Bragi Árnason veðjaði á sólarorkuna fyrir löngu.

Í áhugaverðu útvarpsviðtali Ara Trausta Guðmundssonar við Braga Árnason fyrir um fimmmtán árum var Bragi eindregið þeirrar skoðunar að bein beislun sólarorkunnar væri framtíðarlausnin í orkubúskap mannkynsins. 

Hann benti á gnægð hennar, enda væri jarðefnaeldsneyti afurð sólarorku fyrri tímaskeiða á jörðinni. 

Á þeim tíma virtist þetta afar ólíkleg framtíðarsýn, svo örskammt sem nýting sólarorku var komin þá og svo örðugt sem það sýndist tæknilega að geta beislað hana. 

Bragi varð þekktur víða um lönd á áttunda áratugnum fyrir rannsóknir sínar á notkun vetnis sem orkubera, og meðal þeirra stórfyrirtækja, sem athuguðu möguleikana á að knýja bíla á þann hátt, voru Toyotaverksmiðjurnar. 

Þær hafa hafið framleiðslu á vetnisbíl og sett hann á markað en eins og er, þykir hann ansi dýr, en hins vegar mikil framför í drægi rafbíla. 

Það þótti bara drjúgt að Nissan Leaf byði upp á 24 kílóvattstundir, en nú er Renaylt Zoe kominn með 40 kílóvattstundir og Opel Ampera-e með 60. 

Vetnisbíll Tojuta hefur þó þann kost ennþá fram yfir rafknúna bíla að hafa mun lengra drægi á hverri hleðslu en í ljósi tregrar sölu hans, hefur Toyota aukið áhersluna á rafbíla og blendingsrafbíla. 

En hafi Bragi Árnason ekki reynst forspár um mikið gengi vetnisbíla virðist mun stærri og mikilfenglegri spá hans um sólarorkubyltingu vera mun nær því að rætast. 

Og stóri munurinn er að sjálfsögðu sá, að sólarorkan er beisluð beint og af sólarorku er þvílíka gnægð að finna, að aðeins þarf að beisla lítinn hluta þeirra orku sem sólin býr til á jörðinni til þess að anna allri orkuþörf mannkynsins. 

Spurningin nú sem fyrr er aðeins hvernig hægt sé að beisla hana. 

 


mbl.is Græn orka skákar jarðefnaeldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútín hinkrar í þrjár vikur.

Svartur hefur leikið í óvenjulegu tafli sem hefur verið í gangi í haust í samskiptum Rússa og Bandaríkjamann, en Pútín, sem var snöggur að leika, hinkrar sallarólegur í í þrjár vikur þar til búið verður að skipta um manninn, sem leikur hvítu mönnunum.

Pútín liggur ekkert á. Hann fékk sinn mann kjörinn vestra, en ólíklegt er að fikt í tölvuhakki hafi ráðið úrslitum í forsetakosningunum í haust.

Hið óánægða verksmiðjuverkafólk, sem misst hefur vinnuna á undanförnum árum í ríkjunum í ryðbeltinu svonefnda þar sem stolt og þungamiðja yfirburða iðnaðarveldis BNA áttu einstæðan blómatíma fyrir hálfri öld, hefði kosið Trump hvort eð var.  

Fleiri leikir í taflinu í formi refsiaðgerða eru til þess gerðir að koma Trump í óþægilega stöðu en ekki endilega óviðráðanlega stöðu.

Forseti í stöðu "lamaðrar andar" (lame duck) hefur oft takmarkaða möguleika til aðgerða.

Það er þá helst í málum, þar sem lagaumhverfi mála, eins og til dæmis varðandi tilskipun í olíuvinnslumálum, sem byggist á gömlum lögum, sem Obama getur bundið hendur Trump.

Slíkt virðist ekki eiga við um það sem nú er í gangi vegna meintra tölvuárása Rússa.


Fremstur meðal jafningja í frægasta sigri Íslendinga.

Enginn einn íþróttaviðburður hefur komið Íslandi eins rækilega á kortið hjá heimsbyggðinni og Evrópumeistaramótið í knattspyrnu. 

Íslenska liðið fór langt fram úr væntingum með því að komast í átta liða úrslit og senda sjálfa Englendinga út úr keppninni. Að öllum líkindum frækilegasta frammistaða örþjóðar í þessari vinsælustu íþrótt veraldar. 

Í ofanálag gerðu íslenska liðið og íslenskir áhorfendur "Víkingaklappið" svonefnda heimsfrægt. 

Klappið var að vísu fengið að láni hjá skoska knattspyrnuliðinu Motherwell en íslensk varð frægð þess. 

Geir Hallsteinsson, sem tekinn var í Frægðarhöll ÍSÍ sagði í þakkarávarpi sínu að í flokkaíþrótt gæti enginn náð langt einn og sér. 

En meiri galdramann með boltann hef ég ekki séð um dagana en Geir. 

Og seint verður það sagt um botnliðið Swansea að þar lyfti frábær liðsheild Gylfa á þann stall sem hann hefur komist í ensku úrvalsdeildinni. 

Gylfi er í hópi skæðustu sóknarmanna deildarinnar ÁN þess að vera í stjörnuliði. 

Í leikjunum á EM og í undankeppni mótsins átti Gylfi einstakan þátt í velgengni liðsins með því að fórna sér algerlega bæði í vörn og sókn og vera jafnvígur á hvort tveggja. 

Fremstur meðal jafningja í liðinu. 

Sagt er að í íþróttum enginn betri en mótherjinn leyfir. Hrafnhildur Lúðvíksdóttir og fleiri í hópnum, sem valið var úr að lokum í kvöld, hefðu kannski orðið íþróttamenn ársins ef ekki hefði komið til hin frábæra frammistaða Gylfa Þórs í þeirri íþróttakeppni, sem hefur varpað skærasta ljósinu á íslenskar íþróttir, land og þjóð síðan á dögum gullaldarfrjálsíþróttamanna okkar á árunum 1946-1951. 


mbl.is Gylfi íþróttamaður ársins 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband