Tveir mánuðir í "kolefnissvelti". Rafknúinn "stuttbíll" til sölu.

Þessi bíll, rafknúinn tveggja manna stuttbíll (sbr.stuttpils) af gerðinni Tazzari er til sölu hjá Álfaborg, Skútuvogi 6. Nánar um það seinna hér á eftir. Tazzari, blár, hvítur

Um átta ára skeið var ég bílablaðamaður hjá dagblaðinu Vísi í hjáverkum. Reyndi að innleiða gagnlegar nýjungar, svo sem að mæla hljóð inni í bílum sem reynsluekið var, og fór tvisvar á vegum blaðsins til útlanda.

Notaði vettvanginn til þess að takast á við baráttu harðsnúinna manna og fordóma gagnvart notkun bílbelta og fékk fyrir bragðið hlut í skammaryrðinu Ó-in þrjú, þ.e. ásamt Óla H. Þórðarsyni formanni Umferðarráðs og Ólafi Ólafssyni landlækni. Náttfari við Engimýri

Til að kynna mér og öðrum málið beint, setti ég örbíl minn, Fiat 126, inn í myndver fréttastofu Sjónvarpsins og lét mæla og senda út á ljósvakanum hve langan tíma tæki að spenna beltið. 

Það tók minna en þrjár sekúndur og kollvarpaði áróðri þess efnis, að það tæki margfalt lengri tíma. 

Nú fer fram mikil umræða um rafbíla og tilvist þeirra, sem tengist deilum um loftslag á jörðinni. 

Við það vaknar áhugi á að taka upp gamla hætti frá 1975 til 1984 og birta bílaprófanir þegar tilefni er til. Léttir við Möðrudal Ág 2017

Markmiðið var sett fram fyrir rúmum þremur árum, að kynna það sem nefnt var "rafbíll litla mannsins". Tazzari, rauður og annar blár

Rafbíl, sem gæti orðið viðráðanlegur kostur fyrir þá sem hafa litlar fastatekjur, svo sem láglaunafólk og lífeyrisþegar. 

Einnig var ætlunin að slá á harða gagnrýni varðandi þá hræsni mína sem fælist í því að gera ekkert sjálfur, heldur ætlast bara til þess af öðrum. 

Kostnaðarhliðin reyndist hins vegar snúin og þar með viðfangsefnið í heild. 

Hefur gangur þess máls verið rakinn hér á síðunni og á facebook og endanleg lausn málsins hefur dregist þar til nú, að hægt er að greina frá tveggja mánaða reynslu við erfiðustu hugsanlegu aðstæður. Tazzari. Farþegarými

Ef keyptur er rafbíll fyrir fjórar millur verður greiðslubyrðin á sjö ára láni tæplega 50 þúsund krónur á mánuði fyrir bíla á borð við Renault Zoe og Nissan Leaf. Og jafnvel þótt e-Up! verði valinn, sem kostar þrjár millur, er greiðslubyrðin tæplega 40 þúsund á mánuði. 

Á móti kemur sparnaður í orkukostnaði, en að jafnaði er þar aðeins um rúmar 10 þúsund krónur á mánuði. 

Í Noregi er reynslan sú að hjá þeim sem eiga rafbíla, verður hann oftast bíll númer eitt á heimilinu, notaður á daginn í borgarsnatti og hlaðinn heima á næturna. 

Síðan er bíll knúinn jarðefnaeldsneyti, oft eldri bíll, notaður fyrir lengri ferðir. Tazzari í litlu stæði

Eða þá að bílaleigubíll er notaður. 

Alger útrýming kolefnisspors er ekki möguleg, en það er hægt að komast býsna langt. 

Fyrsta skrefið var rafreiðhjól til ferða innanborgar. Hjólið kostaði 250 þúsund krónur og orkukostnaðurinn samsvarar 0,15 lítra eyðslu af eldsneyti á 100 kílómetra. 

En fyrir mann, sem býr austast í Grafarvogshverfi varð hjólið því í mörgum tilfellum of hægfara, og rafknúin vélhjól, kölluð "vespur" eða "vespuhjól" hér á landi, eru of dýr, miðað við takmarkaða drægni þeirra og hraða, svo að slíkt hjól leysir ekki dæmið til fulls. 

Niðurstaðan varð því nýtt bensínknúið Honda PCX 125 cc hjól á 450 þús kall, sem nær þjóðvegahraða, hefur þegar lagt að baki um 6000 kílómetra úti á landi og aðeins eytt 2,3 lítrum á hundraðið síðan í júlí 2016. 

Og er því með svo lítið samanlagt kolefnisspor, tíu sinnum léttara og ódýrara en rafbíll, að það nálgast mesta mögulega "kolefnissvelti." Og bæði hjólin, rafreiðhjólið og Hondan, létta á umferðarvandanum í borginni. 

Síðan gerðist það í nóvember, að tveir rafknúnir stuttbílar af gerðinni Tazzari Zero, skráðir í ágúst 2016 og eknir um 1500 kílómetra, voru auglýstir til sölu á 1990 þúsund krónur hvor. 

Það er helmingur af verði ódýrustu meðalstórra rafbíla og sé fjárfesting í svona rafknúnum örbíl fyrir "litla manninn" miðuð við venjuleg bílalánakjör verður útkoman um 25 þúsund krónur á mánuði, en frá dregst sparnaður í orkukostnaði upp á helming þess verðs. 

17. nóvember óx því "kolefnissvelti" mitt úr um 70 prósentum upp í ca 85 prósent og hefur því staðið í tvo mánuði. 

Og hvernig er reynslan? Vonum framar. Fram í miðjan desember var lítið ekið vegna veikinda, en þessa fyrstu tvo mánuði, sem Tazzari bíllinn hefur verið í mínum höndum, hefur honum verið ekið alls 1300 kílómetra. 

Það samsvarar um 8000 kílómetrum á ári. Göngustígur, svell, krap

Síðustu vikur hafa hjólin Náttfari og Léttir lítið hreyfst af ástæðum sem hægt er að sjá á mynd hér síðunni, og meðan ég glímdi við sýkingu í fæti fyrir jól, var lítið hægt að nota hjólin af þeim sökum. 

En almennt talað eru hjólin notuð í hverri viku ársins. 

Tazzari bíllinn var settur á örlítið hærri dekk, vetrardekk, og er veghæðin 17 sentimetrar og drifið og 65 prósent þyngdarinnar að aftan, svo að dugnaðurinn er hinn ágætasti í snjó. 

Færð og veður hafa verið með því versta sem gerist en bíllinn hefur reynst mjög vel. 

Drægnin hefur verið 80-90 kílómetrar á hleðslu allan tímann, sem gefur vonir um meira en 100 kílómetra í sumar. 

Eðli rafbíla og uppsetning mæla gerir það að verkum, að ökumenn slíkra bíla verða fyrir hvatningu til þess að eyða sem minnstu rafmagni. 

Ef það er ekki gert, ekið snarplega og miðstöðin höfð á allan tímann, minnkar drægnin væntanlega úr 80 kílómetrum að vetrarlagi niður í 50-60. 

En eftir örfá ár verða miklar framfarir á þessu sviði, og er þetta raunar að bresta á hjá Nissan Leaf. 

Um er að ræða nýja gerð rafhlaðna sem getur aukið drægnina um allt að 40 prósent án þess að stækka rafhlöðurnar. 

En að vísu verða þær eitthvað þyngri. 

Ég hef áður lýst reynsluakstri á Tazzari Zero hér á síðunni og læt því nægja að segja, að bíllinn býður upp á ágætis rými fyrir tvo í sæti, þannig að farþegar verða undrandi, af því að þeir stóðu í þeirri trú að svona stuttur bíll, metra styttri en Yaris, hlyti að bjóða upp á þrengsli. 

En það sem fólk sér þegar það situr í þessum bíl, er líkast því sem að það sæti í venjulegum bíl af því að útsýnið fram á við er ekkert frábrugðið því sem fólk á að venjast, og það að heilan metra vanti á hann að aftan, sést ekki í akstrinum. 

Breiddin inni í er álíka og á Suzuki Jimny og farangursrýmið aftur í er 180 lítrar. 

Þetta er lang léttasti rafbíllinn um þessar mundir, um 500 kílóum léttari en léttustu bílarnir á markaðnum. Er þar af leiðandi mjög sparneytinn. 

Raforkukostnaður samsvarar 1,5 lítrum á hundraðið af bensíni. 

Vegna léttleikans var hann flokkaður í flokk vélhjóla með fjögur hjól í Evrópu en er þó með viðurkenningu fyrir öryggisatriði á hraðbrautum. 

Helstu tölur: 

Lengd / breidd / hæð:   2,88 - 1,56 - 1,42 

Afl:  20 hestöfl. 

Tog: 15 Newton m

Rafhlaða: 15 kwst 

Hámarkshraði: 90 km/klst

Þyngd: 760 kíló óhlaðinn.  

 

P.S. Í athugasemd vænir Hábeinn mig að vanda um stórfelldar rangfærslur og lygar og heimtar gögn um það að ég noti EKKI meira jarðefnaeldsneyti en Ásmundur Friðriksson! 

En hvernig er hægt að birta gögn um akstur, sem ekki hefur átt sér stað?DSC01128

Í svari mínu vísa ég til þess að ég hafi áratugum saman fært nákvæm gögn upp á kílómetra um notkun mína á bílum og flugvélum og að ég geti svosem farið í það að ljósmynda þessar minnisbækur mínar og birta þessar myndir. 

Læt tvær ljósmyndir nægja til útskýringar, aðra frá því í október síðastliðnum og hina frá því fyrir viku. 

Aksturinn er táknaður með grænum tölum og heitum farartækjanna: 

Náttfari er rafreiðhjólið. 

Léttir er vespuhjólið. 

Tazzari er rafbíllinn. DSC01128

Sjá má heiti þriggja fornbíla, sem ég set í gang og hreyfi á þriggja vikna fresti, 4 til 6 kílómetra hvern, til þess að halda þeim við.  

Alto er bíll konu minnar, ódýrasti og umhverfismildasti bíllinn sem var á boðstólum 2014.

Það var óhagstætt veður þegar ég fór á opinn fund í Búðardal og því ekki ráðlegt að fara á vespuhjólinu og rafbíllinn dró ekki nógu langt til þess að hægt væri að komast þetta á honum nógu fljótt. 

Þetta voru 294 kílómetrar af þeim ca 2000, sem voru eknir voru út á land síðustu fimm mánuði, þar á meðal ein Þingvallaferð á vespuhjólinu í lok október.   

 


mbl.is Magnaður rafjeppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband