Peningarnir fóru í annað vegna rangra forsendna.

Þegar þessi orð eru skrifuð hef ég komið í þrjá daga a Folavatni, litla fallega vatninu með hólmunum austan við Snæfell sem senn heyrir sögunni til. Allar myndirnar hér á síðunni voru teknar í þessum ferðum.

P1010564

Folavatn var talið hafa mikið verndargildi í mati á umhverfisáhrifum og á efstu myndinni sést hvernig vatnið er í lægð, sem er gróin allt í kringum það, en melar eru hins vegar ofar. Þegar Kelduárlón kemur yfir Folavatn sekkur þetta gróðurlendi.  

Ég hafði ýmsar ranghugmyndir um Folavatn, hélt að í 663 metra hæð væri napurt og gróðurlítið.

En þessa dagana er eins og mesta rigningin og súldin stöðvist að mestu á hæðunum norðan við vatnið.

P1010584

Það var ekki mikið mál að róa út í Álftahólmann, sem ég kalla svo.  

 Ég var að vona að heimildarmyndin "Örkin" gæti endað betur en svo að þessum hólmum og fallegu gróðurlendi væri drekkt og að risastórt aldagamalt álftahreiður sæist síðast sökkva.

Að þarflausu, án þess að skapa eitt einasta kílóvatt eða starf. 

Ég skrifaði um málið í Morgunblaðsgrein og fékk svar í blaðinu, auk þess sem ég reifaði málið við forstjóra Landsvirkjunar, stjórnarmenn í Landsvirkjun og umhverfisráðherra.

P1010579

Í svarinu í Morgunblaðinu og í samtali mínu við Friðrik Sophusson stóð það síðast eftir að hugmynd mín um6 metrum lægra yfirfall á Kelduárstíflu til að varðveita Folavatn væri góðra gjalda verð en hún yrði of dýr í framkvæmd.

 Í forsendum fyrir virkjuninni var gert ráð fyrir kuldatímabili, en stóraukið vatnsrennsli vegna hlýnunar hafði að vísu gert Landsvirkjun kleift að sleppa að virkja tvær austustu árnar í fyrirhugaðri Hraunaveitu og spara um 300 milljónir króna. 

Gat þá ekki eitthvað af þessari upphæð farið í að breyta yfirfallinu?

P1010580

Nei, var svarið. Þessir peningar fara í að bregðast við auknu vatnsrennsli á yfirfalli Kárahnjúkastíflu með því að reisa ófyrirséða nýja 20 metra háa stíflu fyrir norðan stóru stífluna til þess að mynda þar djúpa tjörn, sem yfirfallsfossinn falli í svo að hann grafi ekki undan eystri gjáveggnum.

Ég hafði raunar lagt til aðra leið til að varðveita Folavatn án þess að það kostaði nokkrar framkvæmdir eða peninga, en hún fólst í því að lækka yfirborð lónsins um tvo metra til viðbótar og halda því þar með því að hleypa úr því um útfallsgöngin.

P1010560

Þess tvo metra myndi þurfa til þess að eiga inni fyrir miklum haustflóðum, sem göngin anna ekki. Ég sat á fundi með aðal sérfræðingi Landsvirkunar um þetta en þessari hugmynd minni var hafnað.

Þar með eru nú hafnar síðustu siglingar mínar um lón Kárahnjúkavirkjunar, - fyrst í stað á lítilli gúmmítuðru um Folavatn en síðar, þegar nógu djúpt er orðið fyrir Örkin að sigla úr Kelduárlóni yfir á þann hluta þess þar sem áður var Folavatn, verður það gert.

Fyrir nokkrum árum stóð til að láta Símann hafa ferhyrndan grasblett nálægt Glæsibæ.

Mig minnir að 30 þúsund manns hafi mótmælt þessu með undirskriftum og fallið var frá þessu.

P1010585

Öllu þessu fólki var ekki sama, og samt var aðeins um að ræða ferhyrndan manngerðan grasblett, líkan þúsundum annarra grasbletta í þéttbýli.

Húsið hefði haft sinn líftíma og hægt hefði verið að rífa það síðar og búa aftur til alveg eins grasblett. En fólki var ekki sama og reis upp, mótmælti og hafði sitt fram. 

Nú virðist íslensk þjóð hins vegar að verða samdauna hernaðinum gegn einstæðri náttúru Íslands.  

Fyrirsögnin á grein minni í Morgublaðinu var: "Er enginn þarna úti? Er öllum orðið sama um allt?"

Ég bíð eftir því hvort á næstu dögum og vikum komi endanlega í ljós svarið við þessum spurningum sem verði endir myndarinnar um Örkina: Það er enginn þarna úti. Það er öllum sama um allt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sjáanlega af myndunum er ekkert einstakt við folavatn né umhverfi þess. Umhverfi af þessu tagi er í þúsundavís á hálendinu, t.d. á Veiðivatnasvæðinu. Á Holtavörðuheiðinni eru tugir svona vatna og þar hef ég tjaldað og veitt.

Það er allsstaðar fallegt á Íslandi í góðu veðri.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.7.2009 kl. 14:06

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Ekkert einstakt við Folavatn", segirðu. Sem sagt, ekkert einstakt við Snæfell, sem gnæfir þarna yfir, á aðra höndina en Eyjabakkajökull á hina.

Myndirnar eru teknar í vatnsveðrinu sem nú er hér eystra og í pistli mínum um daginn getur séð betur næsta umhverfi Folavatns.

Eyjabakkar eru í næsta nágrenni og lífríki vatnsins er um margt einstakt eins og hægt er að lesa um í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt ályktun þinni er ekkert sérstakt við Réttarvatn sem Jónas Hallgrímsson setti efst á óskalista sinn og líklega allt í lagi að sökkva hólmanum í Reykjavíkurtjörn vegna þess að ekkert sérstakt er við hann.

Mér finnst það hugarfar hins vegar sérstakt að drekkja landi drekkingarinnar einnar vegna.

"Það er alls staðar fallegt á Íslandi í góðu veðri", skrifar þú. Ergó: Umturnum landinu sem mest við megum sem mest við megum, því að það verður eftir sem áður alls staðar fallegt.

Ómar Ragnarsson, 30.7.2009 kl. 14:20

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið tvítekningu í síðustu setningunni: "...sem mest við megum..."

Hún átti ekki að vera en hún lýsir kannski því hugarfari hins takmarkalausa og hömlulausa framferðis sem vaðið hefur uppi hér á landi og virðist lifa betra lífi en nokkru sinni fyrr.

Ómar Ragnarsson, 30.7.2009 kl. 14:23

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn eitt: Folavatn liggur 200 metrum hærra yfir sjó en vötn Gunnars. Það er í 663 metra hæð í nálægð við jökul og með þessum gróðri og lífríki er það sér á parti.

Ómar Ragnarsson, 30.7.2009 kl. 14:37

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Snæfellið skaðast ekki við "drekkingu" Folavatns, en það er taktík ykkar alfriðunarsinna að spyrða allt saman ef hreift er við einhverju í náttúrunni. Það virkar vel á fáeina en lítið á fjöldan.

Þegar lygaáróðurinn var sem mestur frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Landvernd gegn Kárahnjúkaverkefninu, þá náðuð þið ágætum árangri í að véla almenning til fylgilags við ykkur.... samkv. skoðanakönnunum. En þegar staðreyndirnar fóru að poppa upp hér og þar þá reittist af fylginu. Saga þessarar baráttu í hnotskurn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.7.2009 kl. 14:40

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vötnin á Holtavörðuheiði eru í yfir 500 m. hæð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.7.2009 kl. 14:43

7 identicon

"stóð það síðast eftir að hugmynd mín um 6 metrum lægra yfirfall á Kelduárstíflu til að varðveita Folavatn væri góðra gjalda verð en hún yrði of dýr í framkvæmd."

Hvaða upphæð er þarna verið að miða við?  Og hvernig vilja menn  verðleggja Folavatn?  Er náttúran þessum mönnum einskis virði?  

Styð þig og dáist að kraftinum í þér þar sem þú reynir að fá menn til að varðveita  dýrmæta náttúru landsins okkar.

Auður M (IP-tala skráð) 30.7.2009 kl. 15:57

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar hefur greinilega aldrei heyrt minnst á hugtak sem er viðurkennt alþjóðlega þótt Íslendingar tregðist við það. Það er hugtakið "landslagsheild."

Í Bandaríkjunum er Yellowstone skilgreind landslagsheild.  

Dæmi: Séð frá Reykjavík mynda Akrafjall, Skarðsheiði, Esja, Móskarðshnjúkar og Skálafell landslagsheild. Setjum svo að Skarðsheiði og Móskarðshnjúkar yrðu moluð niður í malargryfjum. Í augum Reykvíkinga myndi það skemma þessa heild.

Í suðri blasa við Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluháls, Trölladyngja, Keilir, Fagradalsfjall og Þorbjörn.

Væri þá allt í lagi að mola Trölladyngju mélinu smærra og segja að Keilir eða fjallahringurinn hafi ekki borið neinn skaða af?

"Á engum stað ég uni eins vel og þessum stað mér.." yrkir Jónas um Réttarvatn.

Í öllu ljóðinu um það er aðeins eitt erindi um það sem sést við vatnið: "...Og undir norðurásnum er ofurlítil tó. /  Lækur liðast þar niður um lágan hvannamó."

Engir hólmar, ekkert risavaxið álftahreiður, engar blómagrundir nefndar, enda ekki fyrir hendi eins og við Folavatn heldur aðalatriðið: "Ískaldur Eiríksjökull veit allt sem talað er hér."

Réttarvatn liggur nær Eiríksjökli en hin óteljandi vötn Tvídægru og Arnarvatnsheiðar, rétt eins og Folavatn liggur nær Snæfelli og Eyjabakkajökli en önnur vötn á Hraununum.

"Hinn ískaldi jökull og Snæfell / vita allt sem talað er hér" hefði hann getað ort um Folavatn hefði hann beitt hesti sínum þar.

Og bætt hólmunum og álftahreiðrinu við "...undir norðurásnum er ofurlítil tó. / Lækur liðast þar niður um lága hvannamó."  

Upplifun Jónasar af Réttarvatni eins og hún kemur fram í þessu litla ljóði hans er meira en 150 árum á undan samtíð hans og greinilega ljósárum á undan skilningi Gunnars Th. Gunnarssonar.

Ómar Ragnarsson, 30.7.2009 kl. 23:35

9 identicon

Takk Ómar fyrir þitt þrotlausa starf. Það er sannarlega mikils virði. Andvaraleysi fólks ræðst sjálfsagt af mörgu. Margt það fólk sem barðist sem mest gegn Kárhnjúkavirkjun gafst hreinlega upp þegar það stríð tapaðist. Það er svo óendanlega sárt að horfa upp á öll þessi verðmæti glatast til frambúðar. Maður verður svolítið eins og strúturinn er sagður vera, stingur höfðinu í sandinn, vill ekki þurfa að sjá þessi ósköp. Eða vill kannski ekki fara að berjast aftur, bara til að tapa meiru og enn á ný. Annað sem ræður er jú menntunarskortur svo margra - heimskan í þess orðs fyllstu merkingu. Hin vélræna einstefnuhugsun, sjá bara beint fram fyrir sig en sjá ekki heildir og tengsl. Á sínum tíma lögðust menn gegn Kárahnjúkum af ýmsum faglegum ástæðum, náttúrufræðilegum, hagfræðilegum, félagslegum, fagurfræðilegum, siðferðilegum....  Ég hygg að nú séu að koma í ljós ýmsar upplýsingar sem sýna að þeir sem þetta gerðu höfðu rétt fyrir sér. Hagfræðingar bentu t.d. á að virkjunin myndi ekki borga sig, yrði miklu dýrari en gert var ráð fyrir. Nú er þetta að koma í ljós - í viðbót við allan ómetanlega skaðann á náttúrunni.

En nú er ég að gera það sem ég ætlaði aldrei að gera, að blanda mér í umræðuna á blogginu þínu. Mér hefur svo oft blöskrað talsmátinn og stórorðaflaumurinn hjá þeim sem þar leggja orð í belg.

Ég vildi bara þakka þér .

Sigrún Helgadóttir (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 00:49

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Arðsemi íslenskra orkufyrirtækja er talsvert lakari en orkufyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu.

"Þetta er meðal niðurstaðna í fyrstu áfangaskýrslu um mat á afrakstri orkusölu til erlendrar stóriðju fyrir íslenska þjóðarbúið sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið."

PDF-skrá Arðsemi orkusölu - Áfangaskýrsla

Þorsteinn Briem, 31.7.2009 kl. 00:55

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki gera mér upp Ómar, hvað ég hef heyrt minnst á og hvað ekki. "Landslagsheild" er hugtak sem þið alfriðunarsinnar hafið herfilega misnotað eins og mörg önnur, t.d. "einstakt" og "ómetanlegt". Þessi orðahugtök eru orðin svo hversdagsleg að finna verður upp önnur, svo þau öðlist alvarlega merkingu á ný.

Steini,  tveir höfundar skýrslunnar, þeir Þorsteinn Siglaugsson og Sigurður Jóhannesson, hafa verið yfirlýstir meðreiðarsveinar Landverndar, sem barist hefur með kjafti og klóm gegn virkjunum á hálendi landsins. Þorsteinn gerði arðsemismatsskýrslu um Kárahnjúkavirkjun fyrir Landvernd en sú skýrsla í heild sinni var svo hlægilega vitlaus, að hún finnst hvergi í dag. Það er ekki tilviljun að fjármálaráðuneytið skuli fá þessa menn til að gera skýrslu fyrir sig. Niðurstaðan og framsetningin er "pöntuð" af V-grænum.

Á Íslandi er orkuverð til heimila og fyrirtækja með því lægsta sem þekkist og það þrátt fyrir að dreifikerfi raforkunnar sé með því dýrasta sem þekkist.

"Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að ljóst sé að orkuframkvæmdir til stóriðjunota hafi ýmsar efnahagslega jákvæðar hliðar".

Þetta atriði hafa alfriðunarsinnar léttvægt fundið, enda hafa lausnir samherja þeirra í pólitík á Íslandi á byggðavanda, byggst á "einhverju öðru", með tilheyrandi kostnaði, nokkurskonar ölmusuúthlutunum. Slíkt er vinstrimanna ær og kýr og telja sig Hróa Hött nútímans, ef þeir geta skattpínt allt og alla til þess að útdeila til þeirra sem eru að þeirra mati verðugir.

Þrátt fyrir fullyrðingar þeirra sem svo heiftarlega eru á móti stóriðju, um að tap sé á fyrirbærinu, þá leiðir skýrslan í ljós að hagnaður er af orkusölunni.... bara ekki nógu mikill, sem er svolítið skondið því "gróði" er skammaryrði ef kapitalistar njóta hans, að mati skýrslukaupans.

Vatnsaflsver kosta mikið í byggingu en lítið í rekstri. Þau ættu því að koma illa út varðandi ROIC eða return on invested capital.

Kjarnorkuver kosta líka mikið í uppsetningu en einnig mikið í rekstri. Lágt ROIC

Kola- og olíuorkuver kosta lítið í uppsetningu en mikið í rekstri. Hátt ROIC

Mér sýnist hlutfall orkuveitnanna skýra allavega að hluta muninn á ROIC. Í Bandaríkjunum er mest kol og olía, þar af leiðandi stærst ROIC. Í Evrópu er meiri kjarnorka og vatnsorka. Á Íslandi er nær einungis vatnsorka og minnst ROIC.

Getur verið að skýrslan sýni einungis að kola-, olíu- og gasorkuver gefi hátt ROIC en að kjarnorka og öll umhverfisvæn orka gefi lágt ROIC?

Það væri ágætt að geta skoðað hvernig íslensk vatnsaflsver eru í samanburði við önnur vatnsaflsver."

(Af blogsíðu Guðjóns I. Guðjónssonar Hansen, sjá HÉR )

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 08:39

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Varðandi innlegg Sigrúnar Helgadóttur hér að ofan, þá vantar ekki hrokann.

 "Annað sem ræður er jú menntunarskortur svo margra - heimskan í þess orðs fyllstu merkingu".

"Á sínum tíma lögðust menn gegn Kárahnjúkum af ýmsum faglegum ástæðum, náttúrufræðilegum, hagfræðilegum, félagslegum, fagurfræðilegum, siðferðilegum....  "

Ég bendi sérstaklega á "félagslegum" og "siðferðilegum". 

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 09:29

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í þessari nýju aðkeyptu niðurstöðu Þorsteins Siglaugssonar skýrslunni sem bent er á hér að ofan, má lesa m.a. eftirfarandi:

Miklar sveiflur eru í þessum geira. Í júni 2009 er

verð á áli og rafmagni frá stóriðju rétt rúmur helmingur þess sem var á sama tíma í

fyrra í dollurum talið. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja minnka að sama skapi og

niðursveifla í efnahagslífinu verður meiri en ella.

Þorsteinn kýs að miða við álverð akkúrat á þeim tímapunkti þegar það er í sögulegu hámarki. Hversu faglegt er það? Og "...niðursveifla í efnahagslífinu verður meira en ella." ,segir hann. Auðvitað munu engar framkvæmdir vera farsælast, eða hvað... eða "eitthvað annað" ?

Hér að neðan má sjá þróun álverðs sl. 15 ára:

Takið eftir hvað tímapunkturinn "júní 2009"  er heppileg viðmiðun fyrir Þorstein.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 09:39

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nákvæmara graf hér. Þorsteinn Siglaugsson selur faglega æru sína enn á ný.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 09:43

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takið eftir hvað tímapunkturinn "júní 2008"  er heppileg viðmiðun fyrir Þorstein, átti þetta að vera.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 09:46

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í inngangi skýrslunnar eru nokkrar stórundarlegar staðhæfingar:

"..umtalsverður hluti af heildarfjárfestingu og erlendum lántökum opinberra aðila verið í orkuiðnaði undanfarinn áratug."

Þetta er sett fram þannig að skilja mætti að ríkissjóður sé að taka lánin, en það er auðvitað ekki þannig. Framkvæmdirnar hafa ekkert með ríkissjóða að gera annað en að ríkið er í ábyrgð fyrir lánunum sem Landsvirkjun tekur. Lántökur Landsvirkjunar hafa ekki áhrif á framkvæmdagetu ríkissjóðs.

"..raforkuverð til almennings og þjóðhagstölur gefa vísbendingar um að þessi þjóðhagslega hagkvæmni sé e.t.v. ekki fullnægjandi"

Er þorsteinn að leggja til að raforkuverð til heimila verði hækkað?

"..er það áhyggjuefni að þorri þessara framkvæmda er á vegum opinberra fyrirtækja og með sérstökum stuðningi sveitarfélaga"

Hvaða stuðning sveitarfélaga er Þorsteinn að tala um? Fjárhagslegan stuðning? Er stuðningurinn í andstöðu við vilja íbúanna?

Í skoðanakönnun sem Alcoa lét gera á Austurlandi sl. haust kemur fram eftirfarandi en spurt var:

Telur þú að álver Alcoa á Reyðarfirði hafi haft jákvæð eða neikvæð áhrif á búsetuskilyrði á Austurlandi?

Neikvæð = 3,9%

Hvorki né = 6,4%

Jákvæð = 89,7%

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 10:21

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Áfram í innganginum: (Er ég virkilega einn um það að finnast þetta grátbrosleg framsetning? Undirstrikun mín))

"Ljóst er að orkuframkvæmdir til stóriðjunota hafa ýmsar efnahagslega jákvæðar hliðar. Þeirra á meðal má nefna ný störf, stærðarhagkvæmni í orkuframleiðslu, góð laun í stóriðjuverum og hagvaxatarhvata ekki síst á fjárfestingartíma. Sum verkefnin kunna einnig að vera lyftistöng fyrir byggðarlög, sem standa höllum fæti. Þá má nefna að erlend fyrirtæki kynna stundum til sögunnar nýja þekkingu og góð vinnubrögð, sem aðrir geta tekið sér til fyrirmyndar. Ýmislegt fleira jákvætt má ugglaust upp telja"

 

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 10:27

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gleymdi að strika undir þetta:

"Sum verkefnin kunna einnig að vera lyftistöng fyrir byggðarlög, sem standa höllum fæti."

Hvaða verkefni gera það ekki?

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2009 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband