Hvernig varð þetta svona stórt allt í einu ?

Í Kastljósi í kvöld kom fram að það hefði ekki verið fyrr en fyrir örfáum mánuðum sem það byrjaði að koma í ljós að OR væri í þeim hrikalega skuldavanda sem fyrirtækið er.

Þegar upphæðirnar eru nefndar sundlar flesta og spyrja: Hvernig má það vera að þetta er allt í einu orðið svona svakalegt, sem talið var vel viðráðanlegt fyrir aðeins tveimur mánuðum ?

Jón Gnarr talar um hlutlausa rannsókn og það virðist ekki vanþörf á því. 

En mig grunar að hluti skýringarinnar sé sá, að í raun hafi ekkert breyst í þeirri ofboðslegu skuldasöfnunarstefnu OR, sem verið hefur við lýði árum saman, fyrst í aðdraganda Hrunsins og síðan ekki síður eftir Hrun. 

Það var greinilega ætlunin að berja í brestina með því að "endurfjármagna" fyrirtækið duglega sem þýðir að fá nógu stór lán til þess að geta haldið áfram á sömu braut, virkjað við Hverahlíð og Bitru og leggja sitt af mörkum til að koma álveri í Helguvík af stað. 

Sem sagt: Sama skuldafíknin og gerði það að verkum að heimilin og fyrirtækin á Íslandi fjórfölduðu skuldir sínar í mesta "gróðæri" sögunnar í stað þess að borga skuldir upp. 

Svarið við spurningunni í upphafi þessa bloggpistils er einfalt: Þegar fíkniefnið, í þessu tilfelli lánin, er tekið af fíkninni hrynur allt hjá honum og það mjög snögglega. 

Á þessum ósköpum aldrei að linna?  Læra menn aldrei neitt og breyta engu ? 


mbl.is Starfsmönnum fækkað um 90
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrkeypt kæruleysi.

Hóstapestin sem kom upp í hestum í fyrra og olli tjóni upp á hundruð milljóna króna kom ekki hingað til lands af himnum, heldur var orsökin vafalaust hinn íslenski hugsunarháttur að í lagi sé að taka áhættu fyrir skammtimahagsmuni, jafnvel afmarkaða og tiltölulega litla, því að þetta reddist alltaf einhvern veginn.

Talið er að hestapestin hafi komið með reiðtygjum erlendis frá og er merkilegt að mönnum skuli detta í hug að taka áhættu við að flytja slíkt inn þegar haft er í huga hve viðkvæmir íslenskir dýrastofnar eru eðlilega gagnvart erlendum sjúkdómum í dýrum. 

Hinar skæðu og gríðarlega skaðlegu fjárpestir sem komið hafa til landsins síðustu þrjár aldir, svo og tilkoma minksins og tjónið af hans völdum, - ekkert af þessu þurfti að dynja yfir ef menn fóru að með gát og varúð. 

Og nú er enn ein hugmyndin um að taka áhættu varðandi íslenska dýrastofna komin á dagskrá og virðist svo sem menn ætli aldrei að læra af reynslunni. 

 

 

 


mbl.is Gríðarlegt tjón af hestapest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að búa sig undir það versta en vona það besta.

Heimskreppan á fjórða áratug síðustu aldar stóð í tíu ár á Íslandi og hefði staðið lengur ef Íslendingar hefðu ekki dottið í þann lukkupott að verða eina Evrópuþjóðin sem græddi peningalega á stríðinu þótt mannfórnirnar á sjónum væru miklar.

Hrunið 2008 er að vísu ekki eins alvarlegt og heimskreppan var fyrir 80 árum, því að Íslendingar voru fátæk þjóð og bjó við frumstæðar aðstæður 1931, en með ríkustu þjóðum heims þegar Hrunið dundi yfir. 

En nú er undirliggjandi sú efnahagslega hnignun, sem þverrandi olíuforði heims mun óhjákvæmilega leiða af sér, hnignun, sem á eftir að verða verri en ella vegna tregðu þjóða heims við að taka beint á vandanum, heldur reyna að fresta honum með hættulegri skuldasöfnun sem mun gera lausnina erfiðari en ella. 

Rétt eins og ýmsir spáðu fyrir um Hrunið 2008 eru þeir einnig margir nú sem spá annarri fjármálakreppu í heiminum og að lokum alvarlegri kreppu ef skammsýnin í efnahags- og orkumálum heimsins haldur áfram að ráða för. 

Nú lifum við á tímum þar sem "væntingavísitala" hlýtur að vera lág, einfaldlega vegna þess að það er ekki skynsamlegt annað en að búa sig undir það versta, þótt maður voni það besta og láti aldrei hugfallast. 

Orkuvandamálin munu reynast þjóðum heims erfiðust en á því sviði erum við Íslendingar einstaklega heppnir, svo framarlega sem við kunnum með orkumálin að fara af framsýni og ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum.

Þess vegna eiga þessar ljóðlínur við úr laginu "Styðjum hvert annað" sem er ferilsdiski mínum, þeim er gefinn var út fyrir síðustu jól:

 

Láttu ekki mótlætið buga þig heldur brýna !

Birtuna má aldrei vanta í sálu þína. 

Ef hart ertu leikinn svo þú átt í vök að verjast

vertu´ekki dapur, njóttu þess heldur að berjast ! 

 

Látum ei mótlætið buga´okkur heldur brýna ! 

Brosum og elskum og látum ljós okkar skína ! 
mbl.is Íslendingar ekki bjartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göring vildi semja.

Hermann Göring reyndi að bjarga eigin skinni skömmu fyrir lok seinni heimsstyrjaldarinnar með því að leita samninga við Vesturveldin um vopnahlé. En Bandamenn héldu sínu striki, gáfu engum af meðreiðarsveinum Hitlers færi á að sleppa og því síður að rjúfa samstöðu sína.

Eftir stríðið voru haldin réttarhöld í Nurnberg þar sem helstu menn þriðja ríkisins voru flestir dæmdir, misjafnlega hart þó, en einstaka sýknaður. 

Eftir íhlutun NATÓ í Júgóslavíu á sínum tíma voru leiðtogar Serba, þeir sem ábyrgð báru á fjöldamorðum á óbreyttum borgurum, ákærðir og hundeltir. 

Nú er það svo að enda þótt rökstuddar líkur séu á því að Gaddafi hafi margt misjafnt á samviskunni, virðist það ekki eins pottþétt og glæpir Nasista og Serbnesku forystumannanna. 

Menn standa frammi fyrir því að ef ekkert verði slakað á klónni gagnvart honum varðandi stríðsglæpi og aðra glæpi hans, muni hann eins og Hitler forðum, berjast til siðasta manns með tilheyrandi blóðbaði. 

Þess vegna er talað um "útgönguleið" fyrir hann eða einstaka fylgismenn hans, nokkuð sem alls ekki kom til greina varðandi Saddam Hussein, serbnesku stríðsglæpamennina eða einstaka nasista. 


mbl.is Fer Gaddafi í útlegð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband