Trump hefur að eigin áliti aldrei beðið lægri hlut í neinu.

Tony Schwartz ævisöguritari Donalds Trumps, er ekki sá eini, sem hefur horft með undrun á það fyrirbrigði í hegðun Trumps að telja sjálfur, að hann hafi aldrei beðið lægri hlut í neinu, heldur alltaf haft sigur. 

Trump túlkaði öll sín gjaldþrot og mistök þannig að á endanum hefði hann staðið uppi sem sigurvegari. 

Nær samfelld ótrúleg sigurganga hans í gegnum forkosningar, kosningabaráttu fyrir forsetakosningarnar og myndun fyrstu ríkisstjórnar hans hefur því heldur betur styrkt sjálfstraust hans úr því að hægt var að túlka hrakfarir frá fyrri árum sem sigra. 

Finnist einhverjum það sérkennileg spá hjá Schwartz að Trump segi af sér embætti áður en árið er liðið, byggir Schwartz það á því, að ævinlega þegar gjaldþrot var í aðsigi á ferli Trumps reyndi hann að snúa vörn sinni upp í það að ófarirnar hafi falið í sér sigur. 

Hann er raunar ekki eini stjórnmálamaðurinn sem grípur til slíks ráðs, því að hversu oft skildi fólk ekki hafa heyrt stjórnmálamenn tala um að úrslit kosninga hafi verið "varnarsigur." 

Trump sá alltaf það í nauðasamningum sem honum tókst að ná fram, sem sigur sinn, og málið því í heild sem sigur sinn. 

Sjái hann sitt óvænna í embætti forseta, hefur hann æfinguna í því að haga atburðarásinni þannig að hann geti túlkað hana sem sigur sinn. 


mbl.is Spáir því að Trump segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul og úrelt sýn á störf kynjanna. Það er vitlaust gefið.

"Það er nefnilega vitlaust gefið" orti Steinn Steinarr á sinni tíð. Og þótt niðurstaða kannana geti verið réttar miðað við forsendurnar, geta þær samt verið rangar ef forsendurnar eru rangar. "Rusl inn - rusl út" hljóðar eitt af lögmálum útreikninga. 

"Karlar þræla, konur ekki" er fyrirsögn á bloggpistli þar sem lagt er út af nýrri könnun á vinnutíma fólks.

Forsendan, sem gefin er, er að þetta fólk "sé á vinnumarkaði", það er, þar sem greidd eru peningalaun og þau gefin upp til skatts.  

A þessu leiðir að í könnuninni eru heimilis-og uppeldisstörf kvenna ekki metin krónu eða vinnustundar virði, frekar en gert er í lífeyriskerfinu og felur hvort tveggja og þetta saman í sér grófa mismunun gagnvart þeim konum, sem átt hafa flest börn og komið flestum börnum á legg. 

Gamla dæmið um bóndann og ráðskonuna sýnir hve vitlaus og ósanngjörn þetta lífseiga vanmat er. 

Þegar byrjað var að reikna út hagvöxt og þjóðartekjur var þetta sáraeinfalda dæmi sett fram til að sýna ágalla útreikinganna:

Einhleypur bóndi ræður til sín ráðskonu og borgar henni laun. Þetta er fyrsta launaða starf konunnar og í þjóðhagsútreikningum er þeim bætt við þjóðartekjurnar og fyrir bragðið eykst hagvöxtur sem þessu nemur. Á pappírnum þarf bóndinn að afla tekna til þess að geta borgað kouninni þessi laun. 

Nú fella bóndinn og unga konan hugi saman og tveimur árum síðar giftast þau eftir að hún hefur eignast fyrsta barn þeirra. Hún hættir ekki að vinna við það, - heldur eykst vinnan, því að við hin hefðbundnu bústörf bætast vaxandi heimilisstörf og ný uppeldisstörf.

En við það að hún hætti að taka laun sem kaupakona verður sá missir útborgaðra launa til þess að þjóðartekjur og hagvöxtur hafa minnkað sem því nemur hvað hana snertir.

Og á pappírnum sparar bóndinn sér útgjöld og tekjur hans hækka á pappírnum sem því nemur. 

Á pappírum þjóðhagsútreikninganna hverfur vinnuframlag konunnar og er ekki metið krónu virði. 

Að alhæfa að konur þræli ekki, aðeins karlar, er auk þess órökstutt. Ég þarf ekki annað en að ganga um stóru blokkina, sem ég bý í, á ákveðnum tíma sólarhringsins til að sjá í hverju störf stórs hluta kvenna felst, hreinsun og þrif, og vita, hver launakjörin eru.

Mesta skekkjan felst þó í því að lífsstarf barnflestu kvennanna varðandi uppeldi barna þeirra er að engu metið þegar kemur til lífeyrisgreiðslna.  

Já, það er vitlaust gefið. 

Þetta leiðir huga minn að því að sumir hafa misskilið hugsunina á bak við textann "Íslenska konan", talið hann upphefja og bera í bætifláka fyrir óbreytt ástand varðandi stöðu kynjanna. 

Einkum er þetta erindi að vefjast fyrir sumum: 

 

"Hún þraukaði hallæri, hungur og fár. 

Hún hjúkraði´og stritaði gleðisnauð ár. 

Hún enn í dag fórna sér endalaust má. 

Hún er íslenska konan, sem gefur þér allt sem hún á."

 

Fyrstu tvær línurnar lýsa stöðu íslensku konunnar á fyrri öldum, en í línunni, "Hún enn í dag fórna sér endalaust má..." felst ekki aðeins lýsing úr nútímanum, heldur brýning til þess að þeirri kvöð, sem felst orðunum í línunni og einkum í orðinu "..má.." verði aflétt. 

Það á ekki una við það að það sé annað kynið sem þurfi aðallega að fórna sér fyrir hitt. 

 

 


mbl.is Fleiri vinna 40 stundir í viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt og mikilvægt í senn.

Það er ótrúlegt afrek, ef rétt reynist, að flak malasísku þotunnar MH370 hafi fundist í víðáttum Indlandshafs. 

Það var líka afrek á sínum tíma að finna flak AF-447, sem fórst á Suður-Atlantshafi á sínum tíma, en sá fundur upplýsti um orsök slyssins og hafði í för með sér endurbætur á þjálfun flugmanna.  

Raunar er ljósmyndin sem birtist með tengdri frétt á mbl.is villandi, því að hún sýnir skugga vélar með fjórum skrúfuhreyflum en ekki þotuhreyflum á aftursveigðum vængjum Boeing 777, auk þess sem af fréttinnni má ráða að flak MH370 sé ekki í pörtum. 

Það yrði mjög mikilvægt vegna nauðsynjar á að upplýsa um orsök þessa mjög svo dularfulla hvarfs ef hægt yrði að rannsaka þetta flak.

Öryggi í flugi á okkar tímum byggist að stærstum hluta á niðurstöðum á rannsóknum á flugslysum, sem leiddu til úrbóta á fjölmörgum atriðum í hönnun og smíði flugvéla og þjálfun og vinnubrögðum flugliða.  

 


mbl.is Hafa staðsett flak malasísku þotunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband