Máttur listarinnar.

Það kann að sýnast skrýtin fyrirsögn á pistli um blaðaljósmyndara að nefna orðið list í því samhengi.

En engum, sem hefur kynnt sér verk ljósmyndarans Ragnars Axelssonar dylst að langt er síðan að þar væri bara á ferðinni venjulegur blaðaljósmyndari í gerð heimilda í formi ljósmynda, heldur miklu fremur listamaður í hæsta gæðaflokki. 

Ég hef unnið nógu lengi með Raxa til að geta sagt að aðeins maður með mikla listræna hæfileika geti náð jafn langt á sínu sviði og hann. 

Hann hefur þar að auki verið afar fundvís á verðug viðfangsefni, en slíkt er ekki öllum gefið. 

Grænlandsmyndir hans eru eitt þýðingarmesta framlag listamanns á heimsvísu til umræðu um áhrif mannsins á umhverfi sitt og þar með lífsskilyrði sín. 

Þótt Grænlandsmyndirnar veki síðari árin mesta athygli á heimsvísu má ekki gleymast hlutverk RAXa í að kynna okkar eigið land og þjóð.

Og þá má ekki gleyma því að hann hefur líka sinnt Færeyingum afar vel og með því að samtvinna kjör og umhverfi þessara þriggja þjóða, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga í verkum sínum og viðfangsefnum hefur Rax verið sér á parti.

Þetta er mikils virði því að á undarlegan hátt höfum við Íslendingar lengi vanrækt sambandið við þessar tvær nágrannaþjóðir sem næst okkur búa. 

Listamenn, svo sem tónlistarmenn, rithöfundar og skáld, geta stundum haft meiri áhrif en stjórnmálamenn.

Þess vegna eru menn eins og Rax mikilvægir.  

 


mbl.is Grænlandsmyndir Rax í Stern
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæpur þingmeirihluti.

Þótt stjórnarandstaðan hafi setið hjá í samræmi við hefð við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins vekur það athygli að þrír þingmenn VG skipa sér á bekk með henni.

Fjárlagafrumvarpið skipar sérstakan sess hjá Alþingi. Þetta er eina frumvarpið sem þinginu er skylt að afgreiða á hverju ári. 

Ríkisstjórn, sem ekki getur komið fjárlagafrumvarpi í gegn, er því fallin. 

Tölurnar 32 með og 31 sem sitja hjá eru því sláandi og sýna, að ef Þráinn Bertelsson hefði ekki gengið til til liðs við ríkisstjórnina hefðu tölurnar verið 31 með og 32 sem sátu hjá. 

32 þingmenn þurfa að styðja ríkisstjórn svo að tryggt sé að hún falli ekki. Því stendur stjórnin tæpt og hefur slíkt ekki gerst síðan í upphafi setu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988. 


mbl.is Fjárlagafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki á móti.

Fyrirsagnir frétta eiga helst að vera réttar. Hið rétta er, ef marka má útvarpsfréttir af þessu máli, að þrír þingmenn VG styðja ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar en eru heldur ekki á móti því.

Kórrétt fyrirsögn fréttar um þetta er einfaldlega: Lilja, Atli og Ásmundur styðja ekki fjárlögin, -  eða -  Lilja, Atli og Ásmundur sitja hjá. 

Það hefur hins vegar ekki áður gerst í þingsögunni að stjórnarþingmenn hafi ekki stutt fjárlagafrumvarpið og það telja þau greinilega nóg til þess að láta það koma sem skýrast fram að þau séu óánægð með það. 

Þess ber að geta að fjárlagafrumvarpið er og hefur verið sér á parti í lögum og venjum þingsins. 

Þetta er eina lagafrumvarpið sem er beinlínis skylt að leggja fram og á meðan þingið var tvær deildir nægði að samþykkja frumvarpið í sameinuðu þingi. 

Það er hefð fyrir því að stjórnarandstöðuþingmenn sitji hjá við afgreiðslu frumvarpsins og að því leyti til eru þremenningarnir í VG komin í sömu aðstöðu og stjórnarandstaðan í þessu máli. 

Fyrirsögnin hefði því getað verið þessi: Lilja, Atli og Ásmundur á bekk með stjórnarandstöðunni. 

Það breytir því hins vegar ekki að þau sátu hjá, - voru ekki á móti. 


mbl.is Lilja, Atli og Ásmundur á móti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta reddast."

Ef allt væri með felldu væri ekki verið að fjalla um það örfáum dögum fyrir áramót að rekstur stofnunar eins og Sólheima verði tryggður.

Mjög lengi hefur verið vitað að að um þessi áramót yrði breyting á starfsumhverfi svona stofnana og því einkennilegt að svona mál sé á þessu stigi núna.

En þetta er ekki einsdæmi í félagslega kerfinu heldur gerast svona hlutir og hafa gerst mjög oft.

Oftast gerist þetta þannig að ýmist stefnir í fyrirsjáanlega breytingu á rekstri eða að yfirvöld gefa í skyn að slík breyting sé yfirvofandi. Síðan líður og bíður og það myndast óvissuástand líkt og í kjaradeilu þar sem samningar eru að renna út og líið sem ekkert er að gerast. 

Fátt verður um svör þegar eftir er leitað, heldur virðist ríkja hinn gamli íslenski hugsunarháttur: Þetta fer einhvern veginn, þetta reddast.

Þegar málið er komið á það stig, fær það í raun á sig einkenni kjaradeilu, - þar sem málsaðilar eru vinnuveitendur og launþegar, sem eru þá fyrst og fremst komnir í kunnuglegar skotgrafir slíkra mála, og hagsmunir þeirra, sem þjónustunnar eiga að njóta, eru ekki lengur aðalatriðið í atburðarásinni, heldur hagsmunir vinnuveitenda og launþega. 

Ýmis ummæli, sem í slíku ástandi falla í hita leiksins, orka þá tvímælis og eru engum til framdráttar.

Höfuðástæða þess, að mál fara í þetta far er sú, hve lengi dregst að ganga frá öllum hnútum, en það fyrirbæri virðist vera frekar regla en undantekning hér á landi. 

 


mbl.is Áframhaldandi þjónusta tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband