23.9.2011 | 22:49
Hefði getað dáið eftir að hafa sigrað í kappáti.
Fréttin af Úkraínumanninum, sem lést eftir að hafa sigrað í kappáti minnir mig á atvik sem gerðist í ferðalagi með Herranótt M.R. 1958 til Hveragerðis.
Þegar sest var að borðum um kvöldið kom upp sú hugmynd að ég og Lúðvík B. Albertsson skyldum heyja einvígi um það hvor gæti étið meira. Ég hafði þá að baki meira en áratugs reynslu af þessari fráleitu "íþrótt" að éta eins og svín en á móti kom að Lúðvík var ákaflega vel að manni, stór, sterkur og sver.
Svo fór að átið hófst og nokkrir fleiri bættust í hópinn. Úrslitin urðu yfirburðasigur minn, en síðar um kvöldið brá svo við að þeir, sem höfðu setið til borðs, urðu fárveikir svo að kalla þurfti lækni til.
Þetta var það alvarleg matareitrun að hún varð að blaðafrétt. Urðu sumir afar veikir, einkum Lúðvík, en öllum til furðu var ég hinn hressasti. Þótti það yfirgengilegt, því að miðað við yfirburðasigurinn í kappátinu hefði ég átt að verða veikastur og jafnvel að drepast.
Við rannsókn kom í ljós, að eitraðar grænar baunir voru orsök þessarar heiftarlegu eitrunar, en ég var sá eini í hópnum sem hafði ekki borðað grænu baunirnar. Ekki er að vita hvernig hefði farið ef ég hefði góflað í mig miklu meira af eitruðu baununum en Lúðvík og hinir keppendurnir.
![]() |
Dó eftir að hafa sigrað í kappáti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2011 | 13:00
Ísland getur haft áhrif eins og 1948.
Sagt er nú að ekki sé hægt að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki á alþjóðavettvangi af því að slíkt verði að gerast í samningum á milli þeirra og Ísraelsmanna.
Þetta er á skjön við það sem gerðist 1948 þegar ríki heims í gegnum Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að skipta Palestínu til helminga á milli Gyðinga og Palestínumanna.
Íslendingar komu þar við sögu, því að Thor Thors, þáverandi sendiherra hjá Sþ, hafði framsögu um málið.
Þetta var ákveðið þótt ekkert samkomulag væri um það á milli Palestínmanna og Gyðinga, enda erfitt að lá Palestínumönnum það þótt þeir tregðuðust við að beygja sig undir það að vera rændir helmingi lands síns á einu bretti.
Síðan þá hafa Ísraelsmenn markvisst lagt alla Palestínu undir sig og hafa notið viðurkenningar sem sjálfstætt ríki með aðild að Sameinuðu þjóðunum, enda þótt þeir hafi þverbrotið samþykktir Sþ um hernumdu svæðin í bráðum 44 ár.
![]() |
Mikið í húfi fyrir Palestínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.9.2011 | 12:51
Bæta við Ketildölum, Drangaskörðum og Teigskógi.
Þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu eru á Vestfjörðum, Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Látrabjarg. Auk þeirra má benda á þrjú önnur svæði á Vestfjörðum sem hafa mikla sérstöðu.
Að minnsta kosti hef ég hvergi séð hliðstæðu við Ketildali í Noregi né veit ég um hliðstæðu við þá annars staðar í Evrópu eða á Grænlandi.
Drangaskörð eru líkast til einstæð í Evrópu, þessi röð af sjö Hallgrímskirkjuturnum náttúrunnar, og kæmi vel til greina að stækka Hornstrandafriðland þannig að það nái allt til Dranga.
Teigskógur er þegar á náttúruminjaskrá enda er gildi hans tvöfalt að því leyti, að hann er stærsti birkiskógur á Vestfjörðum og auk þess mikilvægur hluti af lífríki og náttúru Breiðafjarðar.
Menn spyrja hvernig sé hægt að setja byggða sveit inn í friðland, en því er til að svara að þjóðgarðar eru metnir í fimm flokkum eftir því hvert eðli þeirra er.
Byggð og mannvirki sem hlíta lögmálum sjálfbærrar þróunar geta því verið innan þjóðgarðs sem vægasta stig friðunar á sama tíma og að hæsta stig friðunar er viðhaft annars staðar í þjóðgarðinum.
Dæmi um svona þjóðgarð er Banff-Jaspers þjóðgarðurinn í Klettafjöllum Kanada. Á þau svæði, sem hafa hæsta stig friðunar koma aðeins örfáar manneskjur ár hvert, en í umhverfi ferðamannamiðstöðva og afturkræfra ferðamannamannvirkja er friðunin á lægsta stigi.
![]() |
Rætt um friðlýsingu Látrabjargs og Rauðasands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)