Spurning um valkost.

Mikið er spáð og spekúlerað um stjórnarslit þegar ágjöf er í stjórnarsamstarfinu. En um það gildir það sama og í lífinu sjálfu, að lokaspurningin hlýtur að snúast um hvað geti komið í staðinn.

Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kemur ekki til greina af tveimur ástæðum. 

Annars vegar vegna Evrópumálanna og hins vegar og ekki síður vegna þess að of skammt er um liðið síðan þessir flokkar stóðu að ríkisstjórnin sem í margra huga er enn "Hrunstjórnin" þótt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í tólf ár þar á undan hefði valdið meiru um hvernig fór. 

Íslenska bankakerfið hefði mjög líklega fallið 2008, hvort sem stefnubreyting hefði orðið 2007 eða ekki. 

Rætt er um þann möguleika að Framsóknarflokkurinn komi inn í stjórnarsamstarfið. Það hefði þann kost að þá getu 1-2 þingmenn í einu ekki leikið þann einleik, sem þeir geta nú af því að stjórnarmeirihlutinn er svo veikur. 

En á móti kemur að deiluefnunum myndi frekar fjölga en fækka og auk þess alltaf hætta á að í þriggja flokka samstarfi myndist ástand þar sem einn flokkurinn telur hina tvo hafa myndað bandalag gegn sér. 

Eina þriggja flokka stjórnin sem setið hefur út kjörtímabilið á lýðveldistímanum er stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-91 en það var líkast til fyrst og fremst vegna einstæðra forystu- og samningahæfileika Steingríms Hermannssonar. 

Hvað um kosningar í vor og þriggja flokka stjórn Sf, VG og Framsóknar eftir það? 

Óvíst er að nokkur þessara flokka sé hrifinn af því. Því veldur hin griðarlega óvisssa um það hvað nýjum stjórnmálaöflum tækist að gera í slíkum kosningum, ekki síst ef í aðdraganda þeirra hefur ríkt mikið óróa- og upplausnarástand í stjórnmálunum. 

Hugsanleg stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eftir slíkar kosningar myndi þurfa að glíma við draug 12 ára stjórnar þessara flokka þegar hrunferillinn var settur upp. 

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn og VG myndu ná samstöðu um ESB-málin hefur stjórnarseta VG ekki gert þann kost fýsilegan fyrir Sjálfstæðismenn sem hafa hamrað stöðugt á því að VG sé á móti allri atvinnuuppbyggingu, hverju nafni sem nefnist. 

Líklegast er að núverandi stjórnarsamstarfi muni haldið áfram eins og lengi og unnt er, hvort sem örendið endist út kjörtímabilið eða ekki. 

Mestu um það mun ráða óvissan um það hvað komi upp ef slitnar upp úr núverandi stjórnarsamstarfi.  


mbl.is Alltaf má fá annað föruneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra seint en aldrei.

Enn skal þetta ítrekað, sem komið hefur fram á þessari bloggsíðu síðustu mánuði: Það kom berlega í ljós þegar landakaup Huang Nubos komu upp síðsumars hvernig lagaumhverfi svona mála í heildl hefur verið látið dankast í áratugi.

Hér á landi hafa stór landsvæði aðeins óbeint verið látin erlendum aðilum í té varðandi stóriðju svo sem þau svæði sem fórnað var fyrir orkuöflun handa álveri Alcoa á Reyðarfirði með miklu djúpstæðari og óafturkræfari afðleiðingum en sala Grímsstaða á Fjöllum hefði getað haft. 

Nú þarf að finna farveg fjárfestingum útlendinga og raunar líka stórtækra innlendra aðila sem tryggja að við missum ekki úr böndunum eignarhald og eðlilegt forræði okkar yfir landinu og auðlindum þess. 


mbl.is Vill endurskoða lög um landakaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáttaþefur mælir með...

Í tilefni af frétt á mbl.is um jólasveinana í Dimmuborgum er ljúft að upplýsa, að Gáttaþef gafst tækifæri á að heimsækja bræður sína í Dimmuborgum í fyrravetur og taka af þeim bæði kvikmyndir og ljósmyndir þar sem þeir fóru á kostum í aldeilis óviðjafnalegu vetrarumhverfi í Dimmuborgum. 

Af því að sveinki er í eins dags bæjarleyfi, sem hann fékk hjá Grýlu til þess að syngja með Stórsveit Reykjavíkur og Barnakór Kársnesskóla í Háskólabíói kl.15:00 á morgun kemur hann þessu hér með á framfæri og mælir sterklega með hinum frábæru bræðrum sínum í Dimmuborgum fyrir alla fjölskylduna.

Þeir eru óborganlegir, norðlensku jólasveinarnir, í yndislegum uppátækjum sínum og ekki bara það, því að hvergi á jörðinni er að finna annað eins umhverfi og þeir eru í í Dimmuborgum. 

Raunar hefur þessi staður alla burði til að verða frægur fyrir þá umgerð sem hægt er að hafa þar utan um hátíðirnar og þær mótbárur, að stundum sé auð jörð og rigning í Mývatnssveit, halda ekki vatni, því að í gígum og hrauntröðum fyrir norðan Leirhnjúk er snjór allan veturinn og hægt að bjóða upp á sleðaferðir frá Kröflu þangað inn eftir ef menn áttuðu sig á hinum einstæðu möguleikum sem þetta svæði býr yfir.  


mbl.is Jólasveinarnir komnir á stjá í Dimmuborgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband