Snærisspotta Gísla á Uppsölum var stolið. Hvers konar hugarfar?

Hver getur það verið sem stelur 180 kílóa þungum legsteini, sem er aðeins ársgamall og flytur hann í burtu af leiðinu? Til hvers? Hvaða hugarfar er að baki?

Hvaða hugarfar er að baki hjá þeim sem stal snærisspottanum, sem Gísli á Uppsölum skildi eftir í stiganum upp á loftið þar sem hann bjó, til þess að hjálpa sér til að vega sig upp á skörina?

Er hann með spottann heima hjá sér til þess að monta sig af honum við vini sína, þegar þeir koma í heimsókn? Hvers konar vini á hann þá? 

Síðuhafi og vinir hans, sem stóðu að því að bjarga húsinu á Uppsölum frá eyðileggingu, voru svo barnalegir að halda, að það nægði að segja opinberlega að við treystum hverjum og einum gesti til þess að vera safnvörður. 

Sú ósk var fótum troðin, þannig að ef þeir, sem þarna koma núna, eru spældir yfir því að dyrnar séu læstar, reyndist annað óumflýjanlegt en að loka húsinu fyrir umferð gesta.  


mbl.is Legsteini stolið úr Garðakirkjugarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti spítali Evrópu reis næstum þegjandi og hljóðalaust.

Það er ekkert náttúrulögmál, sem nú er að gerast á Landsspítalalóðinni og verður þannig áfram næstu árin, þótt fyrir áratugum hafði verið tekin ákvörðun um að fara sömu leið og sumir Norðmenn nefndu hiklaust "víti til varnaðar", bútasaumurinn við spítalann í Þrándheimi. 

Það voru menn en ekki náttúruöfl, sem tóku þessa ákvörðun og fylgdu henni eftir með blekkingaleik, sem áður hefur verið lýst hér á síðunni og í sérstakri blaðagrein á grundvelli sérstakar ferðar síðuhafa til Oslóar og Þrándheims 2005. 

Blekkingarnar fólust meðal annars í því, að ráðamenn í þessu máli kölluðu aðeins til erlenda sérfræðinga til að greina í fjölmiðlum og á ráðstefnum frá byggingu spítala, sem þeir höfðu sjálfir hannað með aðferðinni, sem kallað var "vítið til varnaðar í Þrándheimi." 

Þjóðin fékk aldrei að heyra sjónarmið þeirra, sem fóru þá leið sem farin var í Osló nema óbeint, örstutt, í umfjöllun minni um málið.

Í stuttu máli ákváðu Norðmenn, að þjóðarspítali þeirra skyldi rísa á auðri lóð þar sem hægt var að hanna allan þennan spítala á þann veg, að hann yrði byggður í heilu lagi á samfelldan hátt og flutt inn í hann fullbúinn, sem besta spítala Evrópu að margra dómi eftir að hann hafði risið næstum þegjandi og hljóðalaust.  

Hagræði þessa, þegar upp var staðið, fólst í einu og öllu í þessu höfuðatriði um hreina nýsmíði. 

Úr því sem komið er, lítur hins vegar út fyrir að fyrirsjáanlegar, sársaukafullar byggingar-skurðaðgerðir árum saman, verði hlutskipti þeirra sjúklinga og starfsfólks, sem þurfa að búa við ástand líkt því sem lýst er í tengdri frétt á mbl.is. 

Er vonandi að menn beri gæfu til þess, úr því sem komið er, að draga þetta stríð ekki óhæfilega á langinn í stíl við hið langvinna stríð við að setja upp jáeindaskannann. 

Það hefur verið farið mikinn á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum um vandræðaganginn hjá fjórum þingmönnum Miðflokksins í Klaustursmálinu. Flokkurinn má þó eiga það, að í Landsspítalamálinu hefur hann barist fyrir nauðsynlegri stefnubreytingu í spítalamálum, en árangurslaust. 

Sú barátta hófst, því miður, of seint. 


mbl.is Íhuga flutninga vegna sprenginga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband