Ólíkt höfumst við að.

Ákvörðun bandarískra og kandaískra ráðamanna um bann við vinnslu olíu og gass á stóru svæði í Norður-Íshafi og Atlantshafi stingur í stúf við þá stefnu sem við Íslendingar höfum fylgt í þessum efnum í meira en fimmtán ár.

Á sama tíma og það verður talið erfitt fyrir Donald Trump að snúa ákvörðun Kananna við höfum við hins vegar gengið svo tryggilega frá okkar olíuvinnslustefnu, að olíugróðapungarnir geti haldið því fram að ógerlegt verði að breyta henni. 

Það var nefnilega í tíð ríkisstjórnar Sjalla og Framsóknar sem hljóðlega og án nokkurrar bitastæðrar umræðu var ákveðið að leggja drög að því að Íslendingar yrðu olíuframleiðsluþjóð. 

Eitt af síðustu verkum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 var síðan að gera bindandi samkomulag við erlend fyrirtæki um að heimila þeim bæði rannsóknir og vinnslu olíu á Drekasvæðinu, og í annað sinn var svona örlagarík ákvörðun tekin án nokkurrar bitastæðrar athugunar né umræðu um þessa stefnumörkun. 

Össur Skarphéðinsson stærði sig meira að segja af því að vera orðinn okkurs konar olíumálaráðherra landsins og Steingrímur J. Sigfússon gekk frá samningunum um þetta.

Raunar hafði Kolbrún Halldórsdóttir lagst gegn þessari stefnu á stuttri valdatíð sinni í umhverfisráðuneytinu á útmánuðum 2009, en var harðlega refsað í prófkjöri flokks síns og hraktist úr stjórnmálum.

Á vegum Samfylkingarinnar voru haldin tvö vönduð málþing um þetta í fyrra þar sem málið sást í alveg nýju ljósi og niðurstaðan var ótvíræð: Íslendingar ættu að breyta stefnu sinni.

 

Jafnaðarmannaflokkkur gæti ekki verið þekktur fyrir að hafa umhverfisfjandsamlega rányrkju á stefnuskrá sinni.

Á landsfundi í framhaldinu var nýja stefnan samþykkt og kom jafnvel fram í umræðum um málið, að flokkurinn ætti að biðjast afsökunar á því að hafa átt þátt í því hvernig komið væri málum.

Lögð var fram tillaga um að fresta málinu og vísa því til næsta flokksstjórnarfundar en það var fellt, enda hefði slíkt gefið möguleika til þess að drepa málinu á dreif.

 

Í fréttum í Morgunblaðinu hefur komið fram að íslenska ríkið hafi hafnað því að kaupa Grímsstaði á Fjöllum og í útvarpsfréttum í kvöld kemur fram að breski auðkýfingurinn, sem keypti meira en 2/3 jarðarinnar og sagt er að sé annt um íslenska laxastofninn, sé harðlega gagnrýndur af umhverfissamtökum í Bretlandi fyrir fjárfestingar í olíuiðnaðinum.

Allt sýnir ofangreint hvernig algert kæruleysi og skammgróðahugsun sem ógnar hagsmunum komandi kynslóða, hefur gegnsýrt gerðir okkar í þessum málum og gerir enn.

Um gerðir okkar annars vegar og ráðamanna þjóða Norður-Ameríku hins vegar gildir, að ólíkt höfumst við að.  


mbl.is Obama bannar olíuvinnslu í norðurhöfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheppinn. Leifur hefur fengið samkeppni

Á einum af blaðamannafundum Mitterands Frakklandsforseta varpaði einn blaðamaðurinn fram óvæntri og viðkvæmri spurningu: "Er það rétt, herra forseti, að þú hafir átt hjákonu?"

"Já," svaraði Mitterand. "Næsta spurning."

Málið dautt og spurt um önnur mál í framhaldinu.

Í Panamaskjölunum svonefndu kom í ljós að ýmsir þjóðarleiðtogar áttu hlut að aflandsfélögum í landi, sem grunur hefur leikið á að sé svonefnt skattaskjól fyrir ýmsa. 

Kurr varð í Bretlandi þegar í ljós kom að David Cameron forsætisráðherra Bretlands ætti tengsl við aflandsfélag, en hann "tók Mitterand á málið", þrætti ekki fyrir neitt heldur gerði strax grein fyrir sínu máli, en sat raunar ekki lengi eftir það í sæti forsætisráðherra vegna úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.

Íslenski forsætisráðherrann var hins vegar svo óheppinn að þræta í fyrstu fyrir tengsl sín í stað þess að "taka Mitterand á" spurninguna þegar það hefði verið heppilegast, eftir á að hyggja. 

Óheppnin byggðist einnig á því að í ljós kom að hann hafði verið beggja vegna borðsins í samningum íslenskra yfirvalda við erlenda kröfuhafa.

Enn var hann óheppinn þegar fólk tók upp á því að safnast saman á Austurvelli vegna málsins. 

Óheppnin hélt áfram að elta hann. 

Hann varð svo óheppinn að hafa ekki samráð við eigin þingflokk eða þingflokk samstarfsflokksins þegar hann fór á fund forseta Íslands á Bessastöðum til að fá hjá honum heimild til þingrofs, og í ofanálag varð hann svo óheppinn að forsetinn synjaði honum um heimildina.

Síðan hefur verið fjallað um það að hann hafi verið svo óheppinn, að fjölmiðlar fylgdust með atburðarásinni.

Eftir fimm mánaða ráðrúm til þess vinna úr málinu varð hann síðan svo óheppinn að hefja kosningaumræður í Sjónvarpssal á því að fullyrða að fráleitt hefði verið alla tíð að gruna Tortóla um að vera notað sem skattaskjól fyrir nokkurn mann, og sagði jafnframt að umfjöllun um mál hans hefði verið tilefnislaus.

Í kjölfarið varð hann svo óheppinn að tapa formannskosningu á landsfundi flokks síns og einnig svo óheppinn, að fólki sást hleypt út úr rútu við fundarstaðinn og að meðal fundargesta hefði verið einstaklingar sem hann kannaðist ekki við.

Í framhjáhlaupi má kannski bæta þeirri óheppni við að hafa annað hvort ekki vitað um máltækið "hver er sinnar gæfu smiður" eða að hafa ekki tekið neitt mark á því. 

Þetta hefur verið einstök óheppni og er ljóst að Leifur óheppni hans Ladda hefur fengið skæðan keppinaut. 

Fleiri hafa raunar verið óheppnir sem hafa lent í slagtogi með hinum óheppna í öðrum málum og orðið óheppnir með honum þegar þessi mál þokast nú til hliðar.

Sá sem þetta ritar var meðal annars hrifinn af þeim hugmyndum um húsafriðun, skipulag miðborga og staðsetningu þjóðarsjúkrahúsa sem komu fram hjá forsætisráðherranum fyrrverandi. 


mbl.is „Ógæfa“ Sigmundar efst á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Svarti hundurinn" Churchills.

Allir viðurkenna að hjá hverjum manni sé óhjákvæmilegt að líkamlegt ástand geti verið misjafnt á ýmsa lund og að skipst geti á annars vegar líkamlegur hressleiki og kraftur og hins vegar slen, deyfð og þreyta.

Því er það órökrétt að afneita því að svipað geti átt við um andlegt ástand og gera það að einhverju feimnismáli. 

Það óskar sér enginn þunglyndis eða sækist eftir þeirri vanlíðan sem því fylgir. 

Þunglyndi fer ekkert eftir vitsmunum eða atgerfi þess sem af því þjáist, heldur getur það ráðist á hvern sem er. 

Um það gildir svipað og um áfengisfíknina, þar sem jafnvel afburðamenn verða Bakkusi að bráð. 

Hér fyrr á árum hefði líklega engan órað fyrir því að stórmenni eins og Winston Churchill, þessi orðheppni og hressi maður, þjáðist af þunglyndi. 

En þannig var það nú samt og þegar þunglyndi sótti á Churchill sagði hann að nú væri "svarti hundurinn" kominn. 

Þetta var að því leyti rétt orðað hjá honum, að fyrir þunglyndissjúkling virkar þunglyndið eins og aðvífandi fyrirbæri sem leggst á fórnarlambið líkt og líkamlegur sjúkdómur.

Ég tel það hafa dýpkað lífsreynslu mína að hafa þjáðst um hríð um tvítugt af nokkrum þunglyndisköstum, þótt þau væru afar niðurdrepandi fyrirbæri. 

Þau stóðu í nokkur dægur hvert og ég gerði mér sjálfur grein fyrir því þegar ég fór að kynnast þeim, hvers eðlis þetta andlega ástand var, sem sótti að eins og utanaðkomandi eiturgufa, sem lamaði persónuleikann um hríð en hvarf síðan aftur.  

Það versta við köstin var, að enda þótt ég vissi í hvert skipti, sem "svarti hundurinn" sótti á, að þetta myndi brá af mér, sat ég sem lamaður og gat ekkert gert nema að þrauka þar til það gerðist.

Ég líkt og horfði á sjálfan mig utan frá og ætti enga möguleika til sjálfshjálpar. 

Talaði stundum við sjálfan mig í huganum og sagði: "Þú veist það sjálfur að þetta mun brá af þér og hvers vegna lætur þú þá það ekki gerast strax og drífur í því í stað þess að láta það dragast lengur?"

En engu að síður dróst það. Sem betur fer var þetta tímabil þunglyndiskasta ekki langt og köstin ekki ýkja mörg í sjálfu sér, og þessu lauk skyndilega um tvítugt. 

"Svarti hundurinn" hvarf út í myrkrið.

En ég held að ég skilji betur vandamál þunglyndissjúklinga en ella fyrir bragðið og skilji angist þeirrar óvissu, hvort hundurinn sé farinn fyrir fullt og allt, þegar hann hundskast burtu, eða hvort hann leynist í felum og komi síðar. 

Ég sendi Gunnari Hrafni og öllum þeim, sem þurfa að glíma við þetta, mínar heitustu vonaróskir um gleðileg jól í birtu, sem haldi svarta hundinum burtu.  


mbl.is Tekur sér leyfi frá þingstörfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband