Dýpri og víðari umræðu, takk!

Þegar umræðan um EES stóð hæst á sínum tíma var það áhyggjuefni margra að gagnkvæmt leyfi til fjárfestingar gæti orðið til þess að öflugir aðilar á EES-svæðinu keyptu upp jarðir og lönd á Íslandi.

Hingað til hefur niðurstaðan þó í grófum dráttum orðið sú að Íslendingar keyptu líkast til meira af fasteignum og landareignum í Evrópu heldur en Evrópumenn keyptu hér. 

Nú væri kannski hægt að álykta af þessu, að ekki þurfi um þetta að ræða meira. En áhugi Huang Nubo á mestu landakaupum útlendings á Íslandi til þessa sýnir að aðstæður geta breyst og að full þörf er á því að horfa langt fram á við í þessum efnum. 

Það er þarft mál að Lilja Mósesdóttir setji þessi mál í bætt samhengi. Ég hef áður bent á að öflugur ferðaþjónustumaður, Friðrik Pálsson, taldi sig ekki þurfa að kaupa jörðina Lambhaga til þess að reisa Hótel Rangá til að koma sér upp vaxandi og atvinnuskapandi ferðaþjónustu.

Ég hefði talði það heppilegra að Huang Nubo færi að á svipaðan hátt á Grímsstöðum, og tel að við eigum að stefna að því sama varðandi landakaup og kaup á sjávarútvegsfyrirtækjum, að útlendingar megi ekki eiga meira en 49%.  Raunar þyrfti prósentutalan að vera lægri. 

Danir eru í ESB en banna samt sölu á sumarhúsum til útlendinga. Það sýnir að viðfangsefnið er ekkert einskorðað við Ísland. 

Á blaðamannafundi Huang Nubo var málinu stillt þannig upp, að ef Íslendingar svo mikið sem rökræddu um þessi kaup, yrði ekkert úr fjárfestingu hans hér. 

Svipað hefur heyrst hér áður.  2007 bárust þau skilaboð frá þáverandi eiganda álversins í Straumsvík að ef ekki yrði látið að vilja þeirra um stórfellda stækkun álversins, myndu þeir leggja verksmiðjuna niður. 

Í umræðuna vantar víðari sýn í tíma og rúmi.  Góður rómur var í fyrstu gerður að því á Alþingi þegar Noregskonungur, hinn ágætasti maður, falaðist eftir Grímsey. 

Einar Þveræingur benti á að þótt konungurinn væri hinn besti maður, vissi engin hvers konar erfingjar tækju við af honum, og kynnu að koma upp slíkar aðstæður að "mörgum búandkarlinum þætti þröngt fyrir dyrum." 

Einar horfði lengra fram í tímann og það þurfum við líka að gera nú og einnig að taka þann möguleika með í reikninginn að erlendir viðsemjendur okkar geri það. 

Það er ekki aðeins að við vitum ekkert um það hverjir muni erfa landareignir, heldur vitum við líka ekkert um það hvernig þær muni ganga kaupum og sölum og hverjir myndu þá kaupa þær. 

Í umræðuna vantar líka endanlega sýn á það, hvaða hlutar Íslands geti gengið kaupum og sölum og hverjir ekki, það er, hverjir hlutar landsins eigi að vera eins og Þingvellir, "ævarandi eign íslensku þjóðarinnar sem hvorki má selja né veðsetja" eins og segir í lögum um Þingvelli frá 1928.

Ef Jökulsá á Fjöllum á að vera friðuð eins og Þingvellir þarf að gera ráð fyrir friðuðum bökkum hennar í ákveðna fjarlægð frá ánni sem væru þjóðareign, sem aldrei mætti selja né veðsetja. 

Umræðan hefur verið nokkuð ruglingsleg að þessu leyti eins og sést í tilvitnunum í ummæli Halldórs Blöndals og Ólafs Ragnars Grímssonar á sínum tíma um að Hvamm í Dölum mætti aldrei selja útlendingum. 

Hvammur í Dölum er sögustaður sem enn hefur ekki verið friðaður og gerður að þjóðareign á sama hátt og Þingvellir, hvað sem síðar kann að verða. 

Grímsstaðir á Fjöllum eru eins og sakir standa bújörð svipuð flestum bújörðum á Íslandi með manngerðum túnum, byggingum og landi, sem er illa farið vegna of mikillar búfjárbeitar. 

Jörðinni verður ekki jafnað við Herðubreiðarlindir eða Gullfoss sem eru í umræðunni, en öll  fyrirbæri hinnar einstæðu íslensku náttúru eiga að falla undir hugtakið "þjóðareign sem aldrei megi selja né veðsetja."

Raunar vil ég horfa enn lengra fram, því að við Íslendingar ættum að líta á okkur sem vörslumenn en ekki eigendur þessara náttúruverðmæta, sem eru "dýrgripur alls mannkynsins, / sem okkur er fenginn að láni"... svo ég vitni í það sem ég hef sett fram í ljóðinu "Kóróna landsins".

En það er liklega seinni tíma skref, svo skammt eru þessi mál á veg komin. 

Ekkert er óeðlilegt við þá tilhneigingu að vilja eiga húsnæði, land eða lausamuni fremur en að leigja af öðrum. En sagan sýnir að þessa tilhneigingu er oft erfitt að hemja. 

Það er áhyggjuefni hvernig heilu dalirnir og sveitirnar komast smám saman í eigu valdamikilla eða fjárstekra einstaklinga, fyrirtækja eða félaga. Ef slíkt heldur áfram, þegjandi og hljóðalaust, kann svo að fara að landsmenn sitji í lokin uppi sem leiguliðar í þjóðfélagsgerð, sem líkist þjóðfélagsgerð miðalda, þegar meira en 90% bænda voru ófrjálsir leiguliðar. 

Er þá hætt við að sú staða geti komið upp "að mörgum búandkarlinum þyki þröngt fyrir dyrum". 

 


mbl.is Lilja gagnrýnir forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargar því sem bjargað verður.

Ég hef árum saman haldið því fram að tónlistarhúsið Harpa væri of stórt og dýrt og fært að því rök að hægt hefði verið að komast af með mun minna og margfalt ódýra hús, líkt og gert hefur verið í Þrándheimi, en í þeirri borg og Þrændalögum eru hvað líkastar aðstæður við það sem er í Reykjavík og á Suðvesturlandi. 

Rekstur hússins verður vandamál og betra hefði verið að eyða meira fé í sköpun og flutning tónlistar. 

En auðvitað er ekki um annað að ræða en að sætta sig við orðinn hlut og reyna að fá sem skásta niðurstöðu.  Við sitjum uppi með margt af því sem hér var gert þegar við Íslendingar fórum með himinskautum í oflæti okkar og hrokafullri græðgi og verðum að lifa með því og líta á björtu hliðarnar.

Og einn stóran ljósan blett er að finna,- glerhjúp Ólafs Elíassonar, eins af þekktustu listamönnum heimsins um þessar mundir. 

Þótt hann hafi verið dýr og viðhald hans verði það líka, auk þess sem það á eftir að koma í ljós hvernig hann þoli saltrokið íslenska og umhleypingana,  getur hann óbeint orðið nokkurra peninga virði sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem eitt af því sem ástæða sé til að sjá í Reykjavík. 

Þetta meistaraverk getur því bjargað því sem bjargað verður varðandi þetta hús. 


mbl.is Glerhjúpurinn „meistaraverk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þræðir hagsmunanna fléttast og dreifast víða.

Engum þarf að koma á óvart þótt leyniþjónustur Bandaríkjamanna og Breta hafi átt í samvinnu við hina illræmdu leyniþjónustu Gaddafis, sem var ein af undirstöðum harðstjórnar hans.

Þegar valda- eða fjármállegir hagsmunir eru annars vegar sýnir reynslan að ekkert þarf að vera heilagt ef svo ber undir. 

Þannig höfðu vopnaframleiðendur beggja vegna víglínunnar samvinnu og viðskipti í Fyrri heimsstyrjöldinni og sama var uppi á teningnum í þeirri síðari.  Svo seint sem 1943, þegar Bandaríkjamenn höfðu verið í stríði við nasista í meira en ár, átti GM viðskipti við Þjóðverja sem báðir aðilar högnuðust á.

Gaddafi og Chausescu í Rúmeníu áttu það sameiginlegt að fara eins langt og þeir þorðu út á gráa svæðið í heimsstjórnmálunum til þess eins að halda völdum sínum, og þá var ekkert heilagt, hvorki hjá þeim né viðsemjendum þeirra.
mbl.is Náin samskipti við CIA og MI-6
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótasti maður sögunnar?

Usain Bolt er líklega fljótasti maður sögunnar. Tímamælingar eru órækt vitni um það.

Hins vegar eru nokkrir menn sem eru alveg á hælum hans, einkum ef tekið er tillit til stórbættrar tækni, betri brauta, fatnaðar, skófatnaðar, þjálfunar, fæðis og löglegrar lyfjagjafar. 

Sumir segja að stærð Bolts geri gæfumuninn en það er hæpið.  Bolt er 1,95 á hæð en fljótasti maður heims á sjötta áratug síðustu aldar, Ira Murchison, var aðeins 1,59. 

Hér heima áttum við Hörð Haraldsson, sem var 1,92 og var að mínum dómi einn af fjórum bestu spretthlaupurum, sem við höfum hátt, en hinir voru Hilmar Þorbjörnsson (nr.1), Haukur Clausen (2) og Oddur Sigurðsson (4)

Þegar skoðaðar eru kvikmyndir frá tíma Murchisons sést að hann var langfljótastur allra fyrstu 30 metrana, þannig að hann var náði ekki eins miklum hámarkshraða og keppinautarnir. 

Jesse Owens var fágætur yfirburðamaður á sinni tíð og fjórfaldur Ólympíumeistari 1936. Hann stökk 8,06 m í langstökki, en þegar stökkið er skoðað og borið saman við stökk Bob Beamons, Charlei Powells og Carl Lewis,  sést, að ef Owens hefði fengið sömu þjálfun magavöðva og stíl, sem nýtti sér það, hefði hann getað stokkið allt að hálflum metra lengra. 

Stæði Owens Bolt framar, ef hann væri uppi nú?  Eða öfugt, - hefði Bolt verið betri en Owens ef hann hefði verið jafngamall honum og keppt við hann 1936?  Þessum spurningum er ekki hægt að svara á óyggjandi hátt. 

Umdeilt er hvernig eigi að meta það hvort sá sem nær mestum hámarkshraða sé fljótastur, og einnig hvort leggja eigi öllu spretthlaupin saman og fá út meðaltal, en spretthlaup eru á bilinu 60 til 400 metra löng. 

Séu fjölhæfnin og meðaltölin látin vega þyngst bankar hinn ótrúlegi hlaupari Michael Johnson á dyrnar hjá Bolt og Owens. 

Johnson er eini maðurinn sem hefur sigrað í bæði 200 og 400 metra hlaupum á sama móti og einnig eini maðurinn sem hefur varið titil sinn í 400. 

Og úr því að Jesse Owens hefur verið nefndur hér, má ekki gleyma Carl Lewis, sem líkt og Owens, sigraði í langstökki jafnframt því að sópa til sín verðlaunapeningum í spretthlaupunum. 

Og fegurð og mýkt hefur enginn haft á borð við Lewis. 


mbl.is Bolt varði 200 metra titilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirminnileg viðtalspersóna.

Tobba Marínós var líkast til 14 ára þegar ég tók kvikmynd af því þegar hún var ásamt bekkjarfélögum sínum að ganga Laugaveginn með þremur kennurum.

Þegar ég tók krakkana tali kom það strax fram að Þorbjörg átti auðveldast með að segja frá töfrum þessa ferðalags, enda fór það svo að hún varð helsti talsmaður hópsins í fréttinni sem ég var að gera og síðar varð að atriði í þættinum "Flökkusál".

Stundum er það þannig, að þegar maður talar við krakka, að maður hugsar með sér: Það kæmi mér ekki á óvart að eitthvað verði úr henni þessari / honum þessum. 

Þetta flaug í gegnum huga minn þegar ég var að taka viðtölin á Laugaveginum hér um árið. 


mbl.is Lilja snýr aftur í Lýtalaus og finnur ástina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband