlutskipti Samfylkingarinnar virðist þó ætla að verða sýnu verra úr því að ráðherra úr hennar röðum tekur að sér að bera þetta mál fram og fá atbeina stóriðjuflokkanna til að samþykkja það.

Afsökunin er sú að á meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi meirihluta á þingi verði ekki að gert.

Ef vinstri flokkarnir fengju hreinan meirihluta í komandi kosningum yrði sú afsökun hins vegar ekki tekin gild. Þess vegna er eina vonin til þess að þessum málum verði hnikað sú að þessir flokkar geti ekki lengur haft hina gömlu afsökun.

Innan VG er öflugur hópur grænna og reynir að standa sig eins vel og aðstæður leyfa. Þeir standa grænu vaktina dável úti á vinstri kanti stjórnmálanna og þurfa ekki liðveislu þar.

Það er á miðjunni og til hægri sem þarf að efla umhverfisverndarfólk. Innan Samfylkingar er öflugur hópur grænna sem er í sókn. Ég mun líta inn hjá einum þeirra, Dofra Hermannssyni, síðar í dag. Hann og fleiri slíkir eiga erindi á þing. Því miður hefur verið sterkur hópur stóriðjusinna í Samfylkingunni sem hefur sett flokknum úrslitakosti. Því ástandi þarf að linna.

2002 voru úrslitakostirnir þeir að rýja Samfylkinguna fylgi í norðausturkjördæmi og í verkalýðshreyfingunni ef hún samþykkti ekki Kárahnjúkavirkjun.

Þetta má ekki gerast enn og aftur. Græni hópurinn í Samfylkingunni þarf liðveislu við.

Í síðustu kosningum stefndi Íslandshreyfingin að því að veita slíka liðveislu með því að vera álitlegur kostur fyrir umhverfisverndarfólk á miðjunni og hægra megin við hana og efla þannig þann hluta grænu fylkingarinnar.

Óréttlát kosningalög komu í veg fyrir slíkt og standa aftur nú í vegi fyrir endurteknu framboði í þessa veru.

Eina vonin er því sú að efla svo grænu fylkinguna í Samfylkingunni og þingstyrk hennar, að komandi stjórn hafi ekki lengur afsökun fyrir undanhaldi í umhverfismálum.


mbl.is Steingrímur á móti Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband