Nú er tíu ára afmælisdagur Hrunsins á enda og þrátt fyrir orð forseta Íslands um einhverjar óuppgerðar eftirhreytur þess er svo að sjá, að afmælið sé notað til þess að sveigja matið á Hruninu, ekki aðeins í formi þess að að kalla það "svokallað Hrun" heldur að fara alla leið og eyða því.
Sú hugsun er að vísu ekki ný, kom raunar strax fram í svari Björgólfs Thors í heimildamynd um Hrunið við eftirfarandi spurningu:
"Þetta er talið í tugum og hundruðum milljarða. Hvað varð um allt þetta fé?"
Björgólfur svaraði:
"Það gufaði upp."
Punktur.
Nú segir Geir Guð blessi Ísland Haarde um 70 milljarðana sem Seðlabankinn rétti Kaupþingi að ekki sé vitað í hvað þessir peningar fóru.
Málið dautt. Engum virðist meira að segja detta í hug að ástæða sé til þess að reyna að komast að þessu.
Nei, þetta gufaði allt upp og ef það var eitthvað, var það allt útlendingum að kenna, samkvæmt sérpantaðri skýrslu Hannesar Hólmsteins, talsmanns flokks þeirra, sem nú stjórna landinu og "vilja græða á daginn og grilla á kvöldin."
Það varð ekkert hrun úr því að það þurfti ekki greiða "forsendubrest" hjá leigjendum og þeim sem minnst mega sín, heldur fyrst og fremst að greiða þeim forsendubrest sem höfðu farið glannalegast í skuldasöfnun og fengu það bætt, svo að hrunið hyrfi hjá þeim.
Um leigjendur og vesalinga gilti, sem haft er eftir einum þeirra, að "þeir áttu ekkert fyrir og héldu mestu af því eftir" án þess að það þyrfti að borga þeim neitt vegna forsendubrests í hækkun húsaleigu og 30 prósent snarlegrar kjaraskerðíngar 2009.
Frekar að láta þessa hópa dragast enn meira aftur úr öðrum samfellt til þessa dags.
Tal forseta Íslands um óbrúað bil og óunnið verk í að ná sátt um hinn tíu ára gamla viðburð og eftirhreytur hans byggist líklega á því að þúsundir og jafnvel tugþúsundir Íslendinga telja sig enn ekki hafa jafnað sig, hvorki efnalega né andlega, eftir hið "svokallaða hrun" sem þó fól í sér hundruð milljarða króna hið minnsta, - en þúsundir milljóna ef allt umfang hins íslenska hluta alþjóðlegu fjármálakreppunnar er reiknað með.
En miðað við hraða þróun síðustu daga virðist einbeittur vilji til að yppta öxlum og segja: "Þetta gufaði bara upp." "Það veit enginn hvað var gert við þetta."
Þetta var þá ekki neitt, eða hvað?
Og táknræn frétt kom síðan á afmælisdegi þess viðburðar 6. október 2008, sem er að strokast út.
Maðurinn, sem var skipstjóri og á vakt í brúnni þegar mesta bankahrun í nokkru ríki heims átti sér stað, hefur nú fengið upphefð hjá virtasta banka heims, einmitt á afmæli hruns, sem verið er að tala niður í helst ekki neitt.
Ætlunin var að skrifa þennan afmælispistil um hrun af völdum útlendinga fyrr í dag, en eftir á að hyggja hefði afmælisdagurinn orðið fátæklegri ef íslensku upphefðina í Alþjóðabankanum hefði vantað.
Þetta eru jú alþjóðleg fjármál. Alþjóðabankinn er viðeigandi vettvangur. Rakið var í blaðagrein í fyrradag að langstærsti hluti fjárhæðarnnar sem fólst í hinu svokallaða hruni, var í formi taps útlendinga.
Og síðan 2010 hefur fyrirbærið erlendur ferðamaður staðið að næstum einn og óstuddur undir mestu og lengstu uppsveiflu í efnahagsmálum þjóðarinnar.
Það er í stíl við það að útlendingar hafi valdið búsifjunum, sem áttu 10 ára afmæli í dag, að útlendingarnir vondu hafi tekið mest af þeim á sig sjálfir og síðan staðið undir dæmalausasta vexti gjaldeyristekna okkar í sögunni.
Já. Guð blessi Ísland.
![]() |
Hrunið ól af sér marga flokka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.10.2018 | 19:02
"Cruyff-mark" hjá Gylfa!
Var að sjá glæsimark Gylfa í sjónvarpinu áðan. Sýnt mörgum sinnum, svo flott var það.
Þetta var nokkurs konar Gylfa-útfærsla af mörkum, sem hollenski snillingurinn Johan Cruyff gerði að sínum sérstöku mörkum, staddur með boltann á leið frá marki andstæðinganna, en snýst skyndilega á punktinum eldsnöggt á hæli, gefur í botn og er á augabragði kominn fimm metra inn fyrir næsta mann og neglir boltann upp í bláhornið vinstra megin, algerlega óverjandi fyrir tvo aðra varnarmenn og markvörð.
Enda kemur tiltækið öllum gersamlega á óvart.
Þetta er mark, sem allir verða að sjá! Svona gera bara snillingar, sem stimpla sig í hóp bestu manna í frægustu deild heims þegar sá er gállinn á þeim.
![]() |
Eitt af mínum bestu mörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2018 | 18:19
Nýtt íslenskt þorp á Spáni á hverju ári?
Tðlurnar um íbúða- og húsakaup Íslendinga á Spáni benda til mikils straums, eins konar hópflugs mennskra farfugla þangað.
Yfirleitt kaupir þetta fólk fasteignirnar ekki til fastrar dvalar, heldur til dvalar sem líkist frekar lífi farfuglanna.
Ætla má að á hverju ári sé sem svarar heilu nýju íslensku þorpi á Spáni.
Astæðan er margföld, betra veður og bjartara yfir vetrarmánuðina, miklu lægra verð á nauðsynjum og lágt fasteignaverð.
Ef hæfilega margir leggja í púkkið, verður nýtingin betri og fjárfestingin viðráðanlegri.
![]() |
Keypt fasteignir á Spáni fyrir 1,7 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2018 | 17:48
Kostur og galli tengiltvinnbíla.
Stærsti kostur tengiltinnbíla er sá, að not bílsins eru ekki eins háð stöðunni í rafhlöðunum og á hreinum rafbílum. Bensínið er tiltækt til að hlaupa í skarðið.
Þar að auki hafa tengiltvinnbílar þann kost að tvinnbílar án tengingar við rafmagn utan frá hafa sáralitla möguleika til sparnaðar á bensínnotkun úr því að öll orka bílsins fæst aðeins úr bensíni, og sparnaðurinn felst aðeins í betri nýtni á þessum eina aðfengna orkugjafa, bensíni, með notkun innri rafals í driflínunni í bland við aksturinn á afli bensínhreyfilsins.
Not tengiltvinnbíla er hins vegar mun meira blönduð tengingunni við raforkuúttak hvað orkugjafa snertir, raforkunni í hag, og því er reynt að giska á hvernig hún notkunin skiptist á tengiltvinnbílum að meðaltali milli bensíns og raforku.
Út úr því er síðan fundnar tvær tölur, meðaleyðsla á bensíninu og útblástur.
Gallinn við þessa bíla er hins vegar sá, að bensínnotkunin og þar með útblástur geta orðið býsna há hjá sumum, og orðið meiri en sett hámark fyrir flokkun bílanna eftir vistmildi þeirra.
Vandamálið kann að stöðva framleiðslu ákveðinna bíla tímabundið, en það á að vera hægt að leysa það með stækkun og endurbótum á rafrásinni og rafhlöðunum og aukinni sparneytni bensínvélanna.
![]() |
Hertar reglur um útblástur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2018 | 07:53
Áfram aðferð til ritskoðunar?
Þótt niðurstaða Landsréttar í Stundarmálinu sé "ofsalega sætur sigur" vakna samt spurningar um aðdraganda hans og endanlega almenna niðurstöðu í hliðstæðum málum.
Landsréttur er nýtt dómstig hér á landi. Fram að stofnun hans voru dómar Hæstaréttar oft með fordæmisgildi, en spurningin er að hve miklu leyti dómar Landsréttar muni hafa fordæmisgildi.
Sú spurning vaknar nefnilega, hvort lögbannið, sem enn er tæknilega í gildi, hefur, - ári eftir að þeirri aðferð var beitt til að stöðva fjölmiðlaumfjöllun um mál, sem varðaði almenning, - opnað möguleika á því að svona mál muni aftur geta komið upp.
Og þetta geti gerst, þrátt fyrir það að mögulega muni Hæstiréttur staðfesta dóm Landsréttar eftir hugsanlega áfrýjun.
Gefið hafi verið fordæmi fyrir því að hægt verði að stöðva umfjöllun um mikilsverð mál með því að krefjast lögbanns og fá glámskyggnan eða þýlyndan dómara til að setja lögbann á umfjöllun.
Síðan muni langdregin málaferli eyðileggja það gagn, sem tafarlaus birting mikilsverðra upplýsinga hefði gert.
Ef slíkar ákvarðanir um lögbann verða áfram mögulegar, þrátt fyrir dóminn núna, hefur opnast möguleiki til ritskoðunar, sem yrði mikið áfall fyrir það lýðræðissamfélag, sem Ísland þarf að vera í umróti okkar tíma.
Vonandi verður ekki svo.
![]() |
Niðurstaðan ofsalega sætur sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)