7.9.2011 | 23:27
Vaxandi órói í kvöld.
Nú er óróinn aftur að aukast eftir smá lægð í kjölfar síðustu hrinu, og skjálftar upp undir tvö stig í Kötluöskjunni. Ég var á ferli austur við Hellu og Hvolsvöll nú síðdegis og Mýrdalsjökull þakinn nýföllnum hvítum snjó.
En hitinn sem undir kraumar er hins vegar síst að minnka ef marka má skjálfta og óróa.
![]() |
Fara yfir áætlanir um viðbrögð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.9.2011 | 22:27
Spennandi möguleiki.
Stjórnmál hafa ekki gott orð á sér hér á landi eftir Hrunið. Þau sukku það djúpt í einstæðum darraðardansi í Borgarstjórn Reykjavíkur frá 2007 til 2009, að ekki dugði þótt borgarfulltrúar tækju sig eftirminnilega í gegn með gerbreyttum vinnubrögðum í lok kjörtímabilsins, fóru upp úr skotgröfunum og unnu saman sem heild það sem eftir var kjörtímabilsins á þann hátt að einstætt var í sögu borgarstjórnar.
Sem borgarstjóri átti Hanna Birna Kristjánsdóttir mikinn þátt í því en samt hefði ekki tekist svona vel til nema fyrir samstarfsvilja allra.
En óánægja með stjórnmál hafa oft fengið útrás hjá kjósendum í sveitarstjórnarkosningum, svo sem dæmin frá 1958, 1978 og 1982 sýndu, og vantraust kjósenda á stjórnmálamönnum réði því ferðinni 2010.
Engu að síður hafa kannanir sýnt, að af einstaklningum hefur Hanna Birna notið mest trausts.
Hún kom á óvart enda voru margir tortryggnir þegar hún fór út í stjórnmálin. "Alin upp sem puntudúkka í Valhöll". "Bara kjafturinn, ekkert annað". Svona ummæli mátti heyra.
En Hanna Birna kom með ný vinnubrögð og nýja pólitík inn í borgarmálin.
Íslensku stjórnmálaflokkarnir hafa átt erfitt eftir Hrunið, sem olli trúnaðarbresti milli þeirra og mikils meirihluta kjósenda ef marka má traust þeirra á Alþingi.
Af þeim sökum veitir þeim ekki af að fá sem frambærilegast fólk til að starfa fyrir sig og skiptir ekki máli hver flokkurinn er.
Hætt er við að svipaðar efasemdir komi upp nú og þegar Hanna Birna haslaði sér fyrst völl í stjórnmálum.
Minnt verður á að borgarmálapólitík og landsmálapólitík séu ólík og ekki sjálfgefið að góð frammistaða í sveitarstjórnarmálum sé ávísun á það sama í landsmálum.
Í augum flestra er Hanna Birna þar alveg óskrifað blað og lítið vitað um þekkingu hennar á landshögum utan höfuðborgarsvæðisins auk þess sem ekki er á almanna vitorði hvernig hugur hennar er til ýmissa ágreiningsmála sjálfstæðismanna.
Á móti kemur að Hann Birna hefur ekki aðeins beitt sér fyrir nýjum vinnubrögðum og stjórnunarstíl þegar hún var borgarstjóri, heldur hefur hún fullan hug á því að innleiða nýjar hugmyndir í almennt stjórnmálastarf.
Framboð hennar á landsvísu er því spennandi möguleiki og ég ekki frá því að nú sé rétti tíminn fyrir hana að láta slag standa og líta til þess að oddvitahlutverk í bæjarstjórn og siðar borgarstjórn Reykjavíkur voru oft stökkpallur til forystu í Sjálfstæðisflokknum og forsætisráðherraembættis eins og þessi nafnaruna sýnir: Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson, Davíð Oddsson.
![]() |
Útilokar ekki neitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.9.2011 | 12:44
Hlýtur að vera hægt að finna lausn.
Í áraraðir hef ég skoðað þá miklu möguleika, sem mestu náttúruverðmæti lands okkar gefa, án þess að þeim sé umturnað fyrir virkjanir. Ég vinn nú að kvikmynd, sem varpar ljósi á þetta, einkum í þeim landshluta sem Huang Nubo hefur viljað hasla sér völl í.
Allar hugmyndir um að leita fjármagns til þess að framkvæma þessar hugmyndir hafa verið hæddar og spottaðar af virkjanafíklum, sem hafa talað í fyrirlitningartóni um "eitthvað annað", "fjallagrasatínslu" og það að fara aftur inn í torfkofana.
Einkum hefur verið gróin vantrú á vetrarferðamennsku þótt hægt sé að benda á að til Lapplands, sem liggur lengra frá Vestur-Evrópu en Ísland, koma fleiri ferðamenn á veturna en allt árið til Íslands.
Taka náttúruundur Íslands, bæði á vetri og sumri, þó náttúru Lapplands langt fram.
Hins vegar verður að horfa langt fram og gæta að þrennu.
1. Að klára þá vinnu hvaða hlutar Íslands falli í sama flokk og Þingvellir að vera ævarandi eign þjóðareign sem hvorki megi selja né veðsetja.
2. Að búa svo um hnúta að landsmenn vakni ekki um síðir upp við það að meirihluti landsins verði í eigu útlendinga.
3. Að gæta að því að ekki fari svo að örfáir ríkir einstaklingar, fyrirtæki og félög eigi meginhluta landsins þannig að mikill meirihluti bænda og landsbyggðarmanna verði leiguliðar svipað og var hér alveg fram undir tuttugustu öldina.
Varðandi Grímsstaði á Fjöllum finnst mér dæmið ekki að þurfa að vera mjög flókið. 25% Grímsstaða er í ríkiseigu þannig að Huang Nubo er að falast eftir 75% eða um 225 ferkílómetrum af 300.
Miðað við það sem aðrir ferðaþjónustufrömuðir hér á landi telja sig þurfa að eiga verður ekki að hann þurfi 225 ferkílómetra landaareign til þess að koma sínum góðu áformum í framkvæmd.
Það hlýtur að vera hægt að semja við hann um innan við 50% eignarhlut.
Það myndi þýða allt að 149 ferkílómetra fyrir hann og Íslendingar ættu þá 151 eða meira og myndu kaupa þau 26%+ jarðarinnar sem þarf til þess.
Skiljanlegt er að Nubo vilji eiga nóg land til þess að koma starfsemi sinni fyrir, en ég get ekki séð annað en að 225 ferkílómetrar seu langt umfram það sem hann þurfi.
Í samningunum við Nubo þyrftu að vera ákvæði þess efnis að eigendurnir myndu þegar þar að kæmi, afsala sér því svæði, sem nauðsynlega þyrfti að friða á austurbakka Jökulsár í sambandi við friðun hennar, en Nubo hefur lýst því yfir að hann vilji friða ána fyrir virkjanaframkvæmdum.
Að öðru leyti myndu framkvæmdir og meðferð Nubos á landareign sinni hlíta íslenskum lögum um þau efni.
![]() |
Fögnuðu áformum Huangs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.9.2011 | 00:43
Brosleg vanstilling.
Það væri einkennileg vanstilling ef íslenskir ráðamenn tækju upp á því að kaupa ekki breskar vörur, ferðast ekki um breska lofthelgi eða horfa ekki á breska sjónvarpsþætti, bara vegna þess að þeim mislíkaði á sínum tíma að Bretar skyldu nota hryðjuverkalög á Ísland.
Vel kann að vera að Alistair Darling hafi þótt íslenskir viðmælendur sínir ekki vera með á nótunum í aðdraganda Hrunsins og haft talsvert fyrir sér í því efni, en fyrr má nú vera að fara á límingunum út af því þremur árum síðar.
Hann má þó eiga það að vera hreinskilinn varðandi hina broslegu og barnalegu vanstillingu sína og upplýsa þannig um það að ferill hans hefur greinilega ekki alla tíð einkennst af stóiskri ró og yfirvegun.
![]() |
Vildi ekki fljúga gegnum íslenska lofthelgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)