Eitt af vanhæfisheilkennunum, að vera verstur þeim, sem er unnað mest.

Hér á landi hefur lengi ríkt skilningsleysi á hugtakinu vanhæfi. Það er sérstaklega bagalegt vegna þess hve þjóðfélagið er smátt og nálægðin mikil á milli fólks. 

Og hagsmunirnir af því að mistúlka eðli vanhæfis eru líka óvenju algengir. 

Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti þessu einkar vel í ræðu, sem hann fluti, sem formaður Hollvinafélags M.R. við útskrift úr M.R. í dag. 

Skólinn hefur verið sveltur langtímum saman á síðustu áratugum og ein orsökin gæti verið sú, að fjármála- og menntamálaráðherrarnir hafa verið of tengdir skólanum frá fyrri tíð og þess vegna talið sig knúna til að láta skólann frekar gjalda tengslanna en njóta, svo að ekki væri hægt að saka þá um hlutdrægni. 

Það nægir til að vanhæfni teljist ríkja, að tengslin séu nógu sterk. En þetta hefur skort mjög á að sé viðurkennt hér á landi, heldur haldið á lofti þeim skilningi, að því aðeins hafi vanhæfi verið við lýði, ef greinilega hefur verið misfarið með völd. 

Af því leiðir til dæmis að í málum svonefndra "hrægamma", kröfuhafanna í þrotabú föllnu bankanna, var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vanhæfur sem eiginmaður eins af kröfuhöfunum til að hafa afskipti af málum kröfuhafanna. 

Fylgismenn hans bentu á að SDG hefði einmitt sótt allra manna harðast að kröfuhöfunum í orði og á borði, en samkvæmt eðlis máls í löggjöf í vanhæfi, skiptir það ekki máli, heldur jafnvel þvert á móti eins og Benedikt Jóhannesson bendir á. 

Lög um vanhæfi eiga einmitt að koma í veg fyrir að slíkt ástand myndist og það var líklega ekki að ástæðulausu sem SDG streittist við það lengur en stætt var á þvi, að leyna tengslum sínum og þræta fyrir þau. 


mbl.is Benedikt hættir sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundaskelfirinn mikli.

Orðið "fundaskelfir" var á sínum tíma notað um mann einn sem sótti alls konar fundi af miklum móði og lét þar svo mikið til sín taka, að hann fékk þetta viðurnefni. 

Nú er að ryðjast inn á svipaðan vettvang en öllu hátimbraði sannkallaður fundaskelfir, Donald Trump. 

Hann setur allt á hliðina hjá NATO með því að líta það bandalag allt öðrum augum en samræmist lögum og reglum þess,  

Hikar ekki við að rukka aðrar bandalagsþjóðir en Bandaríkin um þúsundir milljarða vegna ofgreiddra framlaga Kana til bandalagsins en vangreiddra framlaga annarra þjóða. 

Fyrir þessu er ekki minnsta lagastoð. 

Síðan bætir hann í þegar hann sakar Þjóðverja um að vera "slæmir, mjög slæmir" varðandi það að þeir selji "milljónir bíla" til Bandaríkjanna. 

Aftur er engin lagastoð fyrir þessu, því að Þjóðverjar gera ekki viðskiptasamninga sína sjálfir, heldur gerir ESB það fyrir hönd allra aðildarríkjanna. 

Ekki getur Trump heldur alhæft um ódýrt vinnuafl á bak við Benz og BMW, því að laun eru góð í Þýskalandi. 

Trump vill gera "America great again" á þann hátt að í stað þess að efla bandarískan bílaiðnað svo að hann geri betri bíla en bílaiðnaður annarra þjóða, eigi að koma í veg fyrir frjálsa verslun með bíla landa í millum svo að Kanarnir fái ekki að kaupa þá bíla sem bestir eru á boðstólum. 

Ef "mikilleiki Bandaríkjanna" á að felast í slíku, er land yfirburða hins frjálsa framtaks og þess að menn njóti góðra verka og framleiðslu komið dálítið langt í öfuga átt. 

Nú er nýr og enn stærri fundur í dag og þar fær fundaskelfirinn mikli stærsta tækifærið til að hrella fundarfólk, því að hvorki meira né minna en alheimssamvinna gagnvart stærsta viðfangsefni jarðarbúa á þessari öld, verður þar meðal umræðuefna. 

En þar er fundaskelfirinn einmitt hvað harðskeyttastur við að vera upp á kant við alla aðra. 


mbl.is Von á „hressilegum“ umræðum við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar hernema íslenska tungu án þess að lyfta litla fingri.

Nú er svo komið, að fólk verður að vera viðbúið því að geta ekki haft samband við sum af dýrustu hótelum í Reykjavík nema tala ensku.

Sjá menn það fyrir sér að ekki sé töluð franska og ekki þýska í móttökum hótela í Frakklandi og Þýskalandi?

Íslenskan er ekki aðeins íslenska. Þetta er grunntungumál skandinavísku málanna. Hið norræna mál hefur lagt enskunni og fleiri tungumálum til mörg orð og heiti, sem þekkt eru um allan heim.

Saga, geysir, Hekla, Eyjafjallajökull. Ekki "The Glacier of the Islands." 

Bretar hernámu Ísland 1940 gegn mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar.

Nú eru það Íslendingar sjálfir sem standa að aðför þjóðtungu Breta að þjóðtungu okkar og hernáminu nýja, sem blasir við og glymur í eyrum.

10. maí hernámu Bretar litla flugvöllinn sem þá var kominn í Vatnsmýri og einnig flugvallarstæðið í Kaldaðarnesi. 

Nú blasir nýtt breskt hernám við skýrum stöfum á Reykjavíkurflugvelli.

Svo algert er þetta hernám, að Íslendingar hernema líka erlend heiti og orð á öðrumm þjóðtungum en ensku.

Þulur í útvarpi kallaði efsta liðið í spænsku knattspyrnunni nýlega "Ríl Madrid".

Já, meira að sagja Spánverjar eru ekki óhultir fyrir hinni barnalegu dýrkun okkar á enskri tungu, sem þó er ekki betur heppnuð en svo að útvarpsþulir segja "Svansí" og "Norrvidds", rétt eins og að "Aggureri" sé ekki nóg. 

Eða "Turin" í staðinn fyrir Torino og "Súrig" í staðinn "Zurich" með réttum framburði. (Það vantar tvöfaldu kommuna á tölvunni minni)

Á tímum einveldis Danakonungs á Íslandi fengu íslenskar stofnanir og flest fyrirtæki þó að heita íslenskum nöfnum.

Höfuðrit þess tíma, Biblían, var á íslensku.

En nú eru biblíurnar í mörgum fræðigreinum og handbókum orðnar enskar og það þarf að ganga langar vegalengdir til að finna íslensk heiti við götur eins og Laugaveg.

Í Noregi fékk innanlandsflugfélag að heita Viderö, í stað þess að síðari hluta nafnsins væri breytt í "island."  

Loftleiðir héldu sínu íslenska nafni við þótt það flugfélag héti líka Icelandic Airlines á erlendum vettvangi, og það var enginn feiminn við að hótel félagsins héti Hótel Loftleiðir. 

Ég skora á eigendur Flugfélags Íslands og sýna viðleitni, þótt ekki væri nema aðeins þá að lofa nafninu Flugfélag Íslands að vera með, samhliða hinu nýja nafni á erlendum vettvangi, svipað og nafnið Loftleiðir fékk á sínum tíma. 

Í hinum fræga bardaga Muhammads Ali og George Foreman í Kinshasha hrópuðu innfæddir: "Ali, boma je!"

Ali var þeirra maður og krafan var að hann gengi frá Foreman og sú krafa hljómaði á tungu Kongóbúa.

"Nú er nóg komið!" mætti verið herópið núna. Ekki: "Enough is enough!"

Það grátlega við samtíma okkar er, að við sjálfir Íslendingar reynumst vera einfærir um að ráðast að íslenskri náttúru og tungu. 

Og það er ekki nýtt. Fjölnismenn voru ekki einir í að verja þjóðtunguna. 

Danskur maður, Rasmus Kristján Rask, átti stóran þátt í að verjast því að danska gengi að íslenskunni dauðri. Breskir menn, Watson og Scott, gengust fyrir því að bjarga íslenska hundinum og bjarga Þjórsárverum. 

Enskur maður forðaði Jóni Sigurðssyni frá gjaldþroti. 

Grát, ástkæra fósturmold! 


mbl.is Mímir mótmælir nafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gögn, sem vikið var til hliðar, eru enn til í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Athyglisvert er að lesa hvernig farið var að því að dæma ungan blökkumann í Bandaríkjunum í fangelsi fyrir morð sem hann framdi ekki. 

Nú er niðurstaðan sú að hann sat saklaus í fangelsi í 24 ár.

Með því að lykilgögn "týndust" vantaði hann sönnun þess að hann gat ekki hafa framið meintan stórglæp.

Í öðrum svipuðum málum hefur síðbúin DNA rannsókn leitt sakleysi dæmdra í ljós. 

En lykilgögn getur vantað á ýmsan hátt. Miðað við vitneskju, sem nokkur vitni, sem enn eru á lífi, búa yfir varðandi Guðmundar- og Geirfinnsmálin, var atriðum, sem gátu verið sakborningum í hag, einfaldlega vikið til hliðar með því að rannsaka þessi atriði ekki, - eða - sem var jafnvel ennþá verra, - að yfirheyra ekki lykilvitni.

Ef það uppgötvast ekki fyrr en slík vitni eru látin, að þau voru ekki yfirheyrð, verður það of seint. Vitnin eru nú orðin það öldruð, að það má ekki dragast lengur að fara rækilega ofan í saumana á því, hverjir voru ekki yfirheyrðir, sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði átt að yfirheyra.  


mbl.is Sat saklaus í fangelsi í 24 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband