Suðan kemur smám saman upp.

Þótt einveldi og harðstjórn eigi langa forsögu í Rússlandi gildir hið sama um það og önnur fyrirbæri í mannheimum, að allt tekur enda, jafnvel rúmlega 70 ára einveldi sovéska kommúnistaflokksins.

Þegar ég var í Rússlandi fyrir fimm árum fór hin kraumandi óánægja með stjórn Pútíns ekki fram hjá mér, þótt ég stæði ekki lengi við. Bókin "Rússland Pútíns" eftir Önnu Politkovskaka lýsir innviðunum þar eystra svo vel að hún var myrt og morðingjarnir ganga lausir. 

Vald spillingaraflanna er svo mikið að maður getur ímyndað sér að jafnvel þótt mjög valdamikill maður eins og Pútín var á hátindi valda sinna vildi rísa gegn þessum öflum, yrði það honum um megn. 

Í vestrænum löndum er það fjármálaöflin sem ekkert virðist geta stöðvað þrátt fyrir hrun og kreppu. 

Þannig hefur verið upplýst hvernig Obama þorir ekki að leggja til atlögu við þá, sem lögðu drjúgt til kosningasjóðs hans 2008 og hyggjast gera það aftur, - en þó greinilega ekki ef hann makkar ekki rétt.

Í ljósi þessa vekur hin fræga kosningaræða Obama, "Yes, we can"", "Já, við getum það!" vorkunnsemi og depurð þegar hlustað er á hana á YouTube.

Rússneskt máltæki segir: "Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp" og það getur átt við um þá þróun, sem Pútín stendur andspænis. 

Það, að þeir Pútín og Medvedev hanga enn við völd er kannski ekki verðleikum þeirra að þakka eða kenna, heldur hinu, að andstæðingarnir eru ekki gæfulegir, kommúnistarnir og hinn stórvarasami þjóðernissinni Sírínovskí. 

Þess vegna er hætt við að viðhorf valdhafa vestrænna lýðræðisríkja séu þau að af tvennu illu sé skárra að hafa "sterkan mann" eins og Pútín við stýrið í Rússlandi heldur en andstöðuöfl sem erfitt er að átta sig á og enginn veit hvað muni gera, komist þau til valda. 

En suðan er smám saman að koma upp og ef reynt er að halda lokiinu niðri of lengi, endar það oftast með því að það springur upp. 


mbl.is Kljúfa kosningaseðla með öxi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Ástandið þarna hlýtur að vera tifandi tímasprengja Ómar.

hilmar jónsson, 6.12.2011 kl. 13:43

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flokkur Pútíns missti fjórðung fylgis síns og það voru aðeins kosningasvik sem nægðu til þess að meirihlutinn rétt lafði inni. Ég get vel ímyndað mér að reiði fólksins, sem kemur fram í fjölmennari mótmælum en fyrr, sé ekki síst vegna þessa, því að nú er þetta að komast á það stig að það er ekki spurningin um hvort heldur hvenær kornið fyllir mælinn. 

Ómar Ragnarsson, 6.12.2011 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband