Váboðar. "Látum sem ekkert C"

Váboðar efnahags stórveldanna sitt hvorum megin Atlantshafsins birtast nú einn af öðrum.  Samt virðist kjörorð ráðamanna vera í anda nafnsins á plötu bræðranna Halla og Ladda: "Látum sem ekkert C".

Matsfyrirtækjum hefur að vísu verið mislagðar hendur undanfarin ár og er kvartað yfir því þegar þau færa lánshæfi einstakra ríkja niður.

Hið nýjasta þess efnis hjá Moody´s varðandi lánshæfi Bandaríkjanna hlýtur að sæta nokkrum tíðindum vegna þess að um er að ræða mesta efnahagsveldi heimsins og eina risaveldið.

Við Íslendingar kvörtuðum yfir því á sínum tíma fyrir Hrun þegar fyrirtækin fóru að færa lánshæfismat okkar niður og litum alveg fram hjá váboðunum sem við blöstu.

Eftir á að hyggja sést hins vegar að matsfyrirtækin létu á undan þessu blekkjast af "íslenska efnahagsundrinu" þegar þau höfðu gefið Íslandi ágætiseinkunn á sama tíma sem landið stefndi í raun rakleiðis í hrun.

Nú er um að ræða þúsund sinnum stærri þjóð og í þetta sinn er fyrirtækið Moody´s aðeins sendiboði válegra tíðinda, sem verða því miður helsta einkenni heimsfréttanna að minnsta kosti langt fram eftir þessari öld hruns olíualdarinnar.

 

 

 

 

 


mbl.is Lánshæfiseinkun Bandaríkjanna hugsanlega lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á slysið við Hólsselskíl.

Þegar nú á að afgreiða óhappið í Múlakvísl með því að færa alla ábyrgðina á einn mann, minnir það á, hvernig farið var með bílstjórann á rútunni sem lenti á handriði mjórrar brúar yfir Hólselskíl á Hólsfjöllum hér um árið.

Ég fjallaði um þetta mál á sínum tíma fyrir sjónvarpið og tók myndir, sem sýndu, að brúarstöplarnir voru þannig málaðir, að brúin sýndist vera upp undir heilum metra breiðari en hún var.

Ekkert tillit var tekið til þessa þegar öll ábyrgð af slysinu var sett á bílstjórann einan.

 


mbl.is Bílstjórinn ekki rekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gígjubrú" yfir Múlakvísl?

Eftir Grímsvatnahlaupið 1996 var ákveðið að gera svo rammbyggða brú yfir Gígju á Skeiðarársandi að hún hefði staðist hlaup af þessari stærð.

Vegurinn er þannig gerður, að hann er mun lægri en brúin sitt hvorum megin við hana og því myndi hlaup fara þar fyrst í gegn.

Eftir hlaup verður margfalt ódýrara að koma samgöngum aftur á heldur en með því að byggja brú, jafnvel þótt sú brú verði bráðabirgðabrú.

Ástæðan fyrir því að menn þora ekki að gera "Gígjubrú" yfir Múlakvísl er sú, að eldgos í Kötlu muni framkalla svo stórt hlaup að jafnvel svo stór brú muni ekki standast það.

Nú er það svo að eldgos í Kötlu hafa yfirleitt orðið með löngu millibili. Hins vegar gæti verið að færast í aukana að hlaup verði í Múlakvísl vegna aukins jarðhita í Kötlu.

Svo mótsagnarkennt sem það kann að virðast, hefur "töf" á Kötlugosi orðið til þess að menn þora ekki að gera almennilega brú yfir Múlakvísl.

Ef hlaup í ánni eru að verða tíðari en fyrr er íhugunarefni hvort gera eigi mun lengri brú svipaða Skeiðarárbrú eða jafnvel langan vegarkafla með rörum.

Ég bloggaði um það um daginn að ég væri hættur að óska eftir því að Katla lyki því óhjákvæmlega verki af að gjósa.

Í ljósi stöðunnar hef ég nú endurskoðað þessa ósk, svohljóðandi:

Ef þú ætlar, Katla, að gjósa hvort eð er, gerðu það sem fyrst svo að við getum verið í friði fyrir þér út þessa öld.

Vinsamlegast gerðu það þó ekki á háannatíma ferðaþjónustunnar heldur til dæmis í október eins og síðast eða þá síðla vetrar.

Eftir þetta gos væri síðan hægt að gera nýja "Gígjubrú" sem gerði okkur áhyggjulaus gagnvart brúarhruni út þessa öld.


mbl.is Ekkert bendir til þess að gosið hafi undir jökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað hæsta eldfjall landsins, Bárðarbunga.

Bárðarbunga er ekki annað hæsta fjall landsins fyrir tilviljun. Bárðarbunga er annar endinn á öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn, en þessi öxull er miðja uppkomu annars stærsta möttulstróks heims.

Hinn möttulstrókurinn er undir Hawai.

Það kann að virðast að hlaup undan Köldukvíslarjökli sem liggur til vesturs frá suðurenda Bárðarbungu sé ekki merkilegt mál.

Á hinn bóginn er vitað, að hamfaraflóð, sem hafa farið til norðurs frá Bárðarbungu eru einhver hin mestu sem vitað er um, jafnvel stærri en Kötluhlaup eða Grímsvatnahlaup.

Þegar Hágöngulón var gert var alveg horft framhjá því, að hamfarahlaup úr Köldukvíslarjökli í framhaldi af eldsumbrotum í Bárðarbungu myndi geta rutt burtu Hágöngustíflu og vatnið í lóninu því ruðst fram í viðbót við hlaupvatnið í Köldukvísl og Sveðju.

Þegar Hágöngulón var myndað var einstöku hverasvæði með tilheyrandi gróðri sökkt og valtað yfir öll sjónarmið náttúruverndarfólks sem taldi gildi svæðisins meira sem ósnortið svæði heldur en sem virkjanasvæði.

Ef / þegar flóð mun rjúfa fyrirstöðuna og valda enn meiri usla neðan stíflu en verið hefði að óbreyttu verður fróðlegt að reikna út hvernig reikningar þessarar virkjunar muni standa þegar upp verður staðið.


mbl.is Hlaup undan Köldukvíslarjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdastéttin streitist við.

Í flestum löndum er ákveðin valdastétt við völd, beint eða óbeint. Oft er það hin eitraða blanda fjármagns og stjórnmála sem bindur valdastéttina saman og í sumum löndum er herinn hluti af blöndunni.

Þannig hefur það verið í Egyptalandi og hefur ekki skipt máli hvort æðsti valdamaðurinn hefur heitið Nasser, Sadat eða Mubarak, þegar einn hefur horfið af sjónarsviðinu hefur annar tekið við.

Valdastéttin egypska stefnir að sjálfsögðu að því að þannig verði þetta áfram og þess vegna mun hún streitast við að viðhalda völdum sínum með því að tefja fyrir og hindra breytingu með öllum þeim ráðum sem hún finnur.

"Egypska byltingin" er að vísu fædd en er ennþá aðeins lík smábarni sem aðeins getur grátið til að láta langanir sínar og óánægju í ljós en er eftir sem áður háð vilja þeirra sem hafa valdið.

Herópið "lifi byltingin!" er því aðeins ósk um líf og þroska lýðræðis í landinu sem leiði af sér nýja og betri tíma, en að öðru leyti er allt í raun við það sama og verið hefur, því miður.  


mbl.is Reiði í Kaíró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband