6.12.2011 | 21:14
Vitum alltaf óendanlega miklu minna.
Óendanleikinni og eilífðin, það eru ær og kýr minnar lífsskoðunar. Samkvæmt því verður aldrei hægt að skilgreina endanlega hvað sé það minnsta í heiminum, því að alltaf mun finnast eitthvað ennþá minna.
Orðið alheimur er líka misvísandi orð, því að endimörk heimsins eru ekki til, - það mun alltaf finnast eitthvað sem er handan endimarkanna.
Ekkert er það stærsta í allri veröldinni, ævinlega mun finnast eitthvað stærra. Tíminn er endalaus og eilífur í báða enda, - tíminn á sér ekkert upphaf og engan endi.
Þetta er í raun ofvaxið okkar skilningi því að við höfum vanist því að hugsa svo afmarkað, að allt eigi sér upphaf og endi og endanleg takmörk.
Því meira sem við höldum að við vitum, samanber nýja vitneskju um stærstu svarthol í heimi, því betur áttum við okkur á því, að miðað við að fá að vita "allt", vitum við sífellt minna í samanburði við hinn óendanlega sannleika sem virðist þenjast þeim meira út sem við uppgötvum meira.
Óendanleikin og eilífðin eru yndisleg fyrirbæri af því að þau gefa svo óendanlega marga möguleika á að reyna að höndla hinn endanlega sannleika, sem er ekki til, af því að hann er óendanlegur og á sér engin takmörk
![]() |
Hafa fundið risavaxin svarthol |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.12.2011 | 13:28
Athyglisverð orð Aðalsteins Leifssonar.
Þau eru athyglisverð, þau orð Aðalsteins Leifssonar að loforð um ódýrt vinnuafl, lágt orkuverð og "sveigjanleika í umhverfismati" séu ekki rétta aðferðin til að laða erlenda fjárfestingu til Íslands.
Þessi stefna var blygðunarlaust tekin upp með hinum fræga bæklingi sem Andri Snær Magnason svipti hulunni af og sendur var við upphaf samstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir 17 árum til helstu stóriðjufyrirtækja heims.
Ég minnist þess að þegar bók Andra Snæs, Framtíðarlandi, kom út 2006, var þessi afhjúpun hans langstærsta fréttaefni bókarinnar.
Hins vegar var lýsandi áhugaleysi og þöggun fjölmiðla varðandi þessar stórmerku upplýsingar bókarinnar.
Með loforðunum um ódýrt vinnuafl, orkuverð og "sveigjanlegt umhverfismat" fóru stjórnvöld þess tíma án minnstu blygðunar út í það að keppa við fátækustu lönd heims í þessu efni og meira að segja standa við stóru orðin.
Þarna var vörðuð sú leið ábyrgðarleysis sem smám saman leiddi af sér sívaxandi þenslu og ofvöxt einkavinavæðingarinnar í fjármálakerfinu sem leiddi til Hrunsins.
17 árum síðar virðist eitthvað vera að rofa til í þessum efnum hjá mörgum en samt virðist þessi helstefna enn lifa furðu góðu lífi, því að flokkarnir tveir, sem hrintu þessu af stað 1995, njóta sívaxandi fylgis um þessar mundir og virðist þó grundvallarstefna þeirra varðandi hernaðinn gegn landinu og komandi kynslóðum ekkert hafa breyst.
Að vísu er afar stór hluti þeirra, sem spurðir eru í skoðanakönnunum, óákveðinni í afstöðu sinni, svo að í raun njóta þessir tveir flokkar fylgis tryggs meirihluta, heldur getur margt gerst í því efni.
Það er líka athyglisvert að þótt traust aðspurðra til stjórnarmeirihlutans á Alþingi sé lítið, er traustið á stjórnarandstöðunni næstum jafn lítið.
![]() |
Umhverfið hér ófyrirsjáanlegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.12.2011 | 13:11
Suðan kemur smám saman upp.
Þótt einveldi og harðstjórn eigi langa forsögu í Rússlandi gildir hið sama um það og önnur fyrirbæri í mannheimum, að allt tekur enda, jafnvel rúmlega 70 ára einveldi sovéska kommúnistaflokksins.
Þegar ég var í Rússlandi fyrir fimm árum fór hin kraumandi óánægja með stjórn Pútíns ekki fram hjá mér, þótt ég stæði ekki lengi við. Bókin "Rússland Pútíns" eftir Önnu Politkovskaka lýsir innviðunum þar eystra svo vel að hún var myrt og morðingjarnir ganga lausir.
Vald spillingaraflanna er svo mikið að maður getur ímyndað sér að jafnvel þótt mjög valdamikill maður eins og Pútín var á hátindi valda sinna vildi rísa gegn þessum öflum, yrði það honum um megn.
Í vestrænum löndum er það fjármálaöflin sem ekkert virðist geta stöðvað þrátt fyrir hrun og kreppu.
Þannig hefur verið upplýst hvernig Obama þorir ekki að leggja til atlögu við þá, sem lögðu drjúgt til kosningasjóðs hans 2008 og hyggjast gera það aftur, - en þó greinilega ekki ef hann makkar ekki rétt.
Í ljósi þessa vekur hin fræga kosningaræða Obama, "Yes, we can"", "Já, við getum það!" vorkunnsemi og depurð þegar hlustað er á hana á YouTube.
Rússneskt máltæki segir: "Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp" og það getur átt við um þá þróun, sem Pútín stendur andspænis.
Það, að þeir Pútín og Medvedev hanga enn við völd er kannski ekki verðleikum þeirra að þakka eða kenna, heldur hinu, að andstæðingarnir eru ekki gæfulegir, kommúnistarnir og hinn stórvarasami þjóðernissinni Sírínovskí.
Þess vegna er hætt við að viðhorf valdhafa vestrænna lýðræðisríkja séu þau að af tvennu illu sé skárra að hafa "sterkan mann" eins og Pútín við stýrið í Rússlandi heldur en andstöðuöfl sem erfitt er að átta sig á og enginn veit hvað muni gera, komist þau til valda.
En suðan er smám saman að koma upp og ef reynt er að halda lokiinu niðri of lengi, endar það oftast með því að það springur upp.
![]() |
Kljúfa kosningaseðla með öxi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)