Schumacher, - J.R. formúlunnar.

Íþróttir þurfa oft á miklum persónuleikum að halda og sama á við um mörg önnur svið. Stundum er um að ræða svo mikla afreksmenn að þeir einir bera sviðið uppi. Þannig bar einn maður, Michael Jordan, uppi körfuboltann bandaríska á sinni tíð, - slíkur yfirburðasnillingur var hann.

Önnur persónugerð sem lyftir undir áhuga á einhverju sviði er afburðamaður, sem allir geta æst sig yfir og sameinast um að hata eða elska.

Á árunum 1964-1974 var Muhammed Ali slíkur maður, - eða þangað til að ótrúleg endurheimt hans á heimsmeistaratitli í annað sinn gegn öllum veðmálum gerði hann að óumdeildum snillingi.

Án J. R. hefðu Dallas-þættirnir aldrei náð þeim hæðum í vinsældum sem þeir gerðu, þótt flestum þætti persónan mjög ógeðfelld.

Michael Schumacher var heimsmeistari í kappakstri sem engum var sama um. Annað hvort hötuðu menn hann eða elskuðu.

Fyrir bragðið hafði hann óhemju mikið aðdráttarafl og tryggði metáhorf að Formúlunni.

Hann hætti á réttum tíma hvað sjálfan hann snerti og með því að byrja aftur tekur hann óhemju mikla áhættu, - óþarflega mikla að mínum dómi.

En það skiptir ekki öllu máli. Hann er kominn aftur til þess að láta okkur annað hvort hata sig eða elska. Það eitt er mjög spennandi hvort hann nær að hleypa sama lífi í Formúluna og ríkti þegar hann var upp á sitt besta.

Á sínum tíma fór konan mín eitt sinn til útlanda á þeim tíma sem Dallas-þættirnir voru vinsælir, en þeir voru sýndir seinna hér heima en í því landi sem hún fór til.

Þegar hún kom heim til að taka upp þráðinn og horfa á Dallas hér heima spurði hún spurningar sem segir meira en flest annað um sápuóperur og þá sérstaklega Dallas: "Er J. R. einnþá dauður?

Schumacher er J. R. Formúlunnar sem hvarf af sjónarsviðinu. Er hann ennþá í fullu fjöri?


Vinnuhagræðingu, takk!

Fyrir nokkrum árum kom upp mál varðandi það að lögreglan á Akranesi og lögreglan í Borgarnesi lentu í deilu vegna verkaskiptingar sem stafaði af mörkum umdæma þeirra. Þetta dæmi og mörg önnur má nefna um umhagræði of mikillar svæðaskiptingar á sviði, þar sem hraði og bættar samgöngur hafa gert landið að einni heild.

Ef bæta á hagræðingu og skilvirkni í löggæslu getur það verið hugsanleg leið að gera landið allt að einu lögregluumdæmi. Eftir sem áður verður að varast það að sérþekking á hverju svæði sé ekki nýtt af heimamönnum.

Dæmi um ókost miðstýringar eru atvik hjá neyðarþjónustunni fyrir nokkrum árum þar sem ónóg staðarþekking olli því að kallað var út lið í skökkum landsfjórðungi í fyrstu og það tafði aðgerðir að ekki var í upphafi farið rétt í hlutina og hefði slíkt getað valdið stórtjóni ef um stærra slys hefði verið að ræða.

Samhæfing til að nýta betur mannafla lögreglu landsins sem heildar án stirðnaðs miðstýrs bákns hlýtur að vera keppikeflið.

Hugsanlega er yfirbygging löggæslunnar með alla sína lögreglustjóra of stór í heildina og þörf á að breyta því, hvernig sem það verður nú annars gert.

Ég minnist þess þegar í stað tveggja fréttastjóra hjá RUV var búið til embætti eins yfirfréttastjóra án þess að hróflað væri við hinum fréttastjórunum. Þetta átti að vera í hagræðingarskyni en var umdeilt.

Hagræðið virðist ekki hafa skilað sér ef marka má það að nú hefur þessu verið breytt í það horf að einn fréttastjóri er yfir öllum fréttum. Sem sagt, eitt fréttastjóraembætti í stað þriggja. Ég var meðal þeirra sem hafði um þetta miklar efasemdir en hef síður efasemdir um þá breytingu sem nú hefur verið gerð.


mbl.is Ísland verði eitt lögregluumdæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningarnir fóru í annað vegna rangra forsendna.

Þegar þessi orð eru skrifuð hef ég komið í þrjá daga a Folavatni, litla fallega vatninu með hólmunum austan við Snæfell sem senn heyrir sögunni til. Allar myndirnar hér á síðunni voru teknar í þessum ferðum.

P1010564

Folavatn var talið hafa mikið verndargildi í mati á umhverfisáhrifum og á efstu myndinni sést hvernig vatnið er í lægð, sem er gróin allt í kringum það, en melar eru hins vegar ofar. Þegar Kelduárlón kemur yfir Folavatn sekkur þetta gróðurlendi.  

Ég hafði ýmsar ranghugmyndir um Folavatn, hélt að í 663 metra hæð væri napurt og gróðurlítið.

En þessa dagana er eins og mesta rigningin og súldin stöðvist að mestu á hæðunum norðan við vatnið.

P1010584

Það var ekki mikið mál að róa út í Álftahólmann, sem ég kalla svo.  

 Ég var að vona að heimildarmyndin "Örkin" gæti endað betur en svo að þessum hólmum og fallegu gróðurlendi væri drekkt og að risastórt aldagamalt álftahreiður sæist síðast sökkva.

Að þarflausu, án þess að skapa eitt einasta kílóvatt eða starf. 

Ég skrifaði um málið í Morgunblaðsgrein og fékk svar í blaðinu, auk þess sem ég reifaði málið við forstjóra Landsvirkjunar, stjórnarmenn í Landsvirkjun og umhverfisráðherra.

P1010579

Í svarinu í Morgunblaðinu og í samtali mínu við Friðrik Sophusson stóð það síðast eftir að hugmynd mín um6 metrum lægra yfirfall á Kelduárstíflu til að varðveita Folavatn væri góðra gjalda verð en hún yrði of dýr í framkvæmd.

 Í forsendum fyrir virkjuninni var gert ráð fyrir kuldatímabili, en stóraukið vatnsrennsli vegna hlýnunar hafði að vísu gert Landsvirkjun kleift að sleppa að virkja tvær austustu árnar í fyrirhugaðri Hraunaveitu og spara um 300 milljónir króna. 

Gat þá ekki eitthvað af þessari upphæð farið í að breyta yfirfallinu?

P1010580

Nei, var svarið. Þessir peningar fara í að bregðast við auknu vatnsrennsli á yfirfalli Kárahnjúkastíflu með því að reisa ófyrirséða nýja 20 metra háa stíflu fyrir norðan stóru stífluna til þess að mynda þar djúpa tjörn, sem yfirfallsfossinn falli í svo að hann grafi ekki undan eystri gjáveggnum.

Ég hafði raunar lagt til aðra leið til að varðveita Folavatn án þess að það kostaði nokkrar framkvæmdir eða peninga, en hún fólst í því að lækka yfirborð lónsins um tvo metra til viðbótar og halda því þar með því að hleypa úr því um útfallsgöngin.

P1010560

Þess tvo metra myndi þurfa til þess að eiga inni fyrir miklum haustflóðum, sem göngin anna ekki. Ég sat á fundi með aðal sérfræðingi Landsvirkunar um þetta en þessari hugmynd minni var hafnað.

Þar með eru nú hafnar síðustu siglingar mínar um lón Kárahnjúkavirkjunar, - fyrst í stað á lítilli gúmmítuðru um Folavatn en síðar, þegar nógu djúpt er orðið fyrir Örkin að sigla úr Kelduárlóni yfir á þann hluta þess þar sem áður var Folavatn, verður það gert.

Fyrir nokkrum árum stóð til að láta Símann hafa ferhyrndan grasblett nálægt Glæsibæ.

Mig minnir að 30 þúsund manns hafi mótmælt þessu með undirskriftum og fallið var frá þessu.

P1010585

Öllu þessu fólki var ekki sama, og samt var aðeins um að ræða ferhyrndan manngerðan grasblett, líkan þúsundum annarra grasbletta í þéttbýli.

Húsið hefði haft sinn líftíma og hægt hefði verið að rífa það síðar og búa aftur til alveg eins grasblett. En fólki var ekki sama og reis upp, mótmælti og hafði sitt fram. 

Nú virðist íslensk þjóð hins vegar að verða samdauna hernaðinum gegn einstæðri náttúru Íslands.  

Fyrirsögnin á grein minni í Morgublaðinu var: "Er enginn þarna úti? Er öllum orðið sama um allt?"

Ég bíð eftir því hvort á næstu dögum og vikum komi endanlega í ljós svarið við þessum spurningum sem verði endir myndarinnar um Örkina: Það er enginn þarna úti. Það er öllum sama um allt.


Bloggfærslur 30. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband